03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3376)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Till. þessi fjallar um eftirlit með dráttarvélum og ráðstafanir til aukins öryggis við notkun þeirra. Hún er flutt af Ásgeiri Péturssyni sýslumanni, sem hér sat á þingi fyrir skömmu, og er svohljóðandi:

„Neðri deild Alþingis ályktar að fela ríkisstj. að lögfesta aukið eftirlit með öryggisbúnaði dráttarvéla og annarra vinnuvéla, annaðhvort með undirbúningi löggjafar eða setningu reglugerðar á grundvelli núgildandi umferðarlaga, svo og að setja reglur, sem miða að auknu öryggi stjórnenda slíkra tækja. Verði þá kannað, hvort eigi þyki rétt að gera auknar kröfur til þekkingar og þjálfunar þeirra, er við slíkar vélar starfa.“

Till. þessari fylgir nokkuð ítarleg grg., en henni er hér fylgt úr hlaði með nokkrum orðum samkv. beiðni flm. Það er í fyrsta lagi getið um hin tíðu slys, sem orðið hafa hér á landi af notkun dráttarvéla, og bent á nauðsyn þess, að hamlað sé gegn slíkum áföllum. Það eru ýmsir þeirrar skoðunar, að dráttarvélaslys hendi einkum unglinga eða börn, en reynslan sýnir, að það eru einnig menn á bezta aldri, sem vanir eru að fara með ýmsar vinnuvélar, sem fyrir slysunum verða. Það er ljóst, að dráttarvélar eru framleiddar í löndum, sem eiga við önnur skilyrði að búa en hér á landi eru. Hér eru víða ýmsar torfærur og landslagi háttað á þann veg, að fulls öryggis þarf að gæta miðað við það, að slík vél sé notuð á sléttlendi. Þessa hefur einnig verið gætt, og menn hafa komið auga á nauðsyn þess að setja öryggisreglur á þessu sviði. Þannig voru settar reglur um það, að allar dráttarvélar, sem yrðu fluttar inn eftir 1. jan. 1966, væru búnar öryggisgrindum eða húsum, og er þessum reglum nánar lýst í reglugerð nr. 51 frá 1964 og breytingum, sem á henni voru gerðar 24. ágúst 1966. En það þykir ástæða til þess að endurskoða ýmis ákvæði, sem um þetta fjalla, og endurbæta þau.

Þær meginreglur, sem nú eru í gildi um notkun þessara véla, að því er varðar kunnáttu ökumanns, eru í fyrsta lagi, að venjulegt ökuskírteini veitir sjálfkrafa rétt til aksturs slíkra véla. Í öðru lagi er heimilt að veita sérstaka heimild til aksturs dráttarvéla þeim, sem hafa náð 16 ára aldri. Í þriðja lagi er þess að geta, að ekkert ökuskírteini eða sérstaka ökuheimild þarf, þegar dráttarvélar eru notaðar við jarðyrkjustörf utan alfaravegar. En það er augljóst mál. að fyllilega er athugandi, hvort ekki beri að endurskoða þessar reglur og færa þær í fastara horf. Það er einnig nauðsynlegt að efla fræðslu um þessi öryggismál eins og önnur slík mál. Vil ég benda þeirri n.. sem fær þessa till. til meðferðar, á niðurlag grg.. en þar segir svo:

„Æskilegt væri, að um þetta málefni yrði haft samráð við bifreiðaeftirlit ríkisins, umferðarráð, öryggismálastjóra. Slysavarnafélag Íslands og samtök bænda.“

Ég læt þessi fáu orð nægja til að fylgja till. úr hlaði, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.