03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil fyrst lýsa eindregnum stuðningi við þessa till. Hún er vissulega ekki ófyrirsynju fram borin, eins og öllum hv. þdm. á að vera ljóst.

Bændasamtökin hafa nokkuð fjallað um þetta mál á undanförnum árum og einkanlega um einn þátt þess, þ.e. vissan útbúnað á dráttarvélum, öryggisgrindurnar. Könnun. sem fram hefur farið á vegum bændasamtakanna. sýnir það, að mjög fá slys hafa orðið á vélum, sem búnar eru öryggisgrindum. Við höfum í Stéttarsambandi bænda gert ráðstafanir til þess að gera bændum auðveldara fyrir að búa allar vélar öryggisgrindum. Eins og kunnugt er, er bannað í lögum að afhenda nokkra nýja vél, án þess að henni fylgi öryggisgrind. en bein ákvæði eru ekki til um eldri vélarnar. Ég vil láta það koma fram hér, að fyrir forgöngu Stéttarsambandsins hefur verið leitað tilboða í smíði og innflutning öryggisgrinda, og það mál er komið það langt, að nú er hafin hjá tveimur fyrirtækjum smíði á öryggisgrindum eftir þessum tilboðum. Og það hefur verið skrifað til allra bænda í landinu og þeim sendar lýsingar á grindum og upplýsingar um verð þeirra frá þessum tveim aðilum og frá einum innflutningsaðila, sem einnig hefur gert tilboð. Í þessu bréfi eru bændur hvattir til þess að kaupa slíkar grindur á alla sína traktora. En þetta er auðvitað ekki nema einn þátturinn, og þessi till. er eins og vera ber víðtækari og fjallar um fleiri atriði.

Það hefur komið í ljós við athugun, sem gerð hefur verið á vegum Slysavarnafélags Íslands í nokkrum hreppum, að ástand dráttarvéla er vægast sagt víða hörmulegt og þær eru alls ekki þannig búnar, að forsvaranlegl geti talizt. Og þessar upplýsingar kalla á það, að gerðar séu ráðstafanir til þess að bæta hér um, en það verður ekki gert öðruvísi en með eftirliti. Þá hefur það komið í ljós við aðra könnun, að tiltölulega mjög mikill hluti af dráttarvélaslysum eða um 40% verður ekki í akstri, heldur út frá vinnuvélum, út frá reimskífum og reimum og vinnuvéladrifi. En einnig það sýnir, að óhjákvæmilegt er að herða eftirlit á þessum sviðum. Auðvitað þarf um leið og lögboðin verður skoðun og eftirlit að gera ráðstafanir til þess að afla fjár vegna þess, og er þess þá að vænta, að það verði gert með líkum hætti og nú á sér stað um bifreiðar, að ríkið greiði nokkurn hluta af því, en hitt verði lagt á sem skoðunargjöld. En það verður auðvitað allt skoðað, ef þessi till. verður samþ., sem ég vil fastlega vænta og eindregið mæla með.