09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög 1971

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti.

Frv. til fjárl. fyrir árið 1971 var vísað til fjvn. hinn 20. okt. og hefur n. síðan haft málið til athugunar og rætt það á 36 fundum sínum. Auk þess hefur n. nú sem fyrr skipt með sér verkum þannig, að einstakir nm. hafa starfað í undirnefndum til athugunar á sérstökum málaflokkum frv. Hafa þau vinnubrögð auðveldað n. störfin og flýtt fyrir afgreiðslu málsins í heild. Þá er þess að geta, að á þessu ári var svo sem á s. l. ári að tilhlutan fjmrn. starfandi undirnefnd fjvn., sem í átti sæti einn maður frá hverjum stjórnmálaflokki, sem fulltrúa á í n. Undirn. vann síðan í nánu samstarfi við fjárlaga- og hagsýslustofnunina allan þann tíma, sem á sjálfri fjárlagagerðinni stóð. Ræddi n. um ýmis atriði fjárlagafrv. og leitaðist við að gera sér grein fyrir, hvar spara mætti í ríkisrekstrinum eða koma á hagkvæmara rekstursfyrirkomulagi.

Eitt þeirra mála, sem undirnefndin athugaði sérstaklega, var rekstur hinna ýmsu véla- og viðgerðaverkstæða, sem ríkisfyrirtækin reka. Mál þetta hefur nú verið alllengi á dagskrá. Fjvn. er sammála um, að hér má gera ráðstafanir, sem af leiðir verulegan sparnað. N. er hins vegar ljóst, að nokkurn tíma tekur að gera þá skipulagsbreytingu og framkvæmd, sem af þessu leiðir, en allt fyrir það ber að vinna áfram að máli þessu og fleiru í ríkisrekstrinum, sem leiða kann til aukinnar hagkvæmni. Á meðan n. hefur nú haft fjárlagafrv. til athugunar, hefur hún notið aðstoðar forstöðumanns fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, dr. Gísla Blöndal, en hann hefur setið flesta fundi n, og veitt henni margvíslegar upplýsingar, sem málið varða. Svo sem kunnugt er, er öll viðmiðun hvað verðlag snertir miðuð við það verðlag, sem í gildi var, þegar Alþ. kom saman. Hitt er svo öllum ljóst, að ef ekki kæmu til einhverjar þær ráðstafanir af hendi þess opinbera, sem hömluðu gegn þeirri óheillaþróun, sem af víxlhækkunum verðlags og kaupgjalds leiðir, hlyti svo að fara, að dýrtíðarhjólið héldi áfram að snúast með þeim afleiðingum, að allur atvinnurekstur í landinu yrði í yfirvofandi hættu og stóraukin útgjöld mundu hlaðast á ríkissjóð. Það má hins vegar fullyrða, að með tilkomu hinna nýju laga um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, sem Alþ. hefur nú nýverið afgreitt, hafi meiri festa og atvinnuöryggi skapazt í landinu. Af verðstöðvunartill. leiðir hins vegar, að gera verður verulegar breytingar á fjárlagafrv., tekjuliðir frv. hækka vegna þeirra ráðstafana um samtals 370 millj. kr. Það er sá hluti af hækkun launaskattsins og auknum tekjum Áfengis- og tóbaksverzlunar, sem gert er ráð fyrir, að verði á verðstöðvunartímabilinu frá áramótum til 1. sept. n. k. Lækkanir á gjöldum í frv. af sömu ástæðum eru áætlaðar verðlagsuppbætur, sem eru þar felldar niður, en sá liður var að upphæð 150 millj. kr. og liðurinn „til útflutningsuppbóta“ lækkar um 115 millj. Á gjaldalið fjárlagafrv. verða að öðru leyti þær breytingar, sem tengdar eru verðstöðvunarlögunum, eins og fram kemur á þskj. 215, að niðurgreiðslur hækka um 550 millj. kr. og fjölskyldubætur hækka um 145 millj. Að öðru leyti eru þær brtt., sem meiri hl. n. flytur við tekjuhlið frv., byggðar á nýrri endurskoðun, sem Efnahagsstofnunin hefur framkvæmt, og vísast í því efni til þess, sem fram kemur á þskj. 215.

Á meðan athugun fjvn. á fjárlagafrv. hefur farið fram, hefur hún nú sem áður haft þann hátt á að fá til viðtals við sig ýmsa af forstöðumönnum þeirra ríkisstofnana, sem fé er veitt til á fjárl. Í mörgum tilfellum hafa þessar viðræður leitt til þess, að n. hefur fallizt á að auka fjárveitingar, en í öðrum tilfellum hefur n. sannfærzt um, að með hliðsjón af því fjármagni, sem ríkissjóður hefur yfir að ráða, verður að fara varlega og í sumum tilfellum að sýna um fjárveitingar til málefna, sem nauðsynlegar mega þó teljast. Í þeim efnum gegnir sama máli varðandi ýmis þau erindi, sem fjvn. hafa borizt frá ýmsum aðilum, einstaklingum og stofnunum um fjárbeiðnir til styrktar margvíslegum málefnum. Í þeim efnum hefur n. nú sem fyrr reynt að koma á móti aðilum eftir því, sem n. hefur séð sér fært. Enn sem komið er hefur n. ekki lokið við afgreiðslu á öllum þeim erindum, sem henni hafa borizt. Eftir eru einnig nokkrir fjárlagaliðir, sem afgreiðslu bíða til 3. umr., þ. á m. eru fjárveitingar til undirbúningsframkvæmda við barnaskóla og gagnfræðaskóla, og einnig fjárveitingar til sömu skóla hvað varðar byrjunarframkvæmdir, en þar er umverulega upphæð að ræða. Þá bíður einnig afgreiðslu n. till. um heiðurslaun og nokkur fleiri mál. Um styrki til flóabáta mun samvn. samgm. skila till. við 3. umr. málsins. Og loks er að geta þess, að af eðlilegum ástæðum hefur fjvn. ekki enn sem komið er getað fjallað um breytingar á launum til opinberra starfsmanna, en samningar við þá standa enn yfir. Þess er þó vænzt, að niðurstöður þeirra muni liggja fyrir við 3. umr. málsins.

Svo sem fram kemur í nál. um fjárlagafrv. náðist ekki samstaða um algreiðslu málsins innan n. En varðandi brtt. á þskj. 214 flytur þó n. þær till. sameiginlega. Ég vil svo færa meðnm. mínum öllum þakkir fyrir ágæta samvinnu um afgreiðslu málsins og vel unnin störf. Ég vænti þess, að enda þótt afgreiðsla fjárlagafrv. af hendi meiri hl. hafi skipazt nokkuð á annan veg heldur en fulltrúar minni hl. í n. hefðu kosið, telji þeir sig ekki hafa verið órétti beitta í sambandi við vinnubrögð í n. eða afgreiðslu málsins í heild.

Ég mun nú í stuttu máli gera grein fyrir brtt. n. við gjaldahlið frv. Koma þá fyrst brtt., sem n. flytur á þskj. 214, sem falla undir forsrn. Þar er fyrst lagt til, að launaliður við rn. hækki um 278 þús. kr., en það eru laun eins fulltrúa. Þá er lagt til að veita 200 þús. kr. vegna flutnings á gestaskálanum, sem stóð á baklóð ráðherrabústaðarins, er brann á Þingvöllum á s. l. sumri, en í nánu sambandi við þessa till. leggur n. einnig til, að í 6. gr. frv. verði ríkisstj. heimilað að gefa Styrktarfélaginu Tjaldanesi umræddan skála. Þá er að lokum till. n., að framlag til Kanadasjóðs, sem er að upphæð 45 þús. kr., komi undir forsrn., en liður þessi er í fjárl. yfirstandandi árs færður undir menntmrn.

Næst koma brtt. fjvn. á sama þskj., en sem falla undir menntmrn. Þar er lagt til, að fjárveiting til Háskóla Íslands vegna viðskiptadeildar hækki um 280 þús. kr. En það er vegna aukins kennslukostnaðar, sem stafar af ófyrirséðri fjölgun stúdenta í deildinni að þessu sinni. Þá er lagt til, að vegna viðhaldskostnaðar við Náttúrufræðistofnun Íslands hækki fjárveiting um 100 þús. kr. Á undanförnum árum hefur verið veitt nokkurt fé á fjárl. til byggingar menntaskóla á Ísafirði. Samtals mun upphæðin vera um 9.7 millj. kr. Af þeirri fjárupphæð hefur nú þegar verið notuð 1 millj. kr. til breytinga á núverandi húsnæði skólans og gert er ráð fyrir, að verja verði svipaðri upphæð til breytinga á efri hæð hússins fyrir næsta starfsár skólans. Þá er einnig ætlað að verja nokkru fjármagni vegna stofnkostnaðar við nauðsynlegan kennsluútbúnað í eðlis- og efnafræði. Láta mun því nærri, þegar tillit er tekið til þessa, að af heildarfjárveitingunni sé handbært fé um 6 millj. kr. Samkv. till. fjárlagafrv. er lagt til, að varið verði til byggingarframkvæmdanna við skólann 2.5 millj. kr.

Svo sem kunnugt er, hóf skóli þessi starfsemi sína á s. l. hausti, en kom þá þegar í ljós, að miklir erfiðleikar voru á því að koma nemendum fyrir í leiguhúsnæði og því fyrirsjáanlegt, að sá vandi mundi aukast, þegar bekkjardeildum fjölgar. Það er því talið óhjákvæmilegt, að hafizt verði handa um byggingu heimavistar fyrir 50 nemendur ásamt íbúð fyrir skólameistara. Kostnaðaráætlun við framkvæmdina er gert ráð fyrir, að verði um 33 millj. kr., og með hliðsjón af þessu leggur n. til, að fjárveiting til stofnkostnaðar Menntaskólans á Ísafirði hækki um 5 millj. kr., og verður þá handbært fé til byggingarframkvæmda á næsta ári um 13.5 millj. kr.

Til Kennaraskóla Íslands var á fjárlögum yfirstandandi árs 5 millj. kr. fjárveiting til byggingarframkvæmda. Áður hafði skólanum verið veitt 1 millj. kr. í sama skyni, en meginhlutinn af þessari fjárupphæð hefur verið lánaður til þess að flýta framkvæmdum við æfinga- og tilraunaskóla Kennaraskólans, sem nú mun að mestu lokið framkvæmdum við. Það er öllum kunnugt, að Kennaraskóli Íslands hefur á undanförnum árum búið við mjög mikil þrengsli í húsnæðismálum. Hvort tveggja er, að miðað við aðsókn að skólanum, sem hefur verið óvenjumikil á þessum árum, skortir verulega almennt kennsluhúsnæði, og einnig ber þess að geta, að við skólann er ekkert íþróttahús, sem hefur leitt til þess, að nemendur hafa orðið að stunda íþróttaiðkanir í leiguhúsnæði á fleiri stöðum í borginni. En þá er einnig þess að geta, að meðan n. hafði þessi málefni Kennaraskólans til sérstakrar athugunar, barst henni áskorunarskjal undirritað af hátt á 3. hundrað foreldrum barna þeirra, sem nám stunda við æfinga- og tilraunaskóla Kennaraskólans, þar sem vakin var athygli á því, hversu illa er séð fyrir íþrótta- og leikfimikennslu við skólann. Þar gegnir sama máli og fyrir Kennaraskólann sjálfan, að ekkert íþróttahúsnæði er á staðnum. Nú er hins vegar um það rætt að gera breytingar á stöðu Kennaraskólans, hvað snertir inntökuskilyrði. Í því sambandi má segja, að erfitt sé í dag að gera sér fulla grein fyrir þeirri stærð skólans, sem ráðandi verður í framtíðinni. Það er því mat fjvn., að bygging íþróttahúsnæðis fyrir þessa tvo skóla yrði látin sitja í fyrirrúmi hvað byggingarframkvæmdir snertir. Er því till. n., að til byggingar íþróttahúss fyrir Kennaraskóla Íslands sé tekin inn fjárveiting að upphæð 8 millj. kr. og ætti því handbært fé til framkvæmdanna að vera a. m. k. um 14 millj. kr. En varðandi fjárveitingu til æfinga- og tilraunaskólans er hins vegar lagt til, að liðurinn „gjaldfærður stofnkostnaður“ að upphæð 3 millj. verði felldur niður, enda er n. tjáð, að framkvæmdum við sjálft skólahúsið sé nú að fullu lokið.

Til Húsmæðrakennaraskóla Íslands er lagt til, að inn verði tekinn nýr liður, gjaldfærður stofnkostnaður, að upphæð 200 þús. kr. Er ætlunin að verja þessari upphæð til undirbúnings á bættri húsnæðisaðstöðu fyrir skólann, en skóli þessi býr nú við mjög þröngan húsakost.

Á fjárl. yfirstandandi árs er veitt 250 þús. kr. til að gera tilraun með skólasjónvarp í eðlisfræði. Samkv. upplýsingum frá fræðslumyndasafninu stendur þessi tilraun nú yfir og gert er ráð fyrir, að sjónvarpað verði 10 kennslutímum í eðlisfræði fyrir 10 ára börn og 1. bekk í gagnfræðaskóla. Auk þeirra fjárveitinga, sem veittar eru til þessa í fjárl., mun fræðslumyndasafnið fá nokkra greiðslu frá sjónvarpinu til að standa undir kostnaðinum. Allt fyrir það telur n. óhjákvæmilegt að leggja til, að þessi fjárlagaliður verði hækkaður um 100 þús. kr.

Þá eru næst till. n. um, að fjárveiting til iðnskóla, gjaldfærður stofnkostnaður, hækki um 1 millj. 134 þús. kr. Að öðru leyti vísast til þess, er fram kemur á sérstöku yfirliti varðandi iðnskólana á þskj. 214.

Þá leggur n. til, að húsmæðraskólaliðurinn, gjaldfærður stofnkostnaður, lækki um 177 þús. kr. og heildarupphæðinni, 8 millj. 823 þús. kr., verði skipt milli 7 húsmæðraskóla, eins og fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj. Lagt er til, að fjárveiting til Myndlista- og handíðaskólans hækki um 50 þús. kr., sem ætlað er að verja til kaupa á kvikmyndasýningavél til notkunar við kennslu í skólanum.

Þrátt fyrir það, að fyrir liggur, að Veðurstofan muni í náinni framtíð flytja úr húsnæði Stýrimannaskólans í sitt eigið húsnæði, sem nú er í byggingu, er talið mjög aðkallandi, að Stýrimannaskólinn og Vélskólinn fái aukið húsnæði, og þá sérstaklega vegna aukinnar kennslu í véltækni, siglingatækni og rafmagnsfræði, en einnig vegna sívaxandi aðsóknar nemenda að skólunum. Skólar þessir eru, sem kunnugt er, báðir til húsa í sjómannaskólahúsinu, sem tekið var í notkun 1945, og hefur Stýrimannaskólinn búið við sama húsrými síðan. Gerðar hafa verið teikningar og kostnaðaráætlanir um fyrirhugaða viðbótarbyggingu til handa skólunum. Þar er gert ráð fyrir, að umræddri byggingu verði skipt í tvo áfanga, og er áætlaður kostnaður á hvorum áfanga fyrir sig rúmlega 20 millj. kr. Leggur fjvn. til, að inn verði tekinn nýr liður vegna fyrri áfanga byggingarinnar að upphæð 7 millj. kr.

Til Verzlunarskóla Íslands leggur n. til, að fjárveiting hækki um 4 millj. og 900 þús. Er sú till. n. byggð á sérstakri athugun, sem fjármáladeild menntmrn. gerði og byggð er á því, að ríkissjóður taki á sig þann hluta af reksturskostnaði skólans, sem fellur til vegna framhaldsmenntunar til stúdentsprófs. — Þá er till. um, að framlag til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum hækki um 100 þús., kr., en það er vegna aukins rekstrarkostnaðar við skólann.

Við héraðsskólana er lagt til, að fjárveiting hækki um 7 millj. 970 þús. kr., og koma þá til skipta til byggingarframkvæmda við héraðsskólana 24 millj. 670 þús. kr., — um skiptingu á framkvæmdafénu vísast til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj. 214.

Þá koma næst brtt. fjvn. um framlög til stofnkostnaðar gagnfræðaskóla, barnaskóla og íbúða fyrir skólastjóra samkv. ákvæðum l. nr. 41 1955. Heildarupphæð til þessara framkvæmda leggur n. til, að verði 97 millj. 504 þús. kr. og skiptist hún þannig, að til stofnkostnaðar barnaskóla verður varið 77 millj. 254 þús. kr. og til gagnfræðaskóla 20 millj. 250 þús. Um skiptingu á milli einstakra framkvæmda vísast hér einnig að öðru leyti til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti samkv. till. n. á þskj. 214.

Þessu næst eru till. fjvn. til greiðslu stofnkostnaðar skóla, sem byggðir eru samkv. l. nr. 49 1967, framhaldsfjárveitingar. Eru þar fyrst till. um barnaskóla. Lagt er til, að heildarfjárveiting til þessara skóla verði 103 millj. 239 þús. kr. og til gagnfræðaskóla samkv. sömu lögum 28 millj. 532 þús. kr. En um skiptingu á milli einstakra skólabygginga vísast hins vegar til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj. 214.

Loks leggur n. til, að fjárveiting til Krýsuvíkurskóla verði 4 millj. 310 þús. kr., en það er jafnhá upphæð og veitt er til sama skóla á yfirstandandi ári. Hér er um heimavistarskóla að ræða, en með því að skólinn er ætlaður til handa börnum úr þéttbýlinu á Reykjanesi og hér sunnanlands, er lagt til, að fjárveiting verði háð því skilyrði, að jafnhátt framlag komi annars staðar að. Mér er tjáð, að ákveðið sé af aðilum, að byggingarframkvæmdir við þennan skóla hefjist á næsta ári.

Ég tel rétt að geta þess, að við ákvörðun n. um fjárveitingar til greiðslu stofnkostnaðar við skóla, sem byggðir eru samkv. l. nr. 49 frá 1967, lágu fyrir hjá undirnefnd fjvn., sem vann að athugun og tillögugerð um skólabyggingar, þær upplýsingar, að nokkrir af þeim skólum, sem gert hafa samning um framkvæmdir, hafa ekki getað staðið við skuldbindingar af sinni hálfu. Við afgreiðslu n. varðandi fjárveitingar til þessara skóla, var því sú ákvörðun tekin að jafna heildarkostnaðinum á árin, sem eftir eru af framkvæmdatímabilinu. Komi hins vegar í ljós, að framkvæmdir við einstakar skólabyggingar þessar fari fram úr því, sem í till. fjvn. felst, mun menntmrn. standa við greiðsluskuldbindingar ríkissjóðs hvað þá skóla snertir. Með þessum till. n. um fjárveitingar til skóla hefur hún lokið við tillögugerð sína varðandi allar þær skólabyggingar, sem nú eru á framkvæmdastigi.

Með þeim till., sem ég hef þegar lýst um framlag til skólabygginga og þeim hækkunum, sem fyrir eru í fjárlagafrv. miðað við fjárlög ársins 1970, má ljóst vera, að um stórfellda hækkun fjárveitinga til byggingarframkvæmda skóla er að ræða. Í fjárlögum ársins 1970 var varið til byggingar barna- og gagnfræðaskóla 162 millj. 954 þús. kr., og eru þá ekki meðtaldir nýir skólar á fyrsta framkvæmdastigi, þar sem till. um þá að þessu sinni liggja ekki fyrir fyrr en við 3. umr. málsins. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1971 er á sama hátt, að viðbættum þeim till., sem n. hefur leyft sér að flytja við þessa umr. málsins, veitt 234 millj. 560 þús. kr. Er því nú þegar um hækkun að ræða varðandi þessa liði skólabygginganna, sem nemur 71 millj. 606 þús. kr. Á sama hátt, ef borin eru saman fjárlög þessara tveggja ára, kemur í ljós, að til annarra skólabygginga var á árinu 1970 varið samtals 98 millj. 566 þús., en í fjárlagafrv. 1971 að viðbættum till. n. er þessi upphæð samtals 178 millj. kr. og 24 þús. kr. eða hækkun frá fyrra ári að upphæð um 79 millj. 458 þús. kr. Samtals er því um hækkun að ræða á fjárveitingum til skólaframkvæmda, sem nemur 151 millj. 64 þús. kr., og er þá, eins og ég hef áður um getið, ekki tekin með sú hækkun, sem óhjákvæmilega hlýtur að verða nokkur til byrjunarframkvæmda við nýja barna- og gagnfræðaskóla, en brtt. vegna þeirra framkvæmda bíða afgreiðslu hjá n. til 3. umr., eins og ég hef áður um getið.

Þá leggur n. til, að framlög til styrktar- og útgáfustarfsemi undir liðnum náms- og fræðimenn hækki um 350 þús. kr., og verði þá samtals 3 millj. 150 þús. Er þá haft í huga, að af þessum fjárlagalið verði veittir m. a. eftirtaldir nýir útgáfustyrkir: Til Þjóðvinafélagsins 100 þús. kr. til útgáfu á bréfum Stephans G. Stephanssonar, til Hins íslenzka bókmenntafélags 100 þús. kr. til útgáfustarfsemi sinnar og til sögunefndar Þingeyinga til útgáfu ritsins Ættir Þingeyinga 50 þús. kr., til Siglufjarðarprentsmiðju vegna fyrirhugaðrar útgáfu á íslenzkum þjóðlögum eftir séra Bjarna Þorsteinsson tónskáld, en gert er ráð fyrir, að bókin verði tilbúin árið 1974, 100 þús. kr. Til útgáfu á söngvasafni Þórðar Kristleifssonar 50 þús. kr., til að ljúka samningu íslenzk-þýzkrar orðabókar 75 þús. kr.

Til Félagsstofnunar stúdenta er till. um að hækka fjárveitingu um 600 þús. kr. Þá verður heildarupphæðin 4 millj. 80 þús. kr.

Lagt er til, að fjárveiting til Landsbókasafnsins, önnur rekstrargjöld, hækki um 150 þús. kr. og er upphæðin ætluð til kaupa á handritum af tónverkum Sigurðar Þórðarsonar tónskálds. Til Þjóðminjasafnsins er lagt til, að launaliður hækki um 228 þús. kr., en það er vegna ráðningar á smið við safnið. Þá er einnig lagt til, að liðurinn 092 við Þjóðminjasafnið, til sveitarfélaga, hækki um 200 þús. kr., og skal upphæðin ganga til styrktar byggðasafna eftir nánari ákvörðun. Til Listasafns Íslands er lagt til, að fjárveiting hækki um 150 þús., er skiptist á þrjá rekstrarliði listasafnsins.

Við endurskoðun á fjárhagsáætlun Þjóðleikhússins kom í ljós, að tekjuáætlun er talin of há. Féllst n. á þetta sjónarmið og leggur því til, að áætlaðar tekjur verði lækkaðar um 2 millj. kr. og fjárveiting til Þjóðleikhússins hækkar um sömu upphæð.

Til bæjar- og héraðsbókasafna hækkar framlag um 50 þús. kr., sem rennur til Amtsbókasafnsins á Akureyri, til geymsludeildar safnsins.

Lagt er til, að fjárveiting til tónlistarskóla hækki um 500 þús. kr., en það er m. a. vegna vanáætlunar. Varðandi fjárveitingu til Barnamúsíkskólans kom í ljós, að fjárveiting samkvæmt fjárlagafrv. er of há, sem nemur 200 þús. kr., og er því um leiðréttingu að ræða, sem gerð er að höfðu samráði við skólastjórann. Til lúðrasveita er lagt til, að fjárveiting hækki um 30 þús.

Til leiklistarstarfsemi er lagt til, að liðurinn hækki um 100 þús., en gert er ráð fyrir, að sú fjárveiting gangi til Leikfélags Akureyrar, en það félag hefur með höndum allmikla leiklistarstarfsemi.

Til listasafna er lagt til, að fjárveiting hækki um 275 þús. kr., en upphæðin skiptist á milli listasafnsins á Ísafirði 75 þús. kr., Listasafns A. S. Í. 100 þús. kr. og loks fær safnið á Selfossi 100 þús. kr.

Þá er lagt til, að liðurinn vísinda- og fræðimenn hækki um 50 þús. kr. Er það vegna mannfræðirannsókna dr. Jens Pálssonar, en til þeirrar starfsemi eru einnig ætlaðar 100 þús. kr. á þessum fjárlagalið samkv. fyrri ákvörðun.

Til Íþróttasambands Íslands hækkar liðurinn um 2 millj. og 9 þús. kr. Þar af er hækkuð áætlun um tekjur af vindlingagjaldi, sem rennur til Íþróttasambandsins, 509 þús. kr., þannig að raunveruleg hækkun á fjárveitingu er 1.5 millj. króna. Þá er lagt til, að liðurinn varðandi rekstur íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar falli niður, þar sem skóli sá er nú hættur störfum. Til Skíðaskólans í Kerlingarfjöllum er till. um fjárveitingu að upphæð 100 þús. kr. Er hér um stofnfjárstyrk að ræða, en skóli þessi heldur uppi skíðakennslu árlega a. m. k. um tveggja mánaða skeið og eru eigendur skólans nú að leggja í fjárfrekar virkjunarframkvæmdir, sem kosta munu um 900 þús. kr. Skóli þessi, sem borinn er uppi af áhugamannahópi, hefur einu sinni áður hlotið opinberan styrk, en það var á fjárlögum 1969, 100 þús. kr.

Lagt er til, að tímaritið Veðrið fái hækkaða fjárveitingu, sem nemur 10 þús. kr.

Til Bandalags ísl. leikfélaga hækkar fjárframlag um 100 þús. kr. Fjárveiting til Leikfélags Reykjavíkur hækkar samkvæmt till. n. um 750 þús. kr., og verður þá heildarfjárveiting til félagsins 1.5 millj. kr. Leikfélag Reykjavíkur, sem hefur með höndum mikla menningarstarfsemi, á í verulegum fjárhagsörðugleikum, og telur því fjvn. rétt, að komið verði til móts við óskir leikfélagsins með þeirri hækkun á fjárveitingu, sem n. leggur hér til.

Til Rithöfundasambands Íslands er till. um 35 þús. kr. hækkun, og er þá fjárveiting til sambandsins alls um 50 þús. kr.

Lagt er til, að fjárveiting hækki um 25 þús. kr. til Hins íslenzka náttúrufræðifélags. Til Hins íslenzka stærðfræðifélags er lagt til, að fjárveiting hækki um 20 þús. Og til Taflfélags Reykjavíkur hækkar fjárveiting um 10 þús., en það er byggingarstyrkur. Fyrir eru 40 þús. inni í fjárlagafrv., svo heildarupphæðin til Taflfélags Reykjavíkur verður 50 þús. kr. Til Skáksambands Íslands hækkar fjárveiting um 70 þús.

Til Bandalags ísl. skáta er á fjárlögum yfirstandandi árs styrkur, sem nemur 350 þús. kr. Skátafélagsskapurinn hefur með höndum fjölbreytta æskulýðsstarfsemi, sem þrátt fyrir mikla sjálfboðavinnu áhugamanna hlýtur að kosta allmikið fé. Leggur n. til, að fjárveiting til Bandalags íslenzkra skáta verði hækkuð um 150 þús. kr.

Til Fuglaverndunarfélags Íslands hækkar fjárveiting um 15 þús.

Til Kvenfélagasambands Íslands er lagt til, að fjárveiting hækki um 150 þús., en sambandið hefur nú fært út starfsemi sína og ráðið fastan starfsmann, sem hefur með höndum ýmsa fræðslu og leiðbeiningarstörf fyrir húsmæður.

Þá leggur fjvn. til, að inn verði teknir eftirtaldir nýir liðir:

Dýrasafn Kristjáns Jósefssonar 100 þús. kr., og er þá gert ráð fyrir, að sett verði sérstök stofnskrá fyrir þetta safn, sem staðfest verði af menntmrn.

Blindravinafélag Íslands, vegna ferða um landið til að aðstoða blinda og alvarlega sjónskerta, 100 þús. kr.

American Field Service, — samtök þessi aðstoða skiptinemendur, sem eru á þeirra vegum, til námsdvalar í Bandaríkjunum. Er lagt til, að veitt verði fjárveiting 100 þús. kr.

Til Landssambands ísl. menntaskólanema 50 þús. kr. til að standa straum af nemendaráðstefnu, sem haldin var á Akureyri á þessu hausti.

Til Samtaka ísl. kennaranema 15 þús. kr.

Til Hagsmunasamtaka einstæðra foreldra 50 þús. kr.

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir 200 þús. kr. Samband norðlenzkra kvenna til námskeiða í heimilisgarðrækt 25 þús. kr.

Til Íslendingafélagsins í Osló, 50 þús. kr. vegna kaupa á húsgögnum í húseign félagsins, og til greiðslu á viðhaldskostnaði á gömlu rjómabúi á Baugsstöðum í Árnessýslu er till. um 50 þús. kr. fjárveitingu.

Ákveðið hefur verið, að norrænu safnmannafélögin haldi hér sameiginlegan safnmannafund á næsta ári. Hafa fundir þessir verið haldnir oftsinnis áður og þá jafnan á hinum Norðurlöndunum. Það er því í fyrsta sinn, að slíkur safnmannalundur er haldinn hér á Íslandi, en fundir þessir eru mjög fjölmennir. Leggur fjvn. til, að tekin verði upp fjárveiting að upphæð 200 þús. kr. til þess að standa undir kostnaði vegna safnmannafundarins.

Á Sauðárkróki standa nú yfir framkvæmdir við að fullgera safnahús. Hefur hús þetta verið í smíðum undanfarin ár. Er nú unnið að því af heimamönnum að fullgera safnahús þetta, svo að vígsla þess geti farið fram á næsta ári, en þá verður þess minnzt sérstaklega, að 100 ár eru liðin frá sögu fyrstu byggðar á Sauðárkróki. Leggur fjárveitinganefnd til, að veittar verði 250 þús. kr. sem byggingarstyrkur til þessa safnahúss.

Þá er lagt til, að málfundafélagið Magni í Hafnarfirði fái 200 þús. kr. styrk til umbóta í garði sínum Hellisgerði. En málfundafélagið Magni átti sem kunnugt er 50 ára afmæli fyrir fáum dögum. Þessi félagsskapur eða þessi starfsemi, sem það hefur með höndum, hefur aldrei hlotið opinberan styrk áður frá Alþ.

Lagt er til, að inn verði teknar fjárveitingar til að reisa minnisvarða um þá Jón Eiríksson konferenzráð, Guðmund góða og Ara fróða, 35 þús. kr. til hvors málefnis.

Á árinu 1972 verður efnt til Ólympíuleika, sem haldnir verða í München í Þýzkalandi, en það hefur verið venja, að styrkur vegna þátttöku í Ólympíuleikunum sé dreifður á fleiri en eitt ár. Að þessu sinni leggur fjvn. til, að tekin verði inn fjárveiting vegna væntanlegrar þátttöku Íslendinga í þessum Ólympíuleikum, að upphæð 250 þús. kr.

Loks leggur n. til, að inn komi nýr liður, til Frjálsíþróttasambands Íslands, vegna Evrópumeistaramóts í frjálsum íþróttum, sem haldið verður í Helsingfors í Finnlandi á næsta ári, að upphæð 75 þús. kr.

Þá er næst till., sem fellur undir utanrrn. Lagt er til, að inn verði tekin fjárveiting til að greiða tillag til Alþjóðasjómælingastofnunarinnar, alls 175 þús. kr.

Síðan koma till., er falla undir landbrn. Þar er lagt til, að fjárveitingar til Skógræktar ríkisins undir liðnum „skóggræðsla“ hækki um 800 þús. kr. Telur skógræktarstjóri, að stofnunina vanti verulegt fjármagn sérstaklega til girðingarframkvæmda, og er vonazt til þess, að upphæð þessi verði til að ráða þar nokkra bót á. Til tilraunastöðvarinnar á Mógilsá er till. um 100 þús. kr. lækkun, en það er nánast leiðrétting, og enn fremur er lagt til, að inn verði tekinn nýr liður, dánarbætur, að upphæð 300 þús. kr., en það er vegna hins hörmulega atburðar, sem átti sér stað, er Einar Sæmundsen skógræktarfræðingur fórst í bílslysi.

Til Landgræðslunnar leggur n. til, að á liðnum „gjaldfærður stofnkostnaður“ verði hækkun, sem nemur 1.5 millj. N. bárust erindi frá félagssamtökunum Landvernd og átti einnig viðræður við fulltrúa þeirra samtaka, sem fóru þess á leit, að til þeirra yrði sérstaklega varið verulegri upphæð af því fjármagni, sem veitt er til landgræðslu. Fjvn. lítur svo á, að ekki sé rétt að dreifa þessu fjármagni á fleiri aðila, en telur sjálfsagt, að samtök þessi njóti fyrirgreiðslu og fái ókeypis hráefni, svo sem áburð og fræ til sinnar starfsemi í gegnum Landgræðsluna.

Þá koma næst till. n. um fjárveitingu í fyrirhleðslur. Leggur n. til, að upphæðin hækki um 475 þús. kr., en um skiptingu á milli framkvæmda vísast að öðru leyti til þess, er fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj: 214.

Til Garðyrkjufélags Íslands er till. um 20 þús. kr. hækkun. Til Efnarannsóknastofu Norðurlands er lagt til, að fjárveiting hækki um 50 þús. kr. Og að lokum, að inn verði teknir þrír nýir liðir: Til rannsóknastöðvarinnar Kötlu að Víkurbakka 25 þús. kr., Tilraunastöð Búnaðarsambands Suðurlands 200 þús. kr. og til norræns dýralæknamóts, sem haldið verður árið 1973, 100 þús. kr.

Þá eru brtt. við Bændaskólann á Hvanneyri. Lagt er til, að aukin verði fjárveiting vegna viðhaldskostnaðar um 500 þús. kr. Er það vegna óhjákvæmilegra endurbóta á raflögnum eldri skólahúsanna. Er þá einnig lagt til, að gjaldfærður stofnkostnaður við skólann hækki um 500 þús. kr.

Næstar koma till., sem falla undir sjútvrn. Til reikningaskrifstofu sjávarútvegsins er lagt til, að fjárveiting hækki um 500 þús. Er þá gert ráð fyrir því, að upphæðin nægi til að standa straum af fastráðningu eins starfsmanns og til að standa undir kostnaði af ferðum hans út um landið. Það er talið mjög nauðsynlegt fyrir reikningaskrifstofuna, að hún hafi möguleika á að auka tengslin við útgerðarmenn víðs vegar um landið og að aðstoða við skýrslugerð. En með því mundi fást öruggari grundvöllur fyrir starfsemi skrifstofunnar og þá aðila, sem þurfa á slíkum gögnum að halda. Er það von n., að með þessari fjárveitingu megi bæta nokkuð úr í þessum efnum.

Þá er lagt til, að fjárveiting hækki til Fiskmats ríkisins. Launaliður hækkar um 500 þús. kr. og önnur rekstrargjöld einnig um 500 þús. kr. Hér var um vanáætlun að ræða, sem átti sér stað við tillögugerðina.

Að lokum leggur n. til varðandi till.-gerðir við þetta rn., að inn komi nýr liður, tækniaðstoð til umbóta í hollustuháttum í fiskiðnaði, að upphæð 500 þús. kr.

Þá koma brtt. við dóms- og kirkjumálarn. Lagt er til, að launaliður við sýslumannsembættið á Patreksfirði hækki um 280 þús. kr. Er það vegna ráðningar á föstum starfsmanni. Þá er einnig lagt til, að liðurinn „gjaldfærður stofnkostnaður“ við sama embætti hækki um 545 þús. Er sú fjárveiting nauðsynleg vegna óhjákvæmilegra endurbóta á sýslumannshúsinu.

Til vinnuhælisins á Litla-Hrauni er lagt til, að gjaldfærður stofnkostnaður hækki um 2 millj. kr., og er þá haft í huga, að unnt verði að ljúka þeim byggingarframkvæmdum, sem nú eiga sér stað á hælinu. En húsið mun nú vera því sem næst fokhelt. Til vinnuhælisins á Kvíabryggju er lagt til að hækka fjárveitingu um 120 þús. kr. Upphæðinni er ætlað að standa undir kostnaði við að fjarlægja veg, sem nú liggur um hlað hælisins.

Næst koma nokkrar brtt. n. varðandi fjárveitingar til þjóðkirkjunnar. Þar er lagt til, að fjárveiting vegna kirkjuþings hækki um 100 þús. kr.

Til æskulýðsstarfa þjóðkirkjunnar 300 þús. kr. hækkun. Er þá gert ráð fyrir, að ráðinn verði einn nýr æskulýðsfulltrúi. Til sumarbúðastarfs þjóðkirkjunnar er einnig till. um 300 þús. kr. hækkun, en á vegum þjóðkirkjunnar eru nú starfandi 5 starfsnefndir, sem hafa eftirlit með starfinu, en sumarbúðir eru nú starfræktar á sex stöðum víðs vegar um landið. Með þessari viðbótarfjárveitingu verður upphæðin samtals 1.5 millj. kr.

Þá er lagt til, að fjárveiting vegna embættiskostnaðar presta og prófasta hækki um 2.5 millj. kr. Til bygginga á prestssetrum er till., sem nemur 900 þús. kr. hækkun, og verður þá liðurinn samtals 4.5 millj. Til biskupsbústaðar er lagt til, að fjárveiting lækki um 473 þús. kr., en hér er um leiðréttingu að ræða í sambandi við lánagreiðslur. Framlag til útihúsa á prestssetrum hækkar um 250 þús.

Síðan er lagt til, að inn verði teknir fjórir nýir liðir: Til útgáfu rits presta í Hólastifti 25 þús., til Kirkjuvogskirkju í Höfnum 150 þús. kr., til Hallgrímskirkju í Saurbæ 25 þús. kr., til Kirkjukórasambands Íslands 25 þús. kr.

Þá koma næst till. við félmrn. Þar er fyrst till. n. um, að framlag til A. S. Í., samkvæmt liðnum 981, hækki um 100 þús. kr. Er upphæðinni ætlað að standa straum af kostnaði við rekstur Menningar- og fræðslusambands alþýðu. Fyrir er í fjárlögunum um 200 þús. kr. upphæð í þessu skyni. Til Iðnnemasambands Íslands er till. um 25 þús. kr. hækkun. Til Rauða kross Íslands er lagt til, að fjárveiting hækki um 200 þús. kr., sem er ætlað að standa undir auknum kostnaði m. a. vegna þátttökugjalda Rauða krossins til erlendra félagssamtaka. Til Slysavarnafélags Íslands er lagt til, að framlag hækki um 649 þús. kr. 150 þús. kr. af upphæðinni er viðbótarfjárveiting til að standa undir kostnaði við tilkynningarskyldu íslenzkra skipa, en 509 þús. kr. eru vegna breyttrar tekjuáætlunar. Orlofssjóður húsmæðra: Lagt er til, að liðurinn hækki um 250 þús. kr., og verður hann þá samtals 1 millj.

Loks er lagt til, að við þetta rn. verði teknir inn þrír nýir liðir: Styrktarsjóður lamaðra og fatlaðra 500 þús. kr., sem er byggingarstyrkur. Blindrafélagið 200 þús. kr., sem er hækkun á byggingarstyrk. Og til Foreldra- og styrktarfélags heyrnardaufra 50 þús. kr.

Rekstrarmálefni ríkisspítalanna hafa verið til sérstakrar athugunar hjá fjvn., einkum að því er tekur til starfsmannahalds. Við undirbúning og upphaf hvers fjárlagafrv. hafði þeirri reglu verið beitt í meginatriðum að heimila ekki aukningu starfsfólks nema þar sem um var að ræða opnun nýrra sjúkradeilda. Að vísu var þá ljóst, að ýmis vandamál voru óleyst í þessu efni, en rétt var talið að athuga þau nánar í fjvn. Þessi vandamál komu fyrst og fremst fram í því, að fjárveitingar til ýmissa starfa, sem heimiluð eru, hafa af stjórnendum ríkisspítalanna verið notaðar til þess að ráða í önnur óheimiluð störf, þegar starfskraftar hafa ekki fengizt í hin fyrrnefndu. Var gerð sérstök athugun á máli þessu við afgreiðslu frv. nú. Kom þá í ljós, að allveruleg brögð voru að slíkri nýtingu starfsfólks þannig, að allmargar heimilaðar stöður voru ekki notaðar og enn fleiri stöður mannaðar án heimildar. N. telur nauðsynlegt, að þessi mál verði framvegis í föstum skorðum, enda þótt ljóst sé, að eðli málsins samkvæmt munu vera einhver tímabundin frávik frá heimildum sennilega innan hvers árs, þar sem um svo viðamikinn rekstur er að ræða. Í samræmi við þetta leggur n. til, að tilteknar heimilaðar stöður verði nú lagðar niður, þar sem reynslan hefur leitt í ljós, að ekki hefur verið unnt að ráða fólk til starfa, og líklegt má teljast, að svo verði einnig í náinni framtíð. Á hinn bóginn leggur n. til, að heimilaðar verði nokkrar stöður, sem brýnar verða að teljast og fólk jafnvel er þegar starfandi í. Því er lagt til, að á Landsspítala verði lagðar niður þrjár stöður röntgentækna og tvær stöður vinnuþjálfa. Á Vífilsstöðum verði lögð niður ein staða aðstoðarlæknis og í Blóðbankanum staða eins meinatæknis. Þess í stað verði heimilaðar eftirtaldar ráðningar hjá ríkisspítölunum. Á Landsspítala: sérfræðingur í þvagfærasjúkdómum í hálft starf á handlækningadeild; sérfræðingur í nýrnasjúkdómum í hálft starf, sérfræðingur í hjartaþræðingum í hálft starf og aðstoðarlæknir í hálft starf, — öll þessi störf eru á lyflækningadeild. Sérfræðingur í barnasjúkdómum í hálft starf á Barnaspítala Hringsins. Aðstoðarlæknir í hálft starf á taugasjúkdómadeild. Sérfræðingur í röntgengreiningu í hálft starf og þrír aðstoðarmenn á röntgendeild. Meinaefnafræðingur frá 1. september 1971 og meinatæknir á rannsóknadeild. Tæknimaður í elektróní á eðlisfræði- og tæknideild. Þá er lagt til að heimila stöðu forstöðukonu og tveggja fóstra á dagheimili og loks stöður þriggja aðstoðarstúlkna á sótthreinsunardeild.

Á fæðingardeild Landsspítalans er lagt til, að ráðinn verði ritari, á Kleppsspítalanum verði heimiluð aukning starfsfólks fyrir upphæð, sem nemur 2 millj. kr., og skal það gert í samráði við yfirlækna spítalans. Á Vífilsstaðahæli sérfræðingur og sjúkraþjálfi á Kópavogshæli, vegna sameiginlegrar þjónustu frá miðju ári 1971, iðjuþjálfi, ræstingarstjóri og aðstoðarkona, á Rannsóknastofu háskólans aðstoðarlæknir og aðstoðarmaður við krufningar. Við Blóðbankann 2 hjúkrunarkonur og á Kristneshælið sjúkraþjálfi, auk hækkunar á öðrum rekstrargjöldum og viðhaldi, sem samtals nemur 830 þús. kr. Loks leggur n. til, að heimiluð verði ráðning starfsmannastjóra og innkaupastjóra á skrifstofu ríkisspítalanna. En brýn nauðsyn er að búa svo að þeirri stofnun varðandi mannahald, að ítrustu aðgæzlu sé hægt að beita, svo miklir fjármunir sem þar fara um. Framangreindar mannaráðningar hafa í för með sér útgjaldaaukningu, sem nemur 10 millj. 585 þús. kr. Á móti kemur sparnaður af niðurlögðum stöðum, að fjárhæð 2 millj. 63 þús. kr., þannig að bein hækkun á framlagi ríkissjóðs til ríkisspítalanna nemur 8 millj. 522 þús. kr. auk áðurnefnds viðbótarframlags til almenns reksturs á Kristneshæli.

Til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla, læknamiðstöðva og læknabústaða leggur n. til að fjárveitingar hækki um 14 millj. 817 þús. kr. Verður þá heildarfjárveiting samkvæmt þessum lið 74 millj. og 200 þús. kr. Um skiptingu á upphæðinni vísast til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj. 214. Við liðinn 399 er lagt til, að komi nýr liður, þing skurðlækna á Norðurlöndum, sem halda á hér á landi á næsta ári, þar er till. um 150 þús. kr. fjárveitingu.

Þá er lagt til, að framlag til gæzluvistarsjóðs hækki um 1700 þús. kr., og verður þá fjárveiting samkvæmt því til gæzluvistarsjóðs samtals 10 millj. kr.

Koma þá næst brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir fjmrn. Þar er lagt til, að launaliðir skattstofunnar í Reykjavík hækki um 972 þús. Til skattstofu Norðurlandsumdæmis eystra hækki fjárveiting um 324 þús. og til skattstofu Reykjanesumdæmis einnig um 324 þús. kr. Þá er lagt til, að liðurinn 991, ýmis lán ríkissjóðs, 0 70, vextir, hækki um 1 millj. 201 þús. kr. Og við liðinn „lánahreyfingar út,“ er till. um 1 millj. 488 þús. kr. hækkun. Varðandi báða þessa liði er um leiðréttingu að ræða.

Þá koma brtt. n. við fjárlagaliði, sem falla undir samgrn. Þar er fyrst till. um, að liðurinn 211, vegagerð, til einstaklinga, heimila og samtaka, hækki um 75 þús. kr. En það er vegna styrkja, sem veittir eru til að halda uppi skiptingu á byggð í sveitum landsins. Í till. n. um fjárveitingar til hafnarmannvirkja og lendingarbóta er um hækkun að ræða, sem nemur 19 millj. 315 þús. kr. Um skiptingu á fjárupphæðinni milli einstakra framkvæmda vísast til þess, sem fram kemur á þskj. 214. Um röð þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, má segja, að í stórum dráttum sé farið eftir þeirri framkvæmdaáætlun hafnarmála, sem gerð var af vita- og hafnarmálastjórninni fyrir árið 1971 og 1972. Alls er þá varið 97 millj. 365 þús. kr. til hafnarmannvirkja og lendingarbóta samkv. þessum lið. En því til viðbótar eru fjárveitingar til þriggja landshafna, 52 millj. 998 þús. kr. og til hafnarbóta framlag 17 millj. kr. Til hafnarmannvirkja, svokallað halafé, 25 millj. 200 þús. og til ferjubryggja 3 millj. 281 þús. kr. eða til hafnarmála veitt samtals í fjárlögum, verði þessar till. n. samþ., 195 millj. 834 þús. kr. Til sjóvarnargarða er till. um 765 þús. kr. hækkun og vísast um skiptingu milli einstakra framkvæmda til þess, sem fram kemur á sérstöku yfirliti á þskj. 214.

Við flugmálastjórn er ein brtt., um hækkun á launalið að upphæð 230 þús. kr., en það er vegna ráðningar á einum fulltrúa við stofnunina. Til Veðurstofu er lagt til, að fjárveiting verði hækkuð um 242 þús. kr., en það er vegna fastráðningar eins starfsmanns við jarðeðlisfræðideildina, en maður þessi hefur um nokkur undanfarin ár starfað sem lausráðinn starfsmaður við stofnunina.

Þá eru brtt. við iðnrn. Þá er fyrst lagt til, að önnur rekstrargjöld við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hækki um 160 þús. kr. Til Heimilisiðnaðarfélags Íslands er till. um 75 þús. kr. hækkun. Hafa félagssamtök þessi að undanförnu aukið verulega starfsemi sína bæði hvað snertir leiðbeiningarstörf og sölustarfsemi í sambandi við heimilisiðnaðarframleiðsluna.

Varðandi till. n. undir töluliðnum 105 til 110, um hækkun launa til ríkisspítalanna, vil ég vísa til þess, sem ég hef áður sagt þar um.

Að lokum leggur n. til, að inn verði teknir tveir liðir á heimildagrein fjárlagafrv., þ. e. að heimilað verði að selja eftirtaldar fasteignir póst- og símamálastjórnarinnar:

1. Hús pósts og síma að Kaupvangi 2 í Egilsstaðakauptúni, ásamt tilheyrandi Íóðarréttindum.

2. Hús pósts og síma að Egilsbraut 11, Neskaupstað, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum.

3. Eignarhluta pósts og síma í núverandi póst- og símstöðvarhúsi í Búðardal, ásamt tilheyrandi lóðarréttindum.

Önnur till. er, að heimilað verði að afhenda Styrktarfélaginu Tjaldanesi að gjöf gestaskálann, sem nú stendur á baklóð ráðherrabústaðarins á Þingvöllum, sem brann í sumar.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir brtt. þeim, sem fjvn. og meiri hl. n. hefur leyft sér að bera fram við þessa umr. Verði þessar till. samþ. leiðir af því, að á greiðsluyfirliti ríkissjóðs hækka tekjur um 942 millj. 807 þús. kr., og verða þá samtals 11 milljarðar 535 millj. 764 þús. kr. Gjöld hækka samtals um 857 millj. 641 þús. kr. og verða samtals 10 milljarðar 897 millj. 557 þús. kr. eða tekjur umfram gjöld 638 millj. 207 þús. kr. Á lánabreytingum út hækkar um 1 millj. 488 þús. kr. og verður samtals 244 millj. 876 þús. kr. Lánahreyfingar inn eru óbreyttar, og verður þá mismunur á lánahreyfingum út 241 millj. 76 þús. kr. Verður þá greiðslujöfnuður þannig á greiðsluyfirliti ríkissjóðs: Á rekstrarreikningi, tekjur umfram gjöld 638 millj. 207 þús. kr. Á lánahreyfingum út 241 millj. 76 þús. kr. og þá greiðsluafgangur 397 millj. 131 þús. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir till. fjvn. og meiri hl. fjvn. varðandi brtt. við fjárlagafrv. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.