25.01.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (3394)

81. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að halda langa ræðu um þetta mál. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við till. En ég vil aðeins drepa á eitt þýðingarmikið atriði, sem mér virðist vera, í sambandi við fræðslu um skaðsemi tóbaksreykinga. Það varðar ungu kynslóðina. Það er með þessi mál eins og mörg önnur, að unga fólkinu virðist, að það skorti einlægnina hjá þeim eldri, þegar verið er að tala um þau. Hér er gert ráð fyrir reglubundnum fræðsluerindum. Slík fræðsla hefur átt sér stað á undanförnum árum. Þegar ég var við kennslu, þá var það næstum árlega, að menn komu til þess að fræða um skaðsemi tóbaksreykinga. Oft var nú reyndar þannig til þessa stofnað af þeirra hálfu eða málflutningur þeirra var slíkur, að hann skírskotaði síður en svo til ungu kynslóðarinnar. Þetta var yfirleitt flutt í þvílíkum prédikunartón, sem á ekki hljómgrunn hjá því fólki og gerði oft illt verra að mínum dómi. En eitt var þó verst, og það var, að þegar kom til okkar kennaranna, þegar kom til okkar að fræða um skaðsemi tóbaksreykinganna, brýna fyrir unglingunum að reykja ekki, þá höfðu þeir alltaf svar á reiðum höndum: Hvað með kennarastofuna? Ég hef kennt við allmarga skóla, og þar hefur ekki verið sett bann — eða ég man ekki eftir, að það væri nokkurn tíma sett bann við tóbaksreykingum gagnvart kennurum, þó að það gilti yfirleitt gagnvart nemendum. Í þessu virðist unga fólkinu lítið samræmi. Þessu fólki er bannað að reykja, og margt af þessu fólki í skólunum, sem ég kenndi við, þó að það væru aðeins gagnfræðaskólar, var kannske 17–18 ára. Þessu fólki er bannað að reykja, þó að reykjarmökkurinn standi út úr kennarastofunni í hverjum frímínútum. Og unga fólkinu virðist að sjálfsögðu lítið samræmi í þessu. Það er sem sé fordæmi eldri kynslóðarinnar, sem skiptir máli. Þegar við erum að brýna fyrir ungu fólki, hver hætta fylgir tóbaksreykingum, þá leyfir það sér að vefengja málflutning okkar hinna eldri, því að það stendur okkur að því allt of marga að reykja, og jafnvel þá, t.d. kennara og aðra slíka, sem mest hafa á móti því talað. Það vantar sem sagt einlægnina í þetta og gott fordæmi gagnvart unga fólkinu. Ég er ekki að leggja það til, að tóbaksreykingar verði bannaðar í kennarastofum þessa lands, en ég held, að það væri stórt skref í áttina, ef kennarar yfirleitt tækju sig saman um það að hætta tóbaksreykingum a.m.k. í skólunum.

Sama gildir, virðist mér, um lækna. Maður kemur á stofnanir, þar sem verið er að berjast gegn þeim sjúkdómum, sem tóbaksreykingar valda, og maður ræðir e.t.v. við þá lækna, sem fremst standa í slíkri baráttu, og þá eru þeir hinir sömu að reykja um leið og þeir ræða við mann um alvöru málsins. Þarna vantar sem sé líka einlægnina. Nú skilst mér að vísu, að það hafi komið fram í sjónvarpinu nýlega, að læknar hefðu dregið mikið úr tóbaksreykingum hér á Íslandi, en mér vitanlega hafa þeir þó ekki bundizt samtökum eins og ensku læknarnir gerðu, sem hv. 2. þm. Reykn. minntist hér á áðan. Ég teldi það mjög þýðingarmikið atriði, ef t.d. stór hluti læknastéttarinnar lýsti því yfir, að hann væri hættur að reykja. Þá sýnist mér, að unga fólkið eigi erfiðara með að vefengja það, að eldri kynslóðin meini það, sem hún segir um skaðsemi tóbaksreykinga.

Mér dettur nú í hug atvik í sambandi við það, sem ég nefndi áðan um skólana, þessa tvo mælikvarða, sem eldri kynslóðin hefur alltaf á takteinum, annan gagnvart sjálfri sér og hinn gagnvart yngri kynslóðinni. Það var einu sinni í skóla, að nemandi hafði verið tekinn á salerni við að reykja, og út af þessu var haldinn fundur. Skólastjórinn hélt fund og áminnti nemendur rækilega í sambandi við þetta mál, og þá fékk hann fyrirspurn utan úr salnum: Hvað þá með kennarastofuna? Og hann svaraði: „Það er allt annað, kennari á kennarastofu eða nemandi niðri á klósetti.“ En nemendunum virðist þetta ekki vera allt annað, heldur ættu að gilda um þetta allt sömu reglurnar. M.ö.o., siðferðilegar skyldur og kröfur, sem menn gera til annarra, eigi menn ekki síður að gera til sjálfra sín. Og ég ætla að lokum að benda á eitt, sem gæti orðið mjög áhrifaríkt í baráttu okkar Íslendinga gegn skaðsemi tóbaksreykinga. Ég nefni það einmitt í sambandi við þetta mál, hvort ekki mætti fylgja því t.d. eftir með samkomulagi hér innan þingsins um það, að þingmenn reyktu ekki í alþingishúsinu. Ég efast nú um, að þetta yrði samþ., en ég vil þó segja, að ef það yrði samþ., þá yrði varla völ á öllu áhrifameiri aðgerð til þess að berjast gegn skaðsemi tóbaksreykinga.