17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (3404)

31. mál, vetrarorlof

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. þessi um vetrarorlof var flutt hér á Alþ. í fyrravetur, og var þá mælt fyrir henni, en hún komst ekki til afgreiðslu í þn. í grg. er gerð allítarleg grein fyrir, hvað fyrir flm. vakir, en það er, að hægt sé að nota lengri tíma ársins en verið hefur, til þess að fólk geti notið hvíldar og orlofs, og líka hugleitt út frá því, að vinnutíminn nýtist betur. En svo sem kunnugt er, munar miklu, a.m.k. með alla útivinnu, hvað erfiðara er að framkvæma hana um vetur en um sumar. Til þess að þessi till. eða sú hugmynd, sem liggur að baki henni, nái fram að ganga og verði að fullum notum, mun þurfa að breyta orlofslögum, því að í þeim er gert ráð fyrir, að a.m.k. verkamenn taki frí sitt frá því um miðjan maí og fram á haustdaga, en ekki er gert ráð fyrir því, að þeir taki það um veturinn. Þetta hefur náttúrlega af löggjafans hálfu verið hugsað þannig, að verkamenn yrðu ekki knúðir til þess að taka frí sitt að vetri til og gætu ekki haft upp úr því svipaða hvíld og ánægju eins og að sumri til, en nú teljum við flm. þessa frv., að ýmislegt hafi breytzt síðan orlofslögin voru sett og þetta þurfi endurskoðunar við. Ég vil geta dæma eins og t.d. þeirra, að það er að verða erfitt fyrir margar opinberar stofnanir að láta starfsfólk sitt taka orlof yfir sumartímann, því að það raskar svo mjög vinnutilhögun. En ef hægt væri að dreifa þessu á allt árið og fólkið, sem vinnur að þessu, væri jafnánægt með að taka frí á vetrum sem sumrum, þá mundi viðhorfið breytast verulega, hvort sem menn vildu fara utan til Suðurlanda, eins og hér er nefnt, eða njóta orlofsins heima við ýmiss konar íþróttaiðkanir eða eitthvað því um líkt. Að sjálfsögðu tækju ekki allir vetrarfrí. Það væri hægt að víxla þessu alla vega til. Einn gæti tekið fríið að vetrinum og svo aftur næsta ár að sumri og svo koll af kolli. Menn tækju það ekki alltaf á veturna eða alltaf á sumrin, en til þess að þetta geti orðið ódýrt og almenningseign, þurfa samtök stórra stofnana að koma þarna við sögu, eins og hér er drepið á, Alþýðusamband Íslands og önnur stéttarsambönd í landinu, en hagkvæmt er, að ríkið hafi þarna hönd í bagga, eins og hér er lagt til.

Mig langar að segja þingheimi frá því, að í raun og veru hefur verið gerð eins konar frumtilraun með framkvæmd þessarar hugmyndar, þannig að ein stofnun hér í Reykjavík eða atvinnufyrirtæki, Gamla kompaníið, hafði þann hátt á nú í haust í samráði við sitt starfslið, að það frestaði öllu orlofi þangað til í október og þá fór starfsfólkið á vegum ákveðinnar ferðaskrifstofu suður í lönd og naut þar hálfs mánaðar orlofs. Munu allir hafa verið ánægðir með það.

Það gefur auga leið, að til þess að þetta verði hagkvæmt, eins og ég tók fram áóan, þarf að vera á þessu gott skipulag og mikil samtök, og fleira mætti koma til. M.a. hafa nágrannar okkar á Norðurlöndum, í Svíþjóð og Noregi og ég hygg Danmörku einnig, tekið það til bragðs að koma sér upp hvíldarheimilum eða jafnvel endurhæfingarheimilum suður í löndum, sem þeir senda sjúklinga til, sem þurfa hvíldar og hressingar við. Þeir hafa tekið þarna hús á leigu eða jafnvel keypt og reka þarna, eins og ég segi, hvíldar- eða endurhæfingarheimili. Möguleikarnir eru margir, ef menn vilja sameinast um að nota þá, en fyrst og fremst er þál. flutt til þess að auðvelda almenningi að nota lengri tíma til orlofs og hvíldar og hressingar en nú, en einnig til þess að gera atvinnuvegunum hægara fyrir um framkvæmd þessara mála.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta, en leyfi mér að leggja til, að þessu verði vísað til allshn. að frestaðri þessari umr.