21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (3420)

28. mál, strandferðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja örfá orð í sambandi við þessa till., sem er 28. mál. Það er um það, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta gera áætlun um smíði og rekstur strandferðaskips til farþegaflutninga. Ég held, að það sé rétt að leggja megináherzluna á það, að athugun verði gerð um rekstur slíks skips, áður en farið væri að gera áætlun um smíði. Það er hægt að gera sér grein fyrir því, hvað skip muni kosta, sem væri hentugt í þessu skyni, og út frá því er hægt að gera rekstraráætlunina.

Það er ekki nema eðlilegt, að menn velti því fyrir sér, hvort það geti verið hagkvæmt eða hvort það sé nauðsynlegt að fá strandferðaskip til fólksflutninga. Tímarnir eru breyttir. Það vita allir, og það tók hv. 1. flm. fram, að það eru breyttir tímar frá því, sem áður var, þegar fólkið gat ekki ferðazt á milli héraða eða landsfjórðunga nema með skipum eða þá á hestum. Meginhluti fólks, sem nú ferðast innanlands, fer í bifreiðum eða flugvélum. Mér skilst á hv. flm., að þeir leggi mikla áherzlu á það, að þetta skip gæti verið eftirsótt og mikið notað af erlendum ferðamönnum, sem vildu sigla í kringum landið og njóta náttúrufegurðar og góðs veðurs. Þeir hafa ábyggilega eitthvað til síns máls, en hversu mikið það yrði notað, það er náttúrlega erfitt að fullyrða um það, vegna þess að útlendingarnir vilja ekki síður ferðast á landi, í bifreiðum og í flugvélum og jafnvel á hestum. Og útlendingarnir sækja ekki síður inn til dala og upp til öræfa heldur en út til strandarinnar. Allt þetta þarf að taka með í reikninginn og athuga og þá einnig, hvernig ætti að nýta skipið, þegar minnst væri fyrir það að gera og skemmtiferðamennirnir ekki til staðar, hvernig ætti að koma í veg fyrir aukinn taprekstur hjá útgerðinni og nýta þetta skip. Það er alveg sjálfsagt, að athugun fari fram á þessu. Þriggja manna stjórnarnefnd Skipaútgerðar ríkisins og svo náttúrlega framkvæmdastjóri Skipaútgerðarinnar munu gera þessa athugun. Þeir munu leggja áherzlu á það að gera sér grein fyrir rekstrarútkomu svona skips, sem þeir áður hafa athugað, hvað muni kosta, því að það er fljótlegt að gera sér grein fyrir því. Og það verður að liggja fyrir rekstrarathugun, áður en farið er að leggja í nokkurn verulegan kostnað að öðru leyti í sambandi við þetta.

Það er aðeins þetta, sem ég vildi segja, alls ekki, að ég sé að mæla á móti till. út af fyrir sig, en leggja áherzlu á, að það mun verða gerð athugun, rekstrarathugun á slíku skipi sem hér er um að ræða.