21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3421)

28. mál, strandferðir

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf hér, að athugun yrði nú látin fara fram á þessu máli. Mér þykir vænt um að heyra þetta. Við erum búnir að tala um þetta mál fyrir daufum eyrum árum saman, ýmsir, sem áhuga hafa fyrir því, ekki einasta með tillöguflutningi hér á hv. Alþ., heldur einnig með samþykktum frá ýmsum samtökum fólksins í strandhéruðunum. Ég hef aldrei fyrr fengið jákvæðar undirtektir frá stjórnarvöldum, og ég vil þakka þessa yfirlýsingu.

Ég ætlaði annars ekki að segja miklu fleira, en mér er það auðvitað ljóst, að það þarf að gera rekstraráætlun, enda er það sagt í till., en ég hafði nú haldið, að rekstraráætlun byggðist m.a. á áætlunum um kostnað við byggingu slíks skips. Ég vildi aðeins árétta það, sem ég sagði áðan, að í mínum huga er ekki nokkur minnsti vafi á því, að verkefnin að sumrinu eru alveg yfirfljótanleg. Hringferðir í kringum landið yrðu ekki margar sumarlangt. Og þó að það sé auðvitað hárrétt, sem hæstv. ráðh. segir, að erlendir ferðamenn koma hér ekki síður til þess að skoða öræfi og óbyggðir og leita inn til dala, enda yrði sá hópur, sem þessar ferðir gæti tekið, náttúrlega ekki nema örlítið brot af þeim ferðamannastraumi, sem til landsins liggur. Og vegna þess að ferðirnar með gömlu skipunum, sem þó voru tengd vöruflutningum að nokkru og höfðu auðvitað að mörgu leyti miklu lakari útbúnað en nýtt skip mundi hafa, vegna þess hversu mikið þær voru notaðar, þá held ég, að það sé hafið yfir allan vafa, að sumarferðir með nýju skipi yrðu fullnýttar. En hitt þarf auðvitað að athuga.