29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

92. mál, fiskileit við Austfirði

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. um fiskileit við Austfirði. Till. er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hið fyrsta fara fram ítarlega fiskileit úti fyrir Austfjörðum og verði sérstök áherzla lögð á leit að rækju, humar og skelfiski.

Fiskileit þessi verði gerð í samráði við Hafrannsóknastofnunina og samtök sjómanna og útvegsmanna á Austurlandi.“

Þessari till. fylgir ítarleg grg„ og sé ég því ekki ástæðu til þess að flytja hér langt mál sem rökstuðning fyrir þessum tillöguflutningi. Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á þeirri þörf, sem hér er um að ræða. Það er enginn vafi á því, að það hefur verið lagt allt of lítið í það á undanförnum árum að framkvæma fiskileit víðs vegar við landið, en þó hygg ég, að fiskileit fyrir Austurlandi hafi verið minni en alls staðar annars staðar við landið nú í allmörg ár.

Það er komið svo, að almennt er talið mjög óhagkvæmt að byggja rekstur fiskvinnslustöðva eða frystihúsa á því einu saman að hafa til úrvinnslu nýveiddan þorsk eða annan slíkan fisk og þurfa síðan að stöðva að mestu fiskvinnsluna, þegar slíkur fiskur er ekki fyrir hendi. Því hefur hugur manna beinzt meira og meira að því að leggja sig eftir ýmsum öðrum fisktegundum, sem hentara er þá að vinna á þeim tíma, sem minna er um þorsk til vinnslunnar. Það hefur t.d. komið í ljós, að það getur verið mjög hagkvæmt að geta unnið humar, en það er tiltölulega auðvelt í rauninni að safna honum saman á grófan hátt eða að forfrysta hann og geyma hann síðan sem hráefni í marga mánuði og vinna úr honum útflutningsvöru síóar. Sama er að segja um skelfiskvinnslu. Hún yrði á margan hátt rekin þannig, að hægt væri að nota hana til þess að fylla upp í eyður í rekstri húsanna og tryggja þannig miklu samfelldari og öruggari vinnu fyrir fólkið, sem annars vinnur aðallega í þessum fiskvinnslustöðvum.

Ég hef í nokkur ár lagt fram till. við afgreiðslu fjárlaga um það, að varið yrði meira fjármagni en þar hefur verið áætlað að gera í þessu skyni, og hef þá auðvitað sérstaklega haft í huga, að það þyrfti að auka verulega fiskileit fyrir Austurlandi. Þessi till. er flutt í framhaldi af þessu, þó að ég sjái ekki ástæðu til þess að ræða hér frekar um hana. En ég vænti þess, að sú n., sem fær till. til athugunar, kynni sér málið, og þá efast ég ekki um, að hún mun viðurkenna það, að hér er um þarfamál að ræða og það sé réttmætt að samþykkja þessa till.

Herra forseti. Ég óska svo eftir því, að þessari till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.