05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3430)

92. mál, fiskileit við Austfirði

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Allshn. hefur einnig um þessa till. orðið sammála og leggur til, að hún verði samþ. óbreytt.

Borizt hafði svar frá Hafrannsóknastofnuninni við bréfi n. um þessa till. Þar kemur það fram, að í sumar er fyrirhugað að leita að skelfiski í fjóra mánuði fyrir Norður- og Austurlandi. En þess er getið, að sú leit hafi ekki verið ákveðin í smáatriðum, og tæplega verði hafizt handa fyrr en í vor. Það kemur einnig fram í umsögninni, að frekari rækjuleit við Austfirði hefur ekki enn verið ákveðin.

Austfirðingum hefur þótt sem ekki hafi verið nægilegur gaumur gefinn að þessum rannsóknum við Austfirði, og hefur verið mikið eftir því leitað á undanförnum árum að fá þar úr bætt. Hafrannsóknastofnunin hefur haft mörgum verkefnum að sinna og hefur talið, að þess vegna hafi ekki verið unnt að sinna þessu eins og skyldi. Í bréfi Hafrannsóknastofnunarinnar .segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafrannsóknastofnunin tekur fyrir sitt leyti undir framangreinda þál., en eigi að gera miklu meira en þegar hefur verið lýst, þarf aukið fé til stofnunarinnar og eins vil ég benda á, að stofnunina vantar fleira starfsfólk, ef hún á að sinna öllum þeim verkefnum, sem vissulega eru fyrir hendi og þurfa úrlausnar.“

Við væntum þess, að samþykkt þessarar till., þessi viljayfirlýsing Alþ., megi leiða til þess, að aukin áherzla verði lögð á leit þeirra sjókinda fyrir Austfjörðum, sem till. fjallar um, því að þar er, ef af líkum má ráða, nokkuð mikils að vænta.