30.03.1971
Sameinað þing: 38. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

287. mál, samstarfssamningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið til meðferðar í utanrmn. hv. Alþ. og hlotið þar samhljóða meðmæli nm. Málið mun þm. svo almennt kunnugt, að ég sé ekki ástæðu til þess að rekja efni þess í einstökum atriðum. Kjarni málsins er, að það á að efla á raunhæfan hátt norræna samvinnu. Geri ég ráð fyrir, að allir þingflokkar séu þar næsta sammála. Hins vegar get ég persónulega ekki hjá því komizt að láta þau orð falla, að mér hefur virzt norræn samvinna svokölluð hvað Ísland áhrærir ekki alltaf vera nægilega raunhæf, ekki þegar til hagsmunakastanna hefur komið a.m.k. Rómantískur aldamótaskandinavismi var í þá tíð vafalaust góðra gjalda verður, en síðari hluti 20. aldar krefst raunhæfari viðhorfa, og einmitt þetta frv. tel ég spor í þá réttu átt.

Meginbreytingar, sem þetta samkomulag felur í sér frá fyrri samningi, felast í upphafi þess, er hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem vilja treysta og efla enn grundvöll samstarfs Norðurlanda og skipulag;

sem telja ráðvænlegt að breyta í þessu skyni samstarfssamningi Norðurlanda frá 23. marz 1962;

sem hafa þess vegna ákveðið að fella inn í samstarfssamninginn grundvallarákvæói þau, er Norðurlandaráð varða;

sem jafnframt hafa ákveðið að bæta inn í samstarfssamninginn ákvæðum um ráðherranefnd Norðurlanda, en undir hana falla málefni norrænnar samvinnu.“

Sannfæring mín er sú, að þetta ákvæði geti gert svokallaða norræna samvinnu virkari en verið hefur.

Þá fagna ég því, sem 39. gr. framangreinds samkomulags ákveður, að í störfum ráðsins, Norðurlandaráðs, taki þátt lögþing og landsstjórn Færeyja og landsþing og stjórn Álandseyja. Að mínu viti er þarna að vísu um vanda- og viðkvæmnismál að ræða, sem ég tel, að viðkomandi ríkisstjórnir hafi sýnt víðsýni í að leysa. Persónulega fagna ég því sérstaklega, að Færeyingar skuli þarna fá möguleika á að láta skoðanir sínar í ljósi, því að þeim er ég öðrum fremur kunnugur af erlendum þjóðum og met þá mikils og þeirra vináttu í garð Íslendinga. Álendinga þekki ég að vísu minna, en hef heyrt rök þeirra fyrir sínum málstað, og finnst mér þau hafa fulla stoð í starfi. Þess vegna er það till. mín og utanrmn., að þetta frv. verði samþ.