12.11.1970
Efri deild: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

99. mál, rækjuveiðar og rækjuvinnsla

Flm. (Karl G. Sigurbergsson):

Herra forseti. Till. til þál. um skipulagningu rækjuvinnslu á Suðurnesjum, sem ég flyt hér í hv. deild, miðast við það að skora á ríkisstj. að hafa forustu um alhliða uppbyggingu í þeim efnum, og að hún hlutist til um, að fyllstu hagsýni í fjárfestingu sé gætt.

Þó hér sé eingöngu nefnd rækjuvinnsla á Suðurnesjum, er átt við, að ríkisstj. eigi og henni beri skylda til að koma í veg fyrir óeðlilega fjárfestingu í ýmsum greinum atvinnuuppbyggingar í landinu. Það hefur því miður komið allt of oft fyrir í einstökum þáttum atvinnulífsins og þá ekki sízt í sjávarútvegi, að fjárfesting hefur þróazt án nokkurrar heildarforustu, án nokkurrar könnunar á því, hver þörfin væri, og þá ekki gætt nægjanlegrar hagsýni eða raunhæfrar hagkvæmni í stofnun atvinnufyrirtækja. Í þessum efnum hefur ríkt sannkölluð gleypigangsstefna, þar sem aðallögmálið er að drepa og drepa, drepa sem mest og fljótast þann stofn af sjávardýrum, sem athyglin beinist að hverju sinni. Afleiðingin hefur oftast orðið sú, að nær heilum stofnum er útrýmt, svo að aðeins lifa eftir tiltölulega fáir einstaklingar af hverri tegund. Nægir í því sambandi að minna á síldarstofninn hér við land, sem nær er uppurinn. Sömu sögu er að segja um aðra fiskistofna, svo sem bolfisktegundirnar þorsk og ýsu, sem talið er, að séu í mikilli hættu vegna ofveiði og ágangs, ef ekkert verður aðhafzt. Telja má einnig, að eins geti verið ástatt með loðnuna. Á meðan stefnan er mótuð einungis af því að drepa, er ekki von, að vel fari.

Þannig hagar til í sjávarplássum á Suðurnesjum, að fiskvinnslustöðvar hafa þar margar verið byggðar eingöngu til þess að nýta í þeim þann þorskafla, sem á land berst í aflahrotum á vetrarvertíðum, en standa svo meiri partinn af árinu ónotaðar. Alls staðar í sjávarþorpum úti um land er mikill áhugi manna fyrir því, að fiskvinnslustöðvarnar, sem til eru á hverjum stað, séu nýttar betur en verið hefur, svo að þær verði í notkun meiri part árs eða helzt allt árið. Það er liðinn tími, að menn sætti sig við það ástand, að margar og dýrar fiskvinnslustöðvar séu aðeins reknar fáa mánuði ársins eða aðeins, þegar mest aflast af bolfiski. Það er sjálfsagt og skylt að láta fara fram leit að nýjum fiskimiðum umhverfis landið og stuðla með því að fjölbreyttari veiði og vinnslu sjávarafurða. Jafnframt því, að ný mið séu fundin og nýir möguleikar til fjölbreyttari framleiðslu skapist við það, þarf að hafa í huga, að því aðeins kemur það þjóðinni til tekna, að fyllstu hagkvæmni sé gætt í hvívetna. Á ég þar við, að fjárfestingunni sé stjórnað af hagsýni og öll vinnsla skipulega upp byggð.

Það er heldur ekki nóg að finna ný mið. Það þarf að varast rányrkju á þeim miðum. Í því sambandi vil ég benda á, að fylgjast þarf rækilega með því frá byrjun, hvað t.d. rækjustofninn þolir mikinn ágang, og haga fjárfestingunni í samræmi við það þol. Við megum ekki láta koma fyrir hér það sama og lýst var fyrir nokkrum dögum hér í hv. deild, hvernig þessum málum er háttað vestur í Ísafjarðardjúpi, þar sem útlit er fyrir, að gleypigangsstefnan hafi ráðið ferðinni og hver og einn hafi reynt að hrammsa sem allra mest, áður en allt væri uppurið. En það er hætt við, ef ekkert verður aðhafzt, að hér gæti skapazt sams konar ástand, að þar syðra risu upp vinnslustöðvar, sem ekki væru nauðsynlegar, svo að hinar, sem fyrir eru, stæðu ónotaðar.

Það hefur allt of oft gerzt hér og þá sérstaklega í sambandi við sjávarútveginn, að einstakir aðilar hafa rokið til, þegar útlit hefur verið fyrir fljóttekinn gróða, og reynt að krækja sér í fé til stofnunar og rekstrar atvinnufyrirtækja. En þá hefur fyrirhyggjan ekki ætíð ráðið stefnunni. Ekkert hefur verið farið eftir því, hver þörfin væri, né hvað eðlilegt mætti teljast í þeim efnum hverju sinni. Svo þegar atvinnufyrirtækin eru orðin of mörg í hverri grein og fjárfestingin of mikil, hrynur rekstrargrundvöllurinn. Þegar slíkt ástand skapast, skeður það ætíð, að öll vinnsla hráefnisins verður of kostnaðarsöm, svo að sífellt þarf meira og meira magn til þess að standa undir kostnaði. Það orsakar ofveiði og rányrkju, sem ætíð bitnar fyrst á þeim, sem afla verðmætanna. Eru það sérstaklega sjómenn og útvegsmenn, sem selja hráefnið óunnið til vinnslufyrirtækja í landi, sem verða fyrir því.

S.l. sumar, eða frá því að rækjuveiðar hófust á miðunum út af Reykjanesi, hefur rækjan verið unnin í þeim fiskvinnslustöðvum, sem fyrir eru í sjávarplássunum, sem annars hefðu staðið svo til ónýttar þann tíma. Það hefur komið sér einkar vel bæði til þess að lengja rekstrartíma vinnslustöðvanna og ekki sízt til þess að skapa verkafólki vinnu, sem annars hefði orðið lítil á þessu tímabili, sérstaklega eftir að humarvertíð lauk. Ég vil benda á, að það væri mjög hagkvæmt, þegar veiðiþolið hefur verið kannað, að láta veiðina og vinnsluna fara fram á þeim tíma, þegar lítið annað aflast og atvinna dregst saman af þeim sökum. Það gæti orðið mikil atvinnubót fyrir fólkið og lyftistöng fyrir atvinnulífið yfirleitt í sjávarplássunum í þessum landshluta eins og annars staðar, þar sem slík þróun yrði.

Margir atvinnurekendur á Suðurnesjum hyggjast nú hefja rækjuvinnslu og afla sér tækja til þeirrar vinnslu. Ég segi margir atvinnurekendur, því að það er vitað um aðila, sem ætla sér að byggja frá grunni slíkar vinnslustöðvar, þó verið geti, að nógu margar séu þegar fyrir á þessum stöðum. Vissulega þarf að fullvinna rækjuna og sjóða hana niður og afla til þess þeirra tækja, sem með þarf. En það þarf að gerast í fullu samræmi við þörfina, sem fyrir hendi er. Ég tel það skyldu ríkisstj. hverju sinni að láta fara fram könnun á því, hvað hagkvæmt er í þessum efnum, og taka tillit til þess í fjárfestingunni, hvað eðlilegt er. Í till. legg ég til, að haft sé samráð við sveitarstjórnir og samtök atvinnurekenda, verkafólks og sjómanna á hverjum stað. Það tel ég nauðsynlegt vegna þess að þeir aðilar munu bezt geta gert sér grein fyrir ástandinu í þessum efnum í sinni heimabyggð.

Hér á Alþ. hafa á undanförnum árum verið fluttar ótalmargar till. og frv. af þm. Alþb., sem allar hafa miðazt við það, að heildarstjórn yrði höfð á fjárfestingu í uppbyggingu atvinnuveganna í því skyni, að sem bezt nýting fengist af þeirri fjárfestingu og stefnan, sem réði, væri ekki stefna einkagróða og einstaklingshagsmuna. Stefnan væri miðuð við félagsleg sjónarmið í stað handahófs og tilviljana og gert ráð fyrir, að ríkisstj. hefði forgöngu um, að áætlun yrði gerð um framkvæmdir í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu og að hún sæi um, að peningastofnanir tækju skipulegan þátt í þeirri uppbyggingu. Stefnan væri miðuð við það, að sjávaraflinn t.d. yrði sem mest fullunninn til útflutnings, sem margfalda mundi verðmæti þeirra vara, sem nú eru fluttar út að mestu sem óunnið hráefni. Það væri t.d. haft í huga við þá uppbyggingu að nýta aukna raforku til fullvinnslu sjávarafla og iðnaðar á því sviði. Ef slíkur iðnaður væri efldur til muna, þyrftum við ekki að viðhafa gegndarlausa ofveiði og rányrkju, eins og nú á sér stað. Ég ætla ekki að ræða meira um þennan þátt hér. Það verður eflaust gert síðar við önnur tækifæri.

Herra forseti. Till. mín er einn þáttur í þeirri heildarstjórn fjárfestingarmála atvinnuveganna, sem ég hef hér lýst að þurfi að eiga sér stað, til þess að komið verði í veg fyrir hið gegndarlausa dráp og ónauðsynlega dráp, ef rétt væri á málum haldið. Hún miðar í þá átt, að félagsleg og þjóðhagsleg sjónarmið sitji í fyrirrúmi fyrir gleypigangsstefnunni, sem einkennir einstaklingspotið og einkagróðahyggjuna.

Að endingu vil ég leyfa mér að fara fram á, að till. verði að þessari umr. lokinni vísað til sjútvn.