09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

1. mál, fjárlög 1971

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það hefði verið freistandi að ræða almennt um fjárlagafrv., vegna þess að það gefur ákaflega skýra vísbendingu um hina raunverulegu stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Eins og bent hefur verið á hér í umr. í dag, hækkar fjárlagafrv. í samanburði við fjárl. í fyrra svo mikið, að til eindæma má telja, ekki aðeins hér á landi, heldur vafalaust þó að víðar væri leitað. Hækkunin verður auðsjáanlega, þegar allt er komið í kring, hálfur fjórði milljarður. Þessi hækkun bætist við vöruverðshækkun, sem orðið hefur á þessu ári og jafngilti á 4 mánuðum 2–3 milljörðum kr. Ofan á þessa hækkun á fjárl. bætast hliðstæðar hækkanir, sem verða á fjárhagsáætlunum Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á Íslandi. Þannig verður á stuttum tíma búið að auka allar fjárhæðir um óhemjulegar upphæðir og ég held, að það dyljist engum raunsæjum manni, að öll þessi þróun stefnir vitandi vits að nýrri kollsteypu á næsta hausti, nýrri gengislækkun. Ég held að um þetta atriði verði ekki deilt, að að þessu er stefnt og þetta vita sjálfsagt engir betur en hæstv. ráðh. Sú verðstöðvun svokallaða, sem framkvæmd er um þessar mundir, er framkvæmd með niðurgreiðslum og niðurgreiðslurnar í þessu fjárlagafrv. eru komnar upp í hvorki meira né minna en 1127 millj. kr. Sú upphæð, sem varið er í niðurgreiðslur, jafngildir þannig 20–25 þús. kr. á hverja fjölskyldu í landinu og er varið í að borga niður smjör og kartöflur, kjöt og mjólk og osta. Allir sjá, að þetta er bráðabirgðaástand, sem ekki fær staðizt lengi, enda er ráð fyrir því gert, að þessar niðurgreiðslur standi aðeins til september næsta haust, og það er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni í slíka hluti eftir þann tíma. Þá eiga ósköpin að dynja yfir, og að þessu er stefnt af ráðnum hug. Og þetta er atriði, sem er ekki sízt fróðlegt fyrir launamenn. Launamenn hafa á þessu ári verið að berjast fyrir hækkuðu kaupgjaldi og náð nokkrum árangri. Okkur er sagt, að opinberir starfsmenn eigi að fá verulega kauphækkun núna á næstunni. En með þessari þróun, sem ég var að lýsa hér áðan, verða þessar kjarabætur að engu gerðar næsta haust, nema fyrir þá, sem fá sérstaklega mikla kauphækkun, þ. e. a. s. þá opinbera starfsmenn, sem eru í hæstu launaflokkunum fyrir. Þessi stefna ríkisstj. miðar einmitt að þessu að gera að engu árangur kjarabaráttunnar, sem háð var snemma á þessu ári, gera hann að engu, gera Ísland á nýjan leik að láglaunasvæði. Vissulega hefði verið mjög freistandi að ræða frekar um þetta — þessa heildarmynd, sem fjárl. eru til marks um, — en ég læt það bíða betri tíma.

Ég mun láta mér nægja í máli mínu hér að gera grein fyrir nokkrum brtt., sem ég hef lagt fram í sambandi við fjárlögin. Þær brtt., sem ég flyt hér einn, eru engar af flokkspólitísku tagi. Þar er bent á málefni, sem ekki er um raunverulegur ágreiningur á milli flokka og sem ég geri mér vonir um, að alþm. geti metið hver á sínum forsendum án þess að endilega þurfi að koma til einhver fyrirmæli frá flokkum.

Hæsta till., sem ég flyt, er um Kennaraskóla Íslands. Hún er um það, að fjármagn til byggingarframkvæmda skólans verði 20 millj. kr. Ég hef flutt á hverju ári undanfarið till. um fjárveitingar til þess að auka húsnæði Kennaraskóla Íslands. Þessar till. hafa ævinlega verið felldar síðustu árin af flokkum hæstv. ríkisstj. Á sama tíma hefur hins vegar verið að magnast ákaflega erfitt ástand í þessum skóla, og raunar er saga þessa skóla ákaflega skýrt dæmi um vinnubrögð okkar á æðimörgum sviðum. Þau einkennast oft af upphlaupum og síðan er ekkert gert í langan tíma á eftir. Það dróst ákaflega lengi, að komið væri upp nothæfum húsakynnum fyrir Kennaraskólann, eins og menn vita. Hann var lengi í ákaflega óviðunandi húsnæði. Síðan var loks ráðizt í að byggja nýja byggingu, þ. e. a. s. áfanga að nýrri byggingu, því að það, sem í var ráðizt, var aðeins helmingur þess, sem fyrirhugað var. Þessi bygging Kennaraskólans bar vott um nokkurt yfirlæti óneitanlega og mér virtist einnig, að hæstv. ríkisstj., og ekki sízt hæstv. menntmrh. væri nokkuð yfirlætisfullur, þegar hann var að vígja þetta hús. Hann hélt þá mjög hátíðlega ræðu, eins og honum er lagið, og lét guma mikið af því í málgögnum sínum, hvað hann væri framtakssamur fyrir þennan skóla. En því miður stöðvaðist framtakssemin. Það var ekki haldið áfram byggingu skólans, þótt þetta væri aðeins helmingurinn, eins og ég hef vikið að. Ár eftir ár var ekkert fé veitt til þessa skóla. En á sama tíma varð þróunin sú, að nemendum fjölgaði í sífellu, þar til svo var komið á síðasta ári, að þótt húsið ætti réttilega að rúma aðeins innan við 200 nemendur, var búið að troða þar inn 956 nemendum. Það varð að tvísetja í allar kennslustofur. Það varð að hafa nemendur hvar sem hægt var að koma þeim fyrir, einnig uppi á hanabjálka í húsinu. Við höfum nýlega séð það í fréttum, að borgarlæknir hefur orðið að gefa sérstök fyrirmæli um það, hvað nemendur megi lengi hafast við í tilteknum vistarverum þarna, þannig að aðstæðurnar í þessum nýja skóla eru hreinlega heilsuspillandi. Þetta er auðvitað algerlega ósæmilegt ástand og þetta ástand hefur vissulega verið ljóst í allmörg ár, en ég hygg, að á því hafi verið vakin það hressileg athygli að undanförnu, að þm. ættu að gera sér ljóst, að þarna er um að ræða vandamál, sem verður að leysa. Þegar fjárlagafrv. var lagt fram, var þar ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu til þess að halda áfram byggingarframkvæmdum við Kennaraskólann. Þetta hefur svolítið batnað í meðförum fjvn. Hún hefur lagt til, að skólinn fái 5 millj. nýjar, en auk þess 3 millj., sem teknar verði af æfinga- og tilraunaskólanum, sem er að minni hyggju næsta fráleit ráðstöfun. En till. mín um 20 millj. er einfaldlega till. skólastjóra Kennaraskólans. Hann fór fram á það að fá þessa upphæð. Hann taldi hana nauðsynlega, bæði til þess að byggja við skólann og til að koma upp íþróttahúsi. Og þessi till. skólastjórans hlaut meðmæli hæstv. menntmrh., þó að sú till. virðist ekki hafa fundið náð fyrir augum hæstv. fjmrh. Ég verð að gera ráð fyrir því, að hæstv. menntmrh. flytji slíka till. með samþykki þingflokks síns, og mér er nær að ætla, að stjórnarandstaðan sé sammála því að gera verði stórt átak til þess að halda áfram framkvæmdum við þennan skóla. Ef Alþfl. stendur með þessari afgreiðslu formanns síns, ætti að vera meiri hl. hér á þingi fyrir þessari till. og það verður óneitanlega nokkuð fróðlegt að sjá, hvort sú verður e. t. v. raunin.

2. till., sem ég flyt og er á þskj. 224, er um það, að tekinn verði upp nýr liður í sambandi við almennar greiðslur til barna- og gagnfræðaskóla: Til sálfræðiþjónustu í barna- og gagnfræðaskólum, 2 millj. kr. Sálfræðiþjónusta er nýlunda við skóla hér á Íslandi, þó að hún sé orðin almenn regla í ýmsum nágrannalöndum okkar, t. d. á Norðurlöndum. Slík þjónusta á að vera til leiðbeiningar og aðstoðar fyrir nemendur, sem eiga í erfiðleikum í sambandi við nám sitt, og einnig til ráðgjafar um námsleiðir og námsaðferðir fyrir nemendur almennt. Reykjavíkurborg hefur haft forustu um þetta mál og hefur komið á laggirnar hjá sér þó nokkurri stofnun sálfræðinga og félagsráðgjafa og kennara til þess að sinna þessum verkefnum. Mér er kunnugt um það, að sérfróðir menn telja þessa starfsemi mjög nauðsynlega. Hins vegar hefur komið í ljós, að Reykjavíkurborg hefur ekki átt þess kost að fá greiðslur frá ríkinu til móts við framlag sitt til þessara verkefna, og það væri mjög eðlilegt, að um þetta mál væri fjallað í samræmi við skólakostnaðarlög og að ríkið greiddi hluta þessarar þjónustu af sinni hálfu. Mér er ekki kunnugt um, hvers vegna ríkið neitar að taka þátt í þessari sjálfsögðu starfsemi, en vera má, að það sé af því, að hér er ekki enn þá um að ræða almenna starfsemi í skólunum og á þetta kunni að verða fallizt, þegar þetta er orðið almennt í skólakerfi okkar, eins og það verður vafalaust. Þess vegna hef ég lagt til, að þangað til verði þetta tekið upp sem sérstakur liður á fjárlögum til þess að Alþ. viðurkenni þann vilja sinn að stuðla að þessari þróun og taka þátt í þessari starfsemi, þar til þessu verður komið í endanlegt horf.

Á þskj. 220 flyt ég till. um framlag í byggingarsjóð til Leikfélags Reykjavíkur, 2 millj. kr. Ég veitti því athygli að fjvn. hækkaði fjárframlag til Leikfélags Reykjavíkur í sambandi við rekstur Leikfélagsins, og er það í sjálfu sér mjög lofsverð ákvörðun og fullkomlega makleg. Hins vegar eru erfiðleikar Leikfélags Reykjavíkur ekki sízt tengdir því, að húsakynni félagsins eru fyrir löngu orðin óviðunandi með öllu, og um það hefur verið rætt áratugum saman að koma upp nýju borgarleikhúsi í þágu Leikfélags Reykjavíkur. Því miður hefur raunin orðið sú, eins og oft vill verða hjá okkur, að þetta hefur orðið lítið annað en umtalið, og það er ekki einu sinni enn þá búið að ákveða lóð undir slíkt leikhús. Því miður er hætta á því, að framkvæmdir geti dregizt enn í langan tíma, ef ekki verður ýtt undir eins og hægt er. Mér er vissulega kunnugt um það, að svo er, litið á, að þetta eigi að vera verkefni Reykjavíkurborgar, og ég hef ekki nokkra minnstu löngun til þess að draga úr frumkvæði Reykjavíkurborgar á þessu sviði. En ég held, að starfsemi Leikfélagsins sé svo myndarleg, að það sé full ástæða til þess, að Alþ. ýti undir það, að byggingarframkvæmdum verði hraðað eftir því, sem kostur er. Í því sambandi held ég, að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir því, að menningarstarfsemi á Íslandi má aldrei verða í sérstökum hólfum, þannig að sagt sé: Hér er verkefni fyrir Reykjavík, en ekki aðra. Leikfélag Reykjavíkur hefur að undanförnu í raun orðið að Leikfélagi Reykjavíkur og nágrennis. Það er tekið að fara með leiksýningar sínar á ýmsa staði í nágrenninu, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þróunin verður sú hér á landi, að skipulögð verður menningarstarfsemi, sem tengir saman Reykjavík og félagsheimilin úti um allt land. Við munum þurfa á því að halda að skipuleggja þau mál þannig, að leikhúsin í Reykjavík aðstoði félagsheimilin úti um land með því að fara þangað með sýningar og með því að taka þátt í leikstarfsemi þar. Ég er sannfærður um það, að við munum þurfa á því að halda á sínum tíma að fara fram á fyrirgreiðslu frá Leikfélagi Reykjavíkur að þessu leyti, og því tel ég það mjög eðlilegt, að ríkið verði einhver aðili að byggingu í þágu Leikfélagsins.

Síðasta till., sem ég vil minnast á er till. um það, að í þann lið fjárl., sem fjallar um hafnamál, verði tekinn nýr liður: Ráðstafanir gegn mengun í höfnum, 5 millj. kr. Eins og þm. vita, er hér um að ræða mikið stórmál. Mengun í höfnum er mikið og alvarlegt og vaxandi vandamál á Íslandi og um það er m. a. fjallað í skýrslu frá n., sem Rannsóknaráð ríkisins stofnaði s. l. bauðst til þess að fjalla um vandamál mengunar í náttúru Íslands. Þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Á stöku stað hafa sýni af sjó við strendur landsins verið tekin og rannsökuð, einkum þar sem sjór er notaður við fiskverkun, og hefur komið í ljós, að hann er víða allmengaður kóligerlum umhverfis þorp og bæi og þá ónothæfur til fiskverkunar. Einnig hefur sjórinn við sjóbaðstað Reykvíkinga í Nauthólsvík reynzt það mengaður kóligerlum, að þurft hefur að loka honum af heilbrigðisástæðum. Á þessu sumri fór fram umfangsmikil rannsókn á mengun sjávar umhverfis Reykjavík á vegum Reykjavíkurborgar og undir leiðsögn erlendra sérfræðinga á þessu sviði. Öll þessi mengun stafar fyrst og fremst frá skólpi íbúðarhúsa og iðjuúrgangi, sem veitt er í skólpleiðslur og víðast hvar leitt stytztu leið til sjávar, án þess að reynt sé að hreinsa það, og oft ná þessar skólpleiðslur ekki einu sinni niður fyrir stórstraumsfjöruborð.“ Og síðar í skýrslunni er komizt svo að orði um þetta atriði: „Sjórinn við strendurnar er allvíða mengaður af skólpfrárennsli þorpa og bæja, eins og áður er getið og einnig af frárennsli frá fiskiðju og þarf hið fyrsta að hefja athugun á því, á hvern hátt er hægt að leysa það vandamál, því að ekki er endalaust hægt að nota firði og víkur og fjörur þeirra sem sorpgeymslu. Í rauninni ætti að setja strangar reglur um sorp- og skólpmál um allt land, byggðar á niðurstöðum rannsókna í þessum efnum.“

Þessar lýsingar eru eins og menn heyra mjög alvarlegar og þeir, sem kunnugir eru á ýmsum stöðum hér við landið, vita, að þetta er mikið og alvarlegt vandamál. Hv. þm. Guðlaugur Gíslason hefur vakið athygli á þessu vandamáli með frv., sem hann flutti hér fyrr á þessu þingi. Hann er kunnugur þessu frá Vestmannaeyjum, en einmitt í Vestmannaeyjahöfn er þetta mjög alvarlegt vandamál, vegna þess að þar er sá háttur hafður, eins og raunar víðar, að fiskibátarnir eru þvegnir upp úr sjónum í höfninni, eins og hann er nú. Í sambandi við stöðu okkar sem matvælaframleiðenda þá er þetta ástand, sem ekki má standa. Hv. þm. Guðlaugur Gíslason lagði til í frv. sínu að breytt yrði hafnalögum, þannig að aðgerðir til þess að koma í veg fyrir mengun yrðu eitt af verkefnum, sem ráð er fyrir gert í sambandi við hafnarframkvæmdir og fengju þar með styrk úr ríkissjóði. Ég tel þetta vera mjög eðlilegt frv., og ég trúi ekki öðru en það verði samþ. En þá þurfum við einnig að sjá til þess um leið, að á fjárlögum sé gert ráð fyrir fjármunum í þessu skyni. Sú upphæð, sem ég nefni, 5 millj., er ekki há. Ég er hræddur um það, að þegar ráðizt verður í þessi verkefni þá muni þau reynast ákaflega kostnaðarsöm. Samt mundi þessi upphæð geta dugað til þess að hrinda af stað rannsóknum á þessu efni, því ég hygg, að það sé nauðsynlegt að gera heildarrannsókn á þessu, og byggja svo á henni heildaráætlun um framkvæmdir, til þess að bæta úr þessu vandamáli. Ég vil vænta þess, að þm. almennt hugsi um þetta veigamikla mál í fullri alvöru og íhugi það með sér, hvort ekki er ástæða til þess, að tekin verði upp fjárveiting á þessum fjárlögum til þessa verkefnis.