02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

45. mál, skelfisk- og rækjuveiðar á Breiðafirði

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að hafa beri alla varúð bæði við þessar veiðar og aðrar, en ég tel, að ef þessi till. yrði samþ., þá væri mörkuð nokkur stefna í sambandi við fiskveiðar hér við land. Það hefur ekki verið talið fært fram að þessu að ákveða það hér á hinu háa Alþingi, að eitt byggðarlag hefði forgang umfram aðra staði til veiða í sínu nágrenni. Hv. síðasti ræðumaður, hv. l. þm. Vestf., ræddi um aðstöðu eyja í þessu sambandi, og vissulega ber að taka tillit til allra hluta, en ég hygg þó, að þetta mál sé mun fjölþættara en fram kemur í þessari till. og fram hefur komið í þeim umr., sem hér hafa orðið um málið. Það er vitað, að þarna er um veiðar á viðkvæmum skeldýrum að ræða, sem án efa er hægt að eyðileggja, ef um of mikla sókn er þar að ræða, en ég hygg, að það verði þó frekar að fara inn á það að takmarka veiðarnar alveg, veita leyfi til að veiða ákveðið magn, annaðhvort hverju skipi eða ákveðið heildarmagn á þessu svæði, en að veita forgang einstökum útgerðarstöðum, sem að þessu svæði liggja.

Það er fleira en skelfiskur, sem hægt er að eyðileggja með of mikilli sókn. Má t.d. benda bæði á rækju- og humarveiðar. Það er vitað, að þeir, sem þessar veiðar hafa stundað undanfarin ár á öðrum stöðum við landið, eru nokkuð uggandi yfir því, að of langt sé gengið í stofninn, og óttast, að hann fari minnkandi og veiðarnar dragist kannske upp. Ég vil benda á, að þetta óttast ég t.d. varðandi humarveiðarnar við Vestmannaeyjar. Á þau mið hafa sótt bátar úr ýmsum öðrum byggðarlögum, og við höfum ekki enn þá treyst okkur til þess að fara fram á, að öðrum skipum yróu bannaðar þessar veiðar. Við mundum telja það mjög æskilegt, en auðvitað kemur þar á móti, hlyti að koma á móti, að þá yrðu bátum frá þessum útgerðarstað kannske bannaðar veiðar við aðra landshluta. Ef t.d. bátar frá Breiðafirði eiga að hafa sérstakan forgang í Breiðafirði, en hafa svo einnig óheftan aðgang að veiðisvæðum. annars staðar við landið, þá er búið að skapa þar misrétti, sem ég held, að Alþ. geti ekki gengið inn á. Annaðhvort verður að skipuleggja veiðarnar í heild, að hafa veiðisvæði fyrir hverja veiðistöð, sem ég hygg nú, að mundi eiga allerfitt uppdráttar hér á Alþ. eða þá að hafa þetta með því frjálsræði, sem verið hefur, að sjómenn ráði því sjálfir, hvaða mið þeir stunda og hvaða veiðar á hverjum tíma, innan ramma þeirra laga, sem um veiðarnar gilda almennt.