09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

1. mál, fjárlög 1971

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér að bera fram tvær brtt. ásamt þeim hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeiri Bjarnasyni, hv. 2. þm. Austf., Páll Þorsteinssyni, hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmi Hjálmarssyni, hv. 3. þm. Vestf., Halldóri Kristjánssyni, og hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafi Jóhannessyni. Þessir liðir eru hér á þskj. 224, III. liður og eru um:

a) Framleiðnisjóð landbúnaðarins 25 millj. kr. og b) Veðdeild Búnaðarbankans 10 millj. kr.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá var flutt hér fyrr á þinginu af sömu mönnum, eða flestum þessara manna, frv. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, þar sem gert er ráð fyrir því, að þessi upphæð einmitt verði til hans lögð á hverju ári. Enn fremur liggur hér frv. fyrir frá hæstv. ríkisstj. um Framleiðnisjóð landbúnaðarins, og hæstv. landbrh. gat um það í sinni framsöguræðu, að það þyrfti að athuga það í sambandi við afgreiðslu fjárlaga nú, hvort ekki væri hægt að leggja sjóðnum til eitthvert fé á ári hverju frá 1971. Ég sé það, að þetta er ekki enn þá komið inn á fjárlög, og er því þessi till. hér fram borin.

Í sambandi við Veðdeild Búnaðarbanka Íslands, þá er hv. alþm. það kunnugt, að veðdeildin er í raun og veru ekki starfhæf. Það liggja núna lánsbeiðnir í deildinni eitthvað rúmlega 100 að tölu, og jafnvel þótt gert sé ráð fyrir, að þær séu ekki allar þannig, að þær séu lánshæfar, þá tel ég, að líklegt sé, að það séu a. m. k. um 75 af þeim, sem þyrfti að afgreiða nú fyrir áramótin. En þetta eru flest umsóknir, sem hafa borizt á þessu ári, en að vísu nokkrar frá fyrra ári, sem af ýmsum ástæðum var ekki hægt þá að veita lán út á, og aðallega af þeim ástæðum, að það voru ekki tilskilin gögn í lagi, en sumar af þessum umsóknum eru nú í lagi. En ef þetta eru um 75 umsóknir, þá sjá menn það, að þrátt fyrir þessa allt of lágu upphæð, sem veðdeildin lánar, þ. e. a. s. 200 þús. kr. hámark, sem er óbreytt frá 1966, þá þarf til þess allverulega fjármuni eða á að gizka einhvers staðar á milli 13 og 15 millj. kr. Veðdeildin er þannig stödd gagnvart Búnaðarbankanum í dag, að reikningslega skuldar hún honum 5 millj. kr., og í sambandi við ýmsar skuldbindingar gagnvart lausaskuldalánunum frá 1962, þá munu bætast við rétt eftir áramótin nokkrar millj., mér er ekki kunnugt um hvað margar, þannig að það er sýnilegt á þessu, að starfsemi veðdeildarinnar er alveg í voða, og þar sem menn hafa treyst á það, sem hafa sótt um lánin, að fá þetta jafnóðum, eiginlega um leið og lánsumsóknirnar berast, þá sjáum við, hvernig muni vera ástatt í þessum efnum.

Ég tók eftir því, þegar ég sá fjárlagafrv., að þar er Iðnlánasjóður, honum er áætlað þar 15 millj. kr. þrátt fyrir Iðnþróunarsjóðinn. Ekki dettur mér í hug að halda því fram, að Iðnlánasjóður sé ekki í þörf fyrir þessa peninga, en veðdeildin er ekki síður í þörf fyrir einhverja töluverða fjármuni. Ég vonast til þess, að það verði hægt að verða við þessum óskum, og ef ekki koma fjármunir nú fyrir áramótin, þá liggur það ljóst fyrir, að þessar umsóknir verður ekki hægt að afgreiða frá Búnaðarbankanum, og væri það alveg hörmulegt, eins og ástandið er.

Ég vil svo leyfa mér að leggja hér fram eina skriflega till., sem er flutt af mér ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundssyni, en hún er við 56. tölulið og er nýr liður: Tilraunastöð Búnaðarsambands Eyjafjarðar 200 þús. kr. Eins og hv. þm. er kunnugt þá er merkileg starfsemi rekin norður í Eyjafirði, það er nokkurs konar tilraunastöð, afkvæmistilraunastöð fyrir sæðingarstöðina á Hvanneyri, og er það mjög merkilegt starf, sem þar er unnið. Ég tók eftir því, að það hafði komið inn núna breyting, sem gerir ráð fyrir því, að Búnaðarsamband Suðurlands fái þessa sömu upphæð, og mér er kunnugt um, að á því er full þörf, en það er ekki síður þörf á því, að tilraunastöðin, sem er rekin af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, fái svipaða fyrirgreiðslu. Ég verð að biðja forseta að óska eftir afbrigðum, þar sem þessi till. er skriflega og of seint fram borin.

Og í síðasta lagi vil ég svo gera að mínum orðum það, sem hv. þm. Einar Ágústsson sagði hér í dag um gæzluvistarsjóðinn. Þau mál eru öll þannig, að það er ekki vanzalaust fyrir hv. Alþ. að sinna þeim málum ekki betur en gert er, og ég vil sem sagt gera hans orð hér að mínum og sé ekki ástæðu til þess að fara út í það frekar á þessu stigi málsins.