09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög 1971

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 11. þm. Reykv. tvær till. á þskj. 224. Fyrri till. fjallar um það að hækka styrkveitingu til Alþýðusambands Íslands úr 200 þús. kr. í fjárlögum í 400 þús. Styrk þennan notar Alþýðusambandið til að halda uppi námskeiðum um félagsmál, sem eru tvímælalaust mjög nauðsynleg fyrir verkalýðshreyfinguna, og þyrfti að sjálfsögðu miklu fremur að auka þá starfsemi en hið gagnstæða og helzt að stefna að því, að hreyfingin gæti eignazt sinn eigin félagsmálaskóla, eins og frv. liggur fyrir um á Alþ. Alþýðusambandið mun hafa sótt um það, að þessi styrkur verði hækkaður í 400 þús. kr. og verður ekki sagt, að þar sé farið fram á mikið, eins og öllum kostnaði er nú háttað, en fjvn. hefur samt ekki treyst sér til að hækka þennan styrk nema upp í 300 þús. kr., sem fullnægir ekki þeim tilmælum, sem Alþýðusambandið bar fram. Ég held, að allir hv. þm. hljóti að viðurkenna, hversu mikilvægt það er, að jafnstór og áhrifamikil félagsmálahreyfing geti haldið uppi nægilegri fræðslustarfsemi, og þeir ættu ekki að horfa í það að bæta við þessum 100 þús. kr., sem Alþýðusambandið fer fram á umfram það, sem fjvn. hefur lagt til. Erlendis hafa slíkar félagsmálahreyfingar mjög öfluga fræðslustarfsemi. Og þarf að sjálfsögðu að stefna að því, að slíkt komist einnig á hér. Ég vil minna á það í þessu sambandi, að ríkisfyrirtæki leggja til Vinnuveitendasambands Íslands miklu stærri upphæð heldur en þá, sem Alþýðusambandið fer hér fram á. Þetta gerist á þann hátt, að mörg fyrirtæki, sem ríkið ræður yfir, eru meðlimir í Vinnuveitendasambandi Íslands og greiða því háar upphæðir á þann hátt eða sem félagsmeðlimir. Og það væri ekki nema til að skapa jafnvægi, til að vega upp á móti þessu, að Alþ. veitti Alþýðusambandinu þann styrk, sem það fer hér fram á, fullkomlega. Og þar sem hér munar nú ekki nema 100 þús. kr. á því, sem Alþýðusambandið fer fram á, og því, sem fjvn. leggur til, þá held ég, að hæstv. ríkisstj. og hv. þm. hljóti að fallast á þetta, þegar líka svo er komið, að heildarupphæð fjárlaganna, útgjaldabálkur fjárlaganna, verður eitthvað um 12 milljarðar kr., þegar öll kurl koma til grafar.

Síðari till., sem ég flyt ásamt hv. 11. þm. Reykv., er um að hækka framlagið til orlofssjóðs húsmæðra. Það er ákveðið, lagt fyrir í fjárlögum, að það verði 750 þús. kr. Fjvn. hefur hækkað það upp í eina millj., en við leggjum til, að það verði hækkað upp í tvær millj., og er það vissulega ekki stór upphæð, eins og öllum kostnaði er nú komið. Eins og kunnugt er, þá hefur verið stefnt að því á undanförnum árum, að ýmsar stéttir, sem eiga óhæga aðstöðu, fengju styrk eða framlög til þess að njóta orlofs, en það hlýtur að vera öllum nokkurn veginn ljóst, að sú stétt, sem hefur einna erfiðasta aðstöðu í þeim efnum, eru húsmæður. Þess vegna var hafizt handa um það fyrir allmörgum árum, ýmis félagssamtök beittu sér fyrir því, að fátækar mæður gætu fengið nokkurt orlof. Hér í bænum var það Mæðrastyrksnefnd, sem beitti sér fyrir slíku á tímabili, síðar voru það verkalýðssamtökin, ég held sérstaklega verkakvennafélagið Framsókn og slík félög, sem beittu sér fyrir því, að verkalýðshreyfingin ynni að því, að húsmæður í verkalýðsstétt gætu notið orlofs á einhvern hátt, þó litið væri, og í framhaldi af því, af þeirri baráttu, þá var tekin upp fjárveiting á fjárlögum 1957 til þess að stuðla að því, að efnalitlar húsmæður gætu notið nokkurs orlofs. Kvenfélagasamband Íslands tók málið síðan upp á sína arma, og fyrir forgöngu þess þá voru sett lög á þingi 1959 eða 1960 um orlofssjóð húsmæðra. En þar var ekki gengið lengra í kröfuhörku heldur en það, að lagt var til, að ríkið greiddi í orlofssjóð húsmæðra sem næmi 10 kr. á hverja húsmóður í landinu. Og þetta hefur staðið óbreytt í lögunum síðan. Þrátt fyrir það, þótt þessi fjárveiting hafi ekki verið hærri nú á undanförnum árum, en ég hef nú skýrt frá, þá hafa verið talsverð not af þessum fjárveitingum. Samkvæmt lögunum um orlofssjóð húsmæðra hafa starfað sérstakar n. á vegum húsmæðrasamtakanna eða héraðssamtakanna víða um landið, og þessu fé, sem orlofssjóðurinn hefur til umráða, er skipt á milli þeirra. Þó fjárveitingin sé ekki meiri en þessi, þá hefur þetta víða komið að góðum notum, þannig að hægt hefur verið að styrkja efnalitlar húsmæður til þess að njóta nokkurs orlofs, sem þær hefðu sennilega ekki gert ella. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að á undanförnum árum og sérstaklega á þessu ári hefur allur kostnaður stórhækkað í landinu, og eigi þessi starfsemi að koma að verulegum notum er óhjákvæmilegt að hækka þessa fjárveitingu talsvert frá því, sem nú er. Og þess vegna er lagt til samkvæmt þessari till., að veittar verði 2 millj. kr. á næsta ári í orlofssjóð húsmæðra. Að sjálfsögðu hefði verið freistandi að bera fram till., sem hefði gengið miklu lengra heldur en þessi, en eins og aðstæður allar eru, þótti ekki líklegt, að það væri hægt að fá stuðning við frekari hækkun hjá hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþ. En ég vænti hins vegar, að þessir aðilar geri sér grein fyrir því, að hér er um slíkt nauðsynjamál og ég vil segja réttlætismál að ræða, að þess megi vænta, að þessi till. nái fram að ganga. En ég tel, að það sé alveg óþarft að brýna það fyrir þm., að húsmæður eru sú stétt í landinu, sem hefur kannske mesta þörf fyrir orlof, en a. m. k. þær, sem tilheyra hinum efnaminni stéttum, hafa minni möguleika til þess heldur en flestir eða allir aðrir. Og þess vegna er hér um mikið nauðsynjamál og réttlætismál að ræða.

Ég flyt svo á sama þskj., ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Vestf., till. um það, að tekinn verði upp nýr liður á fjárl. til fræðslu um skaðsemi sígarettureykinga samkv. ákvörðun heilbrmrn., og verði þessi fjárveiting 2 millj. kr. Ég ætla ekki að fara að halda hér erindi um skaðsemi sígarettureykinga, vegna þess að það mál hefur verið svo mikið rætt að undanförnu, bæði hér og annars staðar, að ég hygg, að öllum hv. þm. sé það ljóst, hve mikil nauðsyn það er, að það sé reynt að vinna gegn þeim og draga úr þeim og það verður ekki gert á annan hátt en með fræðslustarfsemi. Það má segja, að nokkur spor hafi verið stigin í þá átt með þeirri till., sem Pétur heitinn Benediktsson bar fram hér á Alþ. um merkingu á sígarettupökkum, en það er ekki nema eitt af því, sem aðrar þjóðir hafa gert í þessum efnum eða eiga að gera. Þetta mun vera komið í framkvæmd fyrir nokkru í Bandaríkjunum og mun talið, að það hafi haft nokkur áhrif þar. Norðmenn eru að ræða um að taka þetta upp og fleiri þjóðir. En þó að þetta sé spor í rétta átt, er það áreiðanlega ekki nema eitt af því, sem gera þarf í sambandi við þá fræðslustarfsemi, sem hér þarf að hefja. Fyrir Alþ. liggur nú till. frá þm. úr öllum flokkum, þar sem skorað er á ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum og þá fyrst og fremst með margvíslegri fræðslustarfsemi. Í þessari till. er t. d. talað um það, að taka upp víðtæka upplýsingastarfsemi um skaðvænlegar afleiðingar sígarettureykinga í dagblöðum, hljóðvarpi og sjónvarpi. Þá er rætt um það að taka upp í skólunum reglubundna kennslu um heilsufarslega hættu sígarettureykinga. Enn fremur er talað um það, að flutt verði regluleg fræðsluerindi fyrir kennara og kennaraefni um þessi mál, og þá er lagt til, að stofnaðar verði sérstakar deildir, eins konar sjúkrastofur, sem stjórnað sé af sérfróðum læknum, og þar geti reykingamenn fengið aðstoð til þess að hætta reykingum, og á fleira er minnzt í þessari till. En það liggur í augum uppi, að ef hefjast á handa um slíkar framkvæmdir, svo að eitthvað muni um þær, verður það ekki gert á annan hátt en þann, að til þessarar starfsemi verði varið talsverðu fjármagni. Og við, sem að þessari till. stöndum, teljum, að ekki sé ráðlegt að fara af stað með öllu minni fjárhæð en 2 millj., eins og öllum kostnaði við fræðslustarfsemi er nú háttað. Ég þekki það frá gamalli tíð, að hæstv. fjmrh. er mikill stuðningsmaður bindindis, bæði á áfengi og tóbak, og þess vegna treysti ég því alveg sérstaklega, að þessi till. finni náð fyrir augum hans eða hann vinni að samþykki hennar.

Ég skal svo ekki taka lengri tíma til þess að mæla fyrir þessum till. Ég vildi aðeins að lokum beina einni fsp. til hæstv. fjmrh. Ég sé það, að í till. fjvn. eða meiri hl. fjvn. er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga hækki um 70 millj. kr. og þar af leiðandi verði tekjurnar af tekjuskatti einstaklinga áætlaðar um 300 millj. kr. hærri á næsta ári en á þessu ári. Ég vildi í þessu sambandi gera þá fsp. til hæstv. fjmrh., hvort það sé búið að ákveða, hver skattvísitalan eigi að vera á næsta ári, því að að sjálfsögðu fer það mjög eftir henni, hve miklir skattar það verða, sem einstaklingar greiða. Þeir geta jafnvel orðið hærri en þetta, ef ekki verður veruleg breyting á skattvísitölunni, og ég tel, að það sé nú líka erfitt að vera með nokkrar áætlanir um þetta efni, fyrr en búið er að taka ákvörðun um, hver skattvísitalan verður.