03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3482)

58. mál, skipulag vöruflutninga

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt átta öðrum þm. flutt hér till. til þál. um skipulag vöruflutninga og jöfnun flutningskostnaðar. Í tillgr. segir svo:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna mþn. til þess að athuga vöruflutninga landsmanna og gera till. um bætta skipan þeirra.

Stefna ber að því að gera flutningakerfið sem hagkvæmast og hraðvirkast án óhæfilegs tilkostnaðar. Leita skal leiða til jöfnunar á flutningskostnaði, svo að allir landsmenn sitji við sama borð í þeim efnum, eftir því sem við verður komið.“

Ég vænti, að hv. alþm. geti verið sammála mér og okkur flm. um það, að ekkert sé óeðlilegt við það, þó að nú þurfi að taka þessi mál til yfirvegunar. Í okkar búskap, bæði einstaklinga og þjóðfélagsins, hafa breytingar orðið gífurlegar á síðustu tímum. Einhvers staðar hefur verið sagt, að við höfum horfið frá frumbúskap yfir í viðskiptabúskap, og hygg ég, að þetta sé algerlega sannmæli. Búskapur Íslendinga bæði á heimilum og þjóðarinnar út á við byggist á ákaflega mikilli verzlun. Framleiðsla okkar er tiltölulega einhæf, og við þurfum þess vegna að flytja ákaflega mikið inn og dreifa þeirri vöru út um landið. Af þessu öllu hefur leitt stórkostlega vaxandi flutninga og auðvitað um leið flutningskostnað fyrir einstaklingana og atvinnuvegina og alla aðila. Nú hefur íslenzka ríkið vissulega haft mikil og bein afskipti af þessum málum að undanförnu, af flutningunum, a.m.k. innanlands. Ríkið byggir upp vegakerfið að langmestu leyti. Það hefur alveg veg og vanda af flugvöllunum. Það stendur undir höfnum að mjög miklu leyti. Og ríkið hefur sjálft gert út flutningaskip í marga áratugi. Það er þess vegna ekkert nýtt, þó að gert sé ráð fyrir því, eins og er í þessari till., að ríkið hafi afskipti af þessum málum, af flutningamálunum, og í þessu tilfelli af vöruflutningunum.

En er þá nokkur sérstök þörf fyrir meiri afskipti, fyrir nýjar aðgerðir? Ég held, að það sé ekkert um að villast, að slík þörf sé fyrir hendi og hún brýn. Og þetta er af augljósum ástæðum og þá þegar af því, sem ég hef nú minnzt á, hinum miklu og öru breytingum, sem orðið hafa á búskap þjóðarinnar, og einnig hinu, að í samgöngum okkar og samgöngutækjum öllum hafa orðið gífurlegar breytingar á allra síðustu áratugum. Viðvíkjandi vöruflutningunum er breytingin fyrst og fremst fólgin í því að því er varðar flutningatækin og flutningaaðferðirnar, að bílar og flug hafa komið til sögunnar, þar sem áður mátti segja, að þungavöruflutningar á sjó væru næstum eina úrræðið, a.m.k. með allri ströndinni. Og núna alveg nýlega eru komin ný skip, búin nýrri tækni til vöruflutninganna. Það er því þjóðfélagslega séð full þörf á því, að unnið sé að aukinni hagræðingu og aukinni skipulagningu á þessum málum.

Eitt allra augljósasta atriðið er þetta, sem ég nefndi, að það eru komin ný skip með miklu meiri flutningagetu en áður var fyrir hendi hjá strandferðaskipunum, og þau þarf að nýta og þá um leið að hlífa vegakerfinu, sem er ákaflega veikt og þolir illa þá miklu þungaflutningaumferð, sem á það hefur fallið á síðustu árum. Ég hef bent á það fyrr, bæði á þessu þingi og raunar áður, að um sumt í þessum efnum er þörf skjótra aðgerða. Það á að vera hægt að koma þeim við. Þar á ég m.a. við taxta ríkisskipanna og hafnargjöld, sem ég tel, að þurfi að samræma, og einnig og ekki síður að gera ráðstafanir til þess að greiða fyrir umhleðslu og framflutningi innfluttrar vöru. En í þessum efnum er vissulega að mörgu að hyggja og miklu fleira en því, sem hægt er að taka til meðferðar fyrirváralítið og afgreiða með tiltölulega skjótum hætti. Annar þáttur till., sem fjallar um skipulag vöruflutninga, gerir ráð fyrir því, að málið sé athugað á breiðum grundvelli.

Hinn þáttur till. er um jöfnun flutningskostnaðar. Þetta er ekki heldur nýtt mál fremur en afskipti ríkisins af flutningunum sjálfum. Samkv. sérstökum lögum hafa nú þegar verið gerðar alveg ákveðnar ráðstafanir í þessu efni. Þannig er það t.d. með olíur og benzín, að flutningar á þeim vörum eru jafnaðir út, einnig á einkasöluvörunum. Og svo að hinu leytinu, og því taka menn nú sennilega síður eftir, þó að það sé kannske enn augljósara, ef menn bara gefa því gaum, að þýðingar­ mestu landbúnaðarvörurnar eru útjafnaðar í flutningum, allar þær þýðingarmestu, kjöt og mjólk og mjólkurvörur. Flutningar þeirra vara eru jafnaðir út. Með till. er lagt til, að leitað verði leiða til víðtækari jöfnunar á flutningskostnaði en nú á sér stað. Það mætti vitanlega í löngu máli leiða mörg rök að því, að slíkra aðgerða sé þörf. En hér skal ég aðeins árétta það, sem fyrr var sagt, að almenn viðskipti og þar með flutningar hafa margfaldazt, vaxið ár frá ári, og flutningskostnaðurinn verður þess vegna alltaf stærri og stærri liður í útgjöldum hverrar fjölskyldu og í útgjöldum atvinnufyrirtækjanna víðs vegar um landið. Einnig er svo hitt, að mjög mikill hluti innfluttrar vöru fer í gegnum höfuðborgina, og þróunin hefur verið í þá átt, að sá hluti, sem fer þar í gegn, fer vaxandi. Og af því leiðir það, að aðstöðumunur höfuðborgarsvæðisins og þeirra landshluta, sem fjærst því liggja og þurfa að sæta umhleðslu hér, er alveg gífurlega mikill að því er varðar flutningskostnað allrar innfluttrar vöru, sem fer hér í gegn, og svo annarrar þeirrar vöru, sem vissulega er einnig þung á metum, sem flytja þarf frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi aðstöðumunur er svo mikill, að flutningur á vöru, bara þeirri, sem er ódýr í flutningi og flutt með ódýrustum hætti, með skipunum, nemur að öllu meðtöldu þúsundum króna á hvert einasta tonn. Ég býst ekki við því, að nokkur óski eftir breytingu á því fyrirkomulagi, sem nú er á flutningi mjólkur og kjöts, og að hætt verði að verðjafna þessa flutninga. Ég held, að það sé enginn, sem óskar þess. Og þá virðist mér í framhaldi af því mjög eðlilegt að álykta, að rétt sé og skynsamlegt að athuga þá einnig um jöfnun á öðrum flutningskostnaði.

Að lokum vil ég svo aðeins minna á það, að samkv. þeirri meginstefnu íslendinga að byggja land sitt allt, þá hefur síma og útvarpi verið komið til allra landsmanna, og slíkt hið sama má og einnig segja um fleiri þætti. Vegakerfið er komið heim að hverju byggðu bóli, þó að það sé víða ófullkomið, og það er stefnt að því, — ég vona, að ég megi segja það, — það er stefnt að því, að allir landsmenn fái hagnýtt sér rafmagnið og fái notið sjónvarps. Flm. þessarar till. líta svo á, að það sé alveg í samræmi við þessa meginstefnu þjóðarinnar, að ríkisvaldið beiti sér nú fyrir hvoru tveggja í senn, bættu skipulagi á vöruflutningum landsmanna og svo fyrir því að leita leiða til þess að jafna flutningskostnaðinn meira en enn hefur verið gert.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.