29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Varðandi ráðstafanir, sem gerðar yrðu með löggjöf eða öðrum hætti, sem hv. þm. vék hér að, á næstunni, þá get ég nú ekki rætt þær í einstökum atriðum, því að þær liggja ekki fyrir, en ég get aðeins sagt það, að að svo miklu leyti, ef það kemur til, sem ég heldur ekki veit, hvort um verður að ræða einhverja skerðingu á launum í einhverju formi, þá nær það jafnt til opinberra starfsmanna og annarra og hefur ekki áhrif á þetta mál út af fyrir sig. En ég get fullvissað hv. þm. um það, að ríkisstj. hefur ekki nokkra minnstu löngun til þess að greiða opinberum starfsmönnum hærri laun en eðlilegt er og markað hefur verið á hinu háa Alþ., og það er ágreiningslaust, að ég held, að það eigi að vera meginstefnumiðið, að opinberir starfsmenn beri svipað úr býtum og aðrar starfsstéttir í þjóðfélaginu.

Það má segja, að ríkisstj. getur haft það á sínu valdi að neita að semja og láta málið fara fyrir kjaradóm, en kjaradómur er hins vegar bundinn af vissum viðmiðunum, sem hann er skyldugur að taka tillit til og hafa hliðsjón af, og ég segi það eitt sem mína skoðun, að að öðru jöfnu vil ég heldur semja en láta málið fara til kjaradóms, nema því aðeins að það væri skoðun mín, að með því móti að láta málið fara til kjaradóms, þá færi ríkið sem vinnuveitandi miklu betur út úr niðurstöðu málsins. Það getur verið álitamál hvort á að halda þannig á spilunum. Ég lít svo á, að svo sé ekki, og ég mundi ekki verða reiðubúinn til að semja, ef ég teldi, að verið væri að semja um kauphækkanir, sem útilokað væri, að kjaradómur mundi fallast á. Það dytti mér ekki í hug að semja um. Þetta er hið eina, sem ég í rauninni get sagt.

Ég er heldur ekki reiðubúinn og ég held, að ríkisstj. sé það ekki, og ég efast um, að hv. þm. væri það sjálfur, t. d. til þess að afnema þetta ákvæði samningsréttarlaganna, þannig að það yrðu núna fest kjör opinberra starfsmanna með einhverjum sérstökum hætti, sem aðrar stéttir í þjóðfélaginu væru ekki bundnar við, ekki sízt, þegar þess ber nú að gæta, að opinberir starfsmenn hafa ekki verkfallsrétt. Ég hygg nú, að það þætti æðihart aðgöngu.

Ég er ekkert að segja, að útkoman úr þessu máli verði kannske þannig, að það út af fyrir sig verði mér sem fjmrh. neitt gleðiefni, það er annað mál. En ég fullyrði það, að það verður lögð áherzla á að framfylgja því ákvæði l., að opinberum starfsmönnum verði ekki greidd óeðlilega há laun miðað við aðrar stéttir í þjóðfélaginu og það verði ekki svo að með þessum samningum fáist grundvöllur, er réttlæti kröfugerð af hálfu annarra aðila, sem eru nú notaðir sem viðmiðunarstarfshópar.