09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal hvorki lengja þessar umr. mikið né taka upp almennar orðræður við hv. 3. þm. Vesturl. Það voru aðeins örfá orð, sem ég vildi þó segja. Í fyrsta lagi vegna fsp. frá hv. 4. þm. Reykv., þar sem hann spurðist fyrir um, hvort væri búið að ákveða skattvísitöluna, og tilefnið var það, að gert er ráð fyrir auknum tekjum af tekjuskatti. Þær auknu tekjur stafa nú m. a. af því, að það er gert ráð fyrir launahækkunum. Þó að það sé ekki endanlega ákveðið enn þá, hverjar þær verða, þá hygg ég, þó að menn tali að vísu mikið um það, að það muni vera vel gert við opinbera starfsmenn, að það muni nokkuð af því aftur hverfa kannske til síns heima, eins og þar segir, því að það á að greiða þeim launin aftur í tímann frá 1. júlí s. l. að telja. Nú er þetta að vísu ekki höfuðatriðið í þessari breytingu, heldur hitt, að það fór fram nánari athugun á því, hver verðlagsþróunin mundi verða á þessu ári, þar sem það lá nokkurn veginn ljóst fyrir eftir verðstöðvunina nú í haust, hvernig verðlagsþróunin mundi verða, og þá þótti fært að gera ráð fyrir hækkuðum tekjuskatti. Það hefur auðvitað aldrei verið meiningin annað en menn borguðu tekjuskatt af hækkuðum rauntekjum. Það hygg ég, að sé ekki ágreiningur milli okkar hv. þm. um, þó að það sé nokkur ágreiningur og hafi verið um það, hvort ætti að miða við framfærsluvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu. En ég get ekki nefnt þá tölu enn þá, sem á að miða við, m. a. vegna þess, eins og hv. þm. hefur vikið að oft áður, að það er nú gert ráð fyrir því að leita umsagnar um það, áður en það endanlega er ákveðið, þó að það að vísu sé á valdi fjmrh., hvort hann fer eftir þeirri umsögn eða ekki, að hve miklu leyti, það er rétt, en þá er sjálfsagt að fylgja þeirri reglu og það hefur verið gert, og vísitalan mun verða ákveðin um áramótin. En ég endurtek það, sem ég hef áður sagt, að það er gert ráð fyrir því, að vísitalan verði það há, að hún fyllilega samsvari þeim verðlagshækkunum, sem orðið hafa nú á þessu ári, þannig að þær verði bættar mönnum að fullu.

Ég hef verið að lesa hér í gegn till., sem útbýtt hefur verið, ég skal ekki gera þær að umtalsefni hverja fyrir sig, en þær eru margar og flestar þarfar og góðar, ef við hefðum til þess fjármuni, en með hliðsjón af því, að ég hef hlustað á það og vissulega skal játa það, að fjárlögin væru geigvænlega há, þá sýnist mér, að hv. þm. og ekki eingöngu minni hl. hv. fjvn., hann er ekki óhófssamastur í því efni, heldur hafa ýmsir þar slegið met, af því að talað er um að slá met í hækkunum, þannig að mér telst til, að þær till., sem hér liggja fyrir til afgreiðslu við þessar umr., eitthvað kann að bætast við enn, — þær nemi rúml. 500 millj. króna í hækkun. Það er nú hvorki meira né minna. Þannig að einhvern veginn er það svo, að mönnum virðist ekki ofbjóða það, sem komið er. Þessu taldi ég aðeins rétt að vekja athygli á.

Svo aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Vesturl., án þess að ég ætli að fara að halda áfram neinum deilum við hann. Ég geri nú ráð fyrir, að við getum sætzt á það af því að, eins og hann sagði, þá er nú ekki orðið svo langt á milli okkar skoðana varðandi orsök og afleiðingu verðbólgu og áhrif fjárlaga í því efni. Þetta sé nú kannske að nokkru leyti spíralhækkun, svo sem kannske ekki nákvæmlega eins og á sér stað með búvöruverð og verðlag, en vitanlega er hætt við því, að ef að útgjöld ríkissjóðs t. d. hækka það mikið, að það þarf að leggja beinlínis á nýja skatta aftur á næsta ári, til þess að jafna upp metin, þá auðvitað verka fjárlögin aftur á þann hátt að leiða til aukins tilkostnaðar í þjóðfélaginu. Hins vegar verka þau ekki þannig, ef ekki þarf að grípa til nýrra skatta. Það er önnur saga. Ég hygg, og vitna ég þar ekki í ómerkari mann en fyrrv. form. Framsfl., af því að ég vann nú æðilengi með honum í fjárlögum, að hann hafi látið nákvæmlega uppi þá sömu skoðun og ég lét hér uppi, að það væru fjárlögin, sem kæmu alltaf á eftir, þannig að ég er þá ekki í svo slæmum félagsskap, þó að ég haldi fram svipaðri kenningu.

Um það að ríkisstj. ráði efnahagsþróuninni, þá er það nú svo, hún ætti að gera það, en við vitum það nú báðir, að hún gerir það ekki nema að takmörkuðu leyti. Það eru margvísleg öfl, sem grípa þar inn í, og ég efast t. d. um það, að hv. þm. vilji skrifa undir það, að það hafi verið eingöngu fyrir óstjórn vinstri stjórnarinnar, að hún fór frá haustið 1958, vegna þess að óðaverðbólga væri þá yfirvofandi og í rauninni skollin á, þannig að hún teldi sér ekki fært að stjórna. Ég held því ekki fram, að þetta hafi verið vegna stjórnleysis vinstri stjórnarinnar, heldur vegna þess að menn hefðu ekki viljað haga sér eftir þeim ábendingum, sem höfðu verið gefnar af stjórnvöldum, og þetta er nákvæmlega það, sem alltaf hefur verið að gerast undanfarna áratugi, menn hafa gert meiri kröfur en framleiðni í þjóðfélaginu hefur getað risið undir, og þess vegna hefur farið sem farið hefur, að engin ríkisstjórn hefur getað ráðið við verðbólguna. Þetta er kjarni málsins og þetta er, held ég, sá vandi, sem hver sú stjórn fær við að glíma, sem situr að loknum kosningum, — við skulum engu spá um það, hver hún verði, það er annað mál. Ég skal ekki fara út í hugleiðingar okkar að öðru leyti um söluskattinn og um það, að Framsfl. hafi ekki lagt skatta á nauðsynjar, ég skal sleppa því, en ég veit nú ekki, hvort allir hafa gleymt sköttunum, sem þá voru.

Um þetta skal ég ekki ræða, en aðeins víkja örlítið að lokum að verðstöðvuninni, sem hv. þm. að vísu fullyrti ekkert um að væri kosningamál, en sagði, að væri einkennilegt að félli saman við kosningar. Ég vil í því sambandi aðeins vekja athygli á því, að það hefur ekkert farið dult, að það hafi verið skoðun Sjálfstfl. almennt, að það væri rétt að hafa kosningar í haust, þannig að hann hefur að minnsta kosti ekki verið búinn að finna þetta þjóðráð með verðstöðvun, þegar hann hélt því fram, að þetta væri rétt að gera, því að þá hefði nú þessu vafalaust ekki verið haldið fram. En sannleikurinn er sá, að ástæðan til þess, að við — og ég get tekið það fram, að ég var þeirrar skoðunar, að það yrði mjög erfitt að eiga við stjórn efnahags- og fjármála, þegar kosningar væru fyrir dyrum. Ástæðan var fyrst og fremst sú, að við, sem höfðum þessa skoðun, töldum, að það gæti orðið mjög erfitt um vik að fá samvinnu um þær ráðstafanir, sem þyrfti að gera, enda hefur það komið í ljós, að það samstarf, sem efnt var til, það hefur ekki tekizt, og ég hygg, að það hefði verið með töluvert öðrum hætti, ef það hefðu ekki verið kosningar á næsta leiti. Hins vegar er ég ekki í neinum vala um það, að fyrir hvaða ríkisstj. sem það er, sem á að taka við, hvort sem það verður sama stjórn eða ekki, þá verður það til mikilla hagsbóta og tryggir mjög möguleika þeirrar stjórnar til þess að taka á þessum málum, að þessi verðstöðvun skuli vera framkvæmd nú. Ég hika ekki við að fullyrða það.

Varðandi atriði, sem hv. þm. kom einnig að, þá viðurkenndi ég að vísu, að það væri rétt, að hugsanlegt væri, að það gæti verið sá bati í efnahagslífinu, atvinnuvegirnir gætu tekið við einhverri hækkun, þannig að það mætti hverfa frá verðstöðvuninni að einhverju leyti a. m. k., en þá gat hann um það, að það vantaði a. m. k. í fjárlagafrv. tekjuöflun til þess að rísa undir ríkishlutanum í þessum útgjaldaauka. Ég er ekki viss um það, vegna þess að tekjuöflun fjárlagafrv. er miðuð við mjög hófsamlega þróun efnahagsmála á næsta ári. Þannig að það gæti vel farið svo, eins og reyndin hefur orðið á þessu ári og miðað við þær horfur, sem jafnvel virðast vera, — þó maður geti aldrei spáð því, allra sízt í okkar þjóðfélagi, sem er mjög hverfult, — þá gæti orðið sá bati, að tekjur ríkissjóðs yxu einmitt beinlínis af þessum sökum. Því það fer saman bætt afkoma ríkissjóðs og bætt afkoma atvinnuveganna, vegna aukinnar veltu í þjóðfélaginu. Þetta hygg ég, að við hv. þm. getum verið sammála um, að sé mjög líklegt að fari saman. Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja umr. af minni hálfu, nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til með ákveðnum fyrirspurnum.