09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3534)

114. mál, útflutningur á neysluvatni

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég hef hér leyft mér að flytja svo hljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að rannsókn verði gerð á möguleikum á útflutningi hreins vatns í stórum stíl frá Íslandi. Niðurstöður þessara athugana verði lagðar fyrir Alþ. svo fljótt sem auðið er, svo að frv. um útflutning á hreinu íslenzku vatni verði samið sem fyrst.“

Það kann nú í fyrstu lotu að vera broslegt að vera að tala um útflutning á hreinu vatni, heldur ættu menn að fjalla hér um útflutning á bjórnum, svo oft sem hann hefur verið á dagskrá, en við nánari athugun kemur það í ljós, að víða erlendis er orðinn hörgull á hreinu vatni og það er til sölu í sérstökum flöskum gerilsneytt og kostar stórfé, jafnvel tugi króna lítrinn. Það er því ekki úr vegi að hugleiða það, hvort við eigum ekki möguleika á því að fá hér tært vatn og gerilsneyða það eða tryggja það svo hreint, að það verði hæft til notkunar erlendis.

Frá því var skýrt ekki fyrir löngu í sjónvarpinu, og þótti það mikil frétt á Norðurlöndum, að Noregur hefði hafið útflutning til Svíþjóðar á vatni í flöskum. Þetta er í litlum mæli enn þá, en fregninni fylgdi, að menn væru bjartsýnir á möguleika í þessu efni.

Það, sem ég legg hér til, er, að hafizt verði handa um að rannsaka þau svæði, sem til greina koma, taka sýni af vatninu og fá það viðurkennt erlendis. Það hefur þegar verið gert af einkaaðila hér og líkað vel, en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir enn þá. Þó er komið svo langt, að það er búið að móta hér innanlands hjá ákveðnu fyrirtæki gerð ákveðins vatnsbrúsa, sem mun taka hálft amerískt gallon, tæpa tvo lítra, og eru menn dálítið bjartsýnir um, að þetta sé fyrsta skref að því að geta flutt hér vatn út í stórum stíl. En til þess þarf nokkuð víðtækar rannsóknir, áður en slíkt getur hafizt, og er því nauðsynlegt að veita þeim aðilum fullan stuðning, sem hafa áhuga á að koma slíkum útflutningi á.

Hinn möguleikinn, sem fjallað er um og e.t.v. gæti orðið í mun stærri stíl, er sá, hvort kostur væri á að flytja vatnið út laust í tönkum. Það getur verið, að það líði of langur tími frá töku vatnsins, þar til það er komið í hendur neytenda eða á flöskur erlendis, og þess vegna sé þessi framkvæmd ekki möguleg. En báða möguleikana þarf að athuga gaumgæfilega og velja svo þann, sem gefur okkur hagkvæmari niðurstöðu og skapa hér nýja útflutningsgrein. Það er ekki nokkur vafi á því, að ef vel er að unnið, þá er það bara spurning um tíma, hvenær hægt verður að koma hreinu, íslenzku vatni á markað erlendis.

Það voru fregnir frá Þýzkalandi á s.l. ári um það, að þrjár borgir þyrftu að leggja í milljarðafjárfestingu til að tryggja sér hreint vatn, og var þá talað um að leggja leiðslu frá Sviss eða þá möguleika á leiðslum frá Svíþjóð. Fyrir tæpum tveimur árum, ef ég man rétt, var við hátíðlega athöfn í Strasbourg undirritaður svo kallaður vatnssamningur milli Evrópuþjóðanna til þess að tryggja það, að viðkomandi þjóðir ættu kost á sem hreinustum vatnsbólum vegna þeirrar þróunar, sem er að verða í Evrópu, að mengunin heldur innreið sína æ víðar og auknir erfiðleikar eru á því að tryggja stórborgunum hreint neyzluvatn. Það er því víða hugleitt, með hvaða hætti menn eiga kost á því að tryggja sér hreint neyzluvatn, og ég tel, að við eigum hér nokkra möguleika á Íslandi, og er því tímabært að fela Rannsóknaráði ríkisins athugun á slíkum svæðum og einnig að gefa sér tíma til athugunar á því, með hvaða hætti vatnið yrði flutt út.

Herra forseti. Ég mun ekki hafa þessa framsögu lengri, en þáltill. er til einnar umr., og legg ég til, að það verði gert hlé á henni og till. vísað til allshn.