23.02.1971
Sameinað þing: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

129. mál, útflutningur á framleiðluvörum gróðurhúsa

Flm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 151 er að finna till. til þál., sem ég hef leyft mér að flytja, og er tillgr. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka það rækilega, hvort möguleikar séu á útflutningi á framleiðsluvörum gróðurhúsa og þá sérstaklega blómum. Rannsókn þessari skal hraðað svo, að niðurstöður hennar geti legið fyrir næsta reglulegu Alþingi.“

Eins og fram kemur í grg. með till., hafa einstakir garðyrkjubændur gert tilraun til útflutnings á blómum, en í svo smáum stíl og af vanefnum undirbúið, að ekki er unnt að nema neina reynslu af þeim tilraunum, þótt ætla megi, að byggja mætti upp í framhaldi af þeim blómarækt við þær aðstæður og í því formi, að góðs árangurs mætti vænta af útflutningi. Þegar þess er gætt, að málefni af þessu tagi hafa ekki verið til umr. fyrr hér á hinu háa Alþingi, þykir mér rétt að rekja nokkuð þær hugmyndir, sem menn hafa áður og annars staðar sett fram um útflutning blóma.

Það mun hafa verið í ársbyrjun 1953, að prófessor Níels Dungal flutti erindi í Hinu íslenzka náttúrufræðifélagi um orkideurækt. Erindi þetta er prentað í 3. hefti Náttúrufræðingsins 1953. Þegar ég las erindi þetta, þótti mér það strax nýstárlegt og ánægjulegt og í hugleiðingum prófessorsins um ræktun og útflutning á orkideum kveða við nýjan tón um útflutning á landbúnaðarvörum. Ég hygg, að fullyrða megi, að prófessor Níels Dungal hafi haft nokkra faglega þekkingu á þessum málum. Sjálfur fékkst hann við ræktun í gróðurhúsum, og á mörgum ferðum sínum erlendis gafst honum tækifæri til að tala við blómaræktarmenn í ýmsum löndum og ræða við þá um möguleika á ræktun ýmissa tegunda og við ólík skilyrði. Þá hefur hann og rætt við fjölmarga erlenda menn um markaði og aðra þá þætti, sem varða útflutning á blómum. En niðurstaða prófessors Níelsar Dungal er í stuttu máli þessi, og vitna ég þá til eigin orða hans, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir:

„Ég skal ekkert um það segja, hvort það muni eiga eftir að borga sig að rækta orkideur fyrir innanlandsmarkað. Fólkið þarf að venjast notkun þessara blóma og spyr ekki eftir þeim, nema þegar þau eru til, og hefur enga hugmynd um þau né hvernig þau eru notuð. En sennilegt þykir mér, að sumar tegundir a.m.k. eigi eftir að verða markaðsvara hér, sérstaklega cymbidium. Þau blóm hafa marga og mikla kosti, í fyrsta lagi eru þau flestum fegurri og vel til þess fallin að prýða barm velbúinnar konu. Þau vaxa hér vel og blómstra, og blómin halda sér svo lengi, að hægt er að hafa þau á plöntunni vikum og mánuðum saman og bíða rólega tækifæris til að selja þau, en eru ekki eins og flest önnur blóm, sem verða að skerast og seljast strax, ef þau eiga ekki að fölna og visna. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að hér sé hægt að reka orkideurækt í stórum stíl sem atvinnuveg, sérstaklega eigum við að rækta odonto glossum og cymbidium og hvort tveggja til útflutnings. Sannleikurinn er sá, að þótt ameríski markaðurinn sé að fyllast af cattleyum, svo að það getur ekki lengur talizt mikill gróðavegur að rækta þær eins og hingað til hefur verið, þá er stöðugur og mikill markaður fyrir odonto glossum. Við gætum áreiðanlega selt odonto glossum fyrir milljónir dollara í Ameríku, ef við tækjum upp slíka rækt í stórum stíl og hefðum nógu góða fagmenn til þess að sjá um ræktunina.“

Þetta segir prófessor Níels Dungal. Við þessi orð þarf ég engu að bæta og legg engan dóm á réttmæti þeirra, en mér þykir rétt að vekja athygli á þeim, þegar rætt er um þetta fjölþætta mál.

Þá þykir mér rétt að vekja athygli á því, að nokkrir garðyrkjubændur hafa gert tilraunir til þess að flytja út blóm. Á þeirri starfsemi hefur ekki orðið framhald, enda voru þær tilraunir gerðar í smáum stíl og án nauðsynlegs undirbúnings og skipulagningar heima fyrir og erlendis. Ráðunautarnir Axel Magnússon og Óli Valur Hansson hafa skýrt mér frá athugunum, sem þeir hafa hvor í sínu lagi gert til þess að kanna möguleika á útflutningi framleiðsluvara gróðurhúsanna. Þeir hafa rætt þetta við starfsbræður sína erlendis og blómakaupmenn og gert margs konar samanburð á verði varanna og aðstöðu við ræktun. Hér heima fyrir þarf að kanna og gera áætlanir að nýju um furðumarga þætti þessa máls, svo sem val á tegundum til ræktunar, gerð og stærð gróðurhúsanna sjálfra, svo og stærðir framleiðslustöðvanna. Þá þarf og að tryggja, að verði á jarðhitanum og aðstöðu til nýtingar hans verði stillt í hóf og einnig verði á raforku, sem trúlega þarf að nýta í stórum stíl til lýsingar, svo að vetrarnóttin verði ekki sá þrándur í götu þessum atvinnuvegi, sem margur ætlar, að hún verði alla tíð. En það þarf ekki að vera, ef rétt er á málum haldið, því að sannað er, að rafljós gegna hér stóru hlutverki við blómarækt, og mun ég koma nánar að því síðar.

Þá þykir mér rétt að kynna lítillega hugmyndir um ræktun og útflutning blóma, sem Sveinbjörn Björnsson eðlisfræðingur hefur sett fram og er að finna í grein eftir hann í Morgunblaðinu 20. des. 1969. Sveinbjörn Björnsson sótti skömmu áður ráðstefnu um kjarnorkuver, þar sem m.a. var fjallað um sölu á raforku og gufu til stóriðju og hugsanlega nýtingu á heitu vatni til gróður- og fiskiræktar. Sveinbjörn telur, að ýmsar hugmyndir og nýjungar, sem komu fram á ráðstefnunni, geti komið að notum við nýtingu jarðhita hér heima. Þær hugmyndir, sem Sveinbjörn Björnsson setur fram í blaðagrein þeirri, sem ég gat um, þykja mér hinar athyglisverðustu og það svo, að mér virðist nauðsynlegt að kanna þær nánar af þeim mönnum, sem bezta þekkingu hafa á ylrækt og blómarækt og væntanlega verða valdir til þeirra rannsóknarstarfa í nefnd, sem umrædd till. mín til þál. gerir ráð fyrir.

Ég sé ástæðu til að kynna þessar hugmyndir lauslega hér til þess að vekja á þeim athygli, og kýs ég að gera það með því að vitna til eigin orða Sveinbjarnar Björnssonar, með leyfi hæstv. forseta. Sveinbjörn segir svo:

„Nýting jarðhita til gróðurræktar hefur hingað til verið í mjög smáum stíl og miðast eingöngu við innlendan markað. Með inngöngu Íslands í EFTA gæti hins vegar opnazt markaður 100 millj. neytenda fyrir þessar afurðir, og gæti það breytt viðhorfunum um alla framleiðslu og rekstur. Þessi stóriðja yrði að því leyti hagkvæmari okkur en efnaiðja, að hún þyrfti að öllum líkindum hlutfallslega minna stofnfé og meira vinnuaf! en verksmiðjur til sjóefnavinnslu, magnesiumvinnslu eða álbræðslu.“

Enn fremur segir Sveinbjörn:

„Stóriðja gæfi tækifæri til hagnýtingar ýmissa tækninýjunga í ræktun, sem ekki þykja arðbærar eða framkvæmanlegar, þegar reksturinn er í smáum stíl, og verða hér tínd til nokkur dæmi.

Stuttur sólartími á vetrum veldur erfiðleikum í gróðurrækt hér. Ef raforka er ódýr, mætti e.t.v. bæta nokkuð um með raflýsingu, einkum ef notaðir eru lampar, sem gefa frá sér mestan hluta ljósorkunnar í bláum og rauðum bylgjulengdum, sem nýtast plöntunni bezt til kolsýruvinnslu. til eru einnig fluorsent, sem bera má á fleti. Þessi efni drekka í sig sólarljós og rafljós og breyta þeim í ljós með bylgjulengdum, sem plantan nýtir bezt. Með þessum efnum mætti auka nýtingu á því litla sólskini, sem fáanlegt er á vetrum. Tilraunir hafa sýnt aukna blómgun og ávaxtaframleiðslu og í öðrum tilvikum hraðari vöxt og stærri laufblöð, þegar plöntur eru lýstar á þennan hátt. Þá hafa verið gerðar tilraunir til að örva vöxt með því að bæta kolsýru í loft í gróðurhúsum, og hafa þær gefið góða raun. Á jarðhitasvæðum er yfirleitt mikið um kolsýru í vatni og auðvelt að koma þessari tækni við.“

Enn segir Sveinbjörn Björnsson um einn þátt til viðbótar í þessum efnum:

„Goodyear Rubber fyrirtækið framleiðir hús úr gegnsæju plasti, sem blásin eru upp með lofti. Eitt hús án súlna getur þakið tvo hektara lands. Byggingarkostnaður á fermetra er nú um helmingur af kostnaði við venjulega gerð gróðurhúsa, en mun lækka verulega, þegar skriður kemst á framleiðsluna. Vinna má inni í húsunum með öllum landbúnaðarvélum, og gefur það tækifæri til stórtækari vinnslu.“

Ég hef kynnt þessar hugleiðingar Sveinbjarnar Björnssonar, til þess að það liggi ljóst fyrir, að þær hafa komið fram, og hvort sem við lítum á þær sem raunsæjar eða ekki, þá er fyllilega ástæða til að kanna þær og nýta þær, ef þær reynast vera nothæfar. Það er komið hér inn á ýmsar nýjungar, sem sérfræðingar þurfa um að fjalla. Sumt af því er vel þekkt hér heima, en aðra þætti mætti kanna nánar og þá í ljósi þess, að í stóriðju má ná árangri með dýrari stofnaðgerðum en unnt er að koma á við smærri framleiðslustöðvar. Að lokum segir Sveinbjörn Björnsson svo:

„Ef áhugi er á frekari könnun þessa máls, væri e.t.v. bezt að stofna til fámenns umræðuhóps landbúnaðarsérfræðinga, garðyrkjumanna, verkfræðinga og sölumanna, sem ynnu úr þessum hugmyndum raunhæfar tillögur og hönnuðu rannsóknarverk, sem síðan yrðu falin ráðgefandi verkfræðingum til endanlegrar athugunar á vænlegum leiðum til stóriðju á þessu sviði.“

Ég hef talið rétt að kynna hv. alþm. þessar hugmyndir, eins og ég áðan sagði, og ég vænti þess, að mönnum sýnist eins og mér, að þetta mál sé þess vert að kanna það og kanna það til hlítar. Ég ætla, að hér geti verið um eins konar stóriðju að ræða, eins og fram hefur komið í ræðu minni. Ef sú stóriðja kemst á, þá hefur hún þá sérstöðu, að hún tekur til sín allmikinn vinnukraft, en tiltölulega lítil stofnfjárframlög, og enn fremur ber að minna á það, að þeirri stóriðju fylgir ekki mengunarhætta, svo að teljandi sé.

Herra forseti. Ég tel, að ekki sé ástæða til að hafa fleiri orð um þá till., sem hér liggur fyrir til umr., nema sérstakt tilefni gefist til, og spara mér því frekari orðræður í bili, en ég legg til, að á einhverju stigi þessarar umr. verði umr. frestað og till. vísað til allshn.