09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

1. mál, fjárlög 1971

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir rétt í sambandi við þessa till. að gera nokkra grein fyrir því fyrirtæki, sem hér er um að ræða, því það er rétt, sem frsm. till. sagði, að hér mun vera um að ræða stærstu framkvæmd einstaks sveitarfélags utan Reykjavíkur. Það er einnig rétt, að þetta er nokkuð sérstakt fyrirtæki og átti sér fram að síðasta ári enga hliðstæðu, að því er ég bezt veit, í Evrópu. Það var fyrst árið 1969, að sams konar leiðsla og hér er um að ræða var lögð út í eyjar við Júgóslavíu. Þannig var, að Vestmanneyingar voru fyrstir til að ryðja braut vatnsleiðslulögn af þeirri gerð, sem hér er um að ræða, og sérfræðingar telja, að muni eiga eftir að ryðja sér til rúms víðar. Alþ. hefur frá fyrstu tíð, að ég tel, veitt fyrirtækinu verulega fyrirgreiðslu. Það hefur staðið Vestmanneyingum til boða að fá þær ríkisábyrgðir, sem á hefur þurft að halda, en fram að þessu hefur þess ekki þurft með, því þau lán, sem hafa verið tekin, hafa fengizt án ríkisábyrgðar, eingöngu með ábyrgð Vestmannaeyjakaupstaðar. Mér þykir því til hlýða eins og ég sagði í upphafi, að gera nokkuð grein fyrir þessu fyrirtæki, svo hv. alþm. geti áttað sig á því, hvað þarna hefur verið að gerast og hvað mun gerast á næsta ári.

Það má segja, að vatnsveitan hafi á undanförnum árum verið byggð í ákveðnum áföngum. Fyrsti áfanginn var 1967, þegar leiðslan var lögð frá uppsprettu í brekkum lands, sem var í eigu Syðstu-Merkur, og fram í Landeyjasand. Þetta var venjuleg vatnsveituframkvæmd, þ. e. a. s. leiðslan var þarna grafin niður í jarðveginn og lögð um 22 km leið til sjávar. Annar áfangi varð 1968 þegar 4 tommu neðansjávarleiðsla var lögð frá Landeyjasandi og út í Eyjar. Þriðji áfangi má telja, að orðið hafi á árinu 1969, þegar byggð var sú dælustöð, sem á að gera það kleift, að þegar á því þarf að halda, þá sé hægt að auka flutningsgetu þeirrar leiðslu og þeirra leiðslna, sem lagðar verða í framtíðinni, mjög mikið, eins og nú er a. m. k. að þrefalda flutningsgetuna. Á árunum frá 1967 og til dagsins í dag, og svo mun einnig vera árið 1971, hefur verið unnið kerfisbundið að bæjarkerfinu, þannig að við teljum okkur sjá fram á, að á næsta ári verði búið að tengja öll hús í kaupstaðnum við vatnsveitukerfið. Hafizt var handa um byggingu vatnsgeymis, 5000 tonna vatnsgeymis, á árinu 1969 og standa vonir til, að því verki verði lokið á næsta ári eða á árinu 1971. Heildarkostnaður er, eftir því sem reikningar vatnsveitunnar sýna í árslok 1969 og að því viðbættu, sem vitað er að kostnaðurinn hefur orðið á þessu ári, þá er heildarkostnaður orðinn um 140 millj. kr. Þar af mun kostnaður við bæjarkerfið vera um 42 millj. Stofnæð og það, sem henni fylgdi og talið er styrkhæft samkvæmt vatnsveitulögum er því aðeins knappar 100 millj. kr., að því bezt verður séð nú í dag. Þetta fyrirtæki hefur verið fjármagnað þannig, að danska fyrirtækið NKT, Nordiske Kabel- og Trådfabrikker, sem framleiðir neðansjávarleiðslur, þá neðansjávarleiðslu, sem keypt hefur verið, lánaði allt andvirði leiðslunnar til 10 ára og varð kostnaðarverð hennar 36 millj. ísl. kr. miðað við gengið í dag. Lánasjóður sveitarfélaga mun hafa lánað um 23 millj. kr. til vatnsveitunnar, Atvinnujöfnunarsjóður 8 millj. kr. og Brunabótafélag Íslands um 2½ millj. Og lán hjá Hambros Bank, sem upphaflega var 12 millj. eða röskar 12 millj., er nú að eftirstöðvum um 4 millj., en lán Hambros Bank og lán Atvinnujöfnunarsjóðs eru bráðabirgðalán, sem þarf að greiða upp á mjög skömmum tíma, önnur lán eru til 10 og 15 ára. Framlag ríkissjóðs, að meðtöldu árinu 1970, nemur 16 millj. og 700 þús. kr. og skiptist þannig, að árið 1967 voru veittar 3 millj. á fjárlögum, árið 1968 2.7 millj., árið 1969 5.5 millj. og árið 1970 aftur 5.5 millj.; og er nú gert ráð fyrir eftir till. rn., að sama upphæð verði veitt árið 1971 á fjárlögum. Það skal tekið fram, að auk þessa beina framlags á fjárlögum hefur Alþ. samþ. heimild til handa fjmrh. að veita eða endurgreiða eins og það mun heita í 6. gr. fjárlaga, að endurgreiða aðflutningsgjöld af aðkeyptu erlendu efni, og er þar um að ræða bæði neðansjávarleiðsluna og eins það erlenda efni, sem flutt er til dælustöðvarinnar á Landeyjasandi. Ég hef það ekki handbært, hvað miklu þetta nemur, en það mun vera að sjálfsögðu um verulega upphæð að ræða, þar sem þarna mun vera erlent efni, sem nemur andvirði 45–50 millj. ísl. króna. Samkvæmt þessu, og kemur það heim við reikninga vatnsveitunnar, hefur bæjarsjóður lagt fram um 50 millj., sem tekið hefur verið með álögðum útsvörum á bæjarbúa. Þetta er, eins og málin standa nú í dag og í stórum dráttum, það sem gerzt hefur í þessu máli frá upphafi.

Ég hef áður hér við afgreiðslu fjárlaga rakið undirbúning málsins, sem tók alllangan tíma og var, að ég hygg, að flestra dómi mjög vandað til, og ætla ég því ekki að endurtaka það nú. En þá kemur að því, sem ég mundi kalla 4. áfanga, en það er lögn nýrrar neðansjávarleiðslu frá Landeyjasandi og út í Eyjar, og er þar um að ræða mun sverari leiðslu heldur en þá, sem nú er, eða 7 tommu leiðslu í stað fjögurra tommu leiðslu, sem áður var lögð. Kostnaður þessarar leiðslu mun vera um 60 millj. og er þá átt við leiðsluna fulllagða og frágengna, en ekki er þar reiknað með aðflutningsgjöldum. Lánsloforð hefur fengizt fyrir andvirði þessarar leiðslu að mörgu leyti mjög hagstætt, en til þess að hægt sé að notfæra, eða til þess að Vestmanneyingar geti notfært sér það lán, þarf á sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs að halda, og hefur það mál verið rætt bæði af mér og bæjaryfirvöldum heima við hæstv. fjmrh. Við áttum- þess kost í haust, þegar verið var að semja um kaup á þessari leiðslu við hið danska fyrirtæki, að fá fyrir andvirði hennar danskt lán, en það var í alla staði miklu óhagstæðara heldur en það lán, sem síðar fékkst hjá Scandinavian Bank í London.

Eins og fram kemur af þessu, standa vonir til, að þetta stóra fyrirtæki, ég segi risafyrirtæki á mælikvarða ekki stærra bæjarfélags, að það verði komið, sem við teljum, í heila höfn í árslok 1971. Flutningsgeta þeirra tveggja leiðslna, sem þarna verður um að ræða, fjögurra tommu leiðslunnar, sem lögð var 1968, og þeirrar leiðslu, sem fyrirhugað er að leggja á árinu 1971, er samtals á milli 5500 og 6000 tonn á sólarhring, og er þá miðað við, að leiðslurnar séu báðar fullnýttar með þeirri dælustöð, sem fyrir hendi er uppi í Landeyjasandi. Þetta vill segja, að miðað við, að Vestmannaeyjabær þróist eðlilega og fiskiðnaður fari þar vaxandi, þá hygg ég, að menn geri almennt ráð fyrir, að búið sé að sjá þessum málum borgið fyrir byggðarlagið, bæði neyzluvatnsþörf bæjarbúa og þörf fiskiðnaðarins, um það bil 20 ár fram í tímann. Þetta mál var, eins og ég sagði í upphafi, mjög vel athugað, áður en út í það var farið, því að við gerðum okkur það ljóst strax í upphafi, að þarna var um mjög fjárfrekt fyrirtæki að ræða og þess vegna yrði til þess að vanda eins og frekast var kostur, og aðstæður væru alveg sérstæðar, þar sem þurfti að leggja leiðsluna 12 km veg frá Landeyjasandi og út í Eyjar á hafsbotninn, þar sem vitað er, að brim getur orðið einna mest hér við strendur landsins. En þeir erlendu sérfræðingar og reyndar innlendir líka, sem fengnir hafa verið til þess að skoða þetta mál og þær leiðslur, sem keyptar hafa verið, telja, að leiðslurnar muni standast þá raun, sem þeim er ætlað, og höfum við ekki ástæðu til þess að ætla, að um bilun verði að ræða. Ég skal sérstaklega, vegna þess að hv. þm. hafa eflaust tekið eftir því og frétt það, að talið var, að um bilun á leiðslunni hefði verið að ræða í mynni Vestmannaeyjahafnar nú í haust, geta þess, að það er ekki neitt í sambandi við framleiðslu leiðslunnar sjálfrar eða styrkleika hennar. Það urðu þarna tæknileg mistök, þegar leiðslan var lögð. Hún var lögð í boga til að forðast vissan hluta innsiglingarinnar, hún var lögð í boga upp undir berg, sem er norðan megin við innsiglinguna og verkaði þannig, að straumdráttur myndaðist þar, sérstaklega þegar brim voru. Sjórinn frá berginu féll niður á grynnra vatn heldur en er þó í innsiglingunni sjálfri og varð til þess, að nokkur hreyfing komst á leiðsluna. Hún lá þar við steinklöpp. Þetta sýndi sig, þegar leiðslan var skoðuð, og hafði yzta borð hennar lítils háttar skaddazt. En ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að hvorki við sjálfir né þeir aðilar, sem hafa verið okkar trúnaðarmenn, erlendir og innlendir, telji, að nokkur hætta sé á, að leiðslan bili við eðlilegar aðstæður og eins og reiknað var með frá upphafi, og sú nýja leiðsla, sem verður lögð næsta sumar, verður ekki lögð þá leið inn um hafnarmynnið, sem fyrri leiðslan var lögð, og má segja, að það hafi að vissu marki verið heppilegt, að þetta skyldi þó koma í ljós, því að það hefði orðið erfiðara viðureignar, hefðu báðar leiðslurnar legið þá leið, sem valin var fyrir hina fyrri leiðslu.

Ég skal geta þess að lokum, að ég skrifaði fjvn. í haust, eftir að hún hafði hafið störf sín, og fór fram á, að framlag til Vatnsveitu Vestmannaeyja yrði hækkað. N. hefur ekki enn eða lauk ekki fyrir 2. umr. að afgreiða það erindi, en ég vænti þess, að hún taki það til athugunar nú fyrir 3. umr.