02.03.1971
Sameinað þing: 29. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3550)

141. mál, flöskuverksmiðja á Íslandi

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Á þskj. 173 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi þáltill. um athugun á byggingu og rekstri flöskuverksmiðju á Íslandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna, hvort tiltækilegt sé að byggja og reka flöskuverksmiðju á Íslandi. Sérstaklega skal haft í huga við þá könnun, hvort ekki sé unnt að nýta fyrir starfsemi umræddrar verksmiðju að einhverju eða öllu leyti eitthvað af byggingum Síldarverksmiðja ríkisins, sem nú standa ónotaðar víða um land.“

Í grg., sem fylgir þessari till., rifja ég upp, að Íslendingar hafa flutt inn árið 1969 tómar flöskur og önnur glerílát fyrir ca. 12 millj. kr., og svo virðist sem upphæð sú fari hækkandi, er við greiðum erlendum fyrirtækjum fyrir þennan varning. Á s.l. sumri skoðaði ég flöskuverksmiðjur í Póllandi og Frakklandi, misjafnar að stærð og öllum útbúnaði, og þá vaknaði á ný þessi spurning, sem áður hafði leitað á hug minn: Getum við ekki framleitt hér á landi þær flöskur og önnur glerílát, sem iðnfyrirtæki okkar og lyfsalar þarfnast?

Ég hef minnzt á það á öðrum stað, að fyrir um 40 árum reistu nokkrir Reykvíkingar flöskuverksmiðju hér í Reykjavík og hófu rekstur hennar í trausti þess, að nægilegur markaður væri hérlendis fyrir framleiðslu verksmiðjunnar. Þessi von brást. Nú eftir fjóra áratugi er fyllsta ástæða til þess að kanna, hvort ekki sé tími til kominn að athuga möguleika á byggingu og rekstri nefndrar verksmiðju á ný. Þess ber hér að geta, að fram hefur farið hjá Rannsóknastofnun iðnaðarins hér í borg athugun á þessu máli, og til er yfirlit og grg. þar að lútandi. Ég hef rætt þetta mál allítarlega við forstjóra stofnunarinnar, Pétur Sigurjónsson, og dr. Ásbjörn Einarsson efnafræðing og nú síðast við Guðmund óskarsson verkfræðing. Allir hafa þeir fyllsta skilning og áhuga á þessu máli, og í ljós hefur komið, að þeir eru bjartsýnir varðandi þetta mál, stofnun og rekstur flöskuverksmiðju, en um staðsetningu verksmiðjunnar var ekki rætt. Um hana hafa menn sjálfsagt skiptar skoðanir. Það er unnt að fá vélasamstæðu, sem hæfir okkar kröfum, þriggja tonna sólarhringsframleiðslu, en í dag er markaður fyrir ca. tveggja og hálfs tonns sólarhringsframleiðslu. Slík verksmiðja ætti að framleiða allar flöskur, er Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins þyrfti á að halda, Lyfjaverzlun ríkisins, Mjólkursamsalan, ölgerðir og efnagerðir í landinu svo og aðrar flöskur, sem með þarf. Öll glös undir lyf, vatnsglös, krukkur t.d. fyrir hrogn eða kavíar og aðrar niðursuðuvörur og ýmislegt fleira.

Ég er ekki á þessu stigi málsins bjartsýnn um, að um útflutning geti verið að ræða, a.m.k. ekki fyrstu árin, en þó verður að telja, að um nokkurn markað gæti e.t.v. síðar orðið að ræða, bæði í Grænlandi og Færeyjum, en í þessum tveimur löndum er mikið notað af glerumbúðum undir sjávarvörur.

Hráefnisöflun fyrir umrædda verksmiðju er þýðingarmikið atriði. Svo virðist í fyrstu, að við þyrftum að kaupa allt hráefni til flöskugerðar erlendis frá eða hluta þess. Þó vaknar sú spurning: Er hluti þess til hér á landi og þá hvar? Tæknileg rannsókn þarf að fara fram á þessu sviði sem fyrst. Er eitthvað af okkar sandi nýtilegt til framleiðslunnar, eða er hann of leirkenndur? Er hægt að þvo hann, og hvað kostar það? Þannig mætti lengi spyrja. Eru hér finnanleg og fáanleg skeljalög, sem unnt væri að mala og blanda í hráefnið? Það er vitað, að ýmis efni eins og natríumsódi og dólomít eru notuð við flöskugerð, en efni þessi þarf að flytja inn, en í tiltölulega litlum mæli, eftir því sem kunnugir menn upplýsa.

Ég hef ekki í höndum, hve margar flöskur og hve mörg glös hafa verið flutt til landsins á s.l. árum, en stykkin skipta milljónum hvert ár. Allmikið er hér um endursölu að ræða. Þannig kaupa ölgerðirnar aftur verulegt magn af ölflöskum, en þó ganga þær úr sér. Allar gamlar flöskur, hvort sem þær eru undan öli eða öðru, sem eru ekki seljanlegar og nýtilegar, er unnt að bræða upp, sömuleiðis annað gler, sem unnt væri að koma með og selja til þessarar verksmiðju. Þetta er hægt að bræða upp í nýjar flöskur, eins og þessi verksmiðja er fyrirhuguð.

Ég hef í blaðagrein látið orð falla um það, að eigi væri eins vandasamt að framleiða flöskur og rúðugler. Var þetta gert að gefnu tilefni, þar sem nokkur ótrú hefur ríkt varðandi glergerð á Íslandi. Engu að síður er mér ljóst, að framleiðsla flaskna og annarra gleríláta krefst sérþekkingar. Það þarf að fylgjast vel með veggþykkt þeirra, stútlagi og hvernig þær þola þrýsting og yfirleitt frágangi öllum, en ég er viss um, að við Íslendingar eigum það mikið af tæknimenntuðum mönnum, að við ráðum vel við þessa hlið málsins.

Ég minntist á Guðmund Óskarsson verkfræðing. Hann hefur samkv. ósk minni látið gera mjög ítarlega skýrslu um þetta mál, og er þar reiknað með nokkru stærri verksmiðju en ég greindi frá hér áðan. Ég talaði um verksmiðju, þar sem væri þriggja tonna sólarhringsframleiðsla, sem þýðir svona 1000–1200 tonna framleiðsla á ári, en Guðmundur Óskarsson verkfræðingur hefur gert samkv. ósk minni till. eða frumathugun um flöskuverksmiðju, sem væri af stærðinni um 2000 tonn. En ég held, að ég fari rétt með það, að notkun okkar núna sé um 81x1 tonn. Segja má, að sú verksmiðja, sem hann athugaði, sé nokkru stærri en við hefðum not fyrir í dag.

Guðmundur Óskarsson segir, að þessi skýrsla sín sé byggð á upplýsingum, sem hann og hans félagar hafi aflað á liðnum árum með bréfaskriftum við vélaframleiðendur og hönnuði verksmiðja svipaðra og hér um ræðir, þ.e. 2000 tonna verksmiðjur. Kostnaður er áætlaður í hærra lagi miðað við ofangreindar upplýsingar, og ættu niðurstöður því ekki að gefa of bjarta mynd. Við endanlega skýrslugerð er sjálfsagt að styðjast við tilboð í vélar og hráefni frá fleiri en einum aðila og áætla nánar ýmsa rekstrarliði svo sem launakostnað, orkuverð og annað, sem máli skiptir, en sumt af þessu er aðeins lauslega kannað. Það er nauðsynlegt, segir verkfræðingurinn hér í skýrslunni, að athuga nánar, hvort unnt sé að fá afkastaminni vélar en hann gerir hér ráð fyrir, ódýrari vélar og ekki eins mannfrekar og þessi áætlun gerir ráð fyrir. Ég vil skjóta því inn í, að verkfræðingarnir, sem ég minntist á áðan, Pétur Sigurjónsson og dr. Ásbjörn Einarsson, fullyrða, að það sé hægt að fá það litlar vélar, að þær afkasti aðeins þremur tonnum á sólarhring, en engu síður þó að hér sé um stærri verksmiðju að ræða, er fróðlegt að vita, hvernig útkoman er hugsuð. Nauðsynlegt framleiðslumagn til þess að standa undir rekstrarkostnaði og skila sæmilegum tekjuafgangi virðist vera 2000 tonn af glerílátum á ári miðað við núverandi tollvernd og aðrar forsendur, sem gefnar eru. En eins og ég tók fram áðan, þá erum við aðeins með 800 tonna notkun í dag.

Guðmundur Óskarsson verkfræðingur segir í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Meðaltal innflutningsins undanfarin fimm ár er 800 tonn, en í fyrra var hann á sjöunda hundrað tonn og hafði hækkað nokkuð frá árinu áður. Með hliðsjón af ofangreindu virðist rekstrargrundvöllur því ekki vera fyrir verksmiðju af þessari stærð miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja um afköst véla, verð þeirra óg annað, er snertir reksturinn. Áformuð er aukin flöskunotkun hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins vegna eigin töppunar áfengis, og niðurlagning á hrognum og ýmiss konar matvörum mun aukast. Hér er ekki ósennilegt, að notkunin geti orðið 1200 tonn á ári innan 2–3 ára.“

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að það er fyrir neðan allar hellur, að við skulum flytja út hrogn í stórum stíl eins og við gerum í dag í staðinn fyrir að fullvinna þau og flytja þau síðan út í glerílátum sem kavíar. Ánægjulegt er til þess að vita, að nú er byrjað að flytja út og vinna hrogn sem íslenzkan kavíar, og líkar erlendum kaupendum varan mjög vel.

Ég hef í þessari þáltill. minnzt á Skagaströnd eða Siglufjörð sem hugsanlega staði fyrir flöskuverksmiðju. Ég vil aðeins í framhaldi af því segja þetta: Skagaströnd og Siglufjörður byggja afkomu sína að verulegu leyti á útgerð og vinnslu sjávarafurða. Tilfinnanlega hefur skort iðnrekstur norðanlands, sem skapar grundvöll jafnrar atvinnu allt árið. Verksmiðja sem þessi, flöskuverksmiðja, mundi hafa töluverð áhrif á allt atvinnulíf á hvorum þessara staða sem er. Í kjölfar hennar ykist verzlun, vinna á viðgerðarverkstæðum og flutningafyrirtæki o.fl. fengju meira að gera. Fleiri fá vinnu við sitt hæfi. Í stað þess, að íbúafjöldi stendur í stað eða minnkar, mun fólki fjölga. Tekjur sveitarfélagsins munu aukast með hinu nýja fyrirtæki og eflingu þeirra, sem fyrir eru, og staðurinn, sem yrði fyrir valinu, yrði á allan hátt búsældarlegri.

Verkfræðingurinn, sem ég vitna hér til, Guðmundur Óskarsson, gerir ráð fyrir, að umrædd verksmiðja yrði rekin með hagnaði og unnið yrði í henni a.m.k. 334 daga á ári. Vaktavinna verði allan sólarhringinn og um 85% nýting, en reikna má með framleiðslutöfum, þegar skipt er um mót og annað þess háttar. Hann segir um markaðinn:

„Ekki hefur verið gerð nema mjög takmörkuð markaðsathugun, og sennilega er heildarnotkun í dag ekki meira en 50% af afkastagetu þessarar verksmiðju. Með aukinni niðurlagningu, þar sem glerílát eru enn þá það bezta, og aukinni flöskunotkun getur þetta hlutfall breytzt verulega. Reynslan erlendis er einnig sú, að eftirspurn eftir framleiðsluvörum eykst verulega, eftir að verksmiðja sem þessi tekur til starfa.“

Hann kemst að þeirri niðurstöðu, að vélar, sem eru miðaðar við að geta framleitt flöskur og krukkur af mjög breytilegri stærð eða allt frá 4 grömmum að eigin þyngd og upp í 1700 grömm, muni kosta um 38 millj. kr. Og hann telur, að 10 millj. kr. þurfi í rekstrarfé, þannig að fjárþörfin sé: beinn stofnkostnaður 38 millj. kr. og rekstrarfé 10 millj. kr. Þá gerir hann ekki ráð fyrir því, að byggt sé yfir fyrirtækið, en telur, að byggingarkostnaður eða kostnaður við að byggja verksmiðjuhús yfir slíka verksmiðju sem þessa mundi verða um 25 millj. Hann gerir ráð fyrir, að söluverðmæti framleiðslunnar mundi verða um 58 millj. kr. Flöskur væri hægt að selja fyrir 11.9 millj., glös fyrir 4 millj., gos- og pilsnerflöskur fyrir 3.6 millj., krukkur fyrir 6 millj. og krukkur og aðrar flöskur fyrir 4.5 millj. Þetta eru 30 millj., og síðan bætir hann við öðrum tegundum flaskna og bjórflöskum fyrir um 28 millj., þannig að framleiðslan, ef tækist að selja hana, yrði fyrir um 58 millj. kr. Árleg hráefnisþörf er áætluð 2500 tonn af sandi og öðrum efnum til að framleiða 200 tonn nettó af flöskum og krukkum. Verð á hráefni komið í verksmiðju er áætlað 2400 kr. pr. tonn, þannig að kostnaður, hráefniskostnaður, verður 61/2 millj. kr. Miðað við, að 40 manns vinni í verksmiðjunni og unnið verði á þremur vöktum og sex manns starfi á skrifstofu og við yfirstjórn, þá telst mér svo til að vinnulaun verði um 16.8 millj. kr. Síðan er í skýrslunni sundurliðað ýmislegt annað, smurolíur, viðhald, efni og annað þess háttar, sem ég ætla ekki að ræða nánar. Niðurstaða verkfræðingsins er, að um 7 millj. kr. hagnað gæti orðið að ræða af verksmiðju eins og hann hefur rætt hér um, verksmiðju, sem vinnur og skilar um 2000 tonnum á ári.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar hér um þessa till., en vil að lokum minna á, að lögin um iðnþróunarsjóð gera ráð fyrir að lána til byggingar nýrra verksmiðja og styðja við bakið á nýjum framleiðslugreinum landsmanna. Með það í huga og svo það, að okkur finnst þörf á að auka fjölbreytni í framleiðslu okkar, þá óska ég þess, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til allshn.