09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

1. mál, fjárlög 1971

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. ásamt öðrum þm. Alþb. Flestar þessar brtt. eru á þskj. 228, en ein mun vera á þskj. 227. Ég skal nú gera grein fyrir þessum brtt. í stuttu máli.

1. till., sem ég flyt ásamt Gils Guðmundssyni, er um það, að tekinn verði upp liður í fjárl., sem nemi 5 millj. kr., stofnkostnaður fiskiðnskóla. Ég veit, að það er öllum hv. þm. fullkunnugt, að mikið hefur verið um það rætt nú um alllanga hríð að koma upp fiskiðnskóla. Það hafa verið skipaðar nokkrar n. til þess að kynna sér málið, og alltaf hefur verið unnið að athugun á málinu, eins og það hefur verið orðað hér á hv. Alþ., en okkur sýnist nú vera kominn tími til þess, að Alþ. taki ákvörðun um það, að slíkur skóli skuli byggður með því að áætla á fjárl. næsta árs ákveðna fjárhæð til byggingar skólans. Auðvitað er hér aðeins um fyrstu fjárveitingu að ræða, en við teljum, að kominn sé tími til þess, að Alþ. taki skýlausa afstöðu til þessa máls með því að áætla þessa upphæð til byggingar skólans.

Í öðru lagi flyt ég svo brtt. í þremur liðum, með Jónasi Árnasyni og Steingrími Pálssyni. Í fyrsta lagi, að framlag ríkisins til félagsheimilasjóðs verði hækkað úr 15 millj. kr. í 20 millj. kr.. En það er öllum hv. þm. kunnugt, að félagsheimilasjóður stendur í miklum skuldum við fjöldamörg félagsheimili í landinu, sem síðan eiga aftur í miklum fjárhagserfiðleikum, vegna þess að það hefur staðið á framlagi sjóðsins til bygginganna. Í öðru lagi flytjum við svo till. um það, að framlag ríkisins til íþróttasjóðs verði hækkað úr 5 millj. kr. í 10 millj., en þar er svipað ástatt og með félagsheimilasjóð, að það hefur einnig staðið stórlega á framlögum sjóðsins til þeirra framkvæmda, sem hann hefur ákveðið að styðja. Í þriðja lagi leggjum við svo til, að tekinn verði upp nýr liður, svo hljóðandi:

„Sérstakur stuðningur við íþróttastarfsemina í landinu, sem sé varið í samráði við ÍSÍ og UMFÍ, 5 millj. kr.“

Það fer ekki á milli mála, að íþróttahreyfingin í landinu er þess makleg, að hún sé studd frekar en gert er, og það er heldur enginn vafi á því, að hún þarf verulega á auknum fjármunum að halda í þeirri dýrtíð, sem nú er orðin, ef hún á að geta haldið uppi a. m. k. þeirri starfsemi, sem hún hefur verið að fást við á undanförnum árum. Af því leggjum við til, að þessi fjárveiting komi til nú að þessu sinni til þessara aðila.

Í þriðja lagi flyt ég svo ásamt Gils Guðmundssyni till. um það, að fjárveiting til sumardvalarheimila, dagheimila og vistheimila verði hækkuð úr 900 þús. kr. í 2 millj. kr., en það fer auðvitað ekki á milli mála, að þátttaka ríkisins í rekstri þessara þörfu stofnana, sem nú eru reknar viða um land, er orðin allt of lítil og í rauninni hinu opinbera til skammar. Hér er um mjög þýðingarmikla starfsemi að ræða, sem hvílir orðið mjög þungt á flestum sveitar- og bæjarfélögum í landinu og á samtökum áhugafólks, sem hefur fundið þörfina á því að reka þessar stofnanir, og hefði í rauninni verið full ástæða til þess, að ríkið styrkti þessa starfsemi á svipaðan hátt og ríkið styrkir almenna skólastarfsemi í landinu. En hér er nú aðeins lagt til að auka framlög ríkisins að nokkrum hluta til þessarar þörfu starfsemi.

Í fjórða lagi flyt ég svo till. með Jónasi Árnasyni um það, að varið verði til tilrauna með nýjar heyverkunaraðferðir á næsta ári 2 millj. kr. Alþ. gerði samþykkt á síðasta ári um það, að það teldi mjög nauðsynlegt að styrkja tilraunir í þessu skyni, og það hafa að sjálfsögðu farið hér fram nokkrar rannsóknir í þessa átt. En það er enginn vafi á því að okkar dómi, að hér þarf að leggja fram miklu meira fé en gert hefur verið, ef á að fást sæmileg lausn á þessu mikla vandamáli, sem hér er um að ræða.

Í fimmta lagi flyt ég svo hér till., ásamt Þórarni Þórarinssyni, um það að greiða Benedikt Gíslasyni frá Hofteigi í viðurkenningarskyni fyrir heyverkunartilraunir 150 þús. kr. Það þarf ekki mörgum orðum að fara um þessa till. Ég veit, að allir hv. alþm. hafa fylgzt með þeim merkilegu tilraunum, sem Benedikt Gíslason frá Hofteigi, sá mikli áhugamaður um landbúnaðarmál, hefur staðið fyrir að undanförnu. Það fer ekki á milli mála, að Benedikt hefur í þessum efnum lagt í allmikinn kostnað, sem hann hefur ekki fengið greiddan, þrátt fyrir örlítinn styrk af hálfu hins opinbera. Hér væri aðeins um það að ræða, að greiða Benedikt nokkurn hluta af þeim beina kostnaði, sem hann hefur lagt út í þessu sambandi. Ég tel fyrir mitt leyti, að þær tilraunir, sem Benedikt hefur gert varðandi þetta mál, séu athyglisverðar og þess eðlis, að það sé full ástæða til þess að greiða honum þessa upphæð í viðurkenningarskyni fyrir það, sem hann hefur lagt af mörkum til þessa máls.

Þá flyt ég í sjötta lagi till., 5. till., ásamt Jónasi Árnasyni, Gils Guðmundssyni og Steingrími Pálssyni varðandi sjávarútvegsmál, en þar leggjum við til í fyrsta lagi, að varið verði sérstaklega til humar- og rækjuleitar 3 millj. kr. umfram það, sem gert hafði verið ráð fyrir í till. Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég veit, að flestir hv. þm. þekkja það, að það er sótt á um rannsóknir í þessum efnum um leit að nýjum humar- og rækjumiðum. Það er sótt á um frekari rannsóknir en Hafrannsóknastofnun hefur getað innt af hendi vegna takmarkaðrar fjárhagsgetu stofnunarinnar, og við teljum því réttmætt að verja sérstaklega 3 millj. kr. í þessu skyni.

Þá leggjum við til í öðru lagi, að varið verði til fiskileitar og veiðarfæratilrauna 3 millj. kr., einnig umfram það, sem að öðru leyti hefur verið gert ráð fyrir að verja af Hafrannsóknastofnuninni í þessu skyni. Hér er um geysilega mikið og víðtækt verkefni að ræða og þarft verk, og það þarf að leggja hér á mun meiri áherzlu en gert hefur verið.

Þá leggjum við til í þriðja lagi, að varið verði 1 millj. kr. sérstaklega til rannsóknar á skelfiskmiðum við landið. Það hefur þegar sýnt sig, að hafin er skelfiskvinnsla á nokkrum stöðum á landinu, þýðingarmikil framleiðsla, sem kemur að mjög góðu gagni, sérstaklega á vissum tímum ársins, og hér er líka um verðmætan útflutning að ræða, en það þarf vitanlega að rannsaka miklu betur en gert hefur verið skelfiskmiðin við landið, úr hverju þar er að spila, hversu mikil verðmæti er þarna um að ræða og hvað mikið má byggja á þessu í sambandi við rekstur á þessu sviði.

Þá leggjum við til í fjórða lagi, að tekinn verði upp nýr liður svo hljóðandi: „Rannsóknir og leiðbeiningastarfsemi í þágu niðursuðu- og niðurlagningariðnaðar 10 millj. kr.“ Við teljum, að það sé mjög brýnt verkefni, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins geti lagt í miklu meiri rannsóknir vegna niðursuðu- og niðurlagningariðnaðarins og unnið miklu meira að almennri leiðbeiningarstarfsemi í þágu þeirra fyrirtækja, sem eru að fara af stað með þessa framleiðslu, en þessi stofnun hefur getað gert til þessa. Hér er vitanlega um stórkostlegt framtíðarverkefni fyrir okkur Íslendinga að ræða og við verðum að leggja fram fé, m. a. í þessar fræðilegu rannsóknir.

Í fimmta lagi leggjum við svo til, að tekinn verði upp annar nýr liður, sem hljóði þannig: „Til stuðnings við niðursuðu- og niðurlagningariðnað og aðra fullvinnslu sjávarafurða til útflutnings, sérstaklega til markaðsleitar og söluþjónustu, 40 millj. kr.“ Það er skoðun okkar, að það þurfi að leggja alveg sérstaka áherzlu á það að greiða fyrir sölu á þessari framleiðslu og leggja þar út í alldýrar eða kostnaðarsamar framkvæmdir. Þessar tegundir af vörum komast ekki inn á markaði erlendis, án þess að haft sé verulega fyrir því. Við þurfum að kosta þar menn til þess að bjóða fram þessa vöru og við þurfum að leggja mikið í auglýsingakostnað og yfirleitt í markaðsleit. Það er engin von til þess, að nýgræðingar í þessari framleiðslu, hin nýju fyrirtæki, geti tekið að sér allt þetta verkefni í byrjun. Mjög sennilega ætti að fela einhverri ríkisstofnun þetta verkefni, eins og t. d. síldarútvegsnefnd, en verkefni hennar minnkar nú óðfluga, eins og sakir standa a. m. k., eða þá að fela þetta fiskimálanefnd. Fyrri reynsla okkar í þessum efnum hefur sýnt það, að það er þörf á því, meðan verið er að byggja upp nýjar framleiðslugreinar eins og þessar, að einhver opinber aðili taki að sér forgöngu í málinu. Þannig var þetta með frosna fiskinn á sínum tíma. Það var opinber stofnun, sem þar varð að ryðja brautina og stíga öll fyrstu og erfiðustu skrefin, en það var fiskimálanefnd á sínum tíma og síðan uxu upp úr þessu þær sölustofnanir, sem nú eru starfandi, og svipað hefur þetta orðið á öðrum sviðum. Það er engin von til þess, að þau nýju fyrirtæki, oft veikburða, sem byggð eru upp á þessu sviði, geti tekið að sér þetta kostnaðarsama og vandasama verkefni, sem alveg óhjákvæmilega þarf að leysa.

Þá flyt ég í sjöunda lagi till. ásamt Gils Guðmundssyni um það, að tekinn verði upp nýr liður, sem hljóði þannig:

„Framlag til þeirra sveitarfélaga, sem gera sérstakar ráðstafanir að kröfu opinberra aðila til að bæta hreinlætisaðstöðu við frystihús og aðrar framleiðslustöðvar matvæla, gegn jafnháu framlagi annars staðar að, 10 millj. kr.“

Ég veit, að flestum hv. þm. er vel kunnugt um það vandamál, sem hér er við að eiga. Það er þegar komið þannig, að opinberir aðilar hafa tilkynnt ýmsum frystihúsum í landinu og öðrum matvælaframleiðslustofnunum, að þær munu ekki fá leyfi til þess að vinna að sinni útflutningsframleiðslu á matvælasviði, nema breytt verði mjög verulega til með allar aðstæður til hreinlætis varðandi framleiðslu þessara stöðva. Hér er sérstaklega um það að ræða, að það þarf í mörgum tilvikum að gera átak í frárennslismálum og vatnsveitumálum og einnig varðandi það að steypa eða malbika talsvert svæði til aukins hreinlætis í kringum stöðvarnar, til þess að lágmarkskröfum hreinlætis sé fullnægt í sambandi við alla aðstöðu þessara stofnana. En hér yrði sýnilega um svo fjárfrekar framkvæmdir að ræða, að það er alveg óhugsandi, að ýmis sveitarfélög í landinu, sem standa frammi fyrir þessum vanda, geti haldið áfram þeirri framleiðslu, sem þau nú hafa með höndum, ef hart verður gengið eftir, sem fyllilega er eðlilegt, að sé gert í þessum efnum, án þess að til komi einhver opinber aðstoð við þessi sveitarfélög til þess að koma fram umbótum í þessum efnum. Við leggjum því til, að ríkið verji í þessu skyni á næsta ári 10 millj. kr. gegn því, að viðkomandi aðilar, sem hér eiga hlut að máli, leggi fram jafnháa upphæð á móti. Þá væri hægt að hefjast handa um það að bæta úr þessu og laga til a. m. k. á allmörgum stöðum, og síðan yrði verkinu haldið áfram.

Þá flyt ég hér í áttunda lagi till. með Gils Guðmundssyni um það, að rekstrarstyrkur til sjómannaheimila í landinu verði hækkaður úr 50 þús. kr. í 800 þús. kr., og verð ég að segja, nú eins og áður, þegar þetta mál hefur verið hér rætt, að mig undrar það stórlega, að það skuli ganga hér þing eftir þing, að fjvn. skuli skila frá sér fjárlagafrv. þannig að ætla að verja til rekstrarstuðnings við þær sjómannastofur, sem starfandi eru í landinu, aðeins einum 50 þús. kr. Þetta er vitanlega til skammar, og það á að breyta þessu. Það eru þegar starfandi nokkuð margar sjómannastofur, en þær verða skiljanlega ekki reknar nema með allmiklum framlögum af hálfu viðkomandi sveitarfélaga og það er eðlilegt, að ríkið ýti nokkuð undir eða aðstoði nokkuð í þessum efnum með því að leggja fram nokkuð meira en það hefur gert til reksturs þessara þörfu stofnana. Sjómannastéttin á það fyllilega skilið, að þetta fé sé lagt fram í þessu skyni. Ég vil líka benda á það í sambandi við það, sem hér hefur áður verið sagt í þessum umr. varðandi sjómannastofur, að því fer víðs fjarri, að sjómannastofur þurfi aðeins að vera á þeim stöðum, þar sem mikið er um aðkomusjómenn. Sannleikurinn er nú sá, að útgerð okkar er fyrir löngu komin á það stig, að okkar fiskiskip fara frá stað til staðar og verða að dvelja fram og til baka á hinum ýmsu stöðum eftir því, sem aflinn gefst og veðurfar er, og það verður því vitanlega alls staðar talsvert um það að ræða, að aðkomusjómenn séu á stöðunum. En það þarf líka að hafa sjómannastofur í útgerðarbæjum landsins fyrir heimasjómennina. Þeir þurfa líka að hafa sitt eðlilega afdrep til þess að koma saman, til þess að ræða sín mál og njóta sinna frístunda, en ekki að þurfa að búa við það félagslega aðstöðuleysi, sem þeir búa við í dag. Ég vænti nú þess, að hv. fjvn. athugi alveg sérstaklega að lagfæra till. sínar í þessum efnum, varðandi framlögin til sjómannastofanna í landinu, til reksturs þeirra.

Á þskj. 227 flytjum við allir þm. Alþb. eina stóra till. Hún er um það, að gert verði ráð fyrir á næsta ári að hækka bótagreiðslur lífeyristrygginga almannatrygginganna, þ. e. a. s. fyrst og fremst elli- og örorkubæturnar, um 40% frá því, sem þær eru nú, og að gert sé ráð fyrir ríkishlutanum í sambandi við þessar auknu bótagreiðslur, og mun sá hluti þá nema í kringum 210 millj. kr. Hér er vissulega um stóra till. að ræða og allmikil aukin útgjöld fyrir ríkið, en það hafa komið hér fram í þessum umr. áður af hálfu okkar Alþb.-manna skýr og ótvíræð rök fyrir því, hvað hér er um eðlilegt og nauðsynlegt málefni að ræða, málefni, sem engin ástæða er til eins og nú háttar með okkar þjóðarbúskap, að ríkið skjóti sér undan. Það þarf að hækka þessar tryggingabætur, a. m. k. um 40%, og ég endurtek það, sem hér hefur verið sagt, að sé mögulegt að verða við því að hækka laun opinberra starfsmanna eitthvað í líkingu við það, sem upplýsingar hafa verið gefnar um af hálfu stjórnarliðsins, m. a. í stjórnarblöðunum, séu möguleikar á því að hækka laun opinberra starfsmanna svo mikið, þá leikur enginn vafi á því, að þá er réttmætt og sjálfsagt að hækka þessar tryggingabætur um 40%. Hér er auðvitað um þær launagreiðslur að ræða, sem mest þörf er á að hækka í okkar þjóðfélagi.

Ég hef þá gert hér grein í örstuttu máli fyrir þeim till., sem ég er hér 1. flm. að, en aðrir hafa gert grein fyrir öðrum till., sem ég styð eða ég stend að. Það er rétt, að þær till., sem við Alþb.-menn stöndum hér að, gera að sjálfsögðu ráð fyrir talsverðri hækkun á útgjöldum ríkissjóðs, en hér er þó ekki um mikla hækkun að ræða, þegar á allt er litið, þegar á það er litið, hvað heildarútgjöld ríkisins eru orðin mikil, og ég fyrir mitt leyti geng ekki inn á það sjónarmið fremur nú en áður, að það sé réttmætt að segja: Nú eru útgjöld fjárlaga orðin svona mikil, komin yfir 10. milljarðinn, og þið eruð ábyrgðarlausir, sem komið nú á eftir og leggið til einhver aukaútgjöld á fjárlagafrv. Ég hef ekki fyrir mitt leyti staðið að því að samþykkja öll þessi útgjöld, sem fjárlagafrv. fjallar um. Ég er hreinlega á móti ýmsum þeim útgjöldum, sem þar er gert ráð fyrir. Það er ekki réttmætt, að ríkisstj. taki þessi mál þannig, að fyrst segi hún: Fyrst ráðstafa ég öllu fénu og síðan, ef þið komið með einhverjar till., þá er það ábyrgðarleysi. Við hinir eigum okkar rétt til þess að leggja fram till. um það, hvernig við álítum, að eigi að verja þeim fjármunum, sem úr er að spila. Ég hef æðioft við afgreiðslu fjárlaga lagt hér fram allmargar till. um lækkun á ýmsum útgjöldum. Ég gæti gert það enn. Maður hins vegar þreytist á því að leggja fram slíkar till., sem alltaf eru felldar hér ár eftir ár. Ég skal aðeins nefna hér nokkur atriði til útgjalda, sem ég teldi fyrir mitt leyti, að mættu sannarlega missa sig úr frv. eins og það er nú.

Það er nú í fyrsta lagi að þurfa að hafa sérstakt sendiráð og sérstaka sendinefnd hjá NATO, eins og við höfum ekki eitthvað af sendiherrum úti í heimi og sendiráðum til þess að vinna okkar störf þar. Það er gert ráð fyrir að eyða aðeins í það sendiráð 6.4 millj. kr. Svo er sett upp eitt nýtt sendiráðið enn í skyndi vegna aðildar okkar að EFTA, og það kostar 4.4 millj. kr., það sendiráð, bara hjá EFTA. Auk þessa alls er svo gert ráð fyrir í frv. að verja aðeins sem fastatillagi til NATO 4.8 millj. Ég er á móti þessum útgjöldum og auk þess er svo gert ráð fyrir því að styrkja sérstaklega þingmannasamband NATO um 350 þús. kr. Fastatillagið til EFTA, sem ég var líka andvígur, að við gerðumst aðilar að, þar er um að ræða Í millj. 250 þús. Eða varnarmáladeildin, hversu þýðingarmikil skyldi hún vera? Hún kostar 4.4 millj. Að maður nú ekki tali um lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli, sem kostar orðið nærri 30 millj. Bara lögreglukostnaðurinn einn þar innan girðingar nemur orðið nærri 13 millj. Ég er á móti þessu fyrir mitt leyti, tel enga þörf á þessu. Þannig væri auðvitað hægt að benda hér á fjöldamarga liði aðra, sem ýmist mætti lækka eða fella út með öllu, og ég tel fyrir mitt leyti, að útgjöld t. d. til þessara liða séu á engan hátt réttmætari eða eðlilegri heldur en það að auka nokkuð framlög til íþróttahreyfingarinnar í landinu eða til þess að íþróttasjóður geti staðið við sínar skuldbindingar, félagsheimilasjóður geti staðið við sínar skuldbindingar eða styrkja nokkuð meira en nú er rekstur sjómannastofa víðs vegar um landið. Þetta er hins vegar aðeins ágreiningur á milli manna og flokka um það, hvað sé nauðsynlegast, og við álítum það Alþb.-menn, að það sé eins og nú er komið mjög brýn þörf á því að hækka örorkubætur og ellilaun í landinu, og því leggjum við megináherzlu á það í okkar till. að verja fé í því skyni.

Ég skal svo ekki fara frekar út í almennar umr. um afgreiðslu fjárl. Það hefur hér verið gert af öðrum. Ég hef hér gert grein fyrir þeim till., sem við Alþb.-menn stöndum að og ég er 1. flm. að.