05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

190. mál, aðstaða æskufólks til framhaldsnáms

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Við hv. 11. þm. Reykv. höfum leyft okkur að flytja till. til þál. á þskj. 313 um rannsókn á aðstöðu æskufólks til framhaldsnáms. Efni till. er það, að ríkisstj. verði falið að hlutast til um, að stjórnir sveitarfélaga rannsaki, hvort og hversu margir unglingar, sem luku skyldunámi vorið 1970, hafa sótt skóla á yfirstandandi skólaári og af hvaða ástæðum það er, sem þeir hafa ekki gert það, að því leyti sem það kemur fram í rannsókninni.

Það er almennt viðurkennt, að æskufólkið í landinu eigi að hafa sem jafnasta aðstöðu til menntunar. Og þessi viðurkenning kemur mjög ljóst fram í frv. hæstv. ríkisstj. um skólakerfi, sem nú liggur fyrir Alþ. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í lýðræðisríki, sem vill leggja áherzlu á jafnrétti þegna sinna, hlýtur opinberum aðilum, bæði ríki og sveitarfélögum, að bera afdráttarlaus skylda til að sjá um, að búseta og misjafn efnahagur nemenda og forráðamanna þeirra valdi ekki misrétti um aðstöðu ungmenna til menntunar. Þessi skylda mun vera almennt viðurkennd í landinu, bæði af almenningi óg kjörnum leiðtogum þjóðarinnar.“

Það vantar því ekkert á, að það sé viðurkennt, a.m.k. í orði, að það þurfi að tryggja æskufólki í landinu þetta jafnrétti, en ég held, að flestir muni nú fallast á, að það skortir mikið á þetta jafnrétti til handa æskufólki. Ég hef áður drepið allrækilega á þetta mál í sambandi við annað mál, sem liggur nú fyrir Alþ., um þetta misrétti og geri ekki þá hlið þessa máls að umræðuefni hér.

Með till. þessari á þskj. 313 vekjum við flm. athygli á öðrum vandkvæðum, öðrum vandamálum í þessu sambandi en felast í frv. því, sem ég nefndi áðan. Ég ætla, að margir foreldrar og forráðamenn barna hafi rekið sig á það, þegar þeir hafa sótt um skólavist fyrir börn sín eða unglinga, að þeir hafa orðið of seinir, skólinn var fullskipaður og það jafnvel fyrir löngu, þegar þeir sendu sína umsókn, og afleiðingin varð því sú, að umsókninni var synjað af þeirri ástæðu, að skólinn var yfirfullur, sem sótt var um inntöku í. Við flm. till. vitum ekki, hversu víðtæk þessi vandkvæði æskufólksins eru, og það, sem verra er, það veit það enginn í landinu. Við höfum að vísu, eins og greint er frá í grg. till., kannað með viðtölum við skólastjóra héraðsskólanna, hvernig þessu er háttað þar, en þar sem skólastjórar þessara skóla sjá að sjálfsögðu ekki ástæðu til að skrásetja munnlegar umsóknir um skólavist, sem ekki var hægt að sinna, vegna þess að skólinn var fullskipaður, þá áætluðu þeir, hversu margar þessar synjanir voru s.l. haust vegna yfirstandandi skólaárs. Niðurstaðan varð sú í þessum átta héraðsskólum, eins og segir í grg., að nýir nemendur s.l. haust urðu 541 í þessum skólum, en 370–400 umsækjendum var synjað um skólavist af fyrrnefndum ástæðum, skólarnir voru yfirfullir.

Nú er engin vitneskja til um það, hvernig ástatt er í þessum efnum í öðrum skólum landsins. Við skulum vona, að ástandið sé eitthvað betra í skólum þéttbýlisins. Nógu slæmt er það samt. Þó má t.d. minna á blaðaskrif, sem urðu um það fyrir ekki löngu síðan, að stúlkur verði að bíða í 2–3 ár til þess að komast í Hjúkrunarskóla Íslands á sama tíma og hjúkrunarkvennaskorturinn er svo alvarlegur, að fjarri er, að sjúkrahús séu að fullu starfrækt, en sjúklingarnir bíða og bíða í heimahúsum eftir sjúkraplássi. Þá má minna á hina gífurlegu aðsókn að Kennaraskóla Íslands á undanförnum árum, þar sem nemendur voru orðnir u. þ. b. 1000 í 250–300 manna skóla. Hvað hefði orðið um þessa nemendur, ef Kennaraskólinn hefði ekki tekið við þeim? Í hvaða skóla áttu þeir að fara? Nú er ráðgert að leggja Kennaraskólann niður, og væntanlegur kennaraháskóli tekur aðeins við stúdentum. Hvaða skólar eiga þá að bæta á sig þeim nemendum, sem annars mundu hafa sótt Kennaraskólann, ef hann hefði starfað áfram? Þannig mætti spyrja á ýmsa vegu um skólana í landinu.

Annar alvarlegur þröskuldur við framhaldsmenntun æskufólks er fjárskortur foreldra án tillits til búsetu. Það vandamál er sannarlega fyrir hendi, þótt nemandinn eigi kost á heimangönguskóla, sérstaklega þegar þarf að kosta marga unglinga úr sömu fjölskyldu í nám samtímis, og þetta vandamál fer vaxandi með sívaxandi dýrtíð.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um það, að fram fari rannsókn á því, hversu mikil brögð eru að því, að æskufólk, sem vill stunda framhaldsnám, geti ekki gert það, og af hvaða ástæðum það er. Ef brögð eru að því, að verulega skorti skólarými fyrir æskufólk til framhaldsnáms eða fjárskortur útiloki það frá námi, teljum við það með öllu óviðunandi. Það á enginn unglingur að halda út í lífið að okkar dómi með skyldunámið eitt að baki. Hver sem það gerir er illa settur í samanburði við aðra, sem framhaldsmenntunar hafa notið, og geri unglingurinn sér ekki grein fyrir því á unglingsaldri þá mun hann finna fyrir því síðar. Þjóðfélagið má ekki við því, að á það skorti, að allir fái nokkra framhaldsmenntun.

Við flm. leggjum til, að fyrrnefnda rannsókn framkvæmi stjórnir sveitarfélaga, þar með taldar bæjarstjórnir og borgarstjórn Reykjavíkur. Þeim er þetta starf auðveldara en öðrum, og ríkinu yrði þetta kostnaðarlaust. Þótt rannsóknin nái ekki nema til yfirstandandi skólaárs, á hún að geta gefið fullnægjandi yfirlit um ástandið í þessum efnum, eins og það er nú. Það getur hins vegar komið til greina, að síðar þurfi að endurtaka slíkar rannsóknir. Í trausti þess, að Alþ. vilji vita, hversu háttað er framhaldsmenntun æskufólks, þá væntum við flm. þessarar till., að hún fái viðunandi afgreiðslu á yfirstandandi þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til allshn.