05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3583)

215. mál, rannsóknir á hrognkelsastofninum fyrir Norðurlandi

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um rannsóknir á hrognkelsastofninum fyrir Norðurlandi og athugun á nýtingu hans. Eins og mörgum er kunnugt, eru hrognkelsaveiðar og söltun grásleppuhrogna veruleg atvinnugrein, sérstaklega fyrir Norðurlandi og Norðausturlandi, og hafa sumir óttazt það, að kannske væri sóknin í þennan stofn óþarflega mikil, en aðrir segja, að þarna sé um slík verðmæti að ræða, að þau þurfi að rannsaka miklu betur og reyna að hagnýta miklum mun betur en við höfum enn gert. Mig langar að leyfa þingheimi að heyra hér hugleiðingar nokkurra Húsvíkinga um þessi mál, en einmitt á Húsavík hefur hrognkelsaveiðin staðið með miklum blóma sem og verstöðvum þar í kring. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér ályktun, sem gerð var á fundi atvinnumálanefndar Húsavíkur í haust, en hún hljóðar svo:

„Grásleppuveiði hefur á síðustu árum farið vaxandi við Norðurland. Er veiðin eingöngu stunduð vegna grásleppuhrognanna, sem söltuð eru í tunnur og síðan að mestu seld úr landi sem hráefni í grásleppuhrognakavíar. Kemur nú verulegur hluti heimsframleiðslunnar af þessu hráefni frá Íslandi og þá einkum frá Norðurlandi. Við Skjálfandaflóa voru á s.l. vori saltaðar um 2300 tunnur af grásleppuhrognum auk þess sem Húsvíkingar söltuðu nokkurt magn á Kópaskeri. Útflutningsverð hrognanna hefur sætt miklum sveiflum á undanförnum árum, og hefur góð veiði á Íslandi yfirleitt þrýst verði hrognanna niður á heimsmarkaði. Getur því stóraukin sókn í þessar veiðar bæði gengið of nærri hrognkelsastofninum og stórlækkað verð hrognanna. Til þess að atvinnugreinin megi halda áfram að verða Norðlendingum arðbær á komandi árum, er að áliti nefndarinnar nauðsynlegt, að gerðar verði ráðstafanir af opinberri hálfu, og er þess hér með farið á leit, að forganga verði höfð um slíkt. Þessar ráðstafanir eru:

1. Að hafnar verði fiskifræðilegar rannsóknir á hrognkelsastofninum, um stærð hans og lífshætti.

2. Setja ákvæði um veiðitíma hrognkelsa, svo að einhver hluti stofnsins fái frið til hrygningar á helztu veiðisvæðum.

3. Setja ákveðnar reglur í því skyni að auka vöruvöndun við söltun og frágang grásleppuhrognanna.

4. Að athuga í sambandi við niðurlagningu hrogna, að þetta er geysileg eða gæti verið geysileg atvinnugrein hér á landi, ef þetta væri unnið meira en nú er gert, hrognin ekki flutt sem hráefni úr landi, heldur lögð niður hér á landi.“

Eins og alþm. munu hafa veitt athygli, er sjútvrn. nýlega búið að setja allítarlega reglugerð um þessi mál og mun hún ugglaust verða til verulegra bóta í þessari atvinnugrein. En auk þessa, sem hér var talað um, þá bendir sú nefnd, sem ég var að vitna í áðan, á það, að fiskinum sjálfum, grásleppunni, er nú fleygt víða um land, svo að hundruðum tonna skiptir. Einu sinni þótti þetta ágætur matur, og væri ugglaust hægt að gera að góðum mat enn, ef að því væri unnið á skynsamlegan hátt.

Tillögugerðin, sem ég er hér með, miðar sem sagt að því, að í fyrsta lagi verði stofn þessa fisks athugaður og hvort nokkur hætta sé á, að um ofveiði sé að ræða. Í öðru lagi, að kannaðir verði möguleikar á því að vinna þetta hráefni, grásleppuhrognin, sem mest hér í landinu, því að það væri mikið atvinnuspursmál, sérstaklega fyrir verstöðvar norðanlands, og í þriðja lagi, að reynt væri að hagnýta fiskinn sjálfan, grásleppuna, þjóðinni til hagræðis og skapa úr henni verðmæta útflutningsvöru.

Ég drap á það áðan, að íslenzku grásleppuhrognin væru flutt svo til eingöngu sem hráefni úr landi og þetta er síðan framleitt sem kavíar í öðrum löndum, sérstaklega í Danmörku og Þýzkalandi, og ég hef hér fyrir framan mig tölur, sem sýna það, að Íslendingar hafa á undanförnum árum verið aðalframleiðendur hráefnis fyrir þessa kavíarframleiðslu Dananna og jafnvel Þjóðverjanna, þannig að ef þeir hefðu ekki hráefni frá okkur, þá mundu þeir ekki geta framleitt þessa vöru í nokkuð svipuðum stíl og þeir gera. Það virðist liggja á borðinu, að það væri skynsamlegt fyrir Íslendinga að reyna að breyta hér til, taka þessa framleiðslu í sínar eigin hendur og flytja það síðan út sem miklu dýrmætari og verðmeiri vöru.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vænti þess, að málinu verði frestað og vísað til allshn.