05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3593)

218. mál, raforkumál Vestfjarða

Flm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Till. sú á þskj. 383, sem hér liggur fyrir til umr., er flutt af öllum þm. Vestf. Fjallar hún um raforkumál á Vestfjörðum, og er það ætlun flm. hennar, að hljóti till. samþykki hæstv. Alþ., geti það orðið upphaf að nýju átaki í byggingu raforkuvera fyrir Vestfirði.

Þar ríkir nú mjög brýn þörf fyrir aukna rafmagnsframleiðslu, eins og rakið er í grg. með þáltill. Það kemur ljóslega fram í ályktun frá bæjarstjórn Ísafjarðar, sem Vestfjarðaþm. fengu senda í haust, hvernig ástand ríkir í þessu efni, og vil ég þess vegna leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þá ályktun. Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar, sem haldinn var 2. des. s.l., var eftirfarandi bókun samþ. samhljóða:

„Alvarlegt ástand er yfirvofandi í raforkumálum Vestfjarða, verði ekki fljótlega hafizt handa um raunhæfar framkvæmdir í þeim efnum. Nú er svo komið, að rafmagnsframleiðsla á Vestfjörðum gerir vart betur en að fullnægja aðkallandi og daglegri raforkuþörf fjórðungsins. Ekkert má út af bera í þeim fullnýttu raforkustöðvum, sem fyrir eru á svæðinu, svo að alvarlegt vandræðaástand og stórfellt fjárhagslegt tjón skapist ekki hjá atvinnufyrirtækjum og einkaheimilum. Með tilvísun til þess, hversu alvarlega horfir í þessum efnum, og með þá staðreynd í huga, að eðlileg og nauðsynleg atvinnuuppbygging Vestfjarða byggist á öruggri nægilega ódýrri raforku, skorar bæjarstjórn Ísafjarðar enn einu sinni á Alþ. og viðkomandi stjórnarvöld að láta nú þegar gera nauðsynlegar athuganir og undirbúa raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum, er tryggi kjördæminu nauðsynlegt framtíðaröryggi í rafmagnsmálum og sömu aðstöðu varðandi verð orkunnar og aðrir landsmenn njóta. Jafnframt skorar bæjarstjórnin á sömu aðila að hraða sem mest þessum aðkallandi og nauðsynlegu framkvæmdum og heitir á alla þm. kjördæmisins að fylgja málinu fast eftir og tryggja framgang þess.“

Þannig hljóðaði þessi samþykkt frá bæjarstjórn Ísafjarðar, sem þm. Vestf. fengu senda á s.l. hausti. Málum er nú svo háttað á samveitusvæðinu í báðum Ísafjarðarsýslum og í V.-Barðastrandarsýslu, að þar eru þrír aðilar, sem annast orkuvinnslu og orkudreifingu. Þessir aðilar eru: Rafmagnsveitur ríkisins, Rafveita Ísafjarðar og Eyrarhrepps og Rafveita Patrekshrepps. Vatnsaflsvirkjanir Rafveitna ríkisins eru tvær, Reiðhjallavirkjun við Bolungarvík, 400 kw., og Mjólkárvirkjun í Arnarfirði, 2400 kw., samtals 2800 kw. Rafveita Ísafjarðar á tvær vatnsaflsvélasamstæður í rafstöð sinni í Engidal, alls 1160 kw. Þar með er upp talið virkjað vatnsafl í þessum hluta Vestfjarða, og nemur það þá í heild 3960 kw. Rafmagnsveitur ríkisins eiga síðan dísilstöðvar í Súðavík, á Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Bíldudal, Sveinseyri og í Tálknafirði, misjafnlega stórar, og sumar eingöngu notaðar sem varaaflstöðvar. Dísilstöð Rafveitu Patreksfjarðar er 480 kw., og á Patreksfirði er auk þess í frystihúsi 280 kw. dísilvarastöð. Dísilvélasamstæður í rafstöð Rafveitu Ísafjarðar í Engidal eru tvær, samtals 890 kw. Samtals mun uppsett dísilafl á svæðinu vera um eða yfir 3000 kw., þar af eru um 2000 kw. að staðaldri notuð til orkuframleiðslu, en dísilvélar með um 1000 kw. afl eru eingöngu hafðar til vara, og í grg. með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er ekki getið um þessar varastöðvar.

Af þessu yfirliti er auðsætt, að vélakosturinn til raforkuframleiðslu á Vestfjörðum er í heild um 7000 kw. Þar af eru um 43% dísilvélasamstæður og 57% vatnsaflsvélar. Þetta þýðir þó ekki, að orkuvinnslan fari fram í sömu hlutföllum. Að sjálfsögðu er reynt að nýta vatnsaflsvélarnar til hins ýtrasta, en eins og sakir standa nú, er ekki hægt að mæta aukinni raforkuþörf nema með meiri notkun dísilvéla. Þannig er þess getið í grg. með till., að orkuvinnslan hafi á árinu 1969 verið 19.4 gwst., þar af 2 gwst. framleiddar með dísilvélum. En árið 1970 var orkuvinnslan 20.9 gwst. og þar af 3.4 gwst. frá dísilvélum. Heildaraukning framleiðslunnar 1969 var 7.6% miðað við árið á undan, en s.l. ár var hún 7.7%. Aukning orkuframleiðslu með dísilvélum var hins vegar 76%, og nemur þá olíukostnaður með núverandi olíuverði yfir 5 millj. kr. Mun olíukostnaðurinn með sama áframhaldi vaxa um a.m.k. 2.5 millj. kr. á ári, og verður þá næsta ár um 10 millj. kr., en þar að auki er svo mikill kostnaður við viðhald og aukningu dísilvéla.

Snemma á þessu þingi fóru fram umr. um Lagarfossvirkjun í hv. deild, og notaði ég þá tækifærið til þess að fara þess á leit við hæstv. iðnrh., að hann upplýsti, hvaða ráðagerðir væru uppi um úrbætur í raforkumálum Vestfirðinga. Fengu þm. Vestfjarða í framhaldi af því senda skýrslu frá Rafmagnsveitum ríkisins, dagsetta 5. nóv. s.l. Í þeirri skýrslu segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Á Vestfjörðum hefur verið skortur á raforku frá vatnsaflsstöðvum, og hefur, eins og áður er sagt, orðið að mæta vaxandi þörf með dísilorku. Þetta mun hafa verið ein af ástæðum fyrir hægari þróun raforkunotkunar í þessum landshluta en víða annars staðar. Að vísu er raforkunotkun á ári svipuð hér og meðaltal fyrir allt landið og á svæðum rafmagnsveitnanna, eða um 2100 kwst. árið 1969, en þó verður að taka tillit til þess, að á Vestfjörðum er meiri orkufrekur iðnaður á mann en í flestum öðrum landshlutum, og hefur það atriði mikil áhrif á þessar einingatölur. Ef heimilisnotkun er hins vegar athuguð ein, er hún um 900 kwst. á mann á ári á Vestfjörðum, en um 1600 kwst. á Suðurlandi og Norðurlandi.“

Þessar upplýsingar úr skýrslum Rafmagnsveitna ríkisins eru vissulega athyglis- og íhugunarverðar. Vestfirðingar fá minni raforku en aðrir landsmenn, en auk þess er hún seld þeim á hærra verði en öðrum. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að Vestfirðir séu í hæsta gjaldskrárflokki hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og þeirri aðferð hefur að nokkru leyti verið beitt að draga úr raforkunotkuninni með því að hafa rafmagnsverðið hátt. Það er vissulega rétt, sem segir í áðurnefndri skýrslu, með leyfi hæstv. forseta:

„Brýnasta verkefnið í raforkuframleiðslu á svæðinu er nú að auka framleiðslu vatnsorkuvera og draga þannig úr þeirri þróun undanfarandi ára, að dísilstöðvar annist svo til alla aukningu á raforkuþörf.“

Ástandið í rafmagnsmálum á Mjólkársvæðinu er vissulega ekki glæsilegt samkvæmt því, sem ég hef rakið hér að framan. Ekki er það þó ætlun mín að áfellast einn eða annan fyrir það, hvernig komið er. Eins og ég sagði í upphafi, hafa þrír aðilar þessi mál með höndum á umræddu svæði, og vera má, að í því felist nokkur skýring, sem sé sú, að hver þessara aðila hafi ónóga yfirsýn yfir vandamálið og samvinna þeirra í milli sé ekki nægileg. Í till. okkar, Vestfjarðaþm., sem hér liggur fyrir, leggjum við þess vegna til, að jafnhliða því, að nýjar virkjunarframkvæmdir verði undirbúnar, verði kannaður vilji þessara þriggja aðila til sameiningar á þann hátt, sem í till. segir, þ.e. að stofnað verði sameignarfélag ríkisins og sveitarfélaganna á samveitusvæðinu. Höfum við þá í huga svipaða tilhögun og nú á sér stað varðandi Landsvirkjun á Suðurlandi og Laxárvirkjun á Norðurlandi. Mundi þá væntanleg Vestfjarðavirkjun vera sameign ríkisins og sveitarfélaga á samveitusvæðinu, og eiga að reka orkuver og aðalflutningsvirki, en sveitarfélögin gætu átt þess kost að eiga og reka dreifiveitur, eitt eða fleiri saman. Teljum við eðlilegt, að ríkið hafi forgöngu um að kanna, hvort grundvöllur er fyrir stofnun slíks fyrirtækis. Ætti sú athugun að fara fram hið allra fyrsta af augljósum ástæðum.

Mér þykir skylt að geta þess, að allir aðilarnir, sem nú annast raforkuframleiðslu á Mjólkársvæðinu, hafa á prjónunum nokkrar ráðstafanir til úrbóta í starfsemi sinni. Rafveita Ísafjarðar gerði þannig á s.l. ári ráðstafanir til þess að nýta betur vatnsforða í Nónhornsvatni, og hafa þær borið góðan árangur, sem kemur fram í minni notkun dísilvéla í vetur en var á s.l. vetri. Er það ætlun forráðamanna rafveitunnar, að kanna frekari möguleika til betri nýtingar vatnsins, bæði úr Nónhornsvatni og úr Fossavatni. Rafmagnsveitur ríkisins hafa, að því er segir í áðurnefndri skýrslu, hafið framkvæmdir, sem miða að því að auka framleiðslu Mjólkárvirkjunar um 1.2 gwst. Þetta er fyrirhugað, að því í skýrslunni segir, með miðlun vatnsrennslis úr Langavatni og Hólmavatni, en þessi vötn eru ofan Mjólkárvirkjunar í um 500 m hæð yfir sjó. S.l. ár var lagður vegur að þessum vötnum, og kostaði hann um 1.5 millj. kr., og í ár er fyrirhuguð dýpkun farvegs milli vatnanna og stíflugerð, sem áætlað er að kosti alls um 11 millj. kr., að því er í skýrslunni segir. Það kemur einnig fram í henni, að ýmsir virkjunarmöguleikar í Arnarfirði hafa verið kannaðir og gerðar um þá frumáætlanir, sem þarfnast nánari athugunar. Koma til álita ýmsar smávirkjanir við Mjólká, 3000 kw., 1200 kw. og 1500 kw., en á Dynjandasvæðinu er talið að virkja megi allt að 10000 kw.

Þá er þess að geta, að sýslunefnd V.-Barðastrandarsýslu hefur hug á því að hefjast handa um virkjun Suðurfossár á Rauðasandi. Hafa fulltrúar sýslunefndar verið hér syðra undanfarna daga og rætt mál við þm. Vestfjarða og við iðnrn. Hafa þeir með bréfi til rn., dags. 4. þ. m., farið fram á leyfi rn. til þess að hefjast handa um að virkja þarna allt að 2000 kw. afl. Í viðtölum þeirra við okkur þm. kom það fram, að þrátt fyrir þessa ráðagerð eru fulltrúar sýslunefndarinnar síður en svo andvígir till. okkar um stofnun sameignarfélags ríkisins og sveitarfélaganna. Hins vegar töldu þeir úrbætur í rafmagnsmálum svo brýnar, að undirbúningur nýrra framkvæmda yrði að halda áfram, hvernig sem færi um þessa tilraun til sameiningar. Þessi afstaða kemur einnig skýrt fram í bréfi til ráðh., sem ég gat um áðan. Meðal röksemda fyrir staðsetningu orkuvers við suðurenda samveitukerfisins milli Ísafjarðardjúps og Patreksfjarðar segir svo í grg. Patreksfirðinganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Staðsetning orkuvers á suðurenda samveitukerfis Vestfjarða er hagstæð, og má því til stuðnings sérstaklega benda á eftirfarandi:

1. Virkjunin mundi bæta rekstursöryggi á öllu Vestfjarðakerfinu, en þó sérstaklega á svæðinu sunnan Arnarfjarðar.

2. Nýting 30 kw. flutningskerfisins mundi aukast með framleiðslu inn á enda kerfisins og fresta þannig fjárfestingu við að styrkja flutningskerfið.

Bent er á, að virkjunin hefur án efa verulega þýðingu fyrir atvinnulíf héraðsins, en þar skortir nú verkefni fyrir iðnaðarmenn og vinnuvélar. Stærð virkjunarinnar og gerð mannvirkja krefst tiltölulega lítillar sérþekkingar utan verkfræðiþjónustu. Geta heimamenn því annazt því nær alla framkvæmd verksins. Athuganir og undirbúningur verksins er það langt á veg kominn, að óhætt er að fullyrða, að ekki er að vænta jarðfræðilegra eða verkfræðilegra erfiðleika. Lokahönnun verksins tekur því mjög stuttan tíma, en ekki þykir ástæða til þess að hefja hana fyrr en heimild til framkvæmda liggur fyrir. Orkuverið gæti hafið orkuvinnslu 18–19 mánuðum eftir að heimild hefur verið veitt.“

Ég hygg, að þótt Suðurfossárvirkjun komist upp og þó að vötnin við Engidal í Skutulsfirði og vötnin upp af Mjólká verði betur nýtt en nú er, þá muni samt ekki af veita að virkja hið fyrsta 3–5 þús. kw. til viðbótar við Arnarfjörð. Það nær engri átt að brenna dísilolíu í jafnríkum mæli og nú er gert á Vestfjörðum, en láta vatnið renna óbeizlað til sjávar áratug eftir áratug. Vestfirðingar framleiða tiltölulega meiri verðmæti til útflutnings en flestir aðrir landsmenn úr þeim ágæta fiski, sem þeir draga úr sjó. Hraðfrystihús þeirra verða stundum að stöðva vélar sínar vegna rafmagnsskorts, og meðan fiskiðnaðurinn fær ekki nóg rafmagn, er heldur ekki við því að búast, að annar iðnaður blómgist á Vestfjörðum. Ónógt rafmagn og verðlagning þess hefur gert það að verkum, að árleg aukning raforkunotkunar hefur aðeins orðið 6–7% á Vestfjörðum á móti 10% annars staðar á landinu. Og það mun varla þekkjast, að á Vestfjörðum sé raforka notuð til upphitunar íbúðarhúsa. Á því sviði er algerlega um ónumið land að ræða, þ.e. orkusölu, sem gæti út af fyrir sig staðið undir allstórri virkjun.

Eins og fram kemur í till., teljum við flm. hennar, að miða beri stærð fyrirhugaðra vatnsaflsvirkjana við sennilega aukningu raforkuþarfar á næstu 10 árum, og enn fremur við það, að unnt verði að selja raforku til upphitunar húsa. Leyfi ég mér að leggja sérstaka áherzlu á það, að áhugi er mjög vaxandi á Vestfjörðum, eins og víðar um landið, fyrir upphitun húsa með raforku. Mælir það sérstaklega með því, að Vestfirðingar fái raforkuna til þessara nota, að þeir eru afskiptir með jarðhita, sem nýtanlegur sé í þessu augnamiði. Olíuverðið er nú orðið svo hátt, að raforkan hlýtur auðveldlega að geta keppt við það, auk þess sem hún er á. allan hátt þægilegri í notkun heldur en olía, sem stöðugt þarf að mjatla á geyma, oft með tilheyrandi óþrifnaði.

Herra forseti. Það kann að koma ókunnugum spánskt fyrir sjónir, að mælt sé með því, að á einu og sama samveitusvæði séu orkuver reist á mörgum stöðum. En þetta umrædda svæði er stórt, vogskorið og fjöllótt. Þar gerast veður oft válynd, og fyrir hefur komið, að háspennulínur hafi slitnað og truflanir orðið á orkuflutningi frá Mjólká af þeim sökum, eins og bent er á í grg. með þessari þáltill. Orkuver nyrzt og syðst og á miðju samveitusvæðinu draga mjög úr þeim óþægindum sem notendur rafmagnsins verða fyrir vegna slíkra truflana. Með því fyrirkomulagi notast flutningsvirkin einnig betur, eins og áður var fram tekið, en þau eru sem kunnugt er mjög dýr mannvirki. Á sínum tíma var það mikið átak að koma upp bæði orkuverinu við Mjólká og flutningsvirkjum og dreifiveitum um alla Vestfirði, eins og gert var á vegum Rafmagnsveitna ríkisins. Það var einnig stórt og merkilegt átak, sem Ísfirðingar og Eyrhreppingar gerðu á árunum 1936–1937, þegar þeir komu upp Fossavatnsvirkjun og fengu kaup sitt borgað í skuldabréfum til margra ára. Á Patreksfirði starfaði lítil rafstöð á árunum 1911–1918, og þar hefur alltaf síðan ríkt mikill áhugi fyrir raforkumálum. Á árunum 1940–1946 fóru fram allverulegar athuganir á virkjunarmöguleikum í Arnarfirði á vegum sveitarfélaga á Vestfjörðum, einkum Ísafjarðarkaupstaðar og Patrekshrepps, en eftir samþykkt raforkulaganna frá 1946 var hætt við það áform, og settu menn upp frá því traust sitt á forsjá ríkisins í þessu efni. Árið 1955 hófust síðan framkvæmdir Rafmagnsveitna ríkisins, er miðuðu að því að koma upp Mjólkárvirkjun í Arnarfirði og Reiðhjallavirkjun hjá Bolungarvík.

Herra forseti. Þannig er í hnotskurn saga raforkumálanna á Vestfjörðum. Ég hef tröllatrú á því, að unnt sé að fá þá aðila, sem nú koma þar við sögu og hver um sig hefur gert margt vel, til að gera stórt og myndarlegt átak til þess að koma þessum málum í gott horf.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að umr. verði frestað og þáltill. vísað til fjvn.