05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3594)

218. mál, raforkumál Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Með örfáum orðum og í framhaldi af því, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur rakið hér, vildi ég leggja áherzlu á það, að þáltill. þessi fái skjóta afgreiðslu hjá hv. Alþ.

Hv. 5. þm. Vestf. hefur gert grein fyrir því, hvernig ástand í raforkumálum er á Vestfjörðum, og hef ég litlu við það að bæta. Þó er rétt að hafa í huga, þegar hlustað er á þá lýsingu, að það er ekki aðeins óhagræði, sem hlýzt af raforkuskorti, heldur einnig mjög mikið fjárhagslegt tjón. Það er staðreynd, sem við allir þekkjum, að þar sem spennuföll eru tíð og rafmagnsskortur, brenna yfir rafmagnsmótorar og eyðileggjast kostnaðarsöm og dýr tæki. Þetta er mjög algengt á Vestfjörðum og er ástand, sem ekki verður þolað til lengdar í mikilvægum atvinnugreinum og á heimilum.

En nú hafa heimamenn m.a. gert myndarlegt átak og beitt sér fyrir hönnun virkjunar í Suðurfossá, eins og skýrt var frá hér áðan. Þetta virðist vera mjög hagkvæm virkjun, kostnaður aðeins rúmar 60 millj. kr. eða undir 30 þús. kr. á hvert kw., og veit ég ekki, að annars staðar sé hagkvæmara nema í hinum stærstu virkjunum hér sunnanlands og þeim, sem verið er að vinna að á Norðausturlandi. Sýnist því rík ástæða til þess að stuðla að því, að þessi virkjunarframkvæmd geti hafizt sem allra fyrst. Mér skilst, að til þeirra þurfi í ár ekki nema um það bil 10-15 millj. kr., þannig að sæmilega vel verði af stað farið. Virðist það ekki vera nein ofrausn, þó að til þess verði ætlazt af hæstv. ríkisstj., að lánsfé verði útvegað til þessara framkvæmda hið allra fyrsta. Geri ég mér vonir um og við flm. þessarar þáltill., að samþykkt hennar verði til þess, að svo verði.

Ég vildi einnig jafnframt gjarnan taka undir það, sem kom fram áðan um nauðsyn þess að athuga betur en gert hefur verið notkun raforku til upphitunar húsa. Við Íslendingar höfum gert allt of lítið af þessu. Staðreyndin er sú, að mjög miklar framfarir hafa orðið erlendis í þeirri tækni, sem þarna er notuð. Byggist það einkum á því, að næturhiti er notaður til þess að hita upp ákveðna ofna, með sérstökum steinum, sem geyma hitann, sem er síðan notaður yfir daginn. Þetta hefur tekizt mjög vel. Er hér um tækni að ræða, sem algerlega hefur farið fram hjá okkur. Sýnist mér ástæða til þess að leggja áherzlu á, að þetta verði kannað betur en gert hefur verið.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar, að rafmagnsmál þessa lands í heild verði ekki komin í viðunandi horf fyrr en samtenging hefur átt sér stað á milli hinna fjölmörgu litlu rafveitna og þær komnar inn á hið stóra kerfi, sem nú er um Suðurlandið og raunar varla hægt að segja, að það nái miklu lengra. Hins vegar eru rafmagnsmál Vestfjarða nokkuð sérstæð vegna legu Vestfjarða og ekki sýnt, að raforkuþörf þar verði fullnægt nema með virkjunum heima fyrir, enda er það vitanlega staðreynd, að þótt samtenging verði síðar, þá koma slíkar virkjanir að mjög góðum notum í því kerfi.

Ég vil þá ljúka þessum orðum mínum með því að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ég vona, að hv. Alþ. hraði afgreiðslu þessarar þáltill.