02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3597)

218. mál, raforkumál Vestfjarða

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar flm. þessarar till. að þakka frsm. og hv. fjvn. fyrir mjög góða afgreiðslu á till., og ég vona, að með samþykkt þessarar till. verði tekin hið fyrsta ákvörðun um verulega aukningu á vatnsaflsvirkjunum á samveitusvæði Vestfjarða og að því stefnt, að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og unnt er. Eins og fram hefur komið fyrr í umr. um þetta mál, er tilfinnanlegur skortur á vatnsorku á Vestfjörðum, og verður því að mæta nær allri aukningu raforkunnar með keyrslu dísilvéla, sem sést á því, að aukning dísilvélaorku frá árinu 1969 til 1970 er um 76%.

Þessi fáu orð eiga að nægja til þess að sýna fram á þá miklu þörf, sem er fyrir nýtt orkuver eða stækkun á orkuveri á Vestfjörðum, og ég vænti þess, að ríkisstj. geri sitt til þess að hraða mjög framkvæmd þessarar till., sem er mjög aðkallandi fyrir þessi byggðarlög, því að sennilega eru engin byggðarlög á landinu jafnilla sett með raforku og Vestfirðir eru nú orðnir.