09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3609)

47. mál, menntaskólar í Reykjaneskjördæmi

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef ásamt nær öllum þm. úr Reykjaneskjördæmi flutt á þskj. 47 till. til þál. um menntaskóla í Reykjaneskjördæmi. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrn. að láta nú þegar hefja athugun á því, hvar og hvenær stofnsetja skuli menntaskóla á þéttbýlissvæðum Reykjaneskjördæmis. Verði sérstaklega athugað í bæjarstjórn Hafnarfjarðar um stofnsetningu menntaskóla í Hafnarfirði á næsta ári.“

Eins og kunnugt er, hefur nemendafjöldi í menntaskólum landsins mjög aukizt á undanförnum árum, og er nú svo komið, að hér í Reykjavík hafa verið stofnsettir tveir nýir menntaskólar, svo að þrír menntaskólar eru nú hér í Reykjavík. Auk þess hefur verið settur á stofn menntaskóli á Ísafirði, en áður voru starfandi menntaskólar á Akureyri og á Laugarvatni. Till. þessi, sem hér er flutt, gerir ráð fyrir því, að menntmrn. láti nú þegar hefja athugun á því, hvar og hvenær stofnsetja skuli menntaskóla á þéttbýlissvæðum Reykjaneskjördæmis, en það gefur auga leið, að næstu skólum, sem stofnsettir verða hér á þéttbýlissvæðunum við Faxaflóa, verði dreift á stærra svæði en nú hefur verið gert, og þá kemur til greina, eins og hér er gert ráð fyrir, að menntaskólar verði stofnsettir í Reykjaneskjördæmi. Nemendafjöldi í menntaskólum landsins úr Reykjaneskjördæmi er við upphaf þessa skólaárs 444 samkv. þeim tölum, sem aflað var og upplýsingar voru gefnar um frá skólum, þannig að væri stofnaður menntaskóli í Reykjaneskjördæmi nú þegar, þá er þar um að ræða nemendafjölda, sem gæti og væri mjög hæfilegur í nýjum menntaskóla. Þessi nemendafjöldi skiptist þannig, ef athugaðar eru tölur sunnan Hafnarfjarðar, úr Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppi, Kópavogi og Kjósarsýslu, þ.e. úr hreppunum hér ofansveitar og af Seltjarnarnesi, að þá eru sunnan Hafnarfjarðar 64 nemendur, úr Hafnarfirði, Garða- og Bessastaðahreppi 121 og úr Kópavogi og Kjósarsýslu 259. Það sýnist því einsýnt, að næsti menntaskóli, sem stofnsettur verður, og næstu menntaskólar, sem stofnsettir verða, verði staðsettir í Reykjaneskjördæmi, og þá er einmitt gert ráð fyrir því í þessari till., að rn. láti nú þegar fara fram athugun á því, hvar og hvenær þessir skólar verði stofnsettir.

Síðari mgr. þessarar till. er fram komin vegna beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, er óskar eftir því, að þm. kjördæmisins beiti sér fyrir því, að menntaskólakennsla hefjist nú þegar í Hafnarfirði. Það hafa verið gerðar samþykktir í fræðsluráði Hafnarfjarðar og bæjarstjórn Hafnarfjarðar á undanförnum árum um þetta efni, en eins og lög um menntaskóla eru, þarf engin lagabreyting til að koma, til þess að þessi skólastofnun geti átt sér stað, því að menntmrh. hefur heimild til þess að gefa skólum tækifæri til þess að gerast menntaskólar, ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði, sem rn. hefur sett. En þar sem þessi beiðni kom fram frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar og önnur sveitarfélög höfðu ekki óskað aðstoðar þm. við að hrinda þessu máli í framkvæmd, þá var þessi síðari mgr. till. tekin með. Í Hafnarfirði er menntastofnun, Flensborgarskólinn, sem allir þekkja, og ég sé ekki ástæðu til þess að rifja hér upp sögu þess skóla, hún er öllum kunn, en ég held, að allir geti verið sammála um það, að það væri mjög viðeigandi, ef hægt yrði að verða við þeirri beiðni, að Flensborgarskóli fái tækifæri til þess að gerast menntaskóli og útskrifa stúdenta.

Í sambandi við flutning þessarar till. hefur gætt frá ákveðnum sveitarfélögum í þessu hinu virðulega kjördæmi töluverðs misskilnings, sem ég vil tvímælalaust leiðrétta hér og undirstrika, að er misskilningur frá þeirra hendi. Hér er alls ekki gert ráð fyrir því, að stofnsettur verði aðeins einn menntaskóli í þessu kjördæmi. Hér er gert ráð fyrir því, að stofnsettir verði fleiri menntaskólar, eftir því sem ástæður eru fyrir hendi og sveitarfélögin óska eftir og geta uppfyllt þau skilyrði, sem rn. setur, og veit ég, að þeir hv. þm., sem eru flm. þessarar till., eru fúsir til þess að aðstoða þessi sveitarfélög í þeim efnum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa till. og legg til, að umr. verði frestað og henni vísað til fjvn.