16.03.1971
Sameinað þing: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

135. mál, verknáms- og þjónustuskylda ungmenna

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið flutt með líku sniði á þremur þingum áður, 1967–1968, 1968–1969 og 1969–1970, og er nú flutt í fjórða sinn. Það hefur þó tvisvar fengið afgreiðslu úr n., að vísu ekki samhljóða, en nál. með og móti kom á þinginu 1968–1969. Þar er getið umsagna, sem hv. allshn. bárust um málið, og meiri hl. þessara umsagna var meðmæltur því, að till. yrði samþykkt, og einkum voru á þann veg umsagnir, er bárust frá ýmsum félögum yngri manna.

En í nál. meiri hl. þá, þar sem mælt var gegn því, að till. yrði samþ., er m.a. vitnað í lög, sem sett voru 1941 um heimild fyrir kaupstaði og hreppsfélög til að koma á hjá sér þegnskylduvinnu. Þau lög eru aðeins heimildarlög, og samkv. þeim er ýmsum erfiðleikum háð að koma þessu á, — krafizt verulegs meiri hluta kosningarbærra manna, til þess að þetta verði samþykkt, að þátttaka í atkvgr. sé svo og svo mikil. Þar er talað um, að aldursmörkin verði 16–25 ár, 2–6 vikur árlega fyrir hvern, en þó eigi lengur en þrjú ár samtals. Það er gert ráð fyrir því, að þessi vinna verði kauplaus, en frítt fæði sem kallað er og dvalarkostnaður. Og samkv. þessum lögum er gert ráð fyrir viðurlögum, ef þessi skylduvinna er ekki innt af hendi. En það, sem ég hef aðallega við þessi lög að athuga, er það, að þau eru of svæðisbundin að mínu viti, þar sem þetta er bundið innan ákveðinna sveitarfélaga.

Ég birti fyrir tveimur árum allítarlega grg. með þessari till. og ætla nú að leyfa mér, þar sem nokkuð er langt um liðið frá því að hún lá hér frammi, að lesa hér meginefni hennar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég nefni nú viðfangsefnið verknáms- og þjónustuskyldu og hef fellt úr tímalengd og aldursskeið. Læt ég væntanlegri mþn. þá ákvörðun eftir með öðru, ef Alþ. vildi nú fallast á till. Ég hef ekki horfið frá þessari hugsjón, þessu uppeldis- og mannbótamáli, þessum farvegi orku, velvilja og vitsmuna til að styrkja og efla land og þjóð. Og mig undrar, hve hljótt er um þennan þátt í öllum þeim þunga nið, er um þjóðlífið fer, í þeim stormandi kröfum um skóla og nám, sem sífellt rísa hærra og hærra. Þykir mér sem sá þáttur, er ég er hér að fjalla um, falli um of í skuggann, því að mér sýnist, að verknáms- og þjónustuskylda sé nauðsynleg jafnvægishreyfing í þjóðfélagi síaukins skólanáms, síaukins bóknáms og skólabygginga. Ég hef vakið athygli á með þeirri till., er ég hef áður flutt, að málið sé vandasamt, krefjist mikils undirbúnings, vandaðrar og einbeittrar stjórnar. Viðfangsefni á ekki að skorta í stóru landi fámennrar þjóðar, sem á það sjálfstæðismál mest að gera landið allt sem byggilegast, með samgöngukerfi og samfélagsumbótum, sem jafna búsetuaðstöðuna.

Þótt ég felli úr till. aldursmörk unglinga og tímalengd verknáms- og þjónustuskyldu, er ég sem fyrr þeirrar skoðunar, að aldursmörkin eigi að vera á 4–5 ára skeiði og tímalengdin þurfi að vera a.m.k. 3–4 mánuðir og jafnvel lengri. Og verkefnin eru ekki sízt á sviði skógræktar og landgræðslu, bygginga í þágu almennings, svo sem skóla og sjúkrahúsa, vegagerðar og græðslu vegasára, snyrtingu útisvæða, hjálpar- og líknarstarfa. Jafnvel við sjóvinnu og landbúnaðarstörf.

Ég hef undrazt tómlæti um þetta mál. Ekki síður beina andstöðu. Og þó skyldi það ekki vekja svo mjög undrun. Einhver hættulegasti þjóðarkvilli nú er sjálfsmeðaumkunin. Og ýmsa grípur þessi hugmynd um þjónustuskyldu líkum tökum og tugthússdómur, útlegð, smán eða pynding. Hin hliðin er ekki skoðuð, þar sem skyldur þjóðfélagsins eru skráðar, né réttindi unglinganna í fræðslu- og skólamálum. Ég efast ekki um, að flestir muni a.m.k. með árunum viðurkenna réttmæti þessarar skyldu og fagna því að hafa notið hennar og hafa goldið samfélaginu með gagnlegum stundum, líka þeir, sem misskilja gildi þessa og tilgang á þjónustualdrinum. En það er ekki einungis sjálfsmeðaumkunin, sem er meinsemd, heldur og ekki síður meðaumkun margra, sem við uppeldi fást. Steingrímur segir um Ísland:

Oft finnst oss vort land eins og helgrindahjarn. En hart er það aðeins sem móðir við barn.

Það agar oss strangt með sín ísköldu él, en á samt til blíðu, það meinar allt vel.

Þetta á ekki beint við um verknáms- og þjónustuskyldu, — ég held, að flestum verði sá tími eins og bros - verði beinar yndisstundir - æskan er yfirleitt heilbrigð, — en ég dreg þetta fram til umhugsunar fyrir þá, sem þjást af sjálfsmeðaumkun og meðaumkun sinna nánustu.

Ég hef að yfirlögðu ráði orðað þáltill. á þann veg nú að tala um verknáms- og þjónustuskyldu. Ekki af ótta við tal um þrælahald né til þess að reyna að blekkja um það, sem á bak við býr: Nei! Heldur vegna þess, að slík þjónustuskylda, sem um ræðir í till., er í mörgum tilfellum nám og því fleirum sem velferðarþjóðfélaginu miðar meir áfram. Já, mörgum nám og flestum eða öllum aukin menntun með margvíslegum hætti. Menntun er ekki aðeins nám og þekkingaröflun á skólabekk — jafnvel miklu fremur snerting við almenn störf þjóðarinnar, t.d. ekki sízt ræktunarstörf til nytsemdar og fegrunar. Störf, sem opna flestum nýjan heim, nýja rökhyggju, nýjan skilning á samræmi þjóðlífs og því, hvar ræturnar liggja, sem í þjóðfélagi jafnt og jurt er ekki aðeins festan, heldur er þannig aflað næringarinnar fyrst og fremst til viðhalds og vaxtar. Slíkt verknám og þjónustuskylda þyrfti að koma öllum unglingum í skilning um það, að rætur þjóðlífs liggja í frumframleiðslunni.“

Þetta vildi ég endurtaka nú, er ég mæli fyrir þessari till. hér á hv. Alþ. í fjórða skipti. Ég vil minna á það, að í 4. hefti Sveitarstjórnarmála 1970 er frásögn af umræðufundi um unglingavinnu. Þar segir, að á öllu landinu muni hafa verið um 4600 börn í slíkri vinnu hjá kaupstöðum og kauptúnum, svo og um 550 við skógræktarstörf. Þetta finnst mér benda til þess, að það sé býsna mikið svið, sem þessi hugmynd hefur í þjóðlífinu, en ég vil aðeins vekja athygli á því hér enn í sambandi við málið, að þessi unglingavinna er bundin innan hvers sveitarfélags fyrir sig.

Ég rakst á klausu í Frjálsri þjóð, sem birtist þar sem heitir „Lítið fréttablað“. Það er lítil pistilsyrpa í Nýju landi, Frjálsri þjóð, og þessi pistilögn heitir þjónustuskylda. Og með leyfi forseta vil ég lesa það, sem þar stóð:

„Jónas Pétursson alþm. hefur endurflutt till. sína til þál. um verknáms- og þjónustuskyldu ungmenna. Þessi till. er ekki frumleg, heldur gömul hugmynd íklædd nýjum skrúða og ber með sér, að flm. hennar lifir í grárri forneskju. Vissulega er það göfugt verkefni fyrir ungmenni að vinna í þágu þjóðfélagsheildarinnar, en er Jónasi Péturssyni ókunnugt um, að í þessu neyzluþjóðfélagi er ekkert gert nema fyrir peninga, að í þessu fyrirmyndarríki svíkja menn, sé þess nokkur kostur, sbr. vinnu-, skatt- og kosningasvik, að í þessu velmegunarríki nægir ekki öllum fjölskyldum ein fyrirvinna, að námsfólk þarf a.m.k. að vinna á sumrin til að geta stundað nám að vetrinum.

Ó, hve margur yrði sæll

og elska mundi landið heitt

mætti hann vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessi vísa gildir enn sem svar við hugmyndunum um þegnskyldu. Við leysum ekki unglingavandamálin með því að láta unglingana vinna kauplaust fyrir þjóðfélagið.“

Svo mörg eru þessi orð í Litlu fréttablaði Frjálsrar þjóðar. Ég vil aðeins segja það út af þessari klausu, að mér sýnist, að rakanna sé sérstaklega leitað í þessari vísu Páls heitins Árdals aftur til aldamóta eða um það bil, og sá, sem sækir rökin gegn þegnskylduvinnu þangað, hann finnst mér ekki lifa síður í grárri forneskju en flm. þessarar þáltill.

En ég hef mikið velt fyrir mér, hvernig stendur á þessari dæmalausu tregðu hv. alþm. að taka afstöðu til þessa máls, tregðu, því að á annan veg verður tæpast skilið, að ekki hefur fengizt afgreiðsla á till., þrátt fyrir margendurtekinn flutning og afgreiðslu úr n. Í fyrsta lagi fær málið sjálft, ákvörðun um þjónustuskyldu, ekki afgreiðslu með þessari till. Hins vegar má ætla, að þeir, sem eru till. samþykkir um rannsókn málsins, séu a.m.k. ekki beint andvígir málinu, en þó er eins og einhver beygur í mörgum alþm. Er það vegna þess, að þeim kemur þrælahald í hug, þegar skylduvinna er nefnd? Er svo kynsterk sú erfðahugsun, þau andlegu áhrif, sem erfið lífsbarátta margra alda hafði á Íslendinga, að velsældarskeið slík sem verið hafa síðustu áratugi megna ekki að má þau í burtu? Svo sterk, að margslungin verkefni samfélagsins, sem falla sífellt til og þarf að sinna og eru kjörinn menntabrunnur, a.m.k. lítt vinnuvönum unglingum, og öllum heilsu- og sálubót, megna ekki að kalla fólk til fylgis við þessa till. Mörgum hefur reynzt vel, til að brynja sig gegn einhverri skoðun eða hugmynd, að mála fjandann á vegginn. Því flestir eru a.m.k. í orði kveðnu honum andstæðir. Ég held þó, að sífellt hækki gengi heilbrigðrar hugsunar, eigin mats á rökum máls. Vinna er blessun, en ekki bölvun, sérstaklega líkamleg vinna. Þjóðfélagi fylgja réttindi og skyldur, ella stenzt það ekki. Réttindi ókeypis kennslu í skólum eru mikil. Ég tel t.d. eðlilegt, að einhver skylda komi þar á móti. Hugsa ég þó svo, að jafnframt yrði skylduþjónustan liður í kennslu, enda nú orðið mörgum hvað mest nauðsyn að læra að vinna og hljóta þá þjóðfélagslegu menntun, sem í vinnunni býr, tengja þegn og þjóðfélag. Viss þáttur þessa máls er viðurkenndur með unglingavinnu í þéttbýlinu. En það vantar tilfinninguna fyrir því, að verið sé að gegna skyldu við þjóðfélagið, og það vatnar þá þjóðfélagsjöfnun, sem unglingavinnan, skylduþjónustan, þarf að fela í sér með því að taka fyrir verkefni víðs vegar í strjálbýlinu, sem æskufólk þéttbýlisins leysir af hendi. Þannig mætti og á að stuðla að þjóðfélagslegum jöfnuði. Þess vegna tel ég ranga hugsun í lögunum frá 1941, sem miðuðu við innbyrðis skyldu hvers sveitarfélags.

Ég hef síðustu árin sérstaklega hugleitt frágang og snyrtingu við vegalagningu og græðslu og jöfnun sára, sem hljóta að koma, eru afleiðing vegalagningar. Ég tel mjög óhyggilegt, að framkvæmdaflokkur, sem sannarlega þarf að beita allri orku í hraða, trausta og ódýra framkvæmd, eigi jafnframt að annast snyrtingu og græðslu sáranna í landið og fegrun vegkantanna. Þarna, einmitt þarna, er kjörið verkefni unglingaflokka. Þetta er geysimikið verkefni um land allt, nauðsynjaverkefni, og tilgangurinn ljómar við æskufólkinu, að hraða vegagerð enn meira. Þeir leggja viðbótarafl í verkefnið að byggja vegakerfið í landinu. Þeir græða sárin, sem því miður verður að valda, og fegra það land, sem við flestum blasir, íslenzkum jafnt sem erlendum, sem um landið ferðast, og þeir jafna aðstöðu fámennra og fjölmennra byggðarlaga, sem í mínum huga er hvað mest um vert. Áhrif slíks starfs eiga að glæða guðsneistann í sál unglingsins, áhrif starfs, sem bætir, fegrar og jafnar.

Nú er ný skólalöggjöf í mótun. Hún hefur verið rædd hér á Alþ. Margt er vel um hana, mest þó um vert að minni hyggju strjálbýlisins vegna, að landsprófið er lagt niður og þar með sú tvískipting gagnfræðanámsins, sem hefur komið í veg fyrir, að gagnfræðanámið gæti færzt svo nærri heimilunum sem æskilegt og nauðsynlegt er. Fámenn byggðarlög hafa með landsprófsvenjunni misst aðstöðu til þess að koma við hjá sér því námi og þeirri kennslu, sem gagnfræðanámið hefur fólgið í sér, og af því hefur svo leitt meiri kostnað heimilanna, sem þess vegna hafa orðið að senda börn sín og unglinga lengra í burtu. En lenging skólanámsins í 9 mánuði á ári er að mínu viti ekki við hæfi sveitanna. Það ákvæði grunnskólalaganna felli ég mig ekki við. Ég hef þá trú á þátttöku barnanna og unglinganna í atvinnulífinu, ég hef þá trú á þátttökunni sem menntabrunni, að ógæfa sé að kippa þeim tengslum frekar í burtu. Verknáms- og þjónustuskylduna á að tengja skólanáminu, gera þann tíma gildan námstíma, a.m.k. öllum þeim unglingum, sem þess óska.

Nú liggur þessi till. mín fyrir í því formi, sem fimm allshn.-menn af sjö felldu sig nokkurn veginn við á síðasta þingi. Þess vegna vil ég nú vona, að málið geti gengið fljótt og komið til atkv. á Alþ. En ég tel þó rétt, þrátt fyrir það, að allshn. afgreiddi það á þennan hátt á síðasta ári og sé enn skipuð sömu hv. alþm. sem þá, að því verði vísað til n. að þessari umr. lokinni, og legg ég svo til, að málinu verði jafnframt vísað til síðari umr.