19.03.1971
Sameinað þing: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3633)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég veit, að við erum hér mjög tímabundin, og mun ég því ekki tala langt mál, þó að ástæða væri kannske til þess, en mun aðeins drepa hér á örfá atriði, sem mér finnst, að ég geti ekki komizt hjá að ræða við þessa fyrri umr. um vegaskýrsluna.

Það hefur verið okkur ýmsum allveruleg ráðgáta, hvernig viðhaldsfénu sjálfu sé skipt. Og það fer ekki á milli mála, að ýmsir telja, að viðhald veganna sé mjög misjafnt eftir héruðum. Ég veit, að sú skoðun er t.d. í Eyjafirði sérstaklega, að þar hafi viðhaldið verið mjög lélegt undanfarin ár. Að vísu má segja, að öllu vegakerfinu hjá okkur hafi stórhrakað á liðnum árum, og það er varla hægt að kalla sumt af þessu vegi, heldur miklu frekar troðninga, þar sem þeir eru sokknir niður í mýrarnar, og landið umhverfis er víða hærra en vegurinn. Ég fór og fékk verkfræðing Vegagerðarinnar til þess að ferðast um þessa vegi í sumar og líta á þá, og hann viðurkenndi, að vegirnir væru miklu lakari en hann hefði séð þá annars staðar. Og ég spurði eftir því, hvað hann teldi, að við þyrftum mikið fjármagn til þess að koma þeim í sæmilegt ástand á næstu þremur átum, t.d. hliðstætt ástand og aðrir vegir, sem hefðu líka flutninga og vegir Eyjafjarðar, og hann taldi, að það þyrfti að tvöfalda viðhaldsféð á næstu þremur árum til þess að ná þessu marki: Ég vildi fá upplýsingar um það, hvernig þessu er skipt á milli héraða. Ég sé t.d., að einn vegur hér, vegurinn um Landsveit, að mig minnir, fór illa í fyrra, og það voru fengnar að láni 3 millj. kr. til þess að gera við hann. Vegirnir í Eyjafirði voru ófærir langan tíma, þannig að það var ekki hægt að koma mjólkinni nema á dráttarvélum, og við fórum fram á það að fá aukið viðhaldsfé. Við gátum ekki fengið það öðruvísi en að taka það af uppbyggingarfé, sem var á vegáætlun á árunum 1971 og 1972. Mér sýnist því, að það gildi alls ekki sama reglan hvar sem er á landinu í þessum efnum. Ég vildi fá upplýsingar um þetta, hvaða regla þetta er, eða er það bara þessi á einum stað og önnur á hinum. Ég held, að þegar vegirnir eru eins og þeir voru í fyrra hjá okkur, þá verði, burtséð frá því, hvers vegna þeir eru svona, að gera við þá þannig, að þeir séu færir. Ég verð því að mælast til þess, að það verði einhvern veginn greitt til baka, þannig að þeir í Öngulsstaðahreppi og Hrafnagilshreppi fái aftur þetta fé í nýbyggingar, þar sem ég sé það í skýrslu hér, sem hæstv. samgrh. hefur lagt fram og var til umr. hér fyrr í dag, að þegar eins stendur á annars staðar, þá er tekið lán til slíks viðhalds.

Ég harma það, hvernig þessari niðurröðun á vegauppbyggingunni er fyrir komið. Ég tel, að það væri eðlilegra að byggja upp vegina á snjóþyngstu svæðunum og láta það ganga fyrir. Ég var að tala við bílstjóra hér fyrir nokkrum dögum, Það er ekki Eyfirðingur, það er maður úr öðru byggðarlagi, sem hefur ekið veginn hér norður og til Ólafsfjarðar. Hann taldi Dalvíkurveginn langversta veginn á allri leiðinni, sem hann æki. Ég held, að það sé ekki hægt að komast hjá því að taka upp aðra stefnu í þessum málum og það verði ekki gert öðruvísi en að taka meiri lán. Og mér finnst eðlilegt, að þeir, sem búa við enga vegi eða mjög takmarkaða, eins og ég tel, að sé um marga í okkar kjördæmi, þeir sitji fyrir við framkvæmdir, en ekki hið gagnstæða, eins og nú horfir. Ég vil skora á hæstv. samgrh. að athuga það, hvort ekki er hægt að fá meira fjármagn t.d. í Dalvíkurveginn á þessu sumri, því að hann þjónar á fjórða þúsund manns. Sá vegur er þannig, að ef koma einhverjir snjóar, þá er hann tepptur langtímum saman, en yrði það ekki, ef hann yrði byggður upp. Það hefur komið hingað nefnd manna til þess að reyna að fá þarna eitthvað gert, en ég sé það, að þessir menn hafa ekki náð eyrum ráðh. miðað við þau plögg, sem okkur hafa borizt í hendur. En fyrst og fremst vil ég óska eftir því á þessu stigi að fá upplýsingar um það, hvernig viðhaldsfénu sé skipt og hvort héruðin búi við eitthvað misjafnar reglur í þessu sambandi. Það er auðvitað eðlilegt, að þeir vegir, sem eru orðnir elztir og í mestri niðurníðslu, þurfi meira viðhald en nýbyggðir vegir, og það verður auðvitað að taka tillit til þess, þegar þessu viðhaldsfé er skipt. Ég vil svo endurtaka það, að það þarf að breyta þessari skiptingu á vegafénu, og ég vil fá upplýsingar um það, ef hægt er, eftir hvaða reglum þetta er gert.