19.03.1971
Sameinað þing: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (3634)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að mér gefist bráðlega tækifæri til þess að mæla fyrir öðru máli, sem hér er á dagskrá, þáltill., sem er 9. liður á dagskránni, um áætlun um ráðstafanir til að binda enda á vanþróun Íslands í vegamálum, sem við flytjum allmargir þm. Get ég af þeim ástæðum geymt mér ýmislegt, sem ég vildi segja um vegamál almennt, og skal ekki verða langorður að þessu sinni. En ég geri ráð fyrir því, að það megi líta svo á, að þó að hér sé rætt um 5. mál dagskrárinnar, þá sé 4. málið, þ.e. skýrsla ráðh., einnig til umr. fyrir þá, sem hana vilja ræða, vegna þess að sú skýrsla var ekki rædd hér fyrr í dag.

Það er að vísu ekki margt, sem ég ætlaði að segja um þessa skýrslu, en ég vil samt nota tækifærið til þess að óska upplýsinga um Stafnsveg í Reykjadal. Þetta er vegurinn af þjóðbrautinni um Narfastaði og Stafn, og voru á árinu veittar í þennan veg 200 þús. kr. Það er sagt, að framkvæmdum sé frestað, og vil ég þá spyrjast fyrir um það, hvort þetta eigi ekki að skilja svo, að þetta fé sé geymt til næsta árs og verði notað þar þá án tillits til þeirrar vegáætlunar, sem nú verður samþ. fyrir árið 1971.

Í skýrslunni er á bls. 4 rætt um vetrarviðhald þjóðvega, þ.e. snjómokstur, og hefði ég gjarnan viljað ræða það mál nokkuð í þessu sambandi, en fresta því að ræða um það þangað til við 2. umr. vegáætlunarinnar. Vera má, að það liggi þá ljósara fyrir, sem ég þarf að spyrja um í því sambandi.

Ég vil þá með örfáum orðum víkja hér að till. þeirri til þál. um vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972, sem hér liggur fyrir. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. um form þessarar till., hvernig beri að skilja það. Í till., eins og hún liggur fyrir, eru áætlaðar tekjur Vegasjóðs í I. kafla, og síðan er í II. kafla skipting útgjaldanna, þ.e. ráðstöfun fjárins. Síðan er í IV. kafla brtt. við vegaskrána, að mér skilst, eins og hún er í vegáætlun, eins og hún gildir fyrir árið 1969–1972. Ég vil í fyrsta lagi spyrja um það, hvort ekki sé litið svo á, að áfram gildi óbreyttur fyrir árið 1971 og 1972 III. kaflinn, hvort ekki megi skilja það svo, að hann gildi óbreyttur, ef honum verður ekki breytt í meðförum þingsins, en þessi kafli fjallar um framkvæmdir við hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir, sem ekki verða að öllu leyti greiddar af fé Vegasjóðs á áætlunartímabilinu. Og ef menn vilja gera brtt. um lánsfé, hvort það eigi þá ekki að vera brtt. við þennan kafla úr hinni eldri vegáætlun. Ég átta mig ekki fullkomlega á því, hvernig þetta liggur fyrir formlega.

Eins og ég sagði áðan, þá eru hér í IV. kafla gerðar till. um breytingar á IV. kafla áætlunarinnar, sem í gildi er, um flokkun vega. Og þetta eru ekki margar breytingar, en nokkrar samt, og ein þeirra er um aðalfjallvegi. Þar er gert ráð fyrir, að því er mér skilst, að bætt sé við upptalninguna á aðalfjallvegum. Ég vil í þessu sambandi beina því til hæstv. ráðh., hvort hann gæti ekki hugsað sér að vera því fylgjandi, að þarna yrði bætt við enn einum fjallvegi, sem er mjög mikið notaður, en það er Dettifossvegur, þ.e. vegurinn úr Kelduhverfi og upp að Dettifossi og þaðan upp á þjóðbrautina á Mývatnsöræfum. Þessi fjallvegur er mjög mikið farinn af ferðamönnum á sumrin, en þetta er aðeins ruddur vegur, og sums staðar er naumast hægt að telja hann ruddan, og mér finnst vera ástæða til þess, að hann verði talinn í flokki aðalfjallvega og ætla nokkurt fé til hans samkvæmt því. En ég vil biðja hæstv. ráðh. að taka þetta til athugunar áður en lengra er farið í afgreiðslu áætlunarinnar.

Ég get í sjálfu sér tekið undir margt af því, sem fram hefur komið í ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem talað hafa, t.d. það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði um viðhald vega, en ég skal ekki ræða það nánar. Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um þann kafla eða þá liði í II. kafla till., sem flokkast undir nýja þjóðvegi. Hann ræddi sérstaklega um 7. tölulið í þessum þætti, sem heitir Til nýrra framkvæmda samkv. 2.3.2. og 2.3.3., sem eru þjóðbrautir og landsbrautir. Mér skilst, að það hafi verið reiknað út fyrir árið 1971, að þegar búið er að hækka þessa tvo liði sem nemur hækkun vegagerðarkostnaðar frá því sem var, þegar gildandi áætlun var samþ., þá séu eftir 39.2 millj. kr., sem gæti þá verið til nýrra framkvæmda í þessum vegaflokkum, þjóðbrautum og landsbrautum, sem er náttúrlega ákaflega lág upphæð, en þetta er upphæðin, sem talið er, að sé um að ræða. Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð um þetta og sagði, að hv. fjvn. mundi gera till. um skiptingu þessarar upphæðar milli kjördæma, og síðan er þm. kjördæmanna ætlað að reyna að koma sér saman um, hvernig því yrði skipt, sem kæmi í hlut hvers kjördæmis. Ég geri nú ráð fyrir því, að ef þm. eiga að taka það að sér að skipta slíkum upphæðum, þá verði þeir að fá upplýsingar um það, eftir hvaða reglum þessari aðalupphæð er skipt á milli kjördæmanna. Það verður að liggja fyrir og hlýtur að eiga að byggjast á lengd þjóðvega í hverju kjördæmi eða ástandi þjóðvega í hverju kjördæmi og þá kannske e.t.v. einnig á því, hvernig sérstakar fjárhæðir eru lagðar til vega í einhverjum kjördæmum samkv. svo kölluðum áætlunum um það efni. Þetta vil ég láta koma fram, og mér finnst, að þetta eigi að liggja fyrir.

En í öðru lagi vil ég vekja athygli á því, að á bls. 5 er till. um hækkun fjárveitinga til þjóðbrauta fyrir árin 1971 og 1972, og sú till. á að fela í sér þá hækkun á núgildandi upphæðum, sem stafar af hækkun vegagerðarkostnaðar. Á árinu 1971 er þessi hækkun vegna kostnaðarauka áætluð 9.7 millj. til þjóðbrauta og til landsbrauta 11.1 millj. En í bráðabirgðaáætluninni fyrir árið 1972 er ekki gert ráð fyrir þessari kostnaðarhækkun. Og afgangsupphæðin á því ári er því miklu lægri en hún sýnist og nefnt er á öðrum stað í grg. Það er auðvitað alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er ekki hægt að vita um það nú, hver kostnaðaraukinn verður á árinu 1972, en það er vitað, hver hann er á þessu ári, og mér finnst, að viðkunnanlegra hefði verið að gera áætlun til bráðabirgða, þetta er hvort eð er ekki nema bráðabirgðaáætlun, gera ráð fyrir þeirri kostnaðarhækkun á árinu 1972, sem líkleg er á árinu 1971. Þetta gæfi réttari mynd af því, sem til ráðstöfunar er á því ári.

Ég held, að ég láti þessar spurningar nægja, sem ég hef borið fram, og þetta, sem ég hef að öðru leyti sagt um nokkur atriði skýrslunnar og till., sem fyrir liggur.