19.03.1971
Sameinað þing: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það væri nú kannske ástæða til þess að ræða svona almennt um vegamálin meira en ég hef gert og stefnuna í efnahagsmálum og nýja stefnu í samgöngumálum, eins og hv. 3. þm. Vesturl. var að tala um hér áðan. En það verða nú sennilega tækifæri til þess að taka upp umr. um það, þegar rætt verður um till. til þál. um að binda endi á vanþróun í vegamálum á Íslandi, þannig að það getur beðið þangað til. En í tilefni af beinum fsp., sem til mín hefur verið beint, þá er sjálfsagt að leitast við að svara þeim.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. var að spyrja um það, hvort framkvæmdafé til ákveðins vegar sé ekki geymt, þar sem framkvæmdum var frestað. Þannig er það alltaf, að ef framkvæmdum er frestað af hagkvæmnisástæðum, kannske til þess að safna saman hærri fjárhæð og gera vinnubrögðin þar með hagkvæmari, þá er féð geymt, og þannig hlýtur það að vera með þennan veg eins og aðra. Þá var hv. þm. að spyrja um það, hvernig það væri með III. kafla í sambandi við brtt. um flokkun nokkurra vega. Mér sýnist þetta ekki vera vandskilið, og ef menn flytja brtt., þá megi gera það alveg með eðlilegum hætti, og efast ég ekkert um, að hv. 1. þm. Norðurl. e. geri sér grein fyrir því, að þótt þarna sé breytt um flokkun á nokkrum vegum, þá sé hægt að komast fram hjá því að villast á því.

Þá spyr hann, hvort ég vilji styðja það, að Dettifossvegur verði tekinn í fjallvegatölu, aðalfjallvegatölu. Ég get vel trúað því, að það væri réttmætt, og ég vil gjarnan ræða það nánar við hv. þm. Ég veit, að þessi vegur er notaður töluvert af ferðafólki á sumrin og býst alveg við, að það geti verið réttmætt, en áður en ég vil nokkuð fullyrða um það, þá tel ég betra að athuga það, og ég vil ræða það við hv. þm., þegar ég hef athugað það nánar, en ég skal skoða það með fullum velvilja.

Þá talaði hv. 1. þm. Norðurl. e. um það, að fjvn. mundi gera till. um skiptingu á þessu nýja framkvæmdafé, 39.5 millj. kr. Þannig hefur það alltaf verið, að fjvn. hefur gert till. um skiptingu fjár til hinna einstöku kjördæma. En að sjálfsögðu eiga þm. rétt á því að ræða við fjvn. og fá að kynnast því, eftir hvaða reglu fénu er skipt á milli kjördæmanna. Það finnst mér alveg sjálfsagt, og endanlega verður þetta allt að gerast með samkomulagi, því að það er þá undir þm. komið að lokum, hvernig með þetta er farið.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. var að tala um bráðabirgðaáætlunina 1972 og um fé til landsbrauta og þjóðbrauta, að það væri ekki gert ráð fyrir neinni hækkun í þessari bráðabirgðaáætlun á þeim leiðum. Það er alveg rétt, og það er einfaldlega vegna þess, að eins og bráðabirgðaáætlunin liggur fyrir, þá er ekkert fé til þess, og það verður bara að athuga það í sumar og í haust, hvað mikið það verður, sem er úr að spila. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er vitanlega nauðsynlegt að hækka framlag til þessara vega a.m.k. sem nemur áorðnum verðhækkunum. En eins og ég minntist á hér áðan, þá er það ekki vitað nú, hverju verður úr að spila í haust, þegar samin verður endanleg áætlun fyrir árin 1972–1975.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. beindi nokkrum spurningum til mín og vildi nú svona láta á sér skilja, að viðhaldsfénu væri misjafnlega skipt og jafnvel af einhverri hlutdrægni. Hann spurði að því, hvort það gilti ekki ein og sama reglan eða eftir hvaða reglum væri farið. Nú er það svo, að það eru vitanlega vegaverkstjórar í öllum kjördæmum og í sumum kjördæmum fleiri en einn og jafnvel tveir. Þá eru og verkfræðingar, deildarverkfræðingar, sem ferðast um kjördæmin og kynna sér ástand veganna. Vegamálastjóri safnar saman skýrslum um ástand veganna í hverju héraði. Það er vegamálastjóri, vegamálaskrifstofan, en ekki rn., sem skiptir þessu viðhaldsfé, og ég efast ekki um, að vegamálastjóri og verkfræðingar hans gera það á eins hlutlægan og sanngjarnan hátt og unnt er. Þar ræður ekki hlutdrægni. Það er áreiðanlega ekki meiningin hjá þeim að láta Eyfirðinga fá minna en þeim ber miðað við aðra. Nú veit ég það, að í Eyjafirði eins og víða má finna lélega vegi, það er alls staðar hægt að finna lélega vegi. Hv. 5. þm. Norðurl. e. talar oft um lélegan búskap hjá bændum. Og ef maður ætti stundum að taka það alvarlega, sem þessi hv. þm. segir um búskapinn og bændurna, þá væri nú ekki hátt risið á bændastéttinni. Nú er það svo, að í Eyjafirði eru ágætir bændur og myndarlegir og tiltölulega tekjuháir vegna dugnaðar síns og myndarskapar og vegna þess, að héraðið er gott. Mér dettur nú í hug, hvort það geti nú ekki verið, að vegirnir í Eyjafirði séu dálítið betri en hv. þm. lýsir þeim, eins og bændurnir í Eyjafirði eru miklu betri en hv. 5. þm. Norðurl. e. lýsir þeim venjulega. En samt sem áður get ég alveg samþykkt það, að það hljóti að finnast lélegir vegir í Eyjafirði og það sé æskilegt, að það verði veitt meira viðhaldsfé í Eyjafjörð eins og víða annars staðar á landinu. En reglan er þessi, að Vegagerðin, vegamálastjóri, skiptir vegafénu eftir að hann hefur aflað sér upplýsinga um ástand veganna. Og ég fullyrði, að það er gert á eins drengilegan og hlutlægan hátt og þeir geta.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. minntist á Landveginn. Það er ekkert leyndarmál, að það var tekið lán til þess að endurbyggja Landveginn. En hv. 5. þm. Norðurl. e. veit það eins og aðrir, af hverju þetta var gert. Það var vegna þess að Hekla gaus, og í staðinn fyrir það, að um þennan veg færu 10–20 bílar á dag, þá fóru suma dagana á meðan klakinn var að fara úr veginum 500–600 bílar á dag, og vegurinn datt niður og var eitt svað. Ég veit nú ekki, hvað bændur í Landsveit og Holtasveit hugsa til hv. 5. þm. Norðurl. e., þegar þeir heyra það, að hann vildi láta bændur í þessum sveitum hætta að selja mjólk og vera veglausa s.l. ár. Ekki get ég nú kallað þetta stéttvísi, því að það eru eingöngu bændur, sem búa þarna, og ég hef engan þm. heyrt tala um það, að þetta hafi ekki verið sjálfsögð framkvæmd miðað við það tilefni, sem var. Og ég er bara undrandi á því, að hv. þm. skuli reyna að gefa það í skyn hér, að hlutdrægni hafi ráðið í þessu, þegar fjár var aflað til þess að gera við þennan veg. Og hv. þm. sagði, að það hefði alveg eins átt og með sama hætti að útvega fé til vegar í Eyjafirði. Hann hefur kannske verið slæmur, þessi vegur, en ekki af sama tilefni og áreiðanlega ekki neitt svipað því eins illa farinn.

Hv. þm. talaði um, að það þyrfti að taka upp nýja stefnu. Það ætti að láta þá vegi ganga fyrir, sem eru snjóþyngstir, og hlaða þá upp, en þá væntanlega að fresta hraðbrautagerð hér út frá Reykjavík. Ég get samþykkt það, að æskilegt er að geta byggt upp snjóþunga vegi, því að séu þeir háir og vel upp byggðir, þá tollir snjórinn síður á þeim og þeir eru lengur færir. En hitt vil ég ekki samþykkja, að það eigi að leggja til hliðar að gera varanlega vegi, þar sem umferðin er mest. Þegar því hefur verið lokið að gera varanlegt slitlag á þá vegi, þar sem umferðin er mest, þá verður aukið fjármagn laust til vegagerðar og vegaviðhalds annars staðar, og því ætti hv. þm. að gera sér grein fyrir. Ég vænti nú þess, að hv. þm. sé ljóst, með hverjum hætti viðhaldsfénu er skipt, og læt þá þessi orð nægja um það.

Við hv. 3. þm. Vesturl. vil ég tala síðar í sambandi við stefnuna í efnahagsmálum, stefnuna í samgöngumálum. Við höfum séð till. hv. framsóknarmanna um flugmál, sem er ekki flutt að ósk atvinnuflugmanna, — ég tek það fram, — og við höfum séð till., sem hv. 1. þm. Norðurl. e. minntist á hér áðan, en þessar till. bæta ekki úr. Þær marka ekki neina stefnu nema þá að skipa nefnd og aftur nefnd, og hv. þm., sem standa að flutningi þessara till., vita, að það er verið að endurskoða áætlun um flugvelli og flugmál og að Vegagerðin var að vinna að allsherjarvegáætlun árið, sem leið, og löngu áður en þessi till. var flutt. Það er alveg út í bláinn, að engin stefna sé í samgöngumálum. Það er úr lausu lofti gripið, eins og seinna má ræða nánar um.