19.03.1971
Sameinað þing: 35. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3636)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hefði mátt ætla eftir ræðu hæstv. samgrh., að hér væri verið að ræða um landbúnaðarmál, en ég mun nú ekki ræða um þau að þessu sinni, þó að ráðh, hafi kannske gefið tilefni til þess.

Ég var ekki að finna að því, eins og ráðh. sagði, að það hefði verið gert við Landveginn. Það er alveg út í hött. Ég var bara að segja, að það þyrfti að gera við fleiri vegi. Ef vegir norður í Eyjafirði, eða hvar sem þeir eru, eru ófærir eins og vegurinn hefur eflaust verið í Landsveit, þá þarf líka að gera við þá, þeir hafa líka sinn rétt. En það er eins og hæstv. samgrh. skilji það alls ekki.

Það er ekki rétt skilið hjá hv. 3. þm. Vesturl., að það sé ekki stefna í vegamálum. Hún kom greinilega fram. Það á að ganga fyrir að byggja vegina hér á Suðvesturlandi, aðrir þurfa ekki á neinum vegum að halda. Þeir eiga bara að bíða í nokkra áratugi, eftir því sem hæstv. ráðh. sagði hér í ræðustól núna síðast. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. þm. hafi áttað sig á því, að það verður ekki gert á einum áratug að byggja upp vegina og koma varanlegu slitlagi á þá. Ég tel bara, að þeir, sem hafa enga vegi, eigi að sitja fyrir annarri framkvæmd. Það er eitt að hafa vegi og annað að hafa enga vegi, og ef ekki verður komið til móts við þessa menn, þá helzt ekki byggð á þessum stöðum. Ráðh. skilur það kannske ekki. Hann hefði átt að sjá vegina í Eyjafirði s.l. sumar. Hann hefur kannske séð þá í Landsveit, en hann sá þá ekki í Eyjafirði. En þeir hafa forgang í Landsveit, ekki Eyfirðingar.

Ég hef ekki talað um það, að bændur væru eitthvað verri eða betri. Ég hef talað um efnahag bændanna. Það er annað mál. En um það ætla ég ekki að ræða frekar nú. Það var hægt að heyra það á ráðh., að þetta væri allt annað, af því að Hekla gaus. Það er eins og það skipti einhverju máli, hvers vegna vegirnir eru í svaði. Ef vegurinn er ófær, þá þarf að gera við hann, af hvaða ástæðum sem það er.

Ég sé ekki ástæðu til þess að eltast við fleira af því, sem ráðh. sagði. Það kom greinilega fram, og það er mjög gott, það kom greinilega fram, hvernig hann hugsar í þessum málum. Ég gat um það í minni ræðu áðan, að ég hefði farið með verkfræðinginn, sem stjórnar á Norðurlandi og hefur eftirlit með vegagerðinni. Ég sagði hans dóm, en ekki minn, og ef ráðh. vill tala við hann, þá er hann sjálfsagt reiðubúinn til þess að staðfesta það. En ég verð að segja það, að það er almenn skoðun, — ég vil endurtaka það, — það er almenn skoðun, að viðhaldið sé minna í sumum landshlutum en öðrum, hverjum sem þar er um að kenna, og það væri þarft verk fyrir ráðh. að tala við sína undirmenn hjá vegamálaskrifstofunni til þess að fá upplýsingar frá þeim, þar sem hann efar það, sem við segjum hér í þinginu.