05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3640)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðaáætlun fyrir árið 1972 var vísað til fjvn. þann 19. marz s.l. Hefur n. síðan rætt málið á nokkrum fundum sínum og átt viðræður við vegamálastjóra, Sigurð Jóhannsson, og fengið hjá honum margvíslegar upplýsingar varðandi till. auk þess sem einstakir nm. og þm. aðrir hafa fengið upplýsingar hjá vegamálaskrifstofunni um einstakar framkvæmdir.

Þegar um það var rætt á s.l. hausti, að auka þyrfti tekjur Vegasjóðs til þess að mæta þeirri verðhækkun, sem átt hafði sér stað frá árinu 1969, þegar fjögurra ára áætlunin var samin, svo að ekki þyrfti til þess að koma að draga úr áður ákveðnum framkvæmdum, voru þm. yfirleitt á einu máli um það, að viðbótartekjuöflun yrði að vera það rífleg, að nokkurt fé væri afgangs til nýbyggingar vega og þá fyrst og fremst landsbrauta og þjóðvega umfram það, sem fyrir var í vegáætluninni frá 1969. Heildarupphæðin, sem þannig var til ráðstöfunar, nam þó ekki hærri upphæð en 39.2 millj. kr. Samkv. áætlunum vegamálaskrifstofunnar nema verðhækkanir, sem átt hafa sér stað á þessu tímabili, um 17.5%, og er sú prósenta alls staðar reiknuð með í þessari endurskoðuðu áætlun, sem hér liggur nú fyrir. Varðandi skiptingu á því fé, sem ég áðan nefndi, eða þessum 39.2 millj. kr., varð um það samkomulag í n., á hvern hátt upphæðinni skyldi skipt á milli kjördæma, en síðan komu þm. hver í sínu kjördæmi sér saman um innbyrðis skiptingu á því fjármagni, og náðist þar alger samstaða, eftir því sem ég bezt veit, enda gerði fjvn. þær till. að sínum. Þess skal þó getið, að áður en umræddu fjármagni var skipt, voru teknar 4 millj. kr., sem verja skal til undirbúningsrannsókna á fjórum stöðum, þ.e. í Hvalfirði, Borgarfirði, Eyjafirði eða Vaðlaheiði og til rannsóknar á brúarstæði á Ölfusá við Óseyri. Þá var einnig ákveðið að verja 200 þús. kr. af þessari fjárupphæð til fjallvegasjóðs. Það voru því réttar 35 millj. kr., sem komu til skipta og varið var til nýrra vegaframkvæmda og með þeim hætti, sem ég hef þegar greint frá. Ég tel þó rétt að skýra frá því, að af þeim upphæðum, sem skipt var á milli kjördæma, tóku þm. Norðurl. e. þá ákvörðun, að veita skyldi um 700 þús. kr. til skíðavegar í Hlíðarfjalli og 100 þús. kr. til Dettifossvegar. Og þm. Vestfjarðakjördæmis ákváðu einnig að verja af því, sem í þeirra hlut kom, 650 þús. kr. til skíðavegar í Seljalandsdal við Ísafjörð. Það er nauðsynlegt, að þessar upplýsingar liggi fyrir með hliðsjón af því heildarfjármagni, sem fjallvegasjóður hefur til ráðstöfunar á yfirstandandi ári.

Til hraðbrautaframkvæmda á yfirstandandi ári er, eins og till. ber með sér, um hækkun fjárveitingar að ræða, sem nemur um 62 millj. kr., og samkv. bráðabirgðaáætluninni nemur hækkun á næsta ári til hraðbrautaframkvæmda um 70 millj. kr. frá fyrri áætlun. Þessar fjárveitingar eru, svo sem kunnugt er, í sambandi við ákveðnar framkvæmdir, sem nú þegar er búið að bjóða út og einnig að semja um að verulegu leyti.

Þá vil ég geta þess, að n. leggur til, að samþykktar verði heimildir til lántöku samtals að upphæð 50 millj. kr. Hér er um vegakafla að ræða, sem nm. voru sammála um, að æskilegt væri að flýta framkvæmdum við. Umræddar framkvæmdir eru í fyrsta lagi við Heydalsveg. Þar vantar nú um 10 millj. kr. til þess að ljúka þeirri vegarlagningu. Segja má, að undirbyggingu vegarins sé nú að mestu leyti lokið, en þá er eftir að bera ofan í veginn slitlagið og ganga frá nokkrum lækjum og tveim smábrúm. Með þessu fjármagni ætti að takast að sjá fyrir endann á þessu verki og koma á langþráðum samgöngubótum. Þá er lagt til að taka 10 millj. kr. lán til Djúpvegar við Ísafjarðardjúp, en þar er mikið verkefni enn óleyst, en mundi miða verulega í áttina með umræddu fjármagni. Til Norðurlandsvegar í Langadal og Ólafsfjarðarvegar um Dalvík eru einnig till. um lánsheimildir að upphæð 10 millj. kr. til hvors vegar. Talið er, að brýn nauðsyn sé að endurbyggja báða þessa vegakafla, og jafnvel talað um, að þörf hefði verið fyrir hærri upphæð. Um það geta að sjálfsögðu allir verið sammála, en í vegamálum verður sennilega lengst af í mörg horn að líta, og þar sem fjármagn til framkvæmdanna verður sennilega einnig um langan tíma takmarkað, verður ekki hjá því komizt að miða fjárveitingar, hvort heldur þær eru teknar að láni eða eru til ráðstöfunar af handbæru fé, við þær staðreyndir. M.a. með tilliti til væntanlegrar þjóðhátíðar árið 1974 er talið óhjákvæmilegt að bæta veginn til Þingvalla og einnig vegarlögn um sjálfan þjóðgarðinn á Þingvöllum. Til þess að byrja á þessum framkvæmdum er lagt til að veita heimild til lántöku fyrir Þingvallaveg utan og innan þjóðgarðsins, 7 millj. kr., og loks 3 millj. kr. vegna Fjallabaksvegar um Syðri-Ófæru, en þessi vegarkafli er talinn geta komið að verulegu gagni eða jafnvel orðið eini tengiliðurinn fyrir byggðina þar eystra, ef til þess kemur, að Kötlugos eigi sér stað að nýju.

Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir brtt. fjvn. við till. til þál. um vegáætlun fyrir árið 1971 og bráðabirgðavegáætlun fyrir árið 1972. Mér er það ljóst, að óteljandi verkefni bíða úrlausnar, sem þessi vegáætlun getur ekki leyst úr, en hvað sem menn vilja að öðru leyti segja um áætlunina, þá verður því ekki í móti mælt, að þær vegaframkvæmdir, sem að undanförnu hafa átt sér stað í landi okkar og nú er ráðgert, að haldið verði áfram við, eru þær langstórstígustu, sem dæmi eru til um, að hafi átt sér stað.

Ég vil að lokum minnast á lánsheimild til vegagerðar á Austurlandi. Þar hefur nú verið rætt um að gera verulegt átak í nýbyggingu vega. 60 millj. kr., sem lagt er til, að teknar verði til framkvæmda á Austurlandi, eru ætlaðar til byrjunarframkvæmda, en það er sama upphæð sem um getur í fjárlögum yfirstandandi árs, heimildagrein, en kemur einnig í vegáætlun svo sem annað fjármagn til vegaframkvæmda. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjvn. og reyndar einnig í nál. minni hl., varð ekki um neinn ágreining að ræða innan n. um afgreiðslu málsins og allar brtt. flytur n. því sameiginlega. En þrátt fyrir það skilar minni hl. n. séráliti um málið og afstöðu sína til vegamála almennt.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en leyfi mér að vænta þess, að brtt. fjvn. nái fram að ganga og þáltill. þannig breytt verði samþ. og afgr. sem ályktun Alþingis.