05.04.1971
Sameinað þing: 41. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3642)

251. mál, vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu þessa máls, fyrir það að hafa orðið sammála um skiptingu fjárins og afgreiðslu málsins í heild. Ég get tekið undir ýmislegt af því, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það sé æskilegt, að ríkissjóður láti meira fjármagn af hendi til vegamálanna. Það munum við allir hv. þm. gjarnan vilja, en um leið og við berum þá ósk fram, gerum við okkur alltaf grein fyrir því, að ríkissjóður þarf að fá sitt og það þarf þá að afla fjár ríkissjóði til handa með öðrum hætti. Það er ekki ástæða til að orðlengja um þetta atriði að þessu sinni, þar sem þetta mál er komið á lokastig og fjármálin hafa svo oft verið rædd.

Ég er sammála því, sem kemur fram í nál. minni hl., að það verði naumast á næsta hausti, þegar ný vegáætlun verður samin, aflað fjár til Vegasjóðs með því að hækka benzín eða þungaskatt, og teljist það nauðsynlegt að hækka fé Vegasjóðs eða tekjur, þá verður ný fjáröflun að koma til. Ég er samþykkur því, að það þurfi að vera stefna í vegamálunum, hvernig eigi að byggja upp vegina, hversu miklu eigi til þeirra að kosta, hvort það eigi að vera fullkomnustu hraðbrautir eða millistig eins og það er orðað hér á þskj. 825. En þetta er það, sem bæði rn. og vegamálastjóri hafa gert sér grein fyrir, að það sé sjálfsagt að nota undirstöðuna af gömlu vegunum, þar sem það er fært, og á hraðbrautum, þar sem umferðin er mikil, en ekki þó sú mesta, að nota olíumöl til þess að komast yfir sem lengst svæði fyrir sem minnsta fjármuni. Við sjáum, að hér á austurleiðinni er áformað að nota olíumöl, þegar komið er upp fyrir Lækjarbotna. Og er þó allmikil umferð á austurleiðinni. Við, sem erum kunnugir á austurleiðinni fyrir austan Selfoss, gerum okkur grein fyrir því, að það er hægt að nota undirstöðu gamla Flóavegarins að mestu leyti. Þannig verður vegagerðin, þegar komið er út frá þéttbýlustu svæðunum, tiltölulega ódýrari en hraðbrautagerð hér nærri Reykjavík. Þó ber að geta þess, að Vesturlandsvegurinn gamli verður notaður að verulegu leyti, þegar komið er upp fyrir Grafarholt. Þetta er stefnan, alveg ákveðin og mörkuð, og eins er það, að í þeirri áætlunargerð, sem vegamálaskrifstofan vinnur nú að, er verið að reyna að gera sér grein fyrir því, hvaða leiðir ber að leggja mesta áherzlu á.

Hv. 3. þm. Vesturl. minntist hér áðan á Norðurlandsleiðina, hvort leggja ætti megináherzlu á umferðina um Holtavörðuheiði eða Laxárdal. Þá var það nú reyndar, sem einn þm., sem fer oft Norðurlandsleiðina, hvíslaði því að mér, að það kæmi ekki til mála, að norðanmenn sættu sig við að fara Laxárdalsleiðina. Þetta var hans skoðun, og þetta sýnir, að það eru skiptar skoðanir um þetta. En að lokum verður vitanlega að ráða það af, sem hagkvæmast er og hentugast að vel athuguðu máli.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira en vil endurtaka þakkir mínar til hv. fjvn.