01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3667)

294. mál, landhelgismál

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Athygli jarðarbúa beinist nú í æ ríkara mæli að auðæfum hafsins. Varðandi málefni þess á sér stað hraðfara þróun, sem býður upp á marga möguleika, eins og hæstv. forsrh. vék að í ræðu sinni áðan. Árlegur fiskafli úr skauti hafsins nemur nú um 60 millj. tonna og hefur margfaldazt á tiltölulega skömmum tíma. Samhliða stóraukinni veiði og afkastamikilli veiðitækni hafa menn víða áhyggjur af ofveiði, t.d. á Norður-Atlantshafi. Það er komið á daginn, svo að ekki verður um villzt, að fiskstofnar þola ekki ótakmarkað veiðiálag. Af því leiðir, að alþjóðleg samvinna og skipulagning er nauðsynleg til þess að fyrirbyggja ofveiði og tryggja það, að fiskstofnar gefi framvegis af sér góðan arð og leggi mannkyninu til holla og góða fæðu. Augu manna hafa einnig opnazt fyrir því, að fiskstofnum og öðrum lífverum í hafinu stafar mikil hætta af mengun. Miklir olíuflutningar eiga sér stað með skipum, og fara þannig um höfin um 1.3 þús. millj. tonna af olíu á ári eða meiri hluti allrar þeirrar olíu, sem unninn er úr jörðu. Er talið, að í þeim flutningum tapist árlega um 1 millj. tonna í hafið, en það getur aðeins leyst upp um 1/1000 hluta þess olíumagns. Er nú mikið reynt til þess að finna upp og fullkomna aðferðir til þess að eyða olíu úr hafinu, og á því sviði á sér stað víðtæk alþjóðleg samvinna. Alls konar úrgangsefni, sem í hafið eru látin, eru einnig stórhættuleg lífverum ekki síður en olían, en alþjóðleg samvinna til þess að fyrirbyggja mengun af völdum eiturefna og skolps er rétt í byrjun. Það er fyrst á síðustu tímum, sem mönnum er að verða ljós þessi hætta, en þegar er sýnt, að henni verður ekki bægt frá nema með sameiginlegu átaki margra þjóða.

Jafnhliða þeim vandamálum, sem ég hef nú drepið á varðandi hafið, eru mjög á dagskrá á alþjóðlegum vettvangi þau vandamál, er varða hafsbotninn. Í hafsbotninum hafa víða fundizt margir verðmætir málmar í miklu magni. Þar er einnig mikið magn af olíu og jarðgasi. S.l. ár var svo komið, að um 17% af olíuframleiðslu heimsins var unnið úr hafsbotninum á landgrunnum hinna ýmsu landa, en samt er það svo, að rannsóknir á auðæfum hafsbotnsins eru skammt á veg komnar. Það getur gefið hugmynd um þessi auðæfi, að á einum stað í Mexíkóflóa er talið, að séu um 90 þús. millj. tonna af olíu og 45 millj. tonna af gasi. Mörg vandamál þjóða í milli í sambandi við hafsbotninn eru óleyst, svo sem það, hvernig eigi að fyrirbyggja mengun út frá þeirri starfsemi við olíuboranir og annað, sem fram fer á hafsbotninum. Hins vegar voru þjóðirnar fljótari til að setja reglur um skiptingu hafsbotnsins sín á milli en um skiptingu hafsins yfir honum með tilliti til fiskveiða. Þetta höfum við Íslendingar þegar notfært okkur og tryggt okkur réttinn til hafsbotnsins á landgrunninu með lögum frá 24. marz 1969, um yfirráðarétt Íslands yfir landgrunninu umhverfis landið. Til þessa atriðis er vitnað í 2. tölul. þeirrar þáltill., sem stuðningsflokkar ríkisstj. hafa borið fram um réttindi 1slendinga á hafinu umhverfis landið og hér er til umr. Þar er því lýst yfir, að við teljum, að rétturinn til fiskveiða á hafinu yfir landgrunninu eigi að vera óskertur á sama hátt og rétturinn til hafsbotnsins. Mér virðist liggja í hlutarins eðli, að þetta hljóti að vera mjög mikilvægt atriði í sambandi við útfærslu fiskveiðilandhelginnar, ekki sízt vegna þess, að fiskveiðar hafa margfalt meiri þýðingu fyrir lífsafkomu þjóðarinnar en hugsanlegir möguleikar á að ná verðmætum úr hafsbotni í nánd við landið. Einnig tel ég, að þær miklu umræður og samningaumleitanir, sem nú eiga sér stað varðandi þau atriði, sem ég hef lauslega drepið á hér að framan, hljóti óhjákvæmilega að leiða til niðurstöðu, sem verði málstað okkar í landhelgismálinu til styrktar. Ráðstafanir til verndunar fiskstofna munu t.d. verða tvíþættar. Annars vegar verður að þeim staðið með útfærslu fiskveiðilandhelgi, en hins vegar með alþjóðlegum ráðstöfunum til þess að forða vissum tegundum frá ofveiði. Í sambandi við fiskveiðilandhelgina kemur til það sjónarmið, sem við hljótum að leggja megináherzlu á, að fiskveiðar eru veigamesti þátturinn í þjóðarbúskap Íslendinga og undirstaða þess menningarlífs, sem Íslendingar lifa nú á tímum.

Þá er þess einnig að geta, að með stöðugt vaxandi tækni færast hagnýtingarmörk til fiskveiða út á meira dýpi og lengra frá ströndum, en slík mörk verða áreiðanlega að einhverju leyti höfð til viðmiðunar, þegar þjóðirnar ákveða skilgreiningu á því, hvað sé landgrunn. Þess vegna finnst mér hyggilegt að hafa í þessu tilliti nokkurt svigrúm, eins og gert er í I. tölul. þáltill. stjórnarflokkanna, þegar stefna Íslands í landhelgismálinu er mörkuð í megindráttum. Þar er svo ráð fyrir gert, að skilgreining á landgrunni Íslands verði miðuð við sem næst 400 m jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk, eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki. Nú er rætt um 400 m jafndýpislínu. En þegar landgrunnslögin voru sett árið 1948, var gengið út frá 200 m jafndýpislínu. Þannig breytast viðhorfin með árunum. Nú er það engan veginn fjarstætt að miða hagnýtingarmörk við allt að 1000 m dýpi. Með hliðsjón af þessu m.a. tel ég, að Alþ. megi ekki binda hendur fulltrúa Íslands um of, þegar þeir mæta á þeim mörgu alþjóðlegu fundum, sem fram undan eru og fjalla munu um þessi mál.

Varðandi mengunina, sem fjallað er um í 3. lið till., tel ég fráleitt að einskorða rétt okkar til að fyrirbyggja hana við ákveðinn mílufjölda, eins og gert er í þáltill. prófessors ólafs Jóhannessonar o.fl. um landhelgismál, sem einnig er hér til umr. Á því sviði verður alþjóðlegt samstarf áhrifaríkast, og skiptir ekki höfuðmáli, hversu stórt hafsvæði við tökum að okkur til umsjónar. Í sambandi við þáltill. hv. stjórnarandstæðinga vil ég annars segja þetta:

Það ber að harma það, að Framsfl.. Alþb. og SF skyldu ekki fallast á það sjónarmið, að gæfulegast væri fyrir þjóðina, að í landhelgismálinu ríkti alger eining um þá stefnu, sem Alþ. markar. Eftir þessu var vissulega leitað við þá, eins og fram hefur komið í þessum umr. Landhelgismálið er hvort tveggja í senn innanríkis- og milliríkjamál, og fylgir því mestur vandi að því er tekur til hins síðara. Þess vegna er þjóðareining um aðgerðir okkar mikilvægari en flest annað. Þetta vita forsprakkar stjórnarandstöðuflokkanna jafn vel og aðrir, en þeir hafa að þessu sinni kosið að setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum, og er það ekki í fyrsta skipti. Skýringin á þessu atferli blasir við. Kosningar eru fram undan, og nú á að beita því agni fyrir hv. kjósendur í kosningunum til Alþingis þann 13. júní n.k., að þjóðinni verði færð 50 mílna landhelgi og 100 mílna mengunarlögsaga á silfurfati frá og með t. sept. næsta ár. Það á svo samkv. kenningum Ólafs Jóhannessonar lagaprófessors og félaga hans að vera okkar mesti styrkur á alþjóðaráðstefnunni árið 1973 um réttarreglur á hafinu, að af okkar hálfu sé allt saman búið og gert og í raun og veru höfum við ekkert frekar um að tala við aðrar þjóðir varðandi þessi efni. Getur það verið, að sá prófessor Ólafur Jóhannesson, sem slíkt lætur frá sér fara, sé kennari í alþjóðarétti við Háskóla Íslands? Jafnframt leggja prófessor Ólafur og félagar hans áherzlu á að réttlæta sjálfa sig í tillögugerð sinni og taka þá upp þann þráð, sem þeir spunnu árið 1961. Það ár viðurkenndu Bretar 12 mílurnar eftir langvinnar og harðar deilur og mestu átök, sem Íslendingar hafa nokkru sinni lent í við aðra þjóð. Það ár var grunnlínustöðum breytt og landhelgin aukin um rúmlega 5 þús. ferkm. Voru þau svæði, sem aukningin tók til, aðalhrygningarsvæði nytjafiska við Ísland og mikilsverðar ungfisksstöðvar. Það ár var Bretum og fleiri þjóðum tilkynnt, að áfram yrði unnið að útfærslu landhelginnar við Ísland á grundvelli samþykktar Alþingis frá 5. maí 1959. Verði frekari útfærsla tilkynnt með sex mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um ráðstafanir okkar, skulu þær bornar undir alþjóðadómstólinn. Það ár var stjórnarandstaðan ófyrirleitnari í áróðri sínum en oftast áður eða síðar. Síður Tímans og Þjóðviljans voru svartar af svika- og landráðabrigzlum. M.a. stóðu í Tímanum þessi orð: „Svikul íhaldsstjórn hefur kropið erlendu ofbeldi og fallizt á smánarsamning, sem stofnar til tjóns og hættu og niðurlægir þjóðina í augum heimsins.“ Samningurinn við Breta átti í einu og öllu að vera haldlaus, veiðileyfin á svæðinu milli 6 og 12 mílna yrðu framlengd o.s.frv., o.s.frv. En hættulegast af öllu átti það ákvæði að vera, að Íslendingar skyldu lýsa því yfir, að í gerðum sínum framvegis mundu þeir taka nokkurt tillit til annarra og að þeir væru reiðubúnir til þess að láta dómstól skera úr ágreiningi, er rísa kynni. Þessi atriði eru enn í dag mesti þyrnir í augum lagaprófessorsins og félaga hans, eins og fram kom í ræðu Björns Jónssonar hér áðan. Þessi atriði á sem sé að ógilda. Það er 1. tölul. og þungamiðjan í þáltill. þeirra félaga. Þannig taka þeir upp þráðinn frá 1961, þótt reynslan hafi sýnt og sannað, að allt þeirra tal þá voru blekkingar og markleysur. Sérstaklega er þetta áberandi að því er snertir lagaprófessor Ólaf Jóhannesson. Hann sagði eftirfarandi orð þann 14. nóv. 19b0 í Ed., þegar landhelgismál voru þar til umr.:

„Ég verð að segja og vil láta það koma fram í sambandi við þetta, að ég tel raunar eina veikleikamerkið í okkar málstað hér vera það, ef rétt er hermt, að við höfum neitað að leggja þetta mál til úrlausnar hjá alþjóðadómi.“

Síðar í sömu ræðu sagði prófessor Ólafur Jóhannesson þau orð, sem hæstv. forsrh. vitnaði til áðan, um það, að smáþjóð eigi sér ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hafi ekki valdið til þess að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin, og þess vegna hefði að hans viti hvert eitt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls.

Þegar prófessor Ólafur Jóhannesson talar þannig, þá geta menn freistazt til að trúa því, að hann sé kennari í alþjóðarétti við Háskóla Íslands. Fróðlegt verður svo að heyra, hvernig hann hagar orðum sínum hér á eftir, en staðreynd er, að allar aðgerðir Íslendinga í fiskveiðilögsögumálinu hafa byggzt á réttargrundvelli, og það hefur jafnan verið okkar styrkur og forsenda unninna sigra. Megi svo áfram verða.

Þegar prófessorinn flutti þá ræðu, sem ég vitnaði til hér að framan, var hann að tala um frv. allrar stjórnarandstöðunnar í Ed., sem miðaði að lögfestingu grunnlínustaða samkv. reglugerð frá 1958. Töldu þeir þá vonlausa þá grunnlínubreytingu, sem fékkst með samningunum við Breta og Þjóðverja 1961. Sýndi sú till. hvort tveggja skammsýni og fljótfærni stjórnarandstöðunnar, og því miður ber sú þáltill. þeirra, sem hér liggur fyrir, sömu einkenni. Með samþykkt hennar yrði ekki lagður traustur grundvöllur að frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Farsæl framvinda landhelgismálsins er öðru fremur undir því komin, að ábyrgir aðilar forðist öll gönuskeið. Því miður hefur forusta Framsóknar fyrr og nú látið það henda sig að setja áróðurssjónarmiðin ofar öðrum í hamslausu kapphlaupi við kommúnista um það, hvor flokkurinn megi sín betur í stjórnarandstöðunni. Í þessu kapphlaupi hefur fræðimennsku og réttsýni prófessors Ólafs Jóhannessonar miskunnarlaust verið ýtt til hliðar af áróðursmeisturum eins og Þórarni Þórarinssyni. En prófessorinn hefur enn eitt tækifæri til að sýna af sér manndóm og röggsemi. Báðum þeim þáltill., sem hér eru ræddar í kvöld, verður vísað til utanrmn.umr. lokinni. Þar gefst enn eitt tækifæri til þess fyrir Framsókn að taka höndum saman við stjórnarflokkana í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Verður fróðlegt að fylgjast með því, hvort Framsókn tekur sig á í málinu. Einnig gæti hugsazt, að Frjálslyndir og vinstri sinnaðir bættu ráð sitt, en af kommúnistum er ekki mikils að vænta.

Till. stjórnarflokkanna markar skýra og djarfa stefnu í landhelgismálinu, sem gengur á vissan hátt lengra en till. stjórnarandstöðunnar. Það verður mikið og vandasamt viðfangsefni fyrir hverja þá stjórn, sem við tekur að afstöðnum kosningum, að framfylgja þeirri stefnu. Þáttur Emils Jónssonar utanrrh. í mótun stefnunnar er mikilvægur. Undir forustu hans hefur á undanförnum árum markvisst verið unnið að því að kynna öðrum þjóðum málstað okkar og sjónarmið, og hefur mikið áunnizt. Því starfi þarf að halda áfram á mörgum vígstöðvum, og er það sannfæring mín, að það muni bera ríkulegan ávöxt. Hvort svo verður árinu fyrr eða seinna, skiptir ekki meginmáli, en mikilvægt er, að við náum settu marki án stórátaka og illinda við aðrar þjóðir. Málstaður okkar í landhelgismálinu mun sigra, þrátt fyrir andstöðu stórveldanna í austri og vestri, og það er aðalatriðið.

Ég þakka áheyrnina. — Góða nótt.