17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1971

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Aftans bíður óframsök, var einu sinni sagt. Það er kannske seint að koma fram með þá aths., sem ég ætla mér þó að hreyfa hér. Hún er ekki um upphæðir, heldur um tæknilegt atriði eða fyrirkomulag. En það var aðeins núna fyrir stuttu, sem ég varð þess var, að það er hér ein stofnun, sem heitir Rafmagnseftirlit ríkisins, sem alls ekki er hér á blaði í fjárlagafrv. Ég var að athuga, hvernig þessari stofnun væri fyrir komið að l. og það er í orkulögum, sem ákvæði eru um Rafmagnseftirlit ríkisins. Þar segir í 38. gr. l.: „Rafmagnseftirlit ríkisins skal rekið sem fjárhagslega sjálfstæð stofnun með sérstöku reikningshaldi.“ Þetta skilst mér, að gefi það ótvírætt til kynna, að átt hefði að vera sérstakur póstur í fjárlagafrv. um Rafmagnseftirlit ríkisins. Það er enn fremur í 42. gr. 6. kafla l.: Heimilt er ráðh. að ákveða með reglugerð, að eigendur raforkuvera og raforkuveitna skuli árlega greiða til Rafmagnseftirlits ríkisins gjald. Og það er þetta gjald, sem á að standa undir rekstrarkostnaði rafmagnseftirlitsins. Ég þykist vita, að komið sé svo nærri afgreiðslu frv. að þessu sinni, að þessu verður ekki kippt í lag, áður en fjárl. verða afgreidd nú, og ég ætla heldur ekki að fara fram á það, en ég vildi hreyfa þessu hér, til þess að þetta yrði tekið til athugunar framvegis og ég vildi jafnframt segja það sem mína skoðun, að slík stofnun sem Rafmagnseftirlit ríkisins, hún á að minni hyggju að heyra beint undir ráðh. Samkvæmt l. um Orkustofnun, þá segir hér í 8. tölulið, þar sem hlutverk Orkustofnunar er rakið í 2. gr.: „Að hafa af hálfu ríkisins yfirumsjón með eftirliti með raforkuvirkjum og jarðhitavirkjum til varnar hættu og tjóni af þeim.“ Ég vil nú láta það koma fram hér, að ég hefði talið eðlilegra, að þessi stofnun heyrði beint undir ráðh. og væru þá um hana sérstök lög. Það er að vísu utan efnis þessa sérstaka máls, en ég vil benda á það, að allt fram til 1966, eða það var síðast árið 1966, sem komu sérstakir ársreikningar fyrir þessa stofnun, sem þá hét Raforkumálastofnun og þar voru sérstök reikningsskil fyrir Rafmagnseftirlit ríkisins. En eftir að þessi l. voru sett, breytingin, sem gerð var á orkulögunum á Alþingi 1966, — þau komu til framkvæmda 1. júlí 1967, — þá hafa ekki komið, að því er ég bezt veit, fram reikningar á sama hátt og áður um þessa starfsemi. En ég taldi rétt að minna á það hér við þessa umr. að ég álít að þetta þurfi að laga og ég geri ráð fyrir því, að það verði ekki mögulegt áður en þessi fjárl. eru afgr. að þessu sinni. En þetta verði tekið til athugunar næst. Ég vil enn fremur í leiðinni benda á, að hér er sérstök uppsetning fyrir það, sem heitir Jarðvarmaveitur ríkisins, en ég veit að það eru margir og þar á meðal ég, sem segja mikinn vafa á, að það séu nokkur lög —- nokkur lagaheimild fyrir þessari stofnun eða þessum rekstri. Og það er því furðulegra, að ekki skuli þá sjást stofnun eins og Rafmagnseftirlit ríkisins í þessu frv. Þetta vildi ég láta koma fram áður en umr. lyki um fjárlögin.