01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3670)

294. mál, landhelgismál

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eitt mesta vandamál í nútíma lýðræðisþjóðfélagi er að tryggja heilbrigða og frjálsa skoðanamyndun. Það tekst misjafnlega, eins og allir vita. Alls konar fjölmiðlar, eins og blöð og fréttastofur, útvarp og sjónvarp og ýmsir fleiri, tilreiða fréttirnar á sinn hátt, og oft er því miður staðreyndum snúið við eða alls óskyldum aukaatriðum flækt inn í málið, þannig að hinn almenni maður áttar sig ekki á neinu eða villist gersamlega á réttu og röngu.

Þessa dagana er eitt dæmi af þessu tagi að gerast hér hjá okkur. Landhelgismálið er aftur á dagskrá. Stjórnmálaflokkarnir hafa orðið ósáttir um það, hvað gera skuli í málinu. Tvær till. um málið koma fram á Alþ., önnur frá ríkisstj., hin frá stjórnarandstöðuflokkunum. Ef allt hefði verið með felldu, hefðu blöð, útvarp og sjónvarp átt að skýra afdráttarlaust frá því, um hvað ágreiningur aðilanna snerist. En því var sannarlega ekki að heilsa. Þegar till. ríkisstj. var lögð fram, — en hún var lögð fram nokkru eftir að við í stjórnarandstöðunni höfðum lagt fram okkar till., — gerðist það, að blöð stjórnarflokkanna lýstu till. stjórnarinnar á furðulega villandi hátt. Alþýðublaðið skrifaði með stóru letri: Landhelgin miðist við 60 mílur. Morgunblaðið sagði: Landgrunnsmörkin 50 sjómílur eða meira. Og bæði sögðu blöðin, að till. ríkisstj. gengi í ýmsum greinum lengra en till. stjórnarandstöðunnar, m.a. gerði hún ráð fyrir friðun utan 12 mílna, en á friðun minntist stjórnarandstaðan ekki einu orði. ÖII voru þessi skrif stjórnarblaðanna stórfurðuleg. Innan um öll stóru orðin um 60 mílna landhelgi og sérstaka friðun utan 12 mílna flutu svo setningar um, að í rauninni væri lítill sem enginn ágreiningur um málið milli stjórnmálaflokkanna. Munurinn lægi aðallega í því, að stjórnarflokkarnir væru ábyrgir, en stjórnarandstaðan óábyrg. Þannig var málflutningurinn allur gerður til að rugla fólk. Um kjarna málsins var ekki rætt. Um það, hvað ágreiningi olli milli aðila og hvað til þess leiddi, að landhelgisnefndin klofnaði og tvær till. voru fluttar, um það var forðazt að ræða.

— Ágreiningurinn í landhelgisnefndinni var ofur einfaldur og skýr. Við stjórnarandstæðingar töldum óhjákvæmilegt, að nú þegar yrði ákveðin stækkun fiskveiðilandhelginnar, stærð hennar og gildistaka stækkunarinnar. Þetta gat ríkisstj. ekki fallizt á. Hún neitaði að taka ákvörðun um stækkun. Hún vildi bíða og helzt sjá, hvað gerðist á væntanlegri alþjóðaráðstefnu um hafið. Við stjórnarandstæðingar töldum, að rétt væri að lýsa því yfir, að Íslendingar teldu sig ekki bundna af samningunum við Breta og Þjóðverja frá 1961 og því skyldi þeim formlega sagt upp. Ríkisstj. var á móti slíkri yfirlýsingu og á móti því, að samningunum væri sagt upp. Um þetta var ágreiningur í landhelgisnefndinni og um þetta er ágreiningurinn á milli stjórnarflokkanna annars vegar og stjórnarandstæðinga hins vegar, sá ágreiningur, sem fram kemur við flutning tveggja till. um málið á Alþ. Í till. ríkisstj. er hvorki lagt til að stækka fiskveiðilandhelgina út í 50 mílur né út í 60 mílur. Í till. er lagt til, að kosin verði fimm manna nefnd, skipuð fulltrúum allra flokka á þingi, og henni falið að semja frv. fyrir næsta þing. Till. ríkisstj. er með öðrum orðum um það að setja landhelgismálið í eina nefndina enn. Í till. ríkisstj. segir orðrétt:

„Skal frv. lagt fyrir næsta Alþ. og m.a. fela í sér eftirfarandi atriði:

1. Skilgreiningu á landgrunni Íslands miðað við sem næst 400 m jafndýpislínu, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur eða meira frá grunnlínum umhverfis landið, eftir því sem frekari rannsóknir segja til um, að hagstæðast þyki.“

Hér er um furðulega grautargerð að ræða, og er undravert, að ríkisstj., sem á að hafa kynnt sér undirstöðuatriði landhelgismálsins, skuli senda frá sér slíka endileysu sem þessa. Það þarf enga nefnd til að skilgreina landgrunnið við Ísland. Lög um landgrunnið hafa nýlega verið sett, eða árið 1969, og þar er landgrunnið skýrt á sama hátt og gert er í alþjóðasamþykkt um landgrunnsmál. Að tala um að skilgreina landgrunnið við 400 m dýpi, möguleg hagnýtingarmörk eða 50 mílur, er alveg út í hött. Möguleg hagnýtingarmörk ná langt út fyrir 400 m dýpi og langt út fyrir 50 mílur, svo að hér er verið að hringla með hugtök, sem viðkomendur sýnilega skilja ekkert í.

Í öðrum lið till. ríkisstj. segir, að setja skuli ákvæði um óskertan rétt Íslendinga til fiskveiða í hafinu yfir landgrunninu o.s.frv. Ekki er þessi liður till. síður furðulegur en sá fyrsti. Í lögunum frá 1948 er skýrt tekið fram, að íslenzk stjórnvöld geti einhliða sett reglur um allar fiskveiðar á landgrunnshafinu við landið. Samkv. þessum lögum, sem nú eru orðin 23 ára gömul, höfum við gert allar okkar ráðstafanir til friðunar og til stækkunar á fiskveiðilandhelginni síðan lögin voru sett. Samkv. þeim voru dregnar nýjar grunnlínur fyrir Norðurlandi 1950, samkv. þeim var landhelgin færð út í 4 sjómílur og grunnlínum breytt 1952, og samkv. þeim var fiskveiðilandhelgin ákveðin 12 mílur 1958. Nú á það að verða verkefni þingflokkanefndarinnar að endursemja þessi lög og segja með nýju orðalagi, að við einir ráðum yfir fiskveiðunum á þessum stöðum.

Í till. ríkisstj. er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj. að undirbúa nú þegar friðunaraðgerðir fyrir öllum veiðum á svæðum utan 12 mílna markanna. Slíkur undirbúningur hefur átt sér stað í mörg ár, og till. hafa m.a.s. verið lagðar fram af Íslands hálfu um slíka friðun. Úr henni hefur hins vegar ekkert orðið, vegna þess að ekki hefur verið viðurkennt af öðrum þjóðum, að nægilegar fiskifræðilegar rannsóknir lægju fyrir. Friðun utan 12 mílna, sem bannar jafnt okkur sjálfum sem öðrum allar veiðar á tilteknum svæðum, er alls ófullnægjandi, eins og nú er komið. Það, sem nú skiptir máli, er að taka fyrir alla veiði útlendinga á landgrunnshafinu við landið, svo að Íslendingar einir hafi rétt til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi, sem nái 50 sjómílur út frá grunnlínum umhverfis landið. Slík fiskveiðilandhelgi mundi hafa í reynd miklu meiri friðunaráhrif en friðlýsing smærri veiðisvæða utan við 12 mílur, og hún mundi jafnframt gera okkur Íslendingum fært að auka verulega hlutdeild okkar í heildaraflanum, sem veiddur er á miðunum við landið. Það er staðreynd, sem við skulum ekki gleyma, að um langan tíma hafa útlendingar veitt nær helming á móti Íslendingum af þeim fiskafla, sem veiddur hefur verið á miðunum við landið. Þessu hlutfalli þarf að breyta. Íslendingar geta auðveldlega veitt allan þann fisk, sem hér er óhætt að veiða, án þess að fiskstofnunum sé stefnt í hættu.

Ég hef nú vikið að öllum helztu efnisatriðunum í till. ríkisstj. um landhelgismálið. Eins og öllum má ljóst vera af því, sem ég hef sagt, og með því að lesa till. með opinni athygli, þá felur till. ríkisstj. ekki í sér neina ákvörðun um stækkun fiskveiðilandhelginnar, ekki neina ákvörðun um stærð hennar, hún segir ekkert til um, hvenær eigi að færa fiskveiðimörkin út. Till. fjallar um nefnd, um að semja þurfi frv., skilgreina eigi landgrunn, rannsaka skuli nýtinguna og undirbúa friðun, sem þó hefur verið í undirbúningi í mörg ár. Þvílík tillaga, drottinn minn! Öllu þessu er hrúgað saman til þess að leiða athyglina frá því, að ríkisstj. vill ekki taka neina bindandi ákvörðun í landhelgismálinu. Hún er ekki viðbúin, hún vill bíða. Hún þarf enn að ræða við útlendinga um málið, þó að hún hafi verið að ræða við þá síðastliðin 12 ár.

Allir vita, að ein meginástæðan fyrir því, að ríkisstj. vill enga ákvörðun taka í málinu, er sú, að hún telur sig bundna af samningum þeim, sem hún gerði árið 1961 við Breta og Vestur-Þjóðverja, þar sem því var lýst yfir, að ef upp risi ágreiningur um frekari stækkun fiskveiðilandhelginnar við Ísland, þá skyldi hver samningsaðili fyrir sig hafa rétt til að skjóta málinu til alþjóðadómstólsins. Ef þessir samningar verða látnir standa áfram, ef eftir þeim verður farið, verða Íslendingar eina þjóðin í heiminum, sem er bundin því að láta alþjóðadómstólinn úrskurða um stærð landhelgi sinnar.

Varðandi samningana frá 1961 er það raunverulega aðeins samningurinn við Breta, sem skiptir máli. Sá samningur var gerður undir ofbeldishótunum og við aðila, sem hér ráðskaðist með herskip í íslenzkri landhelgi og braut íslenzk lög og reglur.

Það er næstum ótrúlegt að heyra það úr munni forsrh. landsins nú, að hann skuli kenna Íslendingum um það, sem gerðist hér, þegar þorskastríðið svo nefnda stóð yfir 1958 og 1959, en forsrh. sagði hér í umr. í kvöld, að til þeirra deilna hefði verið stofnað að ófyrirsynju og af lítilli fyrirhyggju. Svona getur undirlægjuhátturinn náð langt.

Samningurinn við Breta verður að skoðast sem nauðungarsamningur og marklaust plagg. Afstaða okkar Alþb.-manna til þessa samnings er sú sama og hún var, þegar samningurinn var gerður. Við teljum, að samningurinn bindi þjóðina á engan hátt. Við teljum, að engin ríkisstj. geti samið um sjálfstæði þjóðar né um lífsafkomu hennar við erlenda ríkisstj., þannig að bindandi geti talizt.

Till. okkar stjórnarandstæðinga er jafneinföld og skýr og till. ríkisstj. er ruglingsleg og óljós. Í till. okkar er skýr ákvörðun um stækkun fiskveiðilandhelginnar í 50 mílur umhverfis landið. Þar er ákveðið, að stækkunin taki gildi ekki síðar en 1. sept. á næsta ári. Þar er ákveðið að lýsa yfir 100 mílna mengunarlögsögu, svo hægt sé að setja reglur til að koma í veg fyrir hættulega mengun sjávar, og í till. okkar er því afdráttarlaust lýst yfir, að Íslendingar telji sig ekki bundna af samningunum við Breta og Vestur-Þjóðverja og þeim samningum þar af leiðandi sagt upp að formi til.

Tilburðir ríkisstj. til að gera mikið úr till. sinni eru afar skoplegir, og allir takast þeir tilburðir með afbrigðum illa. Þegar Emil Jónsson utanrrh. reynir að skýra skraf sitt um 60 mílna landhelgi, segir hann í viðtali við Alþýðublaðið, orðrétt eftir honum haft í blaðinu:

„Mín hugmynd er sú,“ sagði Emil Jónsson, „að ef í ljós kemur, að mögulegt sé fyrir togara og önnur veiðiskip að fiska á hallanum milli 200 og 400 m jafndýpislína, þá verði landhelgin miðuð við þá fjarlægð, þar sem 400 m dýpið er lengst frá landi.“

Þvílík speki! Sem sagt, ef í ljós kemur, að togarar geti fiskað á 200–400 m dýpi, þ.e. á 100–200 faðma dýpi, ef þetta skyldi nú koma í ljós, þá á að miða landhelgina við það. Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Veit Emil Jónsson, sem þó hefur verið sjútvrh. í mörg ár, ekkert um það, hvernig veiðum íslenzkra togara er háttað né hvar þeir yfirleitt veiða? Eða getur utanrrh., sem hefur á hendi forustu í ríkisstj. í landhelgismálinu, sagt hvaða endileysu sem er, án þess að aðrir ráðh. veiti því svo mikið sem athygli?

Stækkun fiskveiðilandhelginnar er orðin aðkallandi nauðsyn. Fleiri og stærri skip sækja á miðin við landið. Fiskiskipafloti okkar stækkar, og floti útlendinganna gerir það líka. Skipin eru búin margfalt afkastameiri veiðitækjum en áður var, hættan á ofveiði fer því vaxandi. Við megum því ekki draga öllu lengur að stækka fiskveiðilögsöguna við landið. Önnur ástæða knýr einnig á. Ákveðin er alþjóðleg ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna um hafið. Ráðgert er, að hún verði haldin árið 1973. Vitað er, að öll stórveldin, sem þar mætast, munu berjast hart fyrir því, að settar verði reglur um, að hámark landhelgi verði 12 sjómílur. Þessum stórveldum fylgja allar þjóðir Evrópu og margar þjóðir annars staðar að úr heiminum. Það er að vísu einnig vitað, að margar aðrar þjóðir munu standa gegn því, að slíkar reglur verði settar, en úrslitin eru öldungis óviss. Og breytir þar engu um, þó að utanrrh. Íslands hafi ekki gert sér grein fyrir því. Það væri hrapalleg skyssa af okkur Íslendingum að bíða fram yfir ráðstefnuna með stækkun landhelginnar. Sú bið gæti orðið til þess, að við yróum að bíða lengi, þar til talið yrði fært að ráðast í einhliða útfærslu. En getum við þá fært fiskveiðilandhelgi okkar út í 50 mílur með einhliða yfirlýsingu? munu ýmsir spyrja. Mundu ekki Bretar beita okkur herskipavaldi nú eins og 1958 og gera okkur ókleift að verja slíka landhelgi? Því er til að svara, að allar þjóðir, sem stækkað hafa landhelgi sína, hafa orðið að gera það með einhliða yfirlýsingu. Með einhliða yfirlýsingu, og breytir þar engu um, þó að utanrrh. Íslands kalli slíkt óafsakanlega og siðlausa ráðstöfun. Þegar við Íslendingar tókum okkur 12 mílna landhelgi 1958, urðum við að gera það með einhliða yfirlýsingu. Þá höfðu 20 þjóðir þegar tekið sér 12 mílna landhelgi. Nú hafa 22 þjóðir lýst yfir stærri landhelgi en 12 mílum, flestar 50–200 mílum. Þjóðirnar, sem nú hafa tekið sér 12 mílur, eru 84. Enginn vafi er á því, að Bretar mundu mótmæla 50 mílna fiskveiðilandhelgi okkar og e.t.v. mundu þeir reyna að láta herskip vernda togara sína við veiðar í okkar landhelgi. Mér þykir þó ótrúlegt, að þeir reyni að endurtaka hinn misheppnaða herskipaleik sinn frá 1958 og 1959. Þeir vita fullvel af fenginni reynslu, að engin tök eru á að stunda fiskveiðar með árangri undir herskipagæzlu. Við mundum því örugglega sigra að lokum í slíkum leik.

Góðir Íslendingar. Landhelgismálið er komið á dagskrá. Því verður ekki vikið til hliðar með því að setja það í nefnd eða með ruglingslegum tillöguflutningi. Stækkun fiskveiðilandhelginnar verður að fara fram. Nú duga engin undanbrögð, ekkert hik, engin hálfvelgja og engir undansláttarsamningar. Við verðum að halda fram málstað okkar af fullri djörfung og sanna öðrum þjóðum, að við erum að berjast fyrir rétti þjóðarinnar til að geta lifað í þessu landi. Við skulum ekki kvarta, þó að við tökum á okkur nokkurn vanda, því að um mikið er að tefla. Enginn vafi leikur á, að öll íslenzka þjóðin er einhuga í landhelgismálinu. Í því máli standa saman sjómenn og útvegsmenn, verkamenn og atvinnurekendur, bændur, iðnaðarmenn, skrifstofumenn, fólk úr öllum stéttum og úr öllum flokkum. Fái vilji fólksins, vilji hins almenna manns að koma fram hreinn og skýr, ótruflaður af rangsnúnum áróðri, þarf enginn að efast um niðurstöður. Nú reynir á skilning sjómanna og útvegsmanna, á dómgreind verkamanna, bænda, iðnaðarmanna og alls vinnandi fólks. Nú reynir á manndóm þjóðarinnar, sem úrslitum getur ráðið. En úrslit málsins geta oltið á þeirri forustu, sem þjóðin velur sér, og hver verður hún eftir næstu kosningar? Landhelgismálið er stærsta mál þjóðarinnar í dag, það mál verður hver einasti hugsandi Íslendingur að hafa í huga og láta ekki ímyndaðan flokkstrúnað villa sér sýn, þegar gengið verður til kosninga í sumar. — Góða nótt.