01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3671)

294. mál, landhelgismál

Jónas Árnason:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Hv. 5. þm. Vestf., Birgir Finnsson, fullyrti hér áðan, að með flutningi þeirrar þáltill. okkar stjórnarandstæðinga, sem hér er til umr., hefðum við gerzt sekir um að rjúfa þjóðareiningu í landhelgismálinu. Já, þeir klifa á þessu heldur betur talsmenn hæstv. ríkisstj. Hvernig hefðum við þá samkv. þessu átt að tryggja þessa þjóðareiningu? Að sjálfsögðu með því að standa með ríkisstj. að flutningi þeirrar till. hennar, sem hér er til umr. Túlkar þá þessi till. ríkisstj. vilja þjóðarinnar? Hvar er að leita svars við þeirri spurningu? Á skrifstofum stjórnarráðsins? Eða hefur kannske sjálf þjóðarsálin búið um sig í fundarherbergjum stjórnarflokkanna hér í þessu húsi, þannig að nóg sé að kveðja þar dyra til að hitta þann eina, sanna þjóðarvilja? Eða ganga kannske hæstv. ráðh. með hann upp á vasann? Ætli það. Ætli væri ekki vissara að leita víðar til að fá óyggjandi vitneskju um vilja þjóðarinnar í þessu máli? Og nú væri kannske rétt að segja svolitlar fréttir. Það eru fréttir af þjóðarviljanum, komnar vestan af Snæfellsnesi. Þar stendur nú yfir undirskriftasöfnun undir svo hljóðandi áskorun, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir kjósendur skora á Alþ. að samþykkja á því þingi, sem nú situr, stækkun fiskveiðilandhelgi Íslendinga, svo að hún verði 50 sjómílur frá grunnlínum, og komi sú stækkun til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972.“

Samkv. upplýsingum, sem ég fékk í símanum í kvöld, hafa nú rúmlega 300 skrifað undir þessa áskorun í Stykkishólmi, en það eru rúmlega 60% skráðra kjósenda á staðnum. Í Grundarfirði 150 af 240 skráðum kjósendum eða rúmlega 62%. Í Ólafsvík lágu ekki fyrir nákvæmar upplýsingar, enda er undirskriftasöfnunin enn í fullum gangi á þeim stöðum, sem ég nú nefndi. Henni er hins vegar lokið á Hellissandi og í Rifi og á Gufuskálum, því byggðarlagi, sem einu nafni nefnist Neshreppur utan Ennis. Undirskriftagögnin þaðan voru lögð fram í skrifstofu Alþ. núna rétt áðan. Þar gefur að líta 199 nöfn undir þessari áskorun eða 65% þeirra, sem þarna eru skráðir á kjörskrá, en nú eru kjósendur að sjálfsögðu ekki allir heima, aldrei hægt að ná til allra í slíkri skyndisöfnun undirskrifta. Fyrir þá, sem til náðist, mun hlutfallstalan a.m.k. 75%. Þrír af hverjum fjórum hafa skrifað undir þessa áskorun, en sé Rif tekið eitt út af fyrir sig, þá er útkoman 100%. Hver einn og einasti kjósandi í Rifi hefur skrifað undir þessa áskorun. Fólkið í Rifi, þessu byggðarlagi, sem risið hefur við hina nýju höfn á tiltölulega fáum árum, á allt sitt, bókstaflega allt sitt, undir þeim verðmætum, sem úr sjónum fást. Sú staðreynd ræður að sjálfsögðu mestu um þessa einarðlegu afstöðu þess í landhelgismálinu, og dómur þess ætti því líka að verða þeim mun þyngri á metunum. En þegar minnzt er á Rif, þá hygg ég, að mörgum verði hugsað til þess atburðar árið 1467, sem fróðlegt væri kannske að hugleiða nánar í þessu sambandi, tildrög hans og afleiðingar, þess atburðar, þegar enskir ofríkismenn, landhelgisbrjótar þeirra tíma, hjuggu Björn Þorleifsson. En slíkum hugleiðingum verður sleppt að sinni. Ég hef hér 10–12 mín. til umráða. En svona var sem sé það svar, sem í kvöld barst um þjóðarviljann vestan af Snæfellsnesi.

Þó að þeir séu kannske að einhverju leyti frábrugðnir öðrum, Snæfellingar, þá er hitt alveg vist, að í landhelgismálinu eru skoðanir þeirra nákvæmlega þær sömu og annarra Íslendinga, sem kosið hafa að heyja lífsbaráttu sína við strendur þessa lands og byggja tilveru sína fyrst og fremst á sjávarafla. Allur þorri þess fólks tekur án efa undir þessa áskorun Snæfellinga, og því má líta á hana sem óyggjandi vísbendingu um það, hvaða leið var líklegust og hvaða leið er enn líklegust til að skapa þjóðareiningu í landhelgismálinu. Þetta fólk sættir sig ekki við þá afstöðu, sem fram kemur í þáltill. stjórnarflokkanna. Það biður ekki um óljósar fyrirætlanir um að gera eitthvað einhvern tíma eftir dúk og disk. Það krefst ákvarðana, það krefst aðgerða, eins og gert er ráð fyrir í till. okkar stjórnarandstæðinga, „og komi sú stækkun til framkvæmda eigi síðar en 1. sept. 1972“, segir í áskorun Snæfellinga. Þjóðareining í anda þeirrar stefnu, sem stjórnarflokkarnir boða, er óhugsandi, vegna þess að hún er andstæð ekki aðeins hagsmunum þjóðarinnar, heldur einnig og ekki síður metnaði hennar. Stjórnarflokkarnir virðast raunar gera sér þetta ljóst, því að í áróðri þeirra er lögð sérstök áherzla á að reyna að slæva metnað þjóðarinnar, draga úr henni kjark, vekja hjá henni efasemdir um styrk sinn og rétt. Þar kveður raunar við sama tón og hér um árið í sambandi við útfærslu landhelginnar í 12 mílur. Þá var þjóðareining í landhelgismálinu. Þjóðareining, sem byggðist á heilbrigðum metnaði alls þorra Íslendinga, og þessi þjóðareining tryggði okkur sigur undir forustu þess manns, sem talaði hér næstur á undan mér. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. Björn Jónsson sagði. Bretar voru alveg að gefast upp á hernaðarbrölti sínu í landhelginni. Þeir fundu, að með því urðu þeir sér meir og meir til skammar í augum heimsins, höfðu einnig séð sem var, að hver og einn sá þorskur, sem þeir veiddu undir vernd voldugra herskipa, var allt of dýr þorskur. Og þær sárabætur, sá plástur, sem brezka ljónið fékk með samningnum 1961, var einkaframlag nokkurra forustumanna stjórnarflokkanna, en þjóðin sjálf átti þar enga aðild að. En allan tímann meðan stóð á undirbúningi útfærslunnar í 12 mílur og eftir að hún var komin til framkvæmda og þorskastríðið hafið, kvað við úr herbúðum stjórnarflokkanna sami söngurinn og í dag, að fara varlega, gæta þess, að við værum lítilsmegandi smáþjóð og yrðum sem slíkir að taka tillit til voldugra vinaþjóða. Einkum og sér í lagi auðvitað þeirra nágrannaþjóða okkar í Vestur-Evrópu, sem hæstv. utanrrh. nefndi hér áðan ágætar um leið og hann spáði því, að þær mundu verða bæði sárar og reiðar, ef farið yrði að till. okkar stjórnarandstæðinga í landhelgismálinu og þar með að vilja alls þorra Íslendinga. Og þessar ágætu þjóðir mætti umfram allt ekki styggja, auðheyrilega fyrst og fremst vegna þess, að þær mundu þá kannske hætta að vera svona ágætar. En mér liggur við að spyrja, hvort hæstv. utanrrh. Íslendinga hafi fengið umboð til þess að hafa í frammi hótanir við Íslendinga fyrir hönd hinna ágætu þjóða, Breta og Vestur-Þjóðverja.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að forustumönnum stjórnarflokkanna hafi ekki verið það fullljóst fyrir 12 árum og sé það ekki fullljóst í dag, að öll rök, öll íslenzk rök a.m.k., mæla skilyrðislaust með því, að við færum út landhelgina. En þeir eru bundnir á klafa þessir menn í landhelgismálinu, eins og öðrum hinum mikilvægustu málum, sem snerta samskipti okkar við aðrar þjóðir. Þetta er klafi þess ósjálfræðis, sem yfirtekur þá í hvert sinn sem íslenzkir hagsmunir rekast á hagsmuni voldugra vinaþjóða svo nefndra. Hér er raunar um að ræða flóknara mál og stærra en svo, að því verði gerð nein teljandi skil í stuttri ræðu, en svo langt getur þetta gengið, að lagt sé að Íslendingum að láta rétt sinn fyrir tilteknum þjóðum, jafnvel beygja sig fyrir ofríki þeirra, af því einfaldlega, að þær séu svo miklir og einlægir vinir þeirra. Vesaldómur heitir ekki allt í einu vesaldómur, heldur sjálfsögð kurteisi. Engin furða, þó að málflutningur, sem grundvallast á slíkum viðhorfum, fari æði oft á skakk og skjön. Hér er eitt dæmi. Í ritstjórnargrein Vísis í fyrradag, sem bar háðsyfirskriftina: Hetjur ríða húsum, stendur m.a. þetta um okkur stjórnarandstæðinga, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir hirða ekkert um þá staðreynd, að við höfum engan skipakost til að verja 50 mílna landhelgi.“

Þetta segir eitt helzta málgagn ríkisstj., þeirrar sömu ríkisstj., sem þykist þó í orði kveðnu vilja vinna að því, að landhelgin verði nú alveg á næstu árum færð út í 50 sjómílur eða jafnvel meira. Vísir lætur ósagt, hvaða skipakost hann telur okkur þurfa, til að slíkt megi takast. En á það má benda, að við útfærslu úr 12 mílum í 50 mundi landhelgin því sem næst þrefaldast að flatarmáli. Það eru fimm skip, sem hafa það hlutverk að verja núverandi landhelgi. Yrðum við þá ekki samkvæmt kenningum Vísis að þrefalda þann flota, áður en óhætt yrði að færa landhelgina út í 50 mílur? Og fyrir hverju mætti gera ráð t.d. með þeim vinnubrögðum, sem núv. ríkisstj. hefur tamið sér? Hvað mætti gera ráð fyrir, að það tæki langan tíma að tryggja okkur þessi 10 skip til viðbótar? Mundi duga minna en svo sem 2–3 ár fyrir hvert skip, og táknar þá ekki þessi kenning Vísis í raun og veru það, að ef núv. ríkisstj. fengi að ráða ferðinni, yrði ekki talið óhætt fyrir okkur að færa landhelgina út í 50 mílur fyrr en í fyrsta lagi eftir 20–30 ár?

Eitt er víst: þessi kenning Vísis, eins helzta málgagns ríkisstj. sýnir það, eins og aðrar þær kenningar, sem stjórnarsinnar hafa elt uppi í þessu máli, að ríkisstj. er harla lítil alvara með tali sínu um, að hún vilji vinna að útfærslu landhelginnar í heild. Vegna yfirvofandi kosninga veifar hún fyrirheitum framan í þjóðina, og til þess telur hún sig neydda vegna þjóðarviljans, þess þjóðarvilja, sem fram kemur í kröfu okkar stjórnarandstæðinga um tafarlausar aðgerðir. Öll þessi fyrirheit, svo fagurlega sem þau hljóma í málflutningi stjórnarsinna, eru ekki fyrirheit um neitt annað en það, að fái stjórnin haldið velli í kosningunum, mun hún svíkja þau, svíkja þau öll, ef þarf, til að þóknast voldugri vinaþjóð. Vissulega munum við þurfa að kosta meir til gæzlu landhelginnar, þegar hún verður komin út í 50 mílur. En ef þeir aðilar, sem líklegastir eru til að hóta okkur ofbeldi í þessu sambandi, gerðu alvöru úr þeim hótunum, þá mundi engu breyta, hvort heldur við gætum teflt fram 15 varðskipum eða bara fimm. Röksemdir fallbyssukjafta geta aldrei orðið okkar röksemdir í þessu máli né öðru. Enn síður geta fallbyssur orðið okkar styrkur. Í því efni er vonlaust fyrir okkur að etja kappi við andstæðinga okkar og alla þeirra stóru og miklu fallbyssukjafta. Röksemdir okkar hljótum við að byggja á þeirri óumdeilanlegu og ómótmælanlegu lífsnauðsyn, sem stækkun landhelginnar er fyrir þessa litlu þjóð. Og styrkur okkar mestur, hann verður sá að ganga fram í máli þessu af manndómi og djörfung og fullri reisn. Þannig höfum við áður sigrað, þrátt fyrir tilraunir andstæðinganna til að yfirbuga okkur með röksemdum fallbyssukjafta. Og ef slíkt ástand skapast aftur, ef svo ólíklega vill, til, að andstæðingar okkar kjósa að endurtaka mistök sín frá l958 og 1959, þá munum við einnig aftur sigra þannig. Um þetta viðhorf og aðeins þetta viðhorf getur orðið þjóðareining í landhelgismálinu. Um þetta viðhorf skal verða þjóðareining, það skulum við láta sannast, Íslendingar, í kosningunum í vor, um leið og við höfnum endanlega stefnu ríkisstj. og veitum henni verðuga ráðningu fyrir þá ósvinnu hennar að láta sér til hugar koma, að um það gæti orðið þjóðareining að leggjast á hnén í landhelgismálinu. — Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.