01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3672)

294. mál, landhelgismál

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti, góðir Íslendingar. Því verður ekki á móti mælt, að lífsafkoma íslenzku þjóðarinnar hefur um aldaraðir byggzt mjög á sjávarafla, og svo mun verða um ókomin ár. Með aukinni veiðitækni, stækkun fiskiskipa og áframhaldandi iðnþróun verðum við að gæta að okkur enn betur en verið hefur, ef ekki á illa að fara og fiskstofninn við strendur landsins að skerðast. Það er því allt undir því komið, að okkur takist að friða hrygningar- og uppeldisstöðvar fisksins, að okkur takist að fyrirbyggja mengun fiskimiðanna, að okkur takist að tryggja okkur sérréttindi til hagnýtingar fiskstofnsins á landgrunninu og auðæfa hafsbotnsins, að okkur takist að haga svo málum okkar, að við komum þessari höfuðútflutningsvöru okkar á markað.

Þau grundvallaratriði, sem ég hef nú talið upp, hafa frá upphafi verið meginsjónarmið sjálfstæðismanna í baráttu þeirra fyrir auknum yfirráðum, friðun og nýtingu á hafinu í kringum Ísland. Skref fyrir skref hefur forusta sjálfstæðismanna tryggt landsmönnum þennan rétt í ríkari mæli allt frá setningu landgrunnslaganna 1948 undir forustu þeirra Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og ætíð þegar sjálfstæðismenn hafa farið með völd, hefur þannig verið unnið að málum, að öll þau atriði, sem ég minntist á í upphafi, hafa verið höfð að leiðarljósi.

Allt fram til 1956 var það samstarf milli lýðræðisflokkanna í þessum málum, sem þjóðarnauðsyn krafði. En við myndun vinstri stjórnarinnar var landhelgismálið falið ráðherra kommúnista, og þá var ekki að sökum að spyrja. Sjálfstæðismenn voru settir til hliðar og ekkert samráð við þá haft. Í alla staði var þannig haldið á málum, sjálfsagt samkvæmt fyrirmælum, að væri mögulegt að kljúfa Ísland frá vestrænu samstarfi, skyldi þjóðareiningu fórnað og landhelgismálið notað til þess. Ég rifja þetta hér upp til þess að vekja athygli manna á því, hvað nú er að gerast í þessu máli. Er sagan að endurtaka sig?

Eins og fram hefur komið og flestir vita, beitti dr. Bjarni Benediktsson, þáv, forsrh., sér fyrir samstarfi allra þingflokkanna í málinu á síðastliðnu vori, og hefur núv. forsrh., Jóhann Hafstein, haldið því starfi áfram og freistað þess til hins ýtrasta að ná þjóðareiningu í þessu þýðingarmesta utanríkismáli okkar Íslendinga. Það hefur nú því miður komið í ljós, að slíkt tókst ekki. Það ber vissulega að harma, en það, sem sorglegra er, er, að lýðræðisflokkur eins og Framsfl. hefur myndað samstöðu með stjórnmálaflokki, sem hefur allt aðra hagsmuni en íslenzka að leiðarljósi. Hin neikvæða stjórnarandstaða Framsóknar hér á Alþ. í hartnær 12 ár hefur oft verið óskiljanleg, en vel má vera, að einhver skýring sé til. Hitt er ljóst, að hún hefur ekki borið árangur og er ekki líkleg til að bera árangur. Hvers vegna framsóknarmenn telja sig nú eiga samstöðu með Alþb.-mönnum í landhelgismálinu, verður ekki skilið á annan veg en þann, að þeir freisti þess nú að mynda vinstri stjórn að næstu alþingiskosningum loknum, ef sá möguleiki skyldi verða fyrir hendi, og þá skal einingu lýðræðisflokkanna í landhelgismálinu fórnað fyrir það. Þannig er því komið, að þjóðareiningu í mesta lífshagsmunamáli þjóðarinnar er nú fórnað af framsóknarmönnum aðeins með stundarhagsmuni flokksins fyrir augum. Ég spyr ykkur, hlustendur góðir: Eru slíkir menn þess trausts verðir, að þjóðin feli þeim forustu sína? Ég segi nei, og ég veit, að mikill meiri hluti ykkar er mér sammála.

Stjórnarandstaðan ver samstarfið í landhelgismálinu og leggur fram till. til þál. í landhelgismálinu, sem eingöngu miðar að því að reyna að slá pólitískar keilur, og lagt er til, að haldið verði upp á afmæli þorskastríðsins 1. sept. 1972 og starfsaðferðir Lúðvíks Jósefssonar fyrrv. sjútvrh. teknar upp, en eins og frægt er orðið og komið hefur hér fram í umr., lá svo mikið á að gefa út reglugerðina 1958, að ekki mátti með nokkru móti koma fram breytingum á grunnlínupunktunum, sem þýddi stækkun á landhelginni um 5065 km2, og því haldið þá fram, að slíkt fengist aldrei. Það fór hins vegar svo, að leiðrétting fékkst á grunnlínunum, þegar núv. stjórnarflokkum tókst að leysa landhelgisdeiluna 1961.

Það má ekkert huga að því, með hvaða hætti skynsamlegast skal staðið að málunum né heldur með hvaða hætti hagsmunir þjóðarinnar skuli bezt tryggðir. Aðeins skal vaðið áfram og vinnubrögðin þau sömu og kommúnistar mótuðu í vinstri stjórninni. Vinnubrögð stjórnarandstöðunnar eru því fordæmanlegri, þegar sú staðreynd liggur fyrir, að kröfur okkar til landgrunnsins eiga sér djúpar rætur í þjóðernisvitund okkar Íslendinga og þar koma engin sérsjónarmið stjórnarflokkanna til. Samfara því er vaxandi skilningur hjá vinveittum þjóðum fyrir þörf okkar á aukinni fiskveiðilandhelgi. Við skulum og minnast þess, að fyrr á öldum var landhelgi okkar miklu stærri en hún er nú, og það hefur verið og er vilji þjóðarinnar að endurheimta svo stóra landhelgi sem unnt er. Spurningin er, hvaða aðferðum skal beitt við það. Till. ríkisstj. gerir ráð fyrir, að þingnefnd skuli kosin, sem skili till. sínum til Alþ. um æskileg vinnubrögð í þessu máli. Það er skoðun okkar sjálfstæðismanna, að þannig skuli farið að í máli þessu, að stuðzt verði við lög og rétt og við séum ávallt viðbúnir að hlíta úrskurði alþjóðadómstóls um það, hvort svo sé eða ekki. Það, sem meira er, er, að formaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson prófessor, er okkur stuðningsmönnum ríkisstj. sammála í þessum málum, eins og fram hefur komið hér í kvöld, en hæstv. forsrh. og hv. þm. Birgir Finnsson lásu upp úr ræðu þessa hv. þm., er hann flutti hér á Alþ. 14. nóv. 1960, en í þeirri ræðu lagði prófessor Ólafur áherzlu á, að málin væru alltaf svo búin, að við værum viðbúnir að leggja mál okkar til úrlausnar alþjóðadómstóls. En einmitt þessi skoðun hv. þm. Ólafs Jóhannessonar var það sjónarmið, sem fram kom í samningunum við Vestur-Þjóðverja og Breta 1961, að við skyldum ávallt vera reiðubúnir til að leggja landhelgisákvarðanir okkar fyrir alþjóðadómstól, ef þess yrði óskað.

Ræða Ólafs Jóhannessonar er að vísu haldin fyrir um það bil ellefu og hálfu ári. En grunur minn er sá, að prófessor Ólafur hafi ekki skipt um skoðun. Það er hins vegar endalaus eyðimerkurganga flokks hans í neikvæðri stjórnarandstöðu, sem hefur skapað mikla ólgu í Framsfl. og leiðir af sér örvæntingarfullar tilraunir þeirra til að undirbúa nýtt vinstra samstarf um ríkisstj., sem fær prófessor Ólaf og flokk hans til þess að víkja frá þeim grundvallarreglum, sem þeir telja, að smáþjóð verði að lifa eftir. Óskynsamlegra athæfi væri ekki hægt að hugsa sér fyrir þjóð, sem býr yfir engu öðru afli en því, sem lög og réttur, hófsemi og sanngirni veitti henni.

Í umr. hér í kvöld var því haldið fram af hv. þm. Birni Jónssyni, að í samningunum frá 1961 hafi Íslendingar afsalað sér einhliða rétti til þess að færa út landhelgina. Ég mótmæli þessu sem röngu og skora á hv. þm. eða flokksbróður hans í ræðutíma þeirra hér á eftir að lesa upp þá grein, sem þeir vitna til. Verði það ekki gert, veit þjóðin, að annaðhvort veit þm. ekki betur eða hann hefur farið visvitandi með rangt mál.

Hv. þm. Ólafur Jóhannesson varpaði hér fram þremur spurningum í umr. í kvöld. Sú fyrsta var: Telur stjórnin, að stækkun landhelginnar eigi að bíða fram yfir hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna? Eins og fram kom í ræðu forsrh. svo og utanrrh., geta þau atvik skapazt, m.a. þau atvik, sem hv. þm. Björn Jónsson var að spá hér í kvöld, að ekki verði beðið eftir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna með útfærslu landhelginnar. En hugleiðingar Björns Jónssonar sýna okkur, hversu fráleit till. stjórnarandstæðinganna er um útfærslu landhelginnar einhvern ákveðinn dag. Þegar spurt er um, hvort stjórnin telji, að landhelgissamningurinn við Breta og Vestur-Þjóðverja sé óuppsegjanlegur, er svarið neitandi. Þriðja spurningin: Telur stjórnin ráðlegt að eiga það undir úrskurði Haag-dómstólsins, hvort fiskimið landgrunnsins tilheyri Íslendingum einum? Eins og er teljum við óráðlegt að eiga það undir Haag-dómstólnum. Eins og fram kom í ræðu forsrh., vinnur tíminn fyrir okkur og með okkur, og það er trú okkar, að við munum öðlast alþjóðaviðurkenningu á rétti okkar til fiskveiðilögsögu á landgrunninu öllu á næstu misserum. Vonast ég til, að þessi svör hafi komizt til skila.

Góðir hlustendur. Í stað till. stjórnarandstæðinga, sem stefnir að því að setja landhelgismálið öðru sinni í hnút, flytur ríkisstj. með stuðningi Sjálfstfl. og Alþfl. till. um skipan þn., sem semja skuli frv. að lögum um rétt Íslendinga til landgrunnsins og hagnýtingar auðæfa þess, er lagt skuli fyrir næsta Alþ. Þá verður tekin ákvörðun um friðun hrygningar- og uppeldisstöðva fisksins. Þá verður tekin ákvörðun um það, með hvaða hætti við fyrirbyggjum mengun hafsins. Þá verður tekin ákvörðun um sérréttindi til hagnýtingar fiskstofnsins á landgrunninu og auðæfanna á hafsbotninum.

Þannig vilja sjálfstæðismenn vinna, og undir forustu þeirra hafa Íslendingar unnið hvern landhelgissigurinn af öðrum. Það þekkir þjóðin og gerir sér grein fyrir. Sjálfstæðismenn hafa í þessu máli sem öðrum átt forustumenn, sem fylgt hafa fast og örugglega fram þjóðarhagsmunum, og svo mun enn reynast.

Íslenzka þjóðin kveður upp sinn dóm í komandi kosningum. Þeim dómi kvíða sjálfstæðismenn ekki. — Góða nótt.