01.04.1971
Sameinað þing: 39. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

294. mál, landhelgismál

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ræðumenn stjórnarflokkanna hér í þessum umr. ásaka okkur stjórnarandstæðinga fyrir að hafa rofið þjóðareiningu um landhelgismálið. Ég sé ástæðu til að fara nokkrum orðum um þessa staðhæfingu og færa rök að því, að hún er fleipur eitt, fleipur manna, sem hafa að vonum vonda samvizku í þessu máli. Jóhann Hafstein forsrh. og aðrir stjórnarliðar gera sér það vitanlega ljóst, að þjóðin ætlast til þess, að stjórnendur hennar og kjörnir fulltrúar standi saman um þetta stórmál. Allir vita, að hér er ekki lítið í húfi. Hér er um það að tefla, hvort Íslendingar fái í reynd hagnýtt þann rétt, sem þeir fyrir meira en 20 árum lýstu yfir, að þeir ættu, lögsögu og yfirráð yfir landgrunnssvæðinu öllu án íhlutunar annarra. Með hvers kyns vífilengjum og markleysishjali hafa forustumenn stjórnarflokkanna mánuðum saman reynt að fá aðra flokka til að fallast á að gera ekki neitt í landhelgismálinu. Upp á slíka samstöðu hafa stjórnarliðar boðið og ekki nokkurn skapaðan hlut annan. Sannast það raunar glögglega á þáltill. þeirra um landhelgismálið, þeim furðulega grautarhausasamsetningi, sem Lúðvík Jósefsson lýsti svo eftirminnilega hér í kvöld.

Till. stjórnarflokkanna hefur ekki að geyma eitt einasta ákvarðandi atriði umfram það, sem allir flokkar höfðu samþykkt fyrir 23 árum með landgrunnslögunum frá 1948. Mér er nær að halda, að íslenzk þjóð ætlist nú til annars og meira en þess, að stefnumarkandi ákvæði hinna 23 ára gömlu laga séu enn einu sinni ítrekuð, vafin í þykkar umbúðir, án þess að ætlunin sé að gefa þeim aukið veruleikagildi með ákvörðunum og framkvæmdum. Ég er þess fullviss, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefur óskað eftir einingu um tilteknar og tímaákvarðaðar aðgerðir í landhelgismálinu. Það er slík þjóðareining, sem stjórnarflokkarnir voru illu heilli að rjúfa. Það eru því viðbrögð manna með heldur bágan málstað, sem birtast í þeim hrópum stjórnarliða, að stjórnarandstæðingar hafi gert mál þetta að pólitísku bitbeini. Og þegar stjórnarherrarnir hafa undanfarnar vikur og mánuði krafizt samstöðu um að gera ekkert, bókstaflega ekkert í mesta lífshagsmunamáli þjóðarinnar, þá var þar um að ræða örvæntingartilraun óttasleginna manna, sem telja sig bundna af gömlum óhappasamningi, tilraun til að binda einnig hendur annarra.

Nú leggja stjórnarliðar ofurkapp á að sverta málstað stjórnarandstöðunnar og saka hana um að rjúfa þjóðareiningu um landhelgismálið. Slíkt fleipur situr illa á talsmönnum þeirra flokka, Sjálfstfl. og Alþfl., sem bera einir allra ábyrgð á því, að með samningagerðinni við Breta árið 1961 var rofin á hinn svívirðilegasta hátt alger samstaða og þjóðareining, sem ríkt hafði um landhelgismálið þá um skeið. Það voru leiðtogar þessara flokka, sem í óþökk meiri hluta þjóðarinnar sömdu á þann veg, að síðan hefur engin útfærsla landhelginnar átt sér stað í heilan áratug og mun ekki eiga sér stað á næstu árum, ef núv. stjórnarflokkar fá að ráða. En fá þeir að ráða í þessu örlaga- og lífshagsmunamáli? Ljóst er af málflutningi þeirra, að þeir óttast fyrst og fremst, að þrátt fyrir allt sameinist þorri þjóðarinnar um aðgerðir, um athafnir í málinu, myndi þjóðareiningu um kröfurnar, 50 mílna fiskveiðilögsögu á næsta ári, 100 mílna mengunarlögsögu þegar í stað. Ég held, að ekki sé úr vegi að segja hér nokkur orð til viðbótar um landhelgismál og einingu lítillar þjóðar.

Árið 1948 stóð íslenzka þjóðin sameinuð að baki ríkisstj. og Alþ., þegar lög voru sett um landgrunnið og lýst yfir íslenzkri lögsögu á landgrunnssvæðinu öllu. Þar var svo mælt fyrir, að síðar mætti með útgáfu reglugerðar ákvarða, á hvern hátt Íslendingar hagnýttu yfirráðarétt sinn og væri þar um einhliða ákvarðanir að ræða af þeirra hálfu. Alþ. og landsmönnum öllum var vitanlega fullljóst þá, að einhverjar erlendar þjóðir mundu vefengja rétt okkar til landgrunnsins og það kynni að taka tíma að ná honum í reynd. Slíkt yrði trúlega að gerast í áföngum. Um hitt voru allir Íslendingar sammála að standa á þessum rétti sínum og neita því, að um hann yrði samið við aðrar þjóðir né málið borið undir erlenda dómstóla. Allar ákvarðanir um stækkun íslenzkrar fiskveiðilögsögu, sem síðan hafa verið teknar, byggjast á landgrunnslögunum frá 1948.

Þegar landhelgin var stækkuð í 12 mílur árið 1958, var yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sammála um þá ákvörðun. En eftir að ljóst var, að Atlantshafsbandalagið ætlaði að skipta sér af málinu, skarst Sjálfstfl. úr leik, og mjóu munaði, að Alþfl. fylgdi honum eftir. Með stöðugum vífilengjum og málskotum til erlendra aðila reyndu úrtölumenn þá að draga ákvarðanir á langinn, drepa málinu á dreif. Allir vita, að ástæðan til þess, að forustumenn Sjálfstfl. rufu þjóðareiningu um landhelgismálið árið 1958, var óttinn við hótanir Breta og undirlægjuháttur gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Svo tæpt stóð málið sumarið 1958, að það hefði vafalaust tapazt og vinstri stjórnin guggnað á útfærslu, ef ekki hefði komið tvennt til, aðild Alþb. að ríkisstj. og einbeitt og þróttmikil frammistaða Lúðvíks Jósefssonar, sem þá var góðu heilli sjútvrh. og átti öllum öðrum stærri hlut að því að hrinda málinu í framkvæmd. Þó hefði einbeitt afstaða Alþb. og dugnaður Lúðvíks Jósefssonar fráleitt nægt, ef hinir stjórnarflokkarnir hefðu ekki fundið öflugan og eindreginn vilja almennings, sem krafðist útfærslunnar. Það var samstaða alls þorra Íslendinga, þ. á m. margra ágætra fylgjenda Sjálfstfl., sem bjargaði málinu og kom því heilu í höfn. Eftir að ákvörðunin hafði verið tekin og stækkunin framkvæmd, þögnuðu úrtölumennirnir og blygðuðust sín. Það var því einhuga þjóð, sem Bretar áttu hér að mæta, þegar þeir gerðu tilraun til að kúga okkur með vopnavaldi og hófu að stunda hér landhelgisþjófnað undir herskipavernd.

Þegar kom fram á árið 1961, var öllum ljóst orðið, að Bretar höfðu tapað þorskastyrjöldinni svo kölluðu. Allar tilraunir þeirra til að hnekkja ákvörðunum Íslendinga um 12 mílna lögsögu höfðu mistekizt. Einbeitt og djarfleg barátta Íslendinga fyrir lífshagsmunum sínum hafði vakið heimsathygli, og brezka ríkisstj. átti naumast öðru að mæta en háði og fyrirlitningu fyrir misheppnaðan hernað sinn gegn vopnlausri smáþjóð. En nú var ný ríkisstj. tekin við völdum á Íslandi, samstjórn Sjálfstfl. og; Alþfl., oft kölluð viðreisnarstjórn, síðari árin einungis í háðungarskyni. Og þá fer Atlantshafsbandalagið enn að nýju á stúfana. Í höfuðstöðvum NATO hafði það lengi verið nokkur höfuðverkur, að tvær aðildarþjóðir, Bretar og Íslendingar, skyldu eiga í illvígri deilu, þar sem önnur þjóðin hafði jafnvel beitt hina vopnavaldi. Ég geri ráð fyrir, að af hálfu leiðtoga í NATO hafi verið lagt fast að íslenzkum stjórnarvöldum að semja við Breta, svo að hægt væri að tilkynna, að endir væri bundinn á þorskastyrjöldina. Ég finn a.m.k. enga hugsanlega skýringu aðra á smánarsamningi núv. stjórnarflokka við Breta árið 1961 en undanlátssemi gagnvart NATO. NATO lagði kapp á, að úrslit fengjust í þessu máli, úrslit, sem brezka stjórnin þættist geta við unað. Íslenzk stjórnarvöld beygðu sig fyrir þessum kröfum, gerðu samning við Breta og síðar við Vestur-Þjóðverja, þar sem þau hétu því, að frekari stækkun landhelginnar skyldi tilkynnt þessum þjóðum með hálfs árs fyrirvara og alþjóðadómstóllinn í Haag skera úr um réttmæti stækkunar, ef ekki næðist samkomulag. Með samningi þessum töldu Bretar bundinn endi á frekari sókn Íslendinga í landhelgismálinu. Enda þótt við Alþb.-menn og raunar aðrir stjórnarandstæðingar teljum þaö fráleitt, er staðreynd, að óhappasamningur þessi er aðalástæðan til þess, að ekkert hefur verið aðhafzt í landhelgismálinu af hálfu Íslendinga í heilan áratug. Og þessi samningur er vafalítið meginorsök þess, að stjórnarflokkarnir þora sig enn hvergi að hræra og reyna að fá samstöðu um að gera ekki nokkurn skapaðan hlut. Og þeir herrar, sem nú tala með tungumýkt um nauðsyn þjóðareiningar og ásaka aðra ranglega fyrir að rjúfa hana, þeir voru ekki að sameina þjóðina árið 1961. Þá var þjóðareiningu um landhelgismálið fórnað á altari Atlantshafsbandalagsins. Þá knúðu þeir fram örlagaríkan samning, beittu til þess naumum þingmeirihluta, en virtu að vettugi víðtæk mótmæli fulltrúa, sem studdust við ríflegan helming kjósenda. Þá þurftu þeir ekki á samstöðu allrar þjóðarinnar að halda. Þeir þóttust einfærir um að binda hana á klafa í skjóli örlítils meiri hl. á Alþingi.

Stjórnarandstöðuflokkarnir lýstu því yfir þegar árið 1961, að þeir litu á samning þennan sem nauðungarsamning. Það hefur verið og er grundvallarskoðun okkar Alþb.-manna, að um náttúrugæði landsins, landgrunnsins og hafsins yfir landgrunninu þurfi íslenzka þjóðin ekki að semja við nokkra aðra þjóð. Það sé skýlaus réttur landsmanna að setja þær reglur um hagnýtingu og verndun þessara náttúrugæða, sem hagkvæmastar eru þjóðinni. Við teljum því, að undansláttarsamningurinn við Breta og Þjóðverja frá 1961 sé marklaus samningur, bæði sakir þess, að hann var gerður við þjóð, sem beitti vopnavaldi og knúði fram vilja sinn með ofbeldi, en ekki síður vegna hins, að með samningnum var afsalað landsréttindum, samið um náttúrugæði, sem eru undirstaða að lífi þjóðarinnar í landinu. Við teljum, að slíkur samningur geti ekki talizt bindandi fyrir nokkra þjóð.

Af ástæðum, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, telur Alþb. nú orðið óhjákvæmilegt að hefjast handa um nýja útfærslu landhelginnar á grundvelli landgrunnslaganna frá 1948. í allan vetur höfum við lagt okkur fram um að ná samstöðu um málið við aðra flokka og ekki látið nein minni háttar atriði torvelda hana. En tvennt var ófrávíkjanlegur kjarni málsins að okkar dómi, ákvörðun á þessu þingi um tiltekna útfærslu, t.d. út í 50 mílur, og ákvörðun um það, hvenær útfærslan skyldi taka gildi. Samstaða hefur náðst milli stjórnarandstöðuflokkanna allra, sem nú standa sameiginlega að till. um athafnir. Hins vegar var nokkurn veginn ljóst þegar frá upphafi, að stjórnarflokkarnir ætluðu ekkert að gera, en drógu málið hins vegar á langinn með vífilengjum. Þeir voru auðsjáanlega hræddir við aðgerðarleysið, hræddir við að koma fram fyrir kjósendur í sumar og játa uppgjöf sína. Þess vegna hafa þeir lagt í það töluverða vinnu að gera sem fyrirferðarmestar umbúðir utan um það, sem ekkert er umfram það, sem Íslendingar hafa marglýst yfir og endurtekið ótal sinnum í fulla tvo tugi ára. Með rökleysum reyna stjórnarherrarnir að fela aðgerðarleysi sitt af ótta við, að afleiðingar ógæfusamningsins frá 1961 komi þjóðinni í koll. Þeir skírskota mjög til alþjóðaráðstefnu um réttarreglur á hafinu, ráðstefnu, sem kann að verða haldin eftir rúm tvö ár, e.t.v. þó ekki fyrr en síðar, og láta í það skína, að á slíkri ráðstefnu verði okkur færð víðáttumikil landhelgi á silfurfati. Þetta er sagt gegn betri vitund. Mjög ólíklegt er, að á slíkri ráðstefnu, þótt af henni verði árið 1973 eða síðar, fáist endanleg niðurstaða um alþjóðafiskveiðilögsögu. Hitt er ljóst, að því fleiri þjóðir sem fyrir ráðstefnu þessa hafa helgað sér stærri landhelgi en 12 mílur, því minni verður hættan á, að 12 mílna reglan verði þar samþykkt sem alþjóðalög. Vissulega ber okkur að taka þátt í starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna að lausn landhelgismála og hafa þar sem annars staðar fulla samstöðu með þeim þjóðum, sem krefjast víðáttumikillar landhelgi. En við höfum ekki tíma til að bíða eftir óvissu ráðstefnuhaldi, og enn þá óvissari úrslitum slíks ráðstefnuhalds, meðan fiskimiðin umhverfis land okkar eru í bráðri hættu af ofveiði og mengun. Í sívaxandi mæli stefna nú aðrar þjóðir flotum sínum á íslenzk fiskimið. Lífshagsmunir okkar eru í húfi, og okkur ber bæði réttur og skylda til að vernda þá.

Stjórnarsinnar halda því fram, að þar sem við Íslendingar séum löghlýðin smáþjóð, getum við ekkert haft við það að athuga að skjóta hugsanlegum aðgerðum okkar í fiskveiðilögsögumálum til alþjóðadómstóls og hlíta úrskurði hans. Slík afstaða þýðir í raun, að við séum bundnir í málinu um ófyrirsjáanlega framtíð og fáum okkur hvergi hrært. Alþjóðadómstóll mundi vafalaust dæma eftir því, sem hann teldi almennasta venju. Slík viðmiðun er að vísu breytingum háð, en þær breytingar eru seinvirkar og dómstólar oftast íhaldssamir og fremur á eftir þróuninni en undan. Þessar breytingar gerast með því móti, að einstök ríki eða ríkjahópar taka sér aukinn rétt, ætíð með einhliða ákvörðun, og þegar slík ríki eru orðin mörg, hafa þau unnið hinum aukna rétti hefð. Fullvíst má telja, að ef útfærsla okkar í 12 mílur árið 1958 hefði verið borin undir alþjóðadómstól, hefði hann á þeim tíma dæmt hana ólöglega og aðeins talið fjögurra mílna landhelgi heimila að alþjóðalögum. Með djarflegri ákvörðun áttum við drjúgan þátt í þeirri þróun, sem varð á næstu árum. Nú mundi alþjóðadómstóll vafalaust fallast á 12 mílna landhelgi, en trúlega alls ekki stærri enn sem komið er. Það er því fráleitt með öllu að ætla að bera ákvarðanir okkar um stækkaða landhelgi undir alþjóðadómstólinn í Haag, enda er með því algerlega vikið frá þeirri meginhugmynd, sem landgrunnslög okkar frá 1948 byggjast á, að við höfum lögsögurétt yfir landgrunninu öllu.

Sú stefna stjórnarflokkanna að una samningnum við Breta frá 1961 og málskoti til Haag-dómstólsins er sönnun þess, að þeir ætla sér ekki að gera neitt að gagni í fiskveiðilögsögumálum. Í dag engu síður en árið 1958 er það undir þjóðinni sjálfri komið, fólkinu í landinu til sjávar og sveita, hvort fiskveiðilögsagan verður færð út í 50 mílur á næsta ári eða ekki. Áhugamenn um þetta mál um land allt, látið fulltrúa stjórnarflokkanna verða þess rækilega vara, að þið ætlizt til aðgerða í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar. Með fundasamþykktum, undirskriftum og á annan hátt getið þið tekið kröftuglega undir kröfurnar um uppsögn landhelgissamningsins við Breta, um 50 mílna fiskveiðilögsögu og 100 mílna mengunarlögsögu. Það er enn hægt, þrátt fyrir mistök forustumanna stjórnarflokkanna, að ná víðtækri samstöðu um þetta stórmál, mynda um það þá þjóðareiningu, sem dugar til sóknar og sigurs. — Góða nótt.