26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3685)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þeir, sem gengið hafa um Álftanes eða aðra staði í nágrenni Straumsvíkur í sumar og horft í átt til iðjuversins mikla, hafa á lognkyrrum dögum séð bláleitan, rykmettaðan hjúp grúfa yfir bræðslunni og þyrlast býsna hátt í loft upp. Þarna er um að ræða útblástursloft frá verksmiðjunni með ákaflega miklu magni af úrgangsefnum. Það var sannarlega ekki að undra, þótt héraðslæknirinn í Hafnarfirði mælti svo fyrir, að barnaheimili, sem haft var á þessum slóðum, skyldi hætta starfsemi sinni. En menn hafa ekki aðeins haft mengunina fyrir augunum á þennan hátt í landi því, sem kennt hefur verið við hreint loft. Fólk í Hafnarfirði og á Álftanesi hefur í sumar fylgzt með görðum sínum af vaxandi áhyggjum. Trjágróður hefur dafnað óeðlilega illa, reynir, birki, víðir, heggur, hlynur og ribs, laufið varð rauðbrúnt á jöðrunum, ungir sprotar vanskapaðir, börkurinn skorpinn, toppar visnaðir og lauf féll sums staðar þegar í júlíbyrjun. Allt leiddi þetta til þess, að Ingólfur Davíðsson grasafræðingur var fenginn til að athuga gróðurinn, og niðurstaða hans varð sem kunnugt er sú, að hér væri um flúormengun að ræða, eituráhrif, sem væru á svo háu stigi, að gróður þyldi þau ekki. Vilji hv. alþm. sjálfir kynnast þessum áhrifum, skal þeim ráðlagt að skreppa suður að Straumi og fá að lita á trjálund, sem Ragnar Pétursson kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði hefur ræktað umhverfis sumarbústað undanfarna tvo áratugi. Þar eru myndarleg grenitré, 16–17 ára gömul, að deyja hægfara dauða, sprotarnir brúnir og nýgræðingar margir albrúnir.

Þessar frásagnir um mengunina frá álbræðslunni í Straumi hafa vakið mjög almenna athygli manna á meðal og mikil blaðaskrif. Samt þurfa þessar afleiðingar ekki að koma á óvart neinum þeim, sem deili veit á reynslu annarra. Álbræðslur hafa verið starfræktar í heiminum í nærfellt heila öld, og það hefur lengi verið vitað, hver áhrif flúorvetni og önnur úrgangsefni, sem losna við rafgreininguna, hafa á umhverfi sitt. slík reynsla er til að mynda tiltæk frá nágrannalandi okkar, Noregi, þar sem barrskógar dóu af mengun á svæðum, sem náðu 10–20 km í allar áttir frá bræðslunum. Þessi reynsla hefur leitt til þess, að hvarvetna í Evrópulöndum og í Vesturheimi hafa lengi verið reglur um hreinsitæki í álbræðslum, þ.e. hvarvetna nema á Íslandi. Raunar þurfa Íslendingar ekki að leita til annarra landa til þess að fá reynslu af áhrifum flúorvetnis, þess úrgangsefnis frá álbræðslum, sem mest er rætt um. Hér á landi losnar flúor einatt, þegar eldfjöll gjósa, og er nýjasta reynsla okkar Íslendinga af slíkum eituráhrifum frá þessu ári. Hægfara flúoreitrun lýsir sér á áhrifaríkastan hátt með breytingu á bandvefjum og beinum, kalk sezt í liðböndin, og beinaukar myndast, og koma þær breytingar mjög fljótlega fram á tönnum. Hjá sauðfé eru þessir mengunarsjúkdómar nefndir gaddur, og þarf ég ekki að rifja upp fyrir hv. alþm., hvert tjón hefur af þeim hlotizt. Allar þessar staðreyndir hafa lengi verið kunnar, og allar þessar staðreyndir voru raktar ítarlega, þegar álbræðslufrv. lá fyrir þingi veturinn 1965–1966. Fjallað var um þessa hlið málsins í umr. bæði í Nd. og Ed., en ítarlegasta og málefnalegasta ræðu um þetta efni flutti Alfreð Gíslason læknir í Ed. 29. apríl 1966. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, tilgreina nokkur atriði úr ræðu Alfreðs Gíslasonar um áhrif flúors á mannslíkamann. Alfreð sagði:

„Það er algengt í heiminum, að flúorvetni og önnur uppleysanleg flúorsambönd valdi mönnum heilsutjóni og dauða, enda eru þau talin í röð allra sterkustu eiturefna, sem til eru. Sjúkdómseinkennin, sem þessar eiturtegundir valda, geta verið með margvíslegu móti og fara aðallega eftir því, hvernig efnin berast inn í líkamann. Ef áhrifin eru sterk og snögg og verka á líkamann utan frá, erta þau og særa húð og slímhúðir, geta valdið brunasárum á húð og skaddað stórlega slímhúðir, valdiðlungnakvefi með hósta og andarteppu og fleiri hastarlegum einkennum. Þessi tegund eitrunar þekkist svo sannarlega í sambandi við rekstur álmverksmiðja. Berist flúorefnin inn í líkamann í gegnum meltingarfarveginn, verða einkennin önnur, aðallega frá innyflunum og valda oft bráðum bana. Ég get þessa, þótt þetta vilji kannske ekki oft til eða jafnvel mjög sjaldan í sambandi við álmverksmiðjur. Þetta er sú bráða eitrun, sem fylgir sterkum áhrifum flúors.

Hægfara flúoreitrun er til, og hún lýsir sér fyrst og fremst með mjög sérkennilegum breytingum í beinum líkamans og bandvef. Beinin verða eins og mölétin, beinaukar vaxa út úr beinunum hér og þar, og kalk sezt í liðaböndin. Þessu fylgja ýmiss konar þrautir og óþægindi. Þessi tegund eitrunar, sem nefnd er fluorosis, þessi hægfara eitrun, ér algeng í sambandi við verksmiðjurekstur. Frægust er þessi tegund flúoreitrunar sem atvinnusjúkdómur í krýolítverksmiðjunum í Danmörku, og það var einmitt landi okkar, Skúli Guðjónsson, sem var annar þeirra vísindamanna, sem fyrstir bentu á samhengið milli flúors og þessa sjúkdóms.

Flúorinn og sambönd hans eru, eins og ég hef tekið fram, mjög eitruð. Ef 70 kg þungur maður neytir 5–10 g af uppleysanlegu flúorsalti, er honum dauðinn vis innan fárra klukkustunda. Ef flúorvetni í andrúmsloftinu nær því að vera 100 mg í einum rúmmetra, þolir það enginn maður í eina mínútu. Sé magnið fjórum sinnum minna eða 25 mg í rúmmetra, má þola það í nokkrar mínútur. Þessar tölur sýna, hve baneitrað efni er hér um að ræða, og það er einmitt flúorefni, sem mest ber á í sambandi við rekstur álmverksmiðjanna.

Hvað snertir hina hægfara eitrun má upplýsa það, að ef maður fær í sig 20–30 mg af flúor daglega í 10–20 ár, fær hann örugglega áðurnefndan beinasjúkdóm á háu stigi. Þessi möguleiki er til alls staðar, þar sem flúorefni finnast, og verður að staðreynd, ef aðgæzla er ekki höfð. — Allir þeir menn, sem vinna í þessum verksmiðjum, eiga á hættu flúoreitrun, bráða eða hægfara, nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar þeim til verndar. Sama og svipað gildir um fólk, sem býr í nágrenni verksmiðjanna. Það verður fyrir óheilnæmum áhrifum, ef strangrar varúðar er ekki gætt, og það að staðaldri.“

Þannig skýrði Alfreð Gíslason læknir frá áhrifum flúoreitrunar, bráðrar eða hægfara, á mannslíkamann í samræmi við sérþekkingu sína á læknisfræði. En í þessu sambandi er vafalaust ástæða til að leggja áherzlu á, að læknisvísindin þekkja þessi áhrif engan veginn til hlítar enn sem komið er. Reynslan hefur sýnt, að mjög er erfitt að sannreyna efnafræðileg áhrif á þá fíngerðu efnaverksmiðju, sem mannslíkaminn er. Til að mynda urðu vísindamenn að hagnýta tölfræði til þess að sanna áhrif sígarettureykinga og samband þeirra við krabbamein í lungum. Það er ekki fyrr en á síðustu árum, að menn hafa gert sér grein fyrir því, hver áhrif mengun á andrúmslofti í stórborgum, m.a. frá útblástursrörum bifreiða, hefur á menn. Menn hafa til skamms tíma kunnað deili á þeim áhrifum einum, sem koma fram þegar í stað eða fljótlega og birtast sem skilgreinanlegir sjúkdómar. En önnur áhrif geta verið fíngerðari en svo, að mönnum hafi enn tekizt að sýna fram á þau. Þau geta engu að síður haft áhrif á líðan manna og almennt heilsufar, langlífi, andlega og líkamlega hæfileika og erfðir. Því er ástæða til að ætla, að hættumörk þau, sem vísindamenn hafa til skamms tíma gert grein fyrir, séu allt of rúm, hætturnar séu mun meiri. En hvað þá um hina sérstöku hættu í álbræðslunni í Straumsvík? Er það magn af eiturefnum, sem þaðan berst, þrátt fyrir allt ekki minna en svo, að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því, þrátt fyrir það þótt barrtré séu að deyja í nánd við bræðsluna og gróður sé sjúkur í Hafnarfirði og á Álftanesi? Ástæða er til að gera grein fyrir því, að hér er sannarlega ekki um lítið magn að ræða. Við framleiðslu á bráðnu áli með rafgreiningu eru notuð sem hvatar flúorsamböndin krýolít og alúminíumflúoríð. Flúormagnið í þessum efnasamböndum báðum er mjög mikið, meira en helmingur. Við bræðsluna losnar flúormagn, sem nemur 35 g á hvert kg af áli. Miðað við 40 þús. tonna ársframleiðslu á áli, eins og nú er í Straumi, losnar flúormagn, sem nemur hvorki meira né minna en 1400 tonnum á ári. Af þessu magni berast um 70% burt með ræstiloftinu, mestmegnis sem flúorvetni. Það magn, sem þannig berst beint út í andrúmsloftið, er því um 980 tonn á ári, 2700 kg á hverjum sólarhring, yfir 100 kg á hverri klukkustund. Það eru hátt í 3 tonn af flúorvetni, sem sáldrast yfir umhverfi álbræðslunnar hvern einasta sólarhring allt árið.

Þegar búið verður að tvöfalda verksmiðjuna, tvöfaldast einnig þetta eiturmagn. Ef ekki verður að gert, kemst það magri, sem þá berst út í andrúmsloftið, upp í 1960 tonn á ári eða 5400 kg á hverjum sólarhring. Hér er sannarlega ekki um neina smámuni að ræða.

Því hefur verið haldið fram, að þessi eituráhrif breiðist yfir stærra svæði hér en víðast hvar annars staðar og áhrifin á hverjum bletti verði því minni, vegna þess hversu vindasamt er hér á landi og sérstaklega á Reykjanesi. Vafalaust er nokkuð til í þessu. En önnur staðreynd vegur á móti. Flúorvetni samlagast vatni mjög greiðlega, og þegar rignir, mun flúorvetnið í ræstiloftinu úr verksmiðjunni falla niður með regnvatninu svo til 100% á næsta takmörkuðu svæði. Reykjanesskaginn er mikið rigningarsvæði, og því er ástæða til að ætla, að úrfellið úr reykskýinu frá álbræðslunni sé oft mjög mikið og tiltölulega sterkt.

Hér hefur aðeins verið rætt um flúorvetni, en mörg fleiri úrgangsefni losna við álbræðslu og óhreinka umhverfið. Má þar nefna tjöruefni, brennisteinssambönd, áloxýðryk, krýolít, kolsýru og kolsýring. Ráðamenn álbræðslunnar í Straumi hafa greint svo frá, að magn allra þeirra rykefna, sem berast í umhverfið frá álbræðslunni, sé fjórfalt eða fimmfalt meira en magnið af flúorvetni einu saman. Þannig dreifast 10–13 tonn rykefna með ræstiloftinu frá verksmiðjunni hvern einasta sólarhring, um það bil 1/2 tonn á hverri einustu klst. allan ársins hring. Flúorvetnið hefur vakið mesta athygli þessara úrgangsefna, vegna þess hversu auðvelt er að sýna fram á eitrunaráhrifin, m.a. á gróðri. En áhrif frá öðrum úrgangsefnum kunna að reynast engu síður skaðsamleg, þegar til lengdar lætur. Þær staðreyndir kunna að koma betur fram alveg á næstunni, eftir því sem þeim mengunarrannsóknum fleygir fram, sem nú eru stundaðar af sívaxandi áhuga víða um heim.

Þegar upphaflega var rætt um álbræðslusamninginn, var lögð þung áherzla á nauðsyn þess, að komið yrði upp fullkomnum hreinsitækjum þegar í upphafi. Þeirri kröfu var þó hafnað, bæði af svissneska álhringnum og íslenzkum stjórnarvöldum. Rökstuðningurinn fyrir þeirri neitun var sá, að þótt vissulega væri um mengun að ræða, væri landið umhverfis Straumsvík svo ómerkilegt, eyðilegir hraunflákar og óræktarmóar, að engum gerði neitt til, þó að þeir menguðust. Mengunin næði varla til Hafnarfjarðar svo að nokkru næmi, en ef svo færi, tók auðhringurinn að sér að greiða mönnum bætur. Þetta sjónarmið, að land, sem ekki er ræktað til nytja, sé ómerkilegt, ætti að vera enn fjarlægara mönnum nú en það var fyrir fimm árum. Flestum Íslendingum er nú að verða það ljóst, að einhver dýrmætasta eign þeirra er einmitt þetta ósnortna, hreina land. Sumir reikna þessa eign til peninga sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn í mengaðri veröld, og vist mun auðvelt að reikna út, að það sé hæpinn ábati að láta eitra þetta land í sparnaðarskyni fyrir erlent auðfélag. Samt eru þau verðmæti margfalt meiri, sem ekki verða reiknuð til fjár, sú sálubót og líkamsgleði, sem það er að dveljast úti í þessari náttúru. Ég hef sjálfur átt marga ánægjulega daga á þeim slóðum, þar sem rykefnin frá álbræðslunni falla nú hvað þéttast dag hvern. Og ef menn hugleiða málið frá þessu sjónarmiði, skyldu þeir leiða hugann að því, hvernig land okkar verður orðið, þegar hér eru risin þau 20 álbræðsluver, sem einn af leiðtogum Sjálfstfl. taldi, að okkur bæri að keppa að í náinni framtíð.

En raunar voru það ekki mismunandi viðhorf til náttúruverndar, sem ollu því, að ekki voru höfð hreinsitæki í álbræðslunni í Straumsvík, heldur ein saman peningasjónarmið, bæði hjá svissneskum valdamönnum og íslenzkum. Svissneski auðhringurinn vildi losna við að koma upp hreinsitækjum, vegna þess að þau eru mjög dýr, bæði í stofnkostnaði og rekstri, og meðan málið var á samningastigi, sögðu ráðamenn Alusuisse ofur einfaldlega við íslenzk stjórnarvöld, að ef þau vildu hreinsitæki, yrðu þeir að fá enn hagkvæmari samninga að því er varðar raforkuverð og önnur kjör. Þetta kemur mjög glöggt fram í skýrslu stóriðjunefndar um viðræðurnar við Svisslendinga á sínum tíma. Þá var m.a. um það rætt, hvort álbræðslan ætti heldur að rísa við Eyjafjörð eða Straumsvík. Steingrímur Hermannsson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, sem var einn af samninganefndarmönnum, sagði svo um það atriði, sem úrslitum réð, í grein í Tímanum 28. febr. 1965, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig virðist mega áætla, að alúminíumverksmiðja mundi kosta a.m.k. 100 millj. meira fyrir norðan en fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þetta stafar m.a. af því, að nauðsynlegt er að setja fullkomnustu hreinsunartæki fyrir flúor í verksmiðjuna fyrir norðan, en síður í hrauninu á Suðurnesjum. Má því telja ólíklegt, að unnt yrði að ná jafnhagkvæmum samningum um orkuverð við Svisslendinga, ef verksmiðjan er fyrir norðan, og ef hún er staðsett fyrir sunnan.“

100 millj. kr. 1965 jafngilda yfir 200 millj. kr. nú tveimur gengislækkunum síðar. Og það var þessi upphæð, sem réð úrslitum um það, að álbræðslan var byggð í hrauninu á Suðurnesjum, þar sem síður þurfti hreinsitæki, eins og það var orðað. Að öðrum kosti hefðu hreinsitækin haft áhrif á samningana um orkuverð, að sögn Steingríms Hermannssonar. Það verð, sem Svisslendingar greiða fyrir raforkuna og stendur ekki undir tilkostnaði okkar, ef rétt er reiknað, eins og sannað var í umr. hér á þingi í fyrra, hefði orðið enn þá lægra, ef hinir erlendu eigendur hefðu orðið að setja upp hreinsitæki í öndverðu. Þegar meta skal raforkusamningana, er mengunin í Straumsvík, þau 2700 kg af flúorvetni, sem sáldrast yfir umhverfið hvern sólarhring, einnig þáttur í því dæmi.

Í till. þeirri, sem ég flyt hér ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni, er lagt til, að deildin skori á hæstv. ríkisstj. að mæla svo fyrir, að þegar í stað verði sett upp sem fullkomnust hreinsitæki í álbræðslunni í Straumsvík. Ástæða er til að greina frá því, að enn eru ekki til hreinsitæki, sem firra allri mengun. Tækin geta aðeins takmarkað hana. Sérstaklega er erfitt að koma hreinsun við í sambandi við þá opnu ofna, sem hér eru notaðir. Í Noregi eru hins vegár yfirleitt notaðir lokaðir ofnar, svo kallaðir Suterbergsofnar, þar sem auðveldara er að ná tökum á rykefnunum. Hins vegar er unnið mjög ötullega að því að fullkomna þessi hreinsitæki, og í því sambandi er lagt í mjög stórfelldan kostnað, m.a. í Noregi. 17. okt. s.l. las ég t.d. í Alþýðublaðinu frétt um það, að iðnrh. Norðmanna, Walter Rostoft, hefði tilkynnt í norska þinginu daginn áður, að frá og með áramótum yrði álverinu í Ardal, þar sem hreinsitæki eru að sjálfsögðu, gert að verja 50 millj. norskra kr. eða um 600 millj. ísl. kr. til þess að minnka flúormagn það, sem berst frá verksmiðjunni út í andrúmsloftið, úr 57 niður í 50 kg á klst. Einnig kom það fram í fréttinni, að nefnd, sem fjallar um skaðsemi mengunar frá iðjuverum, hefði talið nauðsynlegt að minnka flúormagnið niður í 40 kg á klst., en ráðamenn verksmiðjunnar hefðu ekki talið sig kunna ráð til þess nema með því að takmarka framleiðsluna sjálfa, segja upp starfsmönnum og draga úr tekjum af álbræðslunni. Til samanburðar við þessa norsku frétt þurfa menn að minnast þess, að magn flúorvetnis frá álbræðslunni í Straumi er nú þegar yfir I00 kg á klst., nærri því þrefalt meira en það magn, sem norska öryggisnefndin setur, yfir tvöfalt meira en mengunin frá hinni stóru verksmiðju í Ardal.

Umræður þær, sem urðu um þessi atriði 1965 og 1966, höfðu þrátt fyrir allt nokkur áhrif, enda var tekið undir varnaðarorðin af ýmsum sérfróðum aðilum. Skógrækt ríkisins gerði grein fyrir reynslu Norðmanna, og Jón Sigurðsson, borgarlæknir í Reykjavík, hvatti mjög til þess í áliti sínu, að ýtrasta öryggis yrði gætt. Af þessum sökum var kerskálinn í Straumi byggður þannig, að hægt er að koma fyrir hreinsitækjum, án þess að breyta þurfi byggingunni. Þá eru í 12. og 13. gr. álsamningsins ákvæði um skyldur ÍSALs í þessu sambandi. Þegar samningurinn var gerður, þóttu mörgum þm. þessi ákvæði of óljós og loðin, en hæstv. iðnrh. lýsti þá yfir því, að hann teldi ákvæðin fullkomlega skýr. Í þeim fælist skylda álbræðslunnar til að koma upp hreinsitækjum, ef þess yrði krafizt af íslenzkum stjórnarvöldum. Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh., hvort hann sé ekki enn sömu skoðunar og þá, að íslenzk stjórnarvöld geti tekið ákvörðun um þetta atriði og tryggt, að sú ákvörðun verði framkvæmd. Og í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann sé ekki nú sjálfur orðinn þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt sé að koma upp fullkomnum hreinsitækjum án tafar. Skýr vitneskja um afstöðu ríkisstj. mun að sjálfsögðu greiða fyrir meðferð þessarar till.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, leggja til, að till. verði að loknum þeim umr., sem hér verða að þessu sinni, vísað til hv. menntmn. Í till. er fjallað um náttúruvernd og mengun, og menntmn. hefur farið með þá málaflokka.