26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3686)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Efni þessarar þáltill. er það, að tafarlaust verði komið upp fullkomnum hreinsitækjum í álbræðslunni í Straumsvík til þess að takmarka mengun svo sem kostur er. Fyrir nokkru flutti hv. 1. þm. Norðurl. v. till. til þál. hér í þinginu, þar sem sagt er:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um ráðstafanir til varnar gegn skaðlegri mengun í lofti og vatni.“

Þetta er um almenn ákvæði, sem hvatt er til, að sett sé löggjöf um, og segir m.a. í grg. fyrir þeirri till., með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta böl, þ.e. mengunin, hefur enn að mestu leyti sneitt hér hjá garði. Þó hefur þegar orðið vart nokkurrar mengunar hér. Það eru þó smámunir hjá því, sem annars staðar er. Enn er loftið hér hreint og tært, landið tiltölulega hreint og vötn og sjór að mestu laus við mengun. En hættan er hér augljós og vaxandi, eftir því sem verksmiðjum fjölgar og iðnvæðing færist í aukana. Hér þarf því að vera vel á verði og gera í tæka tíð viðeigandi varnarráðstafanir. Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. Við megum ekki glata þeim auði, sem við eigum í óspilltri náttúru. Við megum ekki láta mengun spilla lífinu í sjónum við strendur landsins. Við megum ekki láta spilla hinu hreina andrúmslofti. Við megum ekki láta óhreinindi og mengun eyðileggja hinar dýrmætu ár okkar og fiskivötn. Hér má ekki sofa á verðinum. Það þarf þegar að rannsaka, hvernig ástatt er.“

Hér eru sömu sjónarmið á ferðinni og felast í þessari till., sem hv. 6. þm. Reykv. var nú að mæla fyrir, og ég trúi ekki öðru en það sé skoðun yfirgnæfandi fjölda alþm., að hér eigi menn að vera á verði, hvar sem bólar á slíkri hættu, sem auðsjáanlega bólar nú á í álverksmiðjunni í Straumsvík. Við getum ekki beðið eftir nýrri löggjöf samkv. þessari till. hv. þm. ólafs Jóhannessonar, því að nú þegar er komið í ljós að ákaflega sterkar líkur eru fyrir því, að stórkostleg hætta sé þegar komin upp út frá verksmiðjunni í Straumsvík. Hvað gerum við, ef við erum hrædd um, að sjúkdómar berist til landsins? Ég held, að það séu allir samtaka um það að gera ráðstafanir til að forðast það, að slík hætta nái til þjóðarinnar. Hér er hætta risin upp innanlands. Eigum við síður að vera á verði, þegar slíkt á sér stað? Ég tek því fyllilega undir það, sem sagt er í grg. þessarar till., og að sjálfsögðu efni till. í heild. Mér sýnist það óskapleg óaðgæzla vægast sagt, ef ekki eru þegar í stað gerðar ráðstafanir til þess að varna því, að hættan, sem sýnist vera yfirvofandi og jafnvel komin nokkuð áleiðis, geti haldið áfram. Við verðum að sýna þessu máli alveg sömu árveknina og umhyggjuna eins og um mannskæða sjúkdóma sé að ræða, sem kunna að berast til landsins eða koma upp innanlands.

Ég get ekki neitað því, að mér fannst, þegar álsamningurinn var til umr. hér á hv. Alþ., vera tekið heldur vægum tökum á þessu vandamáli um mengunarhættuna. Ég minnist þess, að það fylgdi því máli kort af umhverfi Straumsvíkur, sem átti að sýna, hvað mengunin gæti borizt langt út frá þessari verksmiðju. Það var dreginn hringur — ég man ekki í hve margra km fjarlægð frá sjálfri verksmiðjunni, hvort það var 3 eða 31/2 km eða eitthvað þess háttar, — dreginn hringur, sem átti að sýna þetta á korti. En viti menn. Þegar hringurinn kom að Hafnarfirði, þá stoppaði hann allt í einu og dregin er bein lína út í sjó. Ég gerði þetta að umtalsefni þá. Af hverju var stoppað með hringinn þarna á kortinu? Það var af því, að ef haldið hefði verið áfram með þennan hring, þá náði hann inn í miðjan Hafnarfjörð. M.ö.o., hættan var strax yfirvofandi í Hafnarfirði að dómi þeirra, sem gerðu þetta kort. En það mátti ekki sýna hringinn, að hann næði inn í Hafnarfjörð. Mér fannst þetta vægilega á hlutunum tekið þá. Nú er komið í ljós, að maður verður að álíta eftir grg. Ingólfs Davíðssonar grasafræðings, að hættan nái nú inn í Hafnarfjörð eða lengra. Ég vil því sérstaklega taka undir þau hvatningarorð hv. flm., að þegar í stað verði gerð krafa um það, að hreinsitæki verði sett upp á álverksmiðjunni í Straumsvík, af því að við megum ekki við því að bíða eftir því mikið lengur, að þetta verði gert. Við megum ekki bíða eftir, að miklu alvarlegri hlutir gerist en eru nú þegar að koma í ljós. Ég vona og treysti því, að hv. alþm. verði hér vel á verði og lýsi fullum stuðningi við þetta mál.