26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Mér finnst nú satt að segja, að það þurfi engan að furða, þó að þetta mál beri hér á góma á Alþ., því að það er áreiðanlegt, að þegar fréttir bárust af því í sumar eða nú síðari hluta sumars, að flúorskaðar sæjust á gróðri í Hafnarfirði, þá rifjaðist eitt og annað upp fyrir mönnum í sambandi við þær umr., sem urðu hér um álbræðsluna árið 1966.

Hæstv. forsrh. vildi gera þó nokkuð úr því, að vel hefði verið staðið að því, um það bil sem álsamningarnir voru til umr., að kanna það, hver gaseitrunin kynni að verða frá álbræðslunni í Straumi. Og ég vil alls ekki gera lítið úr því, að þetta hafi verið kannað. Þetta bar mjög á góma á þeirri tíð. Það er rétt hjá hæstv. ráðh. Og ég býst jafnvel við, að hann, sem fór með þessi mál þá, hafi haft sínar áhyggjur af því máli, og skal ég ekki gera neitt lítið úr því. En hins vegar vil ég meina það, að hann sem forustumaður þessa máls þá og raunar meiri hl. Alþ. hafi ekki gætt þess þá að fara með þeirri varúð, sem nauðsynleg var.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það var gert eitt og annað til þess að upplýsa þetta mál á meðan álsamningurinn var hér til umr. í þinginu og á meðan álmálið var á umræðustigi hér hjá ríkisstj. og Swiss Aluminium, og vissulega kom margt í ljós í þessum athugunum. En hins vegar held ég, að menn hafi dregið nokkuð mismunandi ályktanir af því, sem þessar upplýsingar gáfu til kynna. Ég minnist þess, að eitt af því, sem kom í ljós í þessum upplýsingum og mér fannst þá ákaflega sláandi, var það, að allar verksmiðjur Alusuisse, sem þá voru, ef ég man rétt, 10 eða 11 talsins, allar álbræðslur Swiss Aluminium álhringsins voru búnar gaseyðingartækjum. Hér var um að ræða 10 eða 11 verksmiðjur, sem dreifðar eru um víða veröld. Mér fannst þá, þegar þetta mál var til umr., að þetta gæfi vísbendingu um, að það væri mjög óvarlegt af okkur og óeðlilegt að veita Swiss Aluminium þau fríðindi að byggja álbræðsluna án gaseyðingartækjanna. Það var mjög óeðlilegt, og það var m.a. eitt af því, sem gerði það að verkum, að ég og fleiri flokksmenn mínir hér á Alþ. vorum andvígir þessum samningum. Það var eitt af þeim atriðum ásamt svo mörgum öðrum, sem kannske mátti segja, að væru stærri eða virtust þá vega meira. Ég vil minna á, að það var frá upphafi ákaflega óvarlegt að veita álfélaginu þau fríðindi að hafa ekki gaseyðingartæki á verksmiðjunni, og ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram hjá flm. o.fl., sem hér hafa talað, að það er kominn sá tími, að við eigum að krefjast þess eða neyta þess réttar, sem við höfum samkv. álsamningi og eðli málsins, að krefjast þess, að þessi tæki verði sett upp í álbræðslunni í Straumi. Ef svo er, að verið sé að undirbúa byggingu fleiri álverksmiðja hér á landi, - það hefur verið upplýst, að ríkisstj. standi í samningum, þó að lítið sé um það rætt nú, standi í samningum um það eða kanni möguleika á því að reisa álbræðslu á Norðurlandi, —- þá vil ég minna á það, að það er eitt af höfuðatriðunum, höfuðskilyrðunum, að þannig sé gengið frá, að ekki þurfi að óttast gaseitrun í næsta nágrenni verksmiðjunnar. Það var algjörlega óeðlilegur undansláttur, að út í slíkt skyldi farið á sinni tíð. Þetta var óeðlilegt vegna þess, að það gat aldrei haft nein úrslitaáhrif á það, að þetta félag setti hér upp verksmiðjuna. Það gat aldrei haft nein úrslitaáhrif á það, eins og hæstv. ráðh. sagði réttilega hér áðan.