17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

1. mál, fjárlög 1971

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér nokkrar brtt., og ég leyfi mér að fara um þær örfáum orðum.

Till. eru á þskj. 280 I og III og er þar fyrst að nefna till. um það, að gjaldfærður stofnkostnaður Menntaskólans á Akureyri verði hækkaður úr 500 þús. í 2 millj. Þessi hækkun er ætluð til þess að gera mögulegan frágang lóðar og til að standa straum af öðrum minni háttar stofnkostnaði við menntaskólann, sem talin er brýn nauðsyn á af skólastjóra þessarar virðulegu stofnunar. Fjárveitingar til Menntaskólans á Akureyri hafa að mínu viti ekki verið úr hófi fram á undanförnum árum, enda ekki sýnd mikil harka í kröfum um fjárveitingar til þeirrar stofnunar, og ég tel það ekki vera við hæfi að neita eindregnum óskum skólameistara þessarar stofnunar um þá hógværu ósk, sem hann hafði borið fram við fjárveitinganefnd þingsins um þessa upphæð, sem hér er gerð till. um.

Í öðru lagi er hér um að ræða till. III. 1, nýjan lið til bókasafna í orlofsheimili verkalýðssamtaka, 100 þús. kr. Það er kunnugt, að ríkið leggur allmikið fé til hvers konar bókasafna og sýnist ekki vera óeðlilegt, að það leggi einnig nokkuð af mörkum til þessara ágætu, myndarlegu og menningarlegu stofnana, sem hér er um að ræða á vegum verkalýðssamtakanna, þá styðji ríkisvaldið einnig að því, að á þeim stöðum geti komið upp nothæf og góð bókasöfn. Verkalýðshreyfingin hefur ráðizt í fjárfrekar og miklar framkvæmdir í sambandi við það að byggja upp tvö stór orlofsheimili og hið þriðja er í smíðum og það fjórða í áætlun. Þetta hefur auðvitað gengið nærri fjárhagsgetu verkalýðssamtakanna og slík upphæð, þó ekki sé stórvægileg, til þessa sérstaka verkefnis mundi þess vegna koma sér vel, auk þess sem ég tel, að í samræmi við aðrar fjárveitingar til bókasafna, þá sé hér um fullkomlega eðlilega fjárveitingu að ræða. Og vissulega mundi þetta verða hvöt fyrir verkalýðssamtökin til þess að sinna þessari hlið á málefnum orlofsheimilanna, því öllum er auðvitað ljóst, að á því er brýn nauðsyn, að dvalargestir á orlofsheimilum hafi aðgang að bókum til lestrar í frítímum sínum.

Í öðru lagi er lagt til, að liðurinn sumardvalarheimili, dagheimili og vistheimili fyrir börn úr bæjum og kauptúnum verði hækkaður úr 900 þús. kr. í 3 millj. kr. Ég held, að það fari ekkert á milli mála, að sú upphæð, sem ætluð er á fjárlögum sem greiðsla samfélagsins til þeirrar virðingarverðu og nauðsynlegu starfsemi, sem hér er um að ræða, er allt of lág og ég hygg, að það sé ekki fjarri lagi, að hér sé um það að ræða, að ríkið greiði á milli 5–10 kr. á dag miðað við vist barna. En sannleikurinn er sá, að sumardvalarheimili og dagheimili eru yfirleitt eða næstum því öll rekin af áhugamannafélögum, sem greiða stórfé með þessari starfsemi, og ég hygg t. d., að vistgjöld á slíkum heimilum geri ekki betur heldur en að borga vinnulaunin við heimilið, þannig að allur annar kostnaður, allur annar dvalarkostnaður hvílir með fullum þunga á þessum félögum, sem slíka starfsemi reka. Dvalarkostnaðurinn er sjálfsagt ekki mikið undir 250–300 kr. á dag, og þó að ríkið borgi þarna 5–10 kr. af þeirri upphæð, þá er það svo óverulegt, að ég tel, að ekki megi við svo búið standa. Ég held, að það sé fullkomlega eðlilegt og sanngjarnt, að ríkið rétti hjálparhönd þessum áhugamannafélögum, sem eru þarna að leysa samfélagslegt vandamál, en hafa litla áheyrn fengið um opinbera aðstoð fram til þessa, því að þessi upphæð gerir ekki stóra hluti til þess að létta undir með rekstrinum.

3. till. á þskj. 280 III er varðandi utanrrn. Er þar lagt til, að tekinn sé upp nýr liður: Utanríkisþjónusta í þróunarlöndunum, 5 millj. Það verður að segja varðandi þessa till., að það verður auðvitað alltaf ákaflega takmarkað, hvaða utanríkisþjónustu við getum rekið og hverju við getum til kostað til þess að eðlilegt samband sé við erlend ríki. Þar verðum við auðvitað að sníða stakk eftir vexti. Og þetta hefur hins vegar leitt til þess, fámennið og fjárhagsleg vangeta þjóðarinnar, að við höfum ekki mikil stjórnmálaleg samskipti við önnur lönd en þau, sem næst okkur eru, og þau, sem hafa allra mesta þýðingu á verzlunarsviðinu, og þetta hefur leitt til þess, að hin fjölmennu þróunarlönd í Asíu og Afríku hafa orðið algerlega afskipt af okkar hálfu hvað utanríkisþjónustu snertir, og við þau höfum við nánast ekkert samband. Hér er bryddað upp á því að reyna að leysa þetta vandamál með því að koma upp eins konar hreyfanlegri utanríkisþjónustu, þannig að varið væri fé, sem svaraði nálægt því til kostnaðar við eitt venjulegt sendiráð, til þess að halda uppi eðlilegu stjórnmálasambandi við þessi lönd. Ég tel, að auk þess sem við höfum auðvitað, ekki sízt sem lítil þjóð, áhuga á öllu, sem gerist í þróunarlöndunum, og höfum að ýmsu leyti sýnt þá afstöðu, þá geti líka verið hér um stórkostlegt fjárhagslegt mál að ræða fyrir okkur. Það er enginn vafi á því, að í þróunarlöndunum eru miklir framtíðarmöguleikar fyrir okkur, fyrir okkar útflutningsframleiðslu og er þess vegna engan veginn sama, hvernig um samskipti við þessi lönd fer. Ég held, að hér sé bryddað upp á leið í þessu efni, sem væri vel fær og gæti komið að nokkru gagni til þess að bæta ástandið í þessum efnum frá því sem nú er. Og hér er sem sagt ekki gengið lengra en svo, að það er lagt til, að til eðlilegra samskipta við þessi lönd sé varið álíka upphæð og fer til eins sendiráðs, en sum þeirra eru nú þannig, að þau mættu kannske gjarnan missa sig, miklu frekar heldur en það verkefni, sem hér er um að ræða.

4. till. er um, að framlag til Fiskræktarsjóðs verði hækkað úr 1 millj. kr. í 3 millj. kr. Í fsp.-tíma á Alþ. nú fyrir skömmu kom það fram, að tekjur þessa sjóðs á árinu 1970 verða um 2½ millj. og áætlað er, að á næsta ári verði tekjurnar 3½ millj. Nú er það svo, að þegar þessi sjóður var stofnaður með lögum á s. l. þingi, þá varð framkvæmdin þannig, að hæstv. landbrh. kom því svo fyrir, að undir þennan sjóð félli að greiða gamlar vanskilaskuldir ríkissjóðs við þá, sem staðið höfðu í framkvæmdum við fiskvegi og annað slíkt og rétt áttu til þess.að fá hluta kostnaðar greiddan úr ríkissjóði. Og þetta nemur mörgum milljónum króna. Þannig að um leið og þessi sjóður var stofnaður, var raunverulega framkvæmdin á þann veg, að hann er vængstýfður í byrjun fyrstu árin, vegna þess að honum er gert að taka á sig gamlar syndir. Ég held þess vegna, með tilliti til þess, að sjóðnum hefur verið ætlað að greiða lögbundin framlög ríkissjóðs frá eldri tímum, að þá sé það fullkomlega eðlilegt, að til þess sé tekið tillit í fjárveitingu til sjóðsins úr ríkissjóði, og held, að með þessari till. sé ekki gengið lengra heldur en góðu hófi gegnir í þeim efnum.

5. till. er um það, að til Félags áhugamanna um fiskrækt sé varið 100 þús. kr., en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að þessi upphæð sé 25 þús. Hins vegar geri ég ráð fyrir því í minni till., að þetta framlag sé bundið því skilyrði, að fénu sé varið til útgáfustarfsemi. Þetta félag hefur unnið, að mínu viti, talsvert mikið og merkilegt starf til þess að auka áhuga landsmanna á fiskræktarmálum, sem ég tel vera mikið framtíðarmál þjóðarinnar, og það hefur fyrst og fremst gert þetta með útgáfustarfsemi, sem þó hefur verið sniðinn þröngur stakkur vegna féleysis. Ég held, að enginn annar aðili í landinu hafi á síðari árum lagt meira til þess að veita almennar upplýsingar um þessi mál, heldur en Félag áhugamanna um fiskrækt, og að þessu fé væri vel varið með þessum hætti.

6. brtt. er um það, að við Hafrannsóknastofnunina komi nýr liður: Til rannsókna á skelfisk- og krabbadýramiðum, 5 millj. Till., sem í svipaða átt gekk, var flutt hér við 2. umr. um fjárlagafrv. af hv. 5. þm. Austf., en náði ekki fram að ganga. Þ. e. a. s. hans till. var um leit að rækju- og humarmiðum, en hér er auðvitað um svipaða starfsemi að ræða, þó verkefnið sé nokkru viðtækara samkvæmt því orðalagi, sem er á minni till. og hv. 9. þm. Reykv. Ég held, að engum blandist hugur um það, hve mikil nauðsyn það er fyrir okkur að afla okkur fullkominnar þekkingar um magn stofna þessara sjávardýra, hvar þeir eru, hve viðáttumiklir og hve mikla veiði þeir þoli. Hér er vafalaust um mikla möguleika að ræða, sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir okkar atvinnulíf og okkar útflutning, en jafnframt er á því veruleg hætta, að einstakar tegundir verði uppurnar með of mikilli veiði, meðan menn hafa ekki næga þekkingu á þessu. En þekking okkar á þessum stofnum er svo lítil, að í sumum tilfellum er tæplega við annað að styðjast en munnmælasögur um það, hvernig þessi mið eru. Ég held, að þarna hljóti að vera ljós nauðsyn þess, að við fáum alveg fullkomið yfirlit yfir þessi mið, yfir magn stofnanna og getum þannig gert okkur grein fyrir því, í fyrsta lagi, hvar er hægt að veiða þá, og í öðru lagi, hvað mikið má veiða. En til þess höfum við engin skilyrði, eins og nú standa sakir. Ég held, að með tilliti til þess, hvað ásóknin í þetta er mikil þá sé raunar ákaflega eðlilegt, að hér verði að hafa talsvert hraðar hendur og Hafrannsóknastofnunin þyrfti að gera um það áætlun, sem fæli það í sér að ljúka þessu verki á tiltölulega stuttum tíma að gera fullkomið yfirlit yfir stofna þessara sjávardýra og möguleika okkar á að nýta þá og hvernig þeir skuli nýttir.

Loks er svo síðasta till. okkar, III. 7 á þskj. 280, hún er um það, að veitt verði sérstakt framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs til úrbóta í atvinnumálum á Norðurlandi, 40 millj. kr. Á fjárlögum þessa árs hefur framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs verið lækkað um 20 millj. kr. eða jafn mikið og nemur aukningunni á árgjaldinu til sjóðsins. Ég held, að þarna sé ekki rétt að staðið, ég tel, að nú sé sízt vanþörf á því að halda áfram ýmsum aðgerðum, sem að því lúta að útrýma atvinnuleysinu. Þó má vissulega um það segja, að margt hefur horft þar til bóta að undanförnu og m. a. fyrir tilverknað stjórnarvalda. En þrátt fyrir það, þó atvinnuástand megi nú heita sæmilegt í landinu sem heild, þá er enn þá stórfellt atvinnuleysi á Norðurlandi, sem verður að taka alveg sérstökum tökum. Það er þannig, að nú er mikill meiri hluti af öllu því skráða atvinnuleysi, sem við höfum á landinu, á Norðurlandi. 1. nóvember s. l. var á Norðurlandi 70% af því atvinnuleysi, sem þá var skráð í landinu öllu. Og um helmingur af atvinnuleysinu í landinu var aðeins á Norðurl. v. einu og í tveimur kaupstöðunum, Akureyri og Siglufirði, meira en helmingurinn af öllu skráðu atvinnuleysi í landinu. Ég held, að þetta sýni svo glögglega sem verða má, að Norðurlandið sker sig algerlega út úr í þessum efnum, og að það verði að taka þau vandamál, sem þar er um að ræða, alveg sérstökum tökum. En auk þess, sem ég gat um atvinnuástandið á Akureyri og Siglufirði, þá má segja, að atvinnuleysið sé landlægt að vetrinum í flestum eða öllum sjávarþorpunum norðanlands.

Nú er það svo, að jafnframt því sem ríkið hefur dregið úr framlagi sínu til Atvinnujöfnunarsjóðs, þá hefur atvinnumálanefnd ríkisins, sem hefur orkað nokkru til þess að bæta ástandið í þessum efnum, lokið við að úthluta því fé, sem henni var fengið á sínum tíma, og ber því allt upp á sama tíma, að Atvinnujöfnunarsjóður hefur minni möguleika en áður til þess að greiða úr vandamálum í þessum efnum og atvinnumálanefnd ríkisins raunverulega hættir úthlutun af því fé, sem hún hefur haft. Ég held, að það ætti að vera öllum ljóst, að einmitt nú, þegar um er að ræða, að atvinnuástandið er almennt í landinu tiltölulega gott og ekki ástæða til sérstakra aðgerða nema á takmörkuðu svæði, þá eigi að vera hægara um vik að ráðast að þeim vandamálum, sem þar er um að ræða. Og þegar svo er komið, að 2/3 eða jafnvel ¾ af öllu atvinnuleysinu er í þessum landsfjórðungi, þá verði ekki undan því vikizt að gera þar sérstakar ráðstafanir. Ég játa að vísu, að 40 millj. kr. mundu kannske ekki ráða öllu í þessum efnum og væri engin fullnægjandi lausn á því vandamáli, mikla vandamáli, sem hér er um að ræða, en það væri þó alla vega sýndur litur á því að halda áfram þeirri starfsemi, sem í þessa átt hefur farið á undanförnum árum, með fjárveitingu sem þessari. Og það er sem sé miklu nær sanni að auka framlag ríkissjóðs til Atvinnujöfnunarsjóðs um 20 millj. nú á þessu ári, heldur en að minnka það um 20 millj. Því það tel ég algerlega óhæft, eins og ástandið er í atvinnumálum Norðlendinga.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri, herra forseti. Ég hef gert í stuttu máli grein fyrir þessum till., sem annars eru þess eðlis, að þær ættu ekki að þurfa mikilla útskýringa við fyrir hv. Alþ. Ég læt máli mínu lokið.