26.10.1970
Neðri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Að sjálfsögðu verður gangur þessa máls ekki svo hraður, að sú n., sem fær till. til meðferðar, eigi ekki kost á því að kanna þær athuganir, sem hæstv. ráðh. segir að muni koma í ljós alveg á næstunni og mér hefur skilizt á blöðum að muni örugglega verða í næsta mánuði eða svo, þannig að það mun vafalaust verða, að þm. eigi kost á að kynna sér þá athugun, áður en þetta mál kemur til ákvörðunar. En af því að hæstv. ráðh. fæst ekki enn þá til þess að segja til um viðhorf sitt alveg skýlaust nema með allmörgum fyrirvörum, þá langar mig til að spyrja hann: Ef það kæmi í ljós í þessari rannsókn, sem þessi fjögurra manna rannsóknarnefnd er að gera, að mengunaráhrifin séu svipuð því, sem Ingólfur Davíðsson grasafræðingur hefur gert grein fyrir, teldi hæstv. ráðh. þá tímabært að mæla svo fyrir, að hreinsitæki yrðu sett upp?