05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (3695)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að skýra það út, að ég hef engan áhuga á því að standa í deilum um formsatriði. En ég lít svo á, að hér sé um að ræða efnisatriði. Það hefur verið kjarninn í umr. um náttúruvernd og mengun, að slík mál beri að meta frá sjónarmiði almennings og náttúrunnar sjálfrar, en ekki frá sjónarmiði iðnaðarins, og einmitt þess vegna tel ég, að þetta mál eigi heima í þeirri n. í þinginu, sem hefur fjallað um náttúruverndarmál og þ. á m. mengun, og það er menntmn. Í hinu teldi ég það felast, að Alþ. liti svo á, að þetta ætti að fara eftir hagsmunum og viðhorfi iðnaðarins, sem ég tel algerlega ranga stefnu.