17.12.1970
Sameinað þing: 18. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

1. mál, fjárlög 1971

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e., vil ég aðeins fara örfáum orðum um hinar þrjár till., sem fluttar eru af öðrum hv. þm.

Það er í fyrsta lagi varðandi till. þær, sem snerta ástandið á tveimur ríkisstofnunum, þ. e. a. s. geðveikrasjúkrahúsinu á Kleppi og Kennaraskóla Íslands. Okkur þm. hafa borizt skjöl frá bæði nemendum og kennurum Kennaraskóla Íslands og ég verð að segja það, að það hefur komið við mig að verða þess áskynja, áþreifanlega áskynja, að slíkt húsnæðisástand skuli ríkja í menntastofnun eins og Kennaraskólanum. Þar er slík húsnæðisneyð, að það eru engir möguleikar á því að framkvæma þá fræðslu- og uppeldisstarfsemi, sem rækja ber í Kennaraskóla Íslands, við þær ytri aðstæður, sem honum eru búnar. Og ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj., hæstv. menntmrh. skilji ekki, hvernig ástandið er þarna og hvernig þetta hamlar öllum eðlilegum árangri af starfsemi stofnunarinnar, ef ekki er úr bætt. Og ég treysti því, að hann finni úrræði til þess, að tekið sé til við að bæta úr húsnæðisástandi Kennaraskólans, svo að eðlileg starfsemi þar geti átt sér stað. Ég undrast það raunar, að skólastjóri og kennaralið og nemendur Kennaraskóla Íslands skuli ekki vera búnir að hefja göngu sína bókstaflega til hv. Alþ. til þess að minna enn rækilegar á þetta neyðarástand. En ég skal ekki fara fleiri orðum um það, en vík þá að ástandinu á Kleppi og þarf þar engum orðum að bæta við það, sem sagt var hér í dag, það er óverjandi með öllu að láta sjúkt fólk hafast við í óupphituðum húsakynnum eða húsakynnum, sem ekki er hægt að hita upp í kuldum, né heldur í húsakynnum, þar sem eldhætta getur á hverri stundu boðið voðanum heim. Úr þessu verður Alþ. að bæta, það er ekki nokkur vafi á því. Það er mikill ábyrgðarhluti að draga aðgerðir í húsnæðismálum þeirrar stofnunar. Ég tek því af einlægum hug undir þær till., sem fara fram á það, að úr þessu ástandi sé bætt, að því er varðar Kennaraskóla Íslands og geðveikrahælið á Kleppi.

Þá skal ég ekki blanda mér í umr. um aðrar till. annarra þm., þó vil ég aðeins minna á þá einu till., sem minni hluti fjvn. flytur, um að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms, þar sem lagt er til, að í stað 12 millj. komi 25 millj. Undir þá till. tek ég alveg sérstaklega og vildi mælast til þess, að hv. þm. gæfu þessu vandamáli gaum. Þetta var rætt mikið á s. l. vetri og þá voru teknar upp 10 millj. kr. í þessu skyni. Fjvn. hefur séð þörfina og hæstv. ráðh. lagt til, að þetta verði 12 millj. kr., en af reynslu síðasta árs af þeim misheppnuðu tilraunum, sem gerðar voru til þess að skipta þessari alltof lágu upphæð, til þess að hún næði að nokkru leyti tilgangi sínum, hafa allir sannfærzt um það, að það er algert lágmark, að þessi upphæð verði tvöfölduð, ef það á að nokkru marki að draga úr því misrétti, sem ungt fólk á við að búa varðandi aðstöðu til mennta í landinu, eins og ástandið er núna. Úr þessu verður að bæta og það hið fyrsta og við værum nokkru nær sómasamlegri lausn á málinu, ef till. hv. minni hluta fjvn. um 25 millj. kr. framlag í þessu skyni fengist samþ., og vil ég því heita á þm. að veita henni stuðning.

Þá þarf ég vart að taka það fram, þar sem ég er meðflutningsmaður að þeim till. öllum, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði hér grein fyrir áðan, að ég mæli með þeim mjög fastlega til samþykktar. Þær eru allar um nauðsynjamál, og þær eru allar af hófsemi fram bornar, þannig að einsætt er, jafnvel þótt um þröngan efnahag væri að ræða hjá ríkissjóði, þá bæri að verða við þeim, og því fremur, sem nú er frekar rúmt um hjá ríkissjóði og hóflega í sakir farið, þá er nokkurn veginn sjálfgefið, að viðsýnn þingheimur á að veita slíkum till. stuðning.

Þá flyt ég einar 6 till. til breytinga á fjárlögunum, allar varðandi 4. gr. fjárlaganna. Þar er fyrst nýr liður vegna þátttöku Alþýðusambands Íslands í Norræna lýðháskólanum í Genf. Við nutum þeirrar velvildar á s. l. ári, að þá var að beiðni Alþýðusambandsins tekin upp fjárveiting, til þess að Alþýðusambandið gæti gerzt aðili að Norræna lýðháskólanum í Genf. Okkur höfðu borizt tilmæli um það frá verkalýðssamtökunum á Norðurlöndum, að íslenzku verkalýðssamtökin gerðust aðilar að þessari gömlu, grónu og virtu menntastofnun, sem verkalýðssamtök Norðurlanda, önnur en Ísland, reka þarna, að meginstofni suður í Genf, en að nokkru leyti fer kennslan fram heima í Norðurlöndunum til skiptis. Þá var fjárveitingin hærri heldur en nú er farið fram á í okkar till. og stafaði það af því, að þá var einnig verið að greiða stofnframlag Íslands til skólans, auk þess sem ætlunin var að veita aðstoð, til að við gætum þá þegar á því skólaári haft einn nemanda á Genfarskólanum. Nú förum við aðeins fram á það, vegna þess hve gífurlegur er ferðakostnaður nemenda frá Íslandi og frá Genf til Íslands, að við tökum nokkurn þátt í þessum kostnaði Alþýðusambandsins að hafa nemanda á næsta vetrarnámskeiði skólans og yrði tekin upp fjárveiting í því skyni að upphæð 50 þús. kr. Þessa till. ásamt öllum þeim till., sem ég á eftir að gera grein fyrir, ber ég fram ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e.

Önnur till., sem við flytjum, er um það, að Orlofssjóður húsmæðra fái 1½ millj. kr. til sinnar starfsemi í staðinn fyrir, að nú er inni á fjárlagafrv. 1 millj. kr. í þessu skyni. Ég sé nú, að aðrir þm. hafa flutt till. um hærri upphæð en þetta, 2 millj. kr., að ég held, en mér er kunnugt um það, að forstöðukonur orlofs húsmæðra hafa sent fjvn. beiðni um hækkun á framlaginu til Orlofssjóðs húsmæðra, þannig að þær 750 þús. kr., sem voru á þessa árs fjárlögum, 1970, yrðu hækkaðar um 100% í 1½ milljón. Ég taldi ekki ástæðu til að bera fram hærri óskir heldur en konurnar sjálfar höfðu borið fram, og staðnæmdist því við upphæðina 1½ millj., eins og þær höfðu rökstutt í erindi sínu til rn., að þeim væri nauðsyn á til þess að geta nokkuð aukið þessa starfsemi, en hún byggist að verulegu leyti á fórnfúsu sjálfboðastarfi kvenna, sem ekki reikna sér laun fyrir ærna fyrirhöfn í sambandi við það að reka sjálfar mötuneyti og stjórna þessum námskeiðum með því að taka skóla á leigu í staðinn fyrir það, að upphaflega var þetta gert með því að kaupa hótelvist handa orlofskonunum, sem var miklu fjárfrekara. En þetta byggist eingöngu á því, að konurnar leggja þarna á sig mikið starf, mikla fyrirhöfn. Það er því vel á þessu fé haldið og aðeins að litlum hluta hægt fyrir þetta fjármagn að veita húsmæðrum landsins orlofsdvöl í nokkra daga og þyrfti auðvitað að margfalda þessa starfsemi, því þær húsmæður eru miklu fleiri, sem þyrftu að geta notið slíkrar hvíldardvalar. Ég mundi því vilja óska þess, að þessi hógværa till. fengi stuðning hv. alþm.

Þá er 3. till., sem við flytjum, einnig við 4. gr. Það er um að hækka framlag, sem nú er á fjárlögum um 9 millj. kr., til lífeyrissjóða verkalýðsfélaga, og hækka það upp í 14 millj. kr. Þegar við vorum að undirbúa að koma á lífeyrissjóði verkamanna, þá höfðum við tryggingafræðinga í okkar þjónustu til þess að áætla, hvaða upphæðir þyrfti að ætla til þess að inna af hendi þær skuldbindingar, sem ríkissjóður tók á sig í þessari samningagerð til að eldri verkamenn gætu þegar í stað notið nokkurra lífeyrissjóðsréttinda. Það voru allháar upphæðir, sem tryggingafræðingarnir töldu að þyrfti til þess. Ef ég man rétt, þá held ég, að þeir hafi nefnt 20–25 millj. kr. og ef framkvæmdin yrði á þessum lögum í líkingu við það, sem við gerðum okkur hugmyndir um, þá er víst, að til þess þarf miklu meira fé heldur en 9 millj. kr. eins og á fjárlagafrv. er nú gert ráð fyrir. Það má vel vera að til þess að standa vel við þær hugmyndir, sem við gerðum okkur, þyrfti meira en 14 millj. kr. En ég kærði mig ekkert um að spenna þessa upphæð upp fyrir það, sem líklegt væri að vera nokkurn veginn lágmark þeirrar fjárhæðar, sem til þess þyrfti, það verður þá leiðrétt á næsta ári, en þetta er í vændum þess, að þau frv., sem nú liggja fyrir þinginu, mæti skilningi hæstv. ríkisstj. og verði samþ. eða aðrar lagfæringar gerðar, til þess að lagaframkvæmdin verði í samræmi við það, sem fyrir samningsaðilum vakti, þegar við vorum að semja um lífeyrissjóð aldraðra félaga í verkalýðshreyfingunni. Lagt er til, að upphæðin hækki um 5 millj. kr., úr 9 millj. í 14 millj.

Þá er fjórða brtt., sem við hv. 4. þm. Norðurl. e. flytjum, um það, að í sundurliðun bætist nýr liður, þ. e. a. s. undir liðnum bygging sjúkrahúsa o. fl. Við sundurliðunina bætist nýr liður á eftir a. 14, og samtalan breytist samkvæmt því og inn komi: Patreksfjörður, læknamiðstöð 6 millj. kr. Núna er mikil hreyfing í landinu í þá stefnu að breyta læknaskipuninni, þar sem svo hentar, að unnt sé að koma upp svokölluðum læknamiðstöðvum eða lækningamiðstöðvum, og virðist ttú vera fullráðið, að þetta verði gert auk Húsavíkur, á Ísafirði, í Borgarnesi og á Egilsstöðum og e. t. v. fleiri stöðum, og ég sé í sundurliðun á fjárlagafrv., að víða er ætlað til þessara byrjunarframkvæmda um 6 millj. kr. á hverjum stað. Nú standa þessi mál þannig í V.-Barðastrandarsýslu, að fundur var nýlega haldinn með sýslunefnd og öllum sveitarstjórnarmönnum V.-Barðastrandarsýslu og þar m. a. rætt um heilbrigðismálin, sérstaklega út frá því að koma upp læknamiðstöð á Patreksfirði. Það er að vísu augljóst mál, að fólkið í V.-Barðastrandarsýslu hefur ekki möguleika til þess að njóta, þjónustu slíkrar stofnunar, svo að vel sé, nema þá því aðeins, að umbætur nokkrar séu gerðar vegna erfiðra samgangna að vetri til og hárra fjallgarða, sem aðskilja þennan landshluta. Þar er t. d. í samþykktunum talin nauðsynleg forsenda, að læknir hafi aðsetur á Bíldudal erfiðustu vetrarmánuðina, að þar verði að staðaldri búsett héraðshjúkrunarkona og ráðstafanir séu gerðar til þess að halda fjallvegum opnum að vetrinum, ekki sjaldnar en einu sinni til tvisvar í viku. Og þetta eru hlutir, sem ekki þætti mikið, að farið væri fram á, a. m. k. ef litið væri hér til Suðurlandsins eða nágrannabyggða höfuðborgarinnar, þó að það þætti kannske of mikið í lagt að moka aðalvegi einu sinni til tvisvar í viku í hinum dreifðu byggðarlögum. En án þess er ekki hægt að koma þessari skipan heilbrigðismálanna á. Nú hefði ég vænzt þess, að þessi erindi sýslunefndar og samþykkt þessa fundar væru komnar í dag eða seinustu daga til hæstv. heilbrmrh. og hv. landlæknis, en ég hef haldið uppi spurnum um það alla seinustu viku, hvort þessi erindi væru ekki komin. En þannig háttar nú samgöngum við Vestfirði á þessum vetri, að þessi bréf hafa ekki enn þá borizt, fyrr en þá ef þau hafa borizt með hraðpóstum í gærkvöld, en ráðh. sagði mér í dag, að það væri ekki komið í rn. þetta erindi, og landlæknir, sem að vísu er sjálfur sjúkur, en hans næsti maður, tjáði mér, að þessi erindi hefðu ekki borizt landlæknisskrifstofunni. En þar er farið fram á það, að læknamiðstöð verði komið á fót á Patreksfirði, því sjálfsagt þykir, að orðið verði við hinum sjálfsögðu skilyrðum, sem opni möguleika til þess, að fólkið geti unað slíkri skipan.

En það er þegar byrjað að framkvæma hugmyndina um læknamiðstöð á Patreksfirði, það sker náttúrlega úr, að sjúkrahús Patreksfjarðar segir til um staðinn. Það getur ekki orðið nein deila um það, að slík læknamiðstöð í V.-Barðastrandarsýslu verður á Patreksfirði, þar sem sjúkrahúsið er, og þar verða því að vera a. m. k. tveir læknar, og Patrekshreppur er þegar byrjaður að byggja læknisbústað, sem á að koma undir það, að ríkið greiði kostnað við byggingu hans í samræmi við lögin um læknamiðstöðvar. Þessi till. er borin fram í fullu trausti þess, að hinum sanngjörnu skilyrðum til þess að tryggja fólkinu í þessum byggðarlögum afnot af læknamiðstöð á Patreksfirði verði fullnægt og að þá þegar verði hafizt handa um framkvæmdir eins og á hinum stöðunum, Ísafirði, Borgarnesi, Egilsstöðum og Húsavík, sem þegar hafa gert samþykkt um að koma sínum heilbrigðismálum í þetta fyrirhugaða form. Þessi erindi hefðu áreiðanlega verið komin í hendur fjvn. og ráðh. og landlæknis, ef við hefðum ekki búið við svo hörmulegar aðstæður í samgöngumálum, sem raun ber vitni um, þar sem þessi töf hefur orðið á, að bréf bærust um þetta atriði. Það er því í raun og veru eftir dúk og disk, sem hægt er að hreyfa þessu máli, og því miður hefur sennilega engin vitneskja borist um þessar samþykktir til fjvn. áður en hún lauk störfum. Ég gæti bezt trúað, að svo væri. Þá er það sá eini möguleiki, hvort hv. fjvn. sæi nokkra möguleika á því að kalla saman fund og taka þennan lið sérstaklega til athugunar, þó seint sé.

Þá er 5. till. okkar hv. 4. þm. Norðurl. e., einnig við 4. gr., vegna héraðshjúkrunarkvenna. Þetta mál er nátengt þeirri till., sem ég gerði núna seinast að umtalsefni, en það er alveg gefinn hlutur, að þegar læknamiðstöðvum verður komið upp, einkanlega í þeim landshlutum, þar sem samgöngumálin eru í erfiðasta lagi að vetrinum, þá verður að gera ráð fyrir, að héraðshjúkrunarkonur verði staðsettar í útjöðrum þessara stóru, nýju læknishéraða og starfi í nánu sambandi við lækni, eða lækni og lyfsala, til þess að annast milligöngu og veita fyrstu aðstoð, þegar sjúkdóma eða slys ber að höndum og erfitt er að ná til læknis. Ég hygg því, að það veiti ekki af því, að gera ráð fyrir hækkaðri fjárveitingu til héraðshjúkrunarkvenna einmitt í sambandi við hina fyrirhuguðu nýskipan, læknamiðstöðvarnar. Og hef ég lagt til, — höfum við lagt til, að í staðinn fyrir 787 þús. kr. undir þessum lið komi 1 millj. og 200 þús. kr. Það er þarna gert ráð fyrir, að við þyrftum að standa frammi fyrir því, að við þyrftum að fjölga þessum héraðshjúkrunarkonum um eina eða tvær umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum.

Og að lokum er svo till. einnig við 4. gr. um, að í fjárlögin bætist nýr liður, sem heiti: Til námskeiða og verkþjálfunar iðnverkafólks, 1 millj. kr. Það er nú svo, að öll okkar iðnmenntun byggist á meistarakerfi og iðnskólarnir eru eingöngu starfræktir til þess að framleiða og útskrifa viðurkennda iðnaðarmenn að loknu 3 eða 4 ára iðnnámi. Þetta er miðað við handverkið í iðnaðinum, en við verðum að viðurkenna að nú horfumst við í augu við það, ef við gerum ráð fyrir nokkurri verulegri iðnþróun í okkar landi, og ekki er hægt að komast hjá að horfast í augu við það, að við verðum að stofna til sérstakrar menntunar til verkþjálfunar fólks, sem á að starfa af sérþekkingu og kunnáttu í verksmiðjuiðnaði. Og það er allt annað heldur en hið lögskipaða iðnnám opnar möguleika til. Hér er því um þá hugmynd að ræða, að námskeiðum verði komið á fót til verkþjálfunar iðnverkafólks og lagaheimild verði fyrir allt að 1 millj. kr. í þessu skyni. Ég held, að hvort sem þessi till. fæst samþ. nú eða ekki, þá muni menn smám saman sannfærast um það, að hjá því verður ekki komizt að stofna til fræðslunámskeiða og jafnvel fasts skólahalds til iðnmenntunar verkafólks í verksmiðjuiðnaði. Ég vænti því, að menn telji, að þarna sé hóflega af stað farið um stórt og merkilegt mál, sem við verðum í vaxandi mæli að sinna.

Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið og vænti þess, að þessar till. njóti skilnings hv. alþm.