16.03.1971
Neðri deild: 62. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3702)

16. mál, mengun frá álbræðslunni í Straumi

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Till. sú, sem hér er til umr., hljóðar þannig:

Nd. Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að mæla svo fyrir, að tafarlaust verði komið upp fullkomnum hreinsitækjum í álbræðslunni í Straumsvík til þess að takmarka mengun svo sem kostur er.“

Við hv. þm. Geir Gunnarsson fluttum þessa till., og hún var með fyrstu málum, sem lögð voru fram á þingi í haust. Við vonuðumst til, að hún fengi skjóta og jákvæða afgreiðslu. Næstu vikur á undan höfðu orðið miklar umræður um mengunina frá álbræðslunni í Straumi. Fólk í Hafnarfirði. Álftanesi og víðar í nágrenni bræðslunnar hafði haft vaxandi áhyggjur af eiturlofti því, sem þaðan berst í sífellu yfir umhverfið. Héraðslæknirinn í Hafnarfirði hafði bannað barnaheimili í nágrenni bræðslunnar. Og í októberbyrjun greindi Ingólfur Davíðsson grasafræðingur frá athugunum á gróðri í Hafnarfirði og Straumi. Sýndi hann fram á mikla flúormengun í grasi og trjágróðri, allt upp í 50 mg í einu kg, enda bar trjálundur í Straumi við sumarbústað Ragnars Péturssonar kaupfélagsstjóra þess merki. Þar voru myndarleg grenitré, 16–17 ára gömul, að deyja hægfara dauða, sprotarnir brúnir og nýgræðingarnir margir albrúnir. Staðreyndir þessar höfðu vakið mikla athygli og umtal. Ég hygg, að öll dagblöðin á Íslandi hafi í ritstjórnargreinum krafizt þess, að hreinsitæki yrðu sett upp í álbræðslunni. Við 1. umr. hér á þingi hét Jóhann Hafstein forsrh. því, að iðnn., sem fékk till. til meðferðar, skyldi fá öll þau gögn, sem máli skiptu, til þess að taka ákvörðun. Af þessum ástæðum öllum gerðum við okkur, eins og ég sagði áðan, vonir um skjóta og jákvæða afgreiðslu.

En smátt og smátt tók okkur að lengja eftir niðurstöðum iðnn., og þegar þing kom saman að afloknu jólaleyfi, kannaði ég gerðabók þeirrar n. til að fá vitneskju um, hvað málinu miðaði. Þá kom í ljós sú furðulega og ósæmilega staðreynd, að n. hafði ekki rætt málið í eitt einasta skipti í þá þrjá mánuði, sem hún hafði haft það í fórum sínum, ekki sent það neinum aðila til umsagnar, ekki aflað neinnar vitneskju. Það var greinilegt, að afstaða valdamanna var sú, að þessa till. mætti ekki afgreiða. Það átti í staðinn að svæfa hana í n., eins og það er orðað. Mengunin frá álbræðslunni birtist þannig ekki aðeins í sviðnuðum, skrælnuðum og dauðabrúnum gróðri í nágrenni Straumsvíkur. Hún nær einnig inn á Alþingi Íslendinga og hefur þegar haft áhrif á starfshætti og heilbrigt mat sumra stjórnarþm.

Viðbrögð okkar Alþb.-manna urðu þau að heimta útvarpsumr. um till., en slíkri kröfu er ekki hægt að neita samkv. þingsköpum. Þannig tekst okkur þrátt fyrir allt að knýja þm. til þess að taka afstöðu, bæði í almennum málflutningi og í atkvgr. um málið sjálft, og er ástæða til þess að hvetja landsmenn til að taka eftir því, hver þau málalok verða.

En þetta tilefni, svo herfilegt sem það er, var ekki eina ástæðan til þess, að við vildum fá útvarpsumr. Við töldum tímabært, að hér á þingi færu fram almennar umræður um vandamál mengunar og náttúruverndar, þau viðfangsefni, sem verða sífellt alvarlegri í iðnaðarlöndunum umhverfis okkur og eru nú einnig komin á dagskrá á Íslandi á ómótstæðilegan hátt.

Það er ekki fyrr en síðustu áratugina og jafnvel síðustu árin, sem almenningur í iðnaðarlöndunum gerir sér í alvöru ljóst, að mengun og röskun á náttúrlegu jafnvægi er að gera víðlend svæði óbyggileg, og menn áttuðu sig raunar ekki fyrr en hinar ófrýnilegustu staðreyndir blöstu við þeim. Ýmis þau fljót í Evrópu, sem forðum voru rómuð í ljóðum og sinfónískum tónaskáldskap, eru nú saurug holræsi, þar sem ekkert líf fær þrifizt. Sögufræg stöðuvötn, þar sem góðfiskur veitti mönnum viðurværi og unað, hafa breytzt í risavaxnar, daunillar safnþrær, þar sem sá fiskur, sem enn kann að tóra, er mengaður eiturefnum. Hreint, ómengað vatn er ekki til. Það vatn, sem Nordahl Grieg orti um, þegar hann var staddur í Shanghai:

„Vatnið hreina, vatnið heima,

vatn, sem lagzt er hjá og þambað,

þetta vatn mér veldur þrá.“

Innhöfin eru orðin svo menguð, að fiskurinn úr þeim er í vaxandi mæli bannaður til manneldis, og í þéttbýlustu iðnaðarríkjunum, í hinum risavöxnu stórborgum, sér sjaldan til lofts. Yfir fólkið grúfist mengaður mökkur og er stundum svo stækur, að þúsundir eru lagðar á sjúkrahús. Á þeim slóðum er farið að tala um það í fullri alvöru, að menn verði að ganga um með gasgrímur eftir einn eða tvo áratugi.

Dæmin, sem ég hef minnzt á hér, væri hægt að hundraðfalda. Þau eru til marks um það, hvernig maðurinn er á öld iðnvæðingarinnar að glata eðlilegum tengslum sínum við náttúruna, við dýr og gróður, hvernig hann hefur rofið það hárfína efnafræðilega og líffræðilega samhengi, sem er forsenda sjálfs lífsins, hvernig iðnaðurinn, vélarnar, eru smátt og smátt að skapa nýtt umhverfi, sem ekki er lífvænlegt. Þetta eru einhver stórfelldustu vandamál, sem nú blasa við mannkyninu í iðnvæddum löndum, vandamál, sem verður að leysa, ef ekki á að koma til einhverra alvarlegustu ótíðinda í sögu mannsins.

Við Íslendingar hlustum á fréttir af þessum umskiptum í útvarpi. Við fyllumst óhug, en hrósum þá einatt um leið happi yfir því að búa í hreinu og ósnortnu landi, þar sem enn er að finna tært vatn, heilnæmt loft, óbyggðir, fjöll, firnindi, hraun og gróðurvinjar, þar sem maðurinn getur leitað sér hugsvölunar, andlegrar og líkamlegrar endurnýjunar við sjálfar uppsprettulindir móður náttúru. Og víst er þetta rétt.

Landið okkar, vatnið, loftið eru mestu auðæfi, sem við eigum, þau verðmæti, sem gefa lífinu sérstakt gildi, ef við kunnum að njóta þeirra. En við skulum jafnframt minnast þess, að þessi náttúruauðlegð er engin eilíf, óumbreytanleg staðreynd. Þau lönd, sem við heyrum getið um í fréttum, þar sem fljótin hafa breytzt í holræsi og lífsloftið er mengað dauða, þau lönd hafa einnig verið fögur og fríð. Einnig þar var forðum hægt að leggjast á lækjarbakka og teyga. Einnig þar var hægt að ganga um til þess eins að anda. Reynsla þessara ríkja er okkur víti til varnaðar, og af þeim ber okkur að læra hina fyllstu aðgát.

Fyrir hálfum mánuði var haldin hér í Reykjavík ráðstefna um mengun, og ég fylgdist með henni af mikilli athygli og lærði margt. Færustu vísindamenn okkar gerðu grein fyrir mengunarvandamálum hver á sínu sviði. Vissulega var heildarniðurstaða þeirra sú, að við værum miklu betur á vegi staddir en flestar aðrar nálægar þjóðir, en samt hvöttu þeir allir til aukinna rannsókna og sívaxandi aðgæzlu. Mér virðist, að á sviði mengunar og náttúruverndar, sem er í eðli sínu eitt og sama vandamálið, séu þær staðreyndir, sem hér fara á eftir, einna alvarlegastar.

Landið okkar heldur áfram að blása upp vegna búskaparhátta okkar og skorts á fyrirhyggju. Á tæpum helmingi landsins er um að ræða ofbeit, og telja vísindamenn, að álagið nemi um 250 þús. ærgildum umfram beitarþol úthaganna, einkum á Suður- og Suðvesturlandi. Af þessum sökum hnignar gróðurlendinu. Það er nagað niður í svörð, og jarðvegurinn eyðist. Slík þróun breytir lífsskilyrðunum í landinu á háskalegan hátt, og okkur, sem nú lifum, er það algerlega ósæmandi að láta slíka þróun gerast, ekki sízt þar sem vísindamenn telja, að ekki þurfi að verja nema nokkrum hundruðum millj. kr. til þess að snúa þróuninni við. Hliðstæð náttúruspjöll hljótast einatt af fyrirhyggjulausri mannvirkjagerð, m.a. virkjunarframkvæmdum, þar sem einvörðungu er hugsað um fjármuni og kwst., en ekkert um náttúruna sjálfa, jafnvægi hennar og samhengi. Stjórnarvöld hafa veitt virkjunarfyrirtækjum fríbréf til að darka í landinu eins og naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstöku pláss, sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar sagnhelgi eru ekki aðeins íslenzku þjóðinni hjartfólgin, heldur njóta frægðar um víða veröld sem nokkrir eftirlætisgimsteinar jarðarinnar, svo að ég vitni í orð Halldórs Laxness úr hinni minnisstæðu áramótagrein, sem hann birti í Morgunblaðinu.

Dæmi um slíka þróun eru atburðirnir við Mývatn og Laxá, þar sem valdamenn hafa vaðið uppi af fullkomnu ofríki og tillitsleysi, en þar sem heimamenn hafa að vísu risið til varnar á svo einbeittan hátt, að vakið hefur almenna athygli og aðdáun um land allt.

Annað stórfellt vandamál er sorpið. Íslendingar hafa löngum verið sóðar í umgengni við land sitt, og það einkennir einnig bæjar- og sveitarfélög. Víða er hinu fegursta landi breytt í sorphauga, en pappír og annar óhroði dreifist yfir stór svæði, spillir náttúrufegurð og veldur hættu og heilsutjóni. Hvimleiður úrgangur af þessu tagi er nú að verða algengastur reki á fjörum í nágrenni þéttbýlis og veldur því, að það er ekki sami yndisaukinn að ganga um fjörur nú og það var fyrir nokkrum áratugum.

Annað og enn stórfelldara vandamál af þessu tagi er mengun sjávar í höfnum á Íslandi. Víða höfum við af furðulegri skammsýni leitt holræsi frá mannabústöðum og iðjuverum út í hafnir, þar sem sjórinn er kyrrstæður og mengun eykst í sífellu. Það er til að mynda ömurleg staðreynd, að Reykvíkingum hefur nú árum saman verið bannað að baða sig í sjóbaðstað sínum, Nauthólsvíkinni, vegna þess að magn saurgerla er langt fyrir ofan það, sem öruggt getur talizt. Svona lélegur er frágangurinn á holræsakerfi höfuðborgarinnar. Það er í senn ósæmilegt og háskalegt fyrir okkur sem matvælaframleiðendur að láta hafnir okkar, aðsetursstað fiskiskipanna, breytast í mengaðar rotþrær. Við verðum sem fyrst að takast á við það stórvirki að takmarka mengun sem mest í íslenzkum höfnum, en því miður skortir enn nauðsynlegan skilning. Við afgreiðslu fjárlaga í vetur lagði ég til, að veitt yrði lítil upphæð, aðeins 5 millj. kr., til þess að hefjast handa um þetta verkefni. Enginn andmælti till., en hún var felld af sameinuðu stjórnarliði.

Hafið utan hafnanna hefur að geyma auðsuppsprettu okkar, sjávarfangið. Það má vera okkur Íslendingum mikið áhyggjuefni, hversu mjög mengun hefur aukizt í Norður-Atlantshafi, eftir að iðnaðarríkin eru farin að kasta tugum millj. rúmmetra af úrgangi og eiturefnum iðnaðarins í hafið á hverjum einasta degi og flytja nú eiturefnin sífellt fjær sér og nær okkur. Það er eitthvert brýnasta hagsmunamál Íslendinga um þessar mundir, að tekin verði upp sérstök mengunarlögsaga, sem nái a.m.k. 100 mílur frá landi, til þess að takmarka þessi herfilegu náttúruspjöll, jafnframt því sem fiskveiðilögsagan sjálf verði stækkuð í 50 mílur, eins og Alþb. leggur nú hina þyngstu áherzlu á.

Og þá er ég kominn að því atriði, sem var hið sérstaka tilefni þeirrar till., sem hér er til umr., mengun frá stóriðju. Það er fyrst og fremst slík mengun, sem nú hrjáir iðnaðarþjóðirnar. Það er hún, sem veldur því, að andrúmsloftið færir vaxandi fjölda af mönnum, dýrum og jurtum ekki líf, heldur tortímingu. Reynsla okkar Íslendinga af þessari tegund mengunar er enn sáralítil, en skammsýni okkar er slík, að við höfum til þessa leyft slíkum fyrirtækjum að starfa án nokkurs hreinsibúnaðar. Í nágrenni Reykjavíkur er áburðarverksmiðja. Þeir, sem gengið hafa í nágrenni hennar, hafa séð, að reykurinn frá henni hefur mjög sterkan, gulbrúnan lit. Þar er um að ræða köfnunarefnisoxýð, sem eru hættuleg mönnum og dýrum, sýra andrúmsloft og valda sjúkdómum. Á mengunarráðstefnunni skýrði Hörður Þormar efnafræðingur svo frá, að magnið af hinum eitruðu gufum, sem þannig hefur verið dreift yfir umhverfið, þ. á m. hluta Reykjavíkur, í tvo áratugi, nemi yfir 500 tonnum á ári og sé það verulega fyrir ofan þau mörk, sem leyfileg eru talin í öðrum löndum. Um þessar mundir er verið að breyta áburðarverksmiðjunni og stækka hana. Er það skilyrðislaus krafa, að komið verði upp fullkomnum hreinsibúnaði í sambandi við þær framkvæmdir. Fsp. um það atriði, sem ég lagði fram á þingi fyrir nokkru, hefur hins vegar ekki enn fengizt svarað af hæstv. ríkisstj.

Langsamlega stórtækust er þó loftmengunin frá álbræðslunni í Straumsvík. Við framleiðslu á bráðnu áli með rafgreiningu eru notuð sem hvatar flúorsamböndin krýolít og álflúorýð. Flúormagnið í þessum tveimur efnasamböndum er mjög mikið, rúmur helmingur. Við bræðsluna losnar flúormagn, sem Hörður Þormar telur nema 38 kg af hreinum flúor á hvert tonn af áli. Miðað við 40 þús. tonna ársframleiðslu, eins og nú er í Straumi, losnar flúormagn, sem nemur hvorki meira né minna en 1520 tonnum á ári, — ég endurtek: 1520 tonnum á ári. Talið er, að um 70% af þessu magni berist burt með ræstiloftinu, en það jafngildir yfir 1000 tonnum á ári, um 3 tonnum á hverjum sólarhring, á 2. hundrað kg á hverri klukkustund dag og nótt allan ársins hring. Þegar búið verður að tvöfalda verksmiðjuna, eins og áformað er að gera, kemst það magn, sem berst út í andrúmsloftið, upp í rúm 2000 tonn á ári, um 6 tonn á sólarhring.

Flúorvetnið er ekki eina loftmengunin frá álbræðslunni. Með ræstiloftinu berast einnig yfir umhverfið tjöruefni, brennisteinssambönd, áloxýðryk, krýolít, kolsýra og kolsýringur. Ráðamenn álbræðslunnar í Straumi hafa greint svo frá, að magn allra þeirra rykefna, sem berast til umhverfisins frá álbræðslunni, sé fjórfalt eða fimmfalt meira en flúorvetnið eitt saman. Þannig dreifast nú 12–15 tonn af rykefnum frá álbræðslunni hvern einasta sólarhring, 1/2 tonn á hverri einustu klukkustund eða vel það. Hins vegar hefur athygli manna mest beinzt að flúorvetninu, því að það er sannanlega banvænt eitur. Það grandar skógum og einna skjótast barrskógum. Það veldur sjúkdómum í dýrum, m.a. gaddi í sauðfé, eins og Íslendingar þekkja af eigin reynslu vegna flúorvetnismyndunar í eldgosum, nú síðast í nýjasta Heklugosi.

Þær staðreyndir, sem ég hef rakið hér um myndun úrgangsefna og eiturefna frá álbræðslum, eru ekki vefengdar af neinum. Fyrir þeim er löng reynsla frá öðrum þjóðfélögum, og var fjallað ítarlega um þá reynslu, þegar álsamningurinn lá fyrir Alþ. 1966, ekki sízt í ræðum Alfreðs Gíslasonar læknis, sem þá átti sæti á þingi. Barátta hans og annarra leiddi til þess, að tekin voru í álsamninginn ákvæði, þar sem svo var fyrir mælt, að ISAL skuli byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti og skuli í þessum efnum vera háð eftirliti opinberra stofnana, sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum. Það er þannig ótvírætt, að Íslendingar geta mælt svo fyrir, að álbræðslan setji upp hreinsitæki, og í samræmi við það var húsakosti verksmiðjunnar hagað þannig, að hægt er að setja slík tæki upp án endurbyggingar. En fyrirmælin eru ókomin enn. Í sambandi við það eru tvær staðreyndir, sem menn verða að muna. Magnið af flúorvetni, sem nú losnar á klukkustund hverri frá álbræðslunni í Straumi, er nærri því þrefalt meira en það hámark, sem nú er leyfilegt í Noregi. Og álbræðslan á Íslandi er einsdæmi í Evrópu og Norður-Ameríku. Hvergi annars staðar í þessum heimshluta taka stjórnarvöld í mál að leyfa álbræðslu án hreinsitækja. Ef málsvarar ríkisstj. vilja vefengja þetta, þá skora ég á þá að nefna dæmi um slíka verksmiðju án hreinsitækja annars staðar en hér, og ég hvet menn til að taka eftir því, hvort orðið verður við þessari áskorun.

Afsökun stjórnarvaldanna er sú, að enn sé ekki sannað, að mengunin sé komin yfir svo kölluð skaðleysismörk. Könnun á því atriði er í höndum nefndar, sem álhringurinn launar og skipuð er þremur útlendingum og einum Íslendingi. Þessi nefnd gaf í haust út skýrslu, þar sem því var haldið fram, að mengunin hefði ekki enn náð þessum svo kölluðu skaðleysismörkum. Skömmu síðar var það sannað í opinberri yfirlýsingu, sem flestir íslenzkir líffræðingar skrifuðu undir, að í skýrslu nefndarinnar hafði verið farið rangt með staðreyndir og dregnar ósannar ályktanir, og hefur nefndin nú nýlega orðið að játa á sig þær sakir og breyta skýrslu sinni. Hefur íslenzkum líffræðingum síðan verið falið að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir á þessu efni og semja nýjar skýrslur. Þannig virðist það vera stefna stjórnarvaldanna, að næstu árin fáum við að heyra nýja og nýja útreikninga um það, hvernig mengunin nálgist hættumörkin æ meir, en forsendan fyrir slíkum vinnubrögðum er auðsjáanlega sú, að ekki megi byrgja brunninn, fyrr en barnið er dottið ofan í.

En hvað felst í kenningunni um skaðleysismörk? Þar er um að ræða mjög grófgert mat á því, hvað dýr og jurtir þoli mikið magn af eitri án þess að bíða heilsutjón. Þetta mat er afar gróft, vegna þess að reynslan sannar, að einstaklingar einnar og sömu tegundar þola mjög misjafnlega mikið magn af eitri. Matið er byggt á meðaltali, og þótt skaðleysismörkin virðist duga sumum, þá duga þau alls ekki öllum. Auk þess er þetta mat miðað við nytjagróður, skóga og fóðurjurtir, og alidýr, kindur, kýr og svín. Engar rannsóknir eru hins vegar tiltækar um langvinn áhrif slíkrar mengunar á manninn sjálfan eða á gróður og dýr, sem ekki teljast til nytja. Reynslan hefur sýnt, að mjög er erfitt að sanna efnafræðileg áhrif á þá fíngerðu efnaverksmiðju, sem mannslíkaminn er. Til að mynda urðu vísindamenn að hagnýta tölfræði til þess að sanna skaðleg áhrif sígarettureykinga og samband þeirra við krabbamein í lungum. En almennar staðreyndir eru viðurkenndar af öllum. Á mengunarráðstefnu, sem haldin var við norska verkfræðiháskólann haustið 1969, benti Karl Evang, landlæknir Norðmanna, á þá athyglisverðu staðreynd, að nú væri lokið þeirri þróun, að meðalævi manna lengdist stöðugt í velmegunarþjóðfélögum. Í Noregi er meðalævin tekin að styttast á nýjan leik. Líkur eru á því, að barn, sem fæðist nú, lifi skemur en barn, sem fæddist fyrir 5 eða 10 árum. Fertugur maður hefur nú minni líkur á því að ná sextugs- eða sjötugsaldri en hann hafði fyrir 10 árum. Ástæðurnar eru hinar sérstöku skuggahliðar iðnaðarþjóðfélagsins, mengun og streita. Þegar menn staðhæfa, að flúormengun í jafnríkum mæli og mengunin frá Straumsvík hafi engin áhrif á líf og heilsu manna, fara þeir með staðhæfingar um málefni, sem þeir vita ekkert um. Um þetta efni ber að beita þeirri reglu, sem brezki vísindamaðurinn Robert Boote kynnti á mengunarráðstefnunni hér sem grundvallarviðhorf náttúruverndarmanna: Stóriðja er sek, þar til sakleysi hennar hefur verið sannað.

Ég sagði áðan, að kenningin um skaðleysismörk væri miðuð við nytjagróður og húsdýr. Ástæðan fyrir þessu er sú, að mengun hefur til skamms tíma því aðeins verið talin skaðleg, að hún spillti fjárhagsafkomu einhverra annarra. Álhringarnir hafa reynslu af því, að bændur geta farið í mál við þá og heimtað skaðabætur fyrir sviðinn nytjagróður og gadd í búpeningi. Þarna eru sem sagt einvörðungu notaðar fjárhagslegar röksemdir beggja vegna, ekki líffræðilegar eða mannlegar. Og raunar voru það þessi fjárhagssjónarmið, sem réðu úrslitum um það, að álbræðslan var reist í Straumi, en ekki Eyjafirði, eins og einnig var rætt um. Steingrímur Hermannsson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins, einn samninganefndarmanna, hefur greint svo frá þessu atriði í grein í Tímanum 28. febr. 1965, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig virðist mega áætla, að aluminíumverksmiðja mundi kosta a.m.k. 100 millj. kr. meira fyrir norðan en fyrir sunnan Hafnarfjörð. Þetta stafar m.a. af því, að nauðsynlegt er að setja fullkomnustu hreinsunartæki fyrir flúor í verksmiðjuna fyrir norðan, en síður í hrauninu á Suðurnesjum. Má því telja ólíklegt, að unnt yrði að ná jafnhagkvæmum samningum um orkuverð við Svisslendinga, ef verksmiðjan er fyrir norðan og ef hún er staðsett fyrir sunnan.“

Þannig greinir Steingrímur Hermannsson svo frá, að staðarvalið hafi verið ákveðið í þeim tilgangi að spara auðhringnum kostnað við að koma upp hreinsitækjum og starfrækja þau. Að öðrum kosti hefði álhringurinn reynt að velta kostnaðinum af hreinsitækjunum yfir á okkur með því að heimta enn lægra raforkuverð. Það var þannig liður í hinum upphaflega samningi, að álbræðslan fengi að menga umhverfi sitt. Stjórnarvöldin sömdu ekki aðeins um, að álbræðslan fengi orku undir kostnaðarverði, heldur skyldi hún einnig óáreitt fá að menga andrúmsloftið í nágrenni við mesta þéttbýli á Íslandi, sáldra sólarhring hvern þremur tonnum af flúorvetni yfir þær slóðir, þar sem fram fer verulegur hluti af matvælaframleiðslu þjóðarinnar.

Ég minntist áðan á hina dýrmætu þjóðareign Íslendinga, ósnortið land, hreint vatn, tært loft. Þetta er ekki fyrst og fremst dýrmæt eign af fjárhagsástæðum, vegna þess að hún henti nytjagróðri eða alidýrum, heldur vegna þess, að í slíku umhverfi viljum við lifa, eins á Reykjanesi sem norður í Eyjafirði. Við viljum geta drukkið vatn úr lækjum og fyllt lungun af ómenguðu lofti. Við viljum finna náttúruna lifa frjóu lífi umhverfis okkur, jafnvel þótt gróður hennar sé fyrst og fremst mosi eða berjalyng. Þetta eru þau einu skaðleysismörk, sem við getum tekið gild. Þeir menn, sem stritast við að reikna út einhver önnur skaðleysismörk, hafa glatað öllum mannlegum áttum, eru orðnir fangar gróðans. Verðmæti íslenzkrar náttúru, töfrar hennar og heilsubrunnar verða ekki metnir til fjár fremur en ýmislegt annað það, sem mest er um vert í tilverunni. En samt eru það þessi verðmæti, sem verið er að fórna af tillitssemi við gróðahagsmuni svissneska álhringsins, og á ársreikningum hans birtast þau vissulega sem tugir og hundruð millj. kr.

Herra forseti. Ég lít svo á, að till. sú, sem hér er verið að ræða, fjalli um mjög mikilvægt málefni. Enginn vafi er á því, að iðnþróun heldur áfram að aukast á Íslandi næstu áratugi, hvernig svo sem henni verður háttað. Þau stjórnarvöld, sem enn heimila mengun í Straumi af umhyggju fyrir gróðahagsmunum útlendinga, hafa lýst þeirri stefnu sinni að fá hingað sem flest erlend stórfyrirtæki næstu árin og láta þau sitja að orkulindum okkar. Einn helzti áróðursmaður ríkisstj., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur talað fagnandi um 20 nýjar álbræðslur á skömmum tíma. Í erlendum blöðum og tímaritum birtast auglýsingar frá Landsvirkjun með myndum af fossum og hverum, þar sem þau landgæði eru boðin föl á lágmarksverði. Þær reglur, sem við setjum nú, munu hafa áhrif á þróunina framvegis. Þeir menn, sem nú eru reiðubúnir til að fórna gæðum íslenzkrar náttúru fyrir gróðahagsmuni útlendra atvinnurekenda, munu halda áfram að gera það, ef þeir fá tækifæri til þess. Mig grunar raunar, að tregðan við að skipa fyrir um hreinsitæki í Straumi, þrátt fyrir skýlausa heimild í samningum, stafi af því, að ríkisstj. vill ekki auka tilkostnað álhringsins af ótta við að draga úr áhuga annarra. Þannig á að vera opið áfram að gera landið sjálft, loft og vatn að samningsatriðum við erlenda atvinnurekendur. Verði sú leið valin, þurfum við ekki að leiða neinum getum að því, hvernig hér yrði umhorfs eftir nokkra áratugi. Lýsingarnar af því fáum við daglega í hljóðvarpi og sjónvarpi frá þeim þjóðfélögum, þar sem menn búa nú þegar við mengað loft og eitrað vatn.

Ég hef minnzt hér á ýmis meginatriði, sem varða mengun og náttúruvernd, og það munu fleiri gera hér í kvöld. Við heyrðum raunar áðan ágætlega samda ræðu hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, sem tók mjög undir um nauðsyn náttúruverndar, þótt hann kallaði óhjákvæmilegar lágmarkskröfur, sem uppfylltar eru hjá öðrum þjóðum, ofstæki, af því að álbræðslan á í hlut. Mér dettur ekki í hug að efa það, að hv. þm. Benedikt Gröndal og aðrir eigi til góðan vilja í þeim málum. En góðviljinn einn hrekkur skammt. Þegar á reynir um náttúruvernd og mengun, mætast tvær grundvallarröksemdir, annars vegar gróðahyggja, hins vegar mannleg og félagsleg sjónarmið. Menn munu verða að velja og hafna. Þeir, sem vilja vernda verðmæti landsins og mannleg viðhorf, munu verða að takast á við öfluga peningahagsmuni. Þeim kann að virðast, að þeir séu að hafna fjármunum stundum, þótt það sé að vísu aðeins tímabundin blekking. Þetta mun reynast viðreisnarstjórninni sérstaklega erfitt, vegna þess að gróðaviðhorfið hefur hingað til verið mælikvarði á allar ákvarðanir hennar, jafnt að því er varðar virkjunaráform sem atvinnurekstur útlendinga á Íslandi. En ástæðan fyrir því, að iðnvæðingin hefur haft þau háskalegu áhrif, sem dæmin sanna, er einmitt sú, að ábatinn einn var hafður að mælikvarða. Iðnaðurinn átti að framleiða sem mest með sem minnstum tilkostnaði, og fyrir þá stefnu var öllu fórnað.

Þjóðirnar vita nú, að komið er á leiðarenda á þessari braut. Iðnvæðingin hættir að vera lyftistöng, ef hún tekur völdin af manninum sjálfum. Því rís nú krafan um mannleg og félagsleg viðhorf æ hærra í löndunum umhverfis okkur, og hún þarf að verða okkur leiðarsteinn, þegar ákvarðanir verða teknar um það, hvernig fara á að því að iðnvæða Ísland. Þá reynir í senn á lífsviðhorf manna og kjark. Afstaðan til þeirrar till., sem hér liggur fyrir til umr., mun gefa vísbendingu um það, hverjir duga og hverjir duga ekki í þeim átökum.